Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Húsin geta þjónað mörgum hlutverkum, t.d. sem klósett, sturtur, landvarðarhús, skeiðvallarhús, fuglaskoðunarhús o.fl.
Húsin geta þjónað mörgum hlutverkum, t.d. sem klósett, sturtur, landvarðarhús, skeiðvallarhús, fuglaskoðunarhús o.fl.
Mynd / ARGOS
Á faglegum nótum 10. ágúst 2016

Fullbúin salernishús smíðuð í Saurbæ í Dölum

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt síðustu misseri. Hingað til lands streyma ferðamenn og allir þurfa þeir þjónustu. Innviðirnir svokölluðu eru hins vegar ekki allir nógu traustir til að mæta þessari miklu ferðamannabylgju. Vegakerfið er óburðugt, það vantar bílastæði og ágangur á náttúruna er víða að verða helst til mikill. Salernisaðstaða er lítil og engan veginn í takti við ferðamannafjöldann.
 
Umræðuna um skort á salernum við þjóðvegi og fjölsótta ferðamannastaði þekkja allir. Margir hafa tjáð sig um vandann og jafnvel ráðherrar hafa staðið á gati,  þegar spurt er hvar allir ferðamennirnir eigi að ganga örna sinna. Hver bendir á annan og hægt gengur að fjölga almenningssalernum um landið. Bændablaðið hitti að máli arkitektana hjá ARGOS, Arkitektastofu Grétars og Stefáns í Reykjavík og húsasmíðameistara úr Saurbæ í Dölum sem um árabil hafa boðið upp á lausnir í þessum efnum. Að þeirra mati eru byggingarnar ekki vandamálið heldur reksturinn sem fáir virðast vilja sinna.
 
Samkeppni um búnað á tjaldsvæðum árið 1984
 
Árið 1984 efndi Ferðamálaráð Íslands til samkeppni um búnað fyrir tjaldsvæði, s.s. þvottaaðstöðu, salernisaðstöðu og baðaðstöðu, sorpílát og jafnvel smáhýsi með svefnaðstöðu fyrir útivistarfólk. Áhersla var lögð á hagkvæmni en að öðru leyti voru keppendum gefnar mjög frjálsar hendur um efnisval og gerð búnaðar. Lauk samkeppninni síðla árs 1984 en alls bárust 19 tillögur. Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson arkitektar, Gunnar St. Ólafsson verkfræðingur og Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt unnu til 1. verðlauna í samkeppninni. Þeir kynntu til sögunnar einingahús sem hafa verið framleidd æ síðan, fyrst í Búðardal og síðan í Saurbæ í Dölum, fyrst undir nafni Burkna ehf. og síðar, eða frá árinu 1998, hjá Trésmiðju Kára Lárussonar ehf.
 
Aðspurður um tilefni þess að samkeppnin var haldin fyrir 32 árum segir Stefán Örn Stefánsson að á þeim tíma hafi umræðan verið önnur en í dag. „Hún var mjög ólík því sem nú er. Það voru svo miklu minni umsvif í öllu en hins vegar var einhver vakning hjá sveitarfélögum að koma sér upp tjaldsvæðum og geta tekið á móti ferðamönnum. Það má segja að Ferðamálaráð hafi verið aðeins á undan sinni samtíð á þessum tíma.“ 
 
Stefán segir að svolítil umræða hafi skapast á meðal arkitekta um þetta málefni á sínum tíma en hún hafi ekki verið mjög mikil. „Ferðamálaráð hélt samkeppnina og hvatti til að meira yrði gert. Fljótlega komu beiðnir frá aðilum í Dalasýslu um að smíða húsin okkar. Það var í raun að frumkvæði Kaupfélags Hvammsfjarðar að framleiðslan hófst. Kannski sáu menn möguleika fyrir sér á einhverri framleiðslu sem gæti orðið atvinna á svæðinu. Við gerðum verkteikningar af húsunum sem hafa enst að mestu leyti fram á þennan dag.“ 
 
Einfaldar byggingar sem hægt er að stækka
 
Stefán segir að það sem hafi ráðið ferðinni í hönnuninni var að hafa húsið frekar einfalda smíði og fallegt að sjá. „Markmiðið var að húsin gætu þjónað mörgum hlutverkum, t.d. sem klósett, sturtur, landvarðahús, skeiðvallarhús, fuglaskoðunarhús og svo framvegis. Jafnframt væri þetta sama gerðin sem hægt væri að „prjóna við“ ef þyrfti. Útlitið væri áþekkt og menn þekktu því að hverju þeir gengju.“
 
 „Hugmyndin að baki húsunum er þessi svokallaði laupur, það er að segja grind sem er hugsuð þannig að hún sé ferhyrningur sem geti annað hinum ýmsu þörfum. Grunneiningin er 2,4 x 2,4 metrar og hægt er að raða þeim saman. Grindin stendur á steyptum undirstöðum, forsteyptum stólpum. Það er hægt að einangra húsin ef menn vilja, loft og gólf með hefðbundnum hætti og útveggina með 30 mm pressaðri steinull,“ segir Stefán. Húsin eru hugsuð fyrir vatnssalerni þar sem er rennandi vatn og hægt að koma við rotþró. Það er hægt að hafa ljós inni en gluggar eru á húsunum sem veita birtu inn í rýmið. 
 
Einingahúsin eru byggð upp af burðarvirki úr tré, hornstoðum og bitum í gólfi og undir þaki. Þökin eru úr þykkum krossviði, klædd þykkum, svörtum asfaltpappa með sendinni áferð. Í algengustu gerðinni eru tveir salernisklefar með handlaugum í öðrum helmingi hússins en vaskbekk í hinum. Skjólveggir ganga þá út frá hornum og eru notaðir til lokunar yfir vetrartímann. Mörg tilbrigði eru til við þessa gerð, meðal annars einingar sem ætlaðar eru fötluðu fólki. Stökum einingum má raða saman að vild en einnig er hægt að fella tvær eða þrjár einingar saman undir heilu þaki.
 
Þyrfti að fjöldaframleiða 100 hús með hraði
 
Kári Lárusson rekur trésmiðju sem kennd er við hann sjálfan í Saurbæ í Dölum. Auk þess býr hann með um 100 kindur á bænum Tjaldanesi. Hann hefur síðustu 18 ár smíðað húsin eftir upprunalegu teikningunum. „Í gegnum tíðina hefur smíðin verið kölluð „Saurbæingar“ af gárungunum í sveitinni,“ segir Kári sem að öllu gamni slepptu segir húsin ekki eingöngu nýtileg til salernisnota. „Smíðuð hafa verið landvarðarhús í sama stíl, geymsluhúsnæði í kirkjugarða, sem dómhús fyrir hestamannafélög, fyrir fuglaskoðara o.fl. Ein eining er minni sem er um 1,5 x 1,5 metri með einu klósetti. Þetta er einingin sem þyrfti að fjöldaframleiða – svona 50–100 stykki með hraði á næstu mánuðum!“ segir Kári, sem vísar þar í stórauknar þarfir fyrir almenningssalerni í kjölfar aukins ferðamannafjölda.
 
Um 300 húseiningar verið smíðaðar
 
Stefán segir að Stykkishólmur hafi verið eitt af fyrstu bæjarfélögunum sem keyptu einingahúsin. „Þeir voru með þriggja eininga hús á tjaldstæðunum hjá sér. Í Kópavogi voru húsin m.a. notuð sem aðstöðuskúrar fyrir unglingavinnuna. Síðustu ár hefur Vatnajökulsþjóðgarður fengið nokkur hús. Þeir hafa jafnvel flutt þau á milli svæða. T.d. þegar þarf að stækka á einum stað þá er hægt að tengja þau saman. Við höfum ekki nákvæma tölu á byggðum húsum en ætli fjöldinn sé ekki kominn á þriðja hundraðið,“ segir Stefán.
 
 „Alveg frá byrjun hefur þetta verið sami timburramminn með sömu timburklæðningunni. Hún var yfirleitt máluð í sömu litunum og svo var steindur þakpappi á þakinu. Hann er heillímdur á krossviðarplötu inni við kjöraðstæður,“ segir Stefán.
 
„Ég var í bölvuðum vandræðum með pappalögnina til að byrja með, en náði svo góðum tökum á aðferðinni. Pappalögnin er það eina sem er vandasamt við þessa framleiðslu, en pappinn hefur dugað mjög vel og límingin virðist svínhalda,“ segir Kári. Stefán bætir því við að þarna sjáist vel hvort það séu vanir menn eða ekki sem standa að smíðinni. 
 
Húsin ekki til á lager
 
Stefán segir að húsin hafi verið auglýst á sínum tíma í Sveitarstjórnarmálum og öðrum ritum. „Það skilaði ekki miklu satt best að segja. Fjárhagsáætlanir voru gerðar á haustin, svo var ekkert gert en á vorin byrjuðu menn að hringja.“ Kári skýtur því inn í að gjarnan hafi verið hringt í kringum sauðburð og menn viljað fá hús í hvelli, alveg hissa á því að það væru ekki 10–15 hús á lager.
 
Auðvelt að flytja og setja niður
 
„Það er mjög auðvelt að flytja húsin á vörubílspalli og komin góð reynsla á það. Hægt er að flytja tvær samsettar einingar og það hefur oft verið gert,“ segir Kári. „Ég hef alltaf lagt áherslu á það að kaupendur séu búnir að ganga frá undirstöðunum þannig að það sé hægt að hífa húsin beint á sinn stað. Húsin eru þannig útbúin að það eru festingajárn á hverju horni og bolti í ró sem gengur niður úr. Menn eru enga stund að stilla húsið af, en að því loknu er boltinn rafsoðinn í plötu sem er í undirstöðunni. Niðursetningin á húsunum er einföld, þægileg og fljótleg. Ef menn þurfa að færa húsið til, er suðan skorin upp og húsið híft af undirstöðunum á flutningatæki.“
 
Aðspurður um byggingarkostnaðinn segir Kári að hann sé breytilegur eftir því hvernig húsin eru útbúin. Í einföldustu eininguna fara um 280 vinnustundir og allt smíðað inni á verkstæði. „Húsin eru afhent alveg fullbúin til niðursetningar, máluð, með dúki á gólfum, vöskum og salernum, speglum, snögum, merkingum, pumpum á hurðum og fleiru. Það er ekkert eftir nema setja húsin niður og tengja þau. Ef menn vilja leggja rafmagn þá er það gert á staðnum,“ segir Kári. 
 
ARGOS hefur útfært húsin að vilja kaupendanna í sumum tilvikum. „Hjá Vatnajökulsþjóðgarði hafa húsin verið klædd með lerkiklæðningu sem fær að veðrast. Ramminn er hins vegar málaður,“ segir Stefán. Þá hafi gluggarnir þróast úr því að vera hefðbundnir trégluggar yfir í það að vera klæddir með áli. Lengi vel  var það þannig að klæðningin var heft á húsin en Kári notar ryðfríar skrúfur í dag. „Þetta er virðulegt, líkt og hnoð í herskipi úr fyrri heimsstyrjöldinni,“ segir Kári. 
 
Jöfn eftirspurn hefur verið eftir húsunum, ef frá eru talin tvö eftirhrunsár að sögn Kára. „Það datt alveg niður salan eftir bankahrunið, en yfirleitt hef ég haft nóg að gera. Það hafa þó komið tímar þar sem lítið var að gera og svo aðrir þegar maður var svefnléttur af stressi yfir afhendingardeginum, sem nálgaðist stundum hraðar en ég hafði gert ráð fyrir, - en alltaf reddaðist það nú.“
 
Viðhaldi er því miður ábótavant
 
Kári segir að viðhaldið á einingahúsunum sé ekki krefjandi, ef menn ganga vel um og sinna því með reglubundnum hætti. „Ég hef aldrei fengið neina kvörtun út af þessum húsum. Í örfá skipti hef ég verið beðinn um varahluti og oftast getað sinnt þeim beiðnum. Því miður sýnist mér að á mörgum stöðum sé húsunum lítið eða ekkert haldið við,“ segir hann og nefnir dæmi um hús á fjölförnum ferðamannastað, þar sem þykkur mosi sé á þakinu og húsið aldrei málað eftir að það var sett upp í kringum 1990. 
 
„Það þarf auðvitað að halda húsunum við en að mínu mati eru þau frekar létt í viðhaldi,“ segir Kári. Honum mislíkar þegar menn vanda sig ekki við endurmálun húsanna. „Mér hefur stundum blöskrað eftir að hafa vandað mig eins og kostur er við málunina inni á verkstæðinu og jafnvel verið með nöldur við starfsmenn mína, ef mér hefur ekki líkað áferðin. Og koma svo seinna að þeim sömu húsum eftir endurmálun og sjá þau illa leikin eftir fólk sem hefur greinilega verið með fimm tommu þakkúst í málningarvinnunni sem aðalverkfæri. Ég hef séð þetta á nokkrum stöðum, sem er alveg hrikalegt!“ 
 
Stefán bætir við að ekki megi gleyma hinum stöðunum, þar sem umhirða og viðhald er til mikillar fyrirmyndar, sem skilar sér auðvitað strax í betri umgengni gesta um húsin og aðstöðuna.
 
Einhver þarf að bera ábyrgð
 
Aðspurðir um það hvaða lausnir henti í dag til að leysa stóra salernisvandann við þjóðveginn og á helstu ferðamannastöðum eru þeir sammála um að aðgerða sé þörf. Stefán segir að oft verði menn flóttalegir í framan þegar kemur að því að reka almenningssalerni.
 
„Það gildir eiginlega það sama um hvað þú gerir ef þú ætlar þér að koma upp svona húsi eða af öðru tagi. Mestu máli skiptir að það sé einhver sem rekur þau af einhverju viti. Einhver þarf að taka að sér reksturinn og bera ábyrgð á honum. Maður kannast við það að sveitarstjórnir hafa verið mjög áfram um að byggja salernishús en síðan ekki söguna meir. Það skiptir alveg sköpum fyrir notkunina að einhver sjái um að sinna húsunum. Þegar þau eru þrifin og haldið við þá verður umgengnin góð. Ef ekki þá fer allt í voða.“
 
Getur Vegagerðin fóstrað kamrana?
 
Kári telur að eina vitið sé að Vegagerðin sjái um rekstur salernishúsa meðfram vegunum. „Vegagerðin veit best hvar ætti að setja þau niður, hún sæi um að kaupa þau og reka.“ Stefán bendir á að Vegagerðin sé með ýmislegt viðhald og starfsemi á vegunum. „Starfsmenn eru að keyra vegina, skipta út stikum, holufylla og fleira nær allan ársins hring. Hingað til hefur þeim ef til vill ekki fundist að salernin ættu að vera á þeirra könnu. Í Noregi rekur Vegagerðin svona þjónustu,“ segir Stefán að lokum.
 
 
Tilraunaverkefni í Vikraborgum
Þar sem ekki er rennandi vatn og mögulega ekki hægt að koma fyrir rotþróm vandast salernismálin. Arkitektarnir hjá ARGOS, en það heitir arkitektastofa þeirra Stefáns Arnar Stefánssonar og Grétars Markússonar, hafa í samvinnu við Ragnhildi Gunnarsdóttur hjá verkfræðistofunni Eflu unnið að hönnun aðstöðu sem leysir þessi vandamál. 
 
„Fyrsta tilraunaverkefnið okkar er í Vikraborgum við Öskju. Það er nokkuð stórt og er unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Í Vikraborgir koma 15–20 þúsund manns um háannatímann en töluverð umferð er þarna nær allt árið um kring. Á svæðinu verða upplýsingar fyrir ferðamenn, aðstaða fyrir landvörð og salernishús. Svokallaðar seyrutunnur verða notaðar og verður saur og þvag aðskilið. Þar með minnkar lyktin auk þess sem sérstök loftun er þannig að ekki fari ólykt inn í rýmið. Að hausti er tunnan sett í geymslu og látin standa yfir veturinn og tóm tunna sett í staðinn. Að vori er svo innihald tunnunnar sett í kar sem er með loki og örlítilli loftun. Þá verður til molta hægt og bítandi þar til niðurbrot er orðið þannig að hægt er að nota efnið í uppgræðslu. Það þarf að ná ákveðnu niðurbroti til þess að það sé leyfilegt og það sama gildir um þvagið,“ segir Stefán. 
 
Á húsinu í Vikraborgum verða sólarsellur sem sjá fyrir rafmagni. Viftur lofta út og svo eru rafmagnsljós. Byggingarnar verða komnar í gagnið á næsta ári.
 

 

28 myndir:

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...