Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Guðmund Ólafsson (1825–1889), bú­fræðingur.
Guðmund Ólafsson (1825–1889), bú­fræðingur.
Fréttir 5. nóvember 2014

Frumkvöðull framfara í landbúnaði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Minnisvarði um  Guðmund Ólafsson (1825–1889), bú­fræðing,  alþingismann og bónda, var afhjúpaður á Fitjum í Skorradal 10. ágúst síðastliðinn. Afkomendur Guðmundar stóðu fyrir gerð minnisvarðans 125 árum eftir lát hans.

Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum, barnabarnabarn Guðmundar, segir að með minnisvarðanum vilji afkomendur Guðmundar heiðra minningu forföður síns og framlag hans til framfara í íslenskum búskaparháttum.

„Framlag Guðmundar er að mestu gleymt, eins og oft gerist með störf þeirra sem eru á undan sinni samtíð. Máltækið „fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá“ á því vel við um Guðmund.“

Stritið var hin æðsta dyggð og guði þóknanlegt

„Við sem njótum nútíma lífsgæða þurfum að muna að þau byggjast á þrotlausri vinnu þeirra sem á undan fóru og lögðu gjörva hönd á plóg, eins og stundum er sagt. Það á alveg sérlega vel við í tilfelli Guðmundar, því miklum hluta starfsævi sinnar varði hann í að kenna notkun plóga og hestafla í stað þess að streða á mannaflinu. Í þá daga, og mun lengur raunar, þótti eðlilegt að leggja mest á mannsins skrokk og spara hrossin. Stritið var hin æðsta dyggð og guði þóknanlegt. Við skulum átta okkur á því að það var ekki búið að finna upp hjólið hér á landi um 1850.

Menn höfðu því ekki vagna sér til liðléttingar. Það gerðist ekki fyrr en þrjátíu árum síðar með innleiðingu hestvagna. Þegar maður áttar sig á aldarhættinum sem Guðmundur glímdi við og ytri aðstæðum, skilur maður betur hvers vegna hann fékk ekki meiru áorkað en raun bar vitni, þrátt fyrir sína góðu menntun og mikinn vilja,“ segir Hulda.

Samtíminn var íhaldssamur

Guðmundur kom 26 ára gamall frá námi í Danmörku, Svíþjóð og Noregi um miðja 19. öld. Þá ríkti hér á landi mikil tregða eða beinlínis andstaða gagnvart nýjum hugmyndum. Það mátti engu breyta.

„Þetta er í sjálfu sér áhugavert í ljósi þeirrar nýjungagirni sem ríkir á okkar dögum en samtími Guðmundar var afar íhaldssamur og hreint ekki móttækilegur fyrir þeim nýjungum sem hann vildi koma á. Framlag hans til ræktunarbóta og búnaðarfræðslu varð þó, þrátt fyrir þetta, mikilvægur hlekkur í framfaraátt í því staðnaða landeigendaveldi sem hér ríkti, fram yfir hans daga, eða allt fram undir aldamótin 1900,“ segir Hulda.

Guðmundur var við nám á árunum 1847–51 og var tvímælalaust meðal  mest menntuðu manna sinnar tíðar hér á landi. Þórður Kristleifsson frá Stóra-Kroppi segir í Borgfirskri blöndu að menntaþrá Guðmundar hafi verið slík ,,að hann vakti sí og æ yfir því að afla sér nýjustu fræðirita, sem út komu erlendis, um jarðrækt, jarðvegsrannsóknir og búvísindi margvísleg“. Þá hafi hann skilið öll Norðurlandamálin, ensku og þýsku, sem móðurmál sitt. Telur Þórður að Guðmundur hafi verið ,,marga áratugi á undan samíð sinni, en þó framar öllu sem ágætlega menntaður og atorkusamur jarðræktarmaður“. Hann hafi haft ,,óbilandi trú á mátt moldarinnar“ og  ,,í matjurtagörðum hans spruttu fleiri tegundir grænmetis en aðrir bændur þekktu þá“.

Alþingismaður og skrifaðist á við Jón Sigurðsson

,,Ég held að skrif Þórðar hafi fyrst vakið forvitni mína á langafa,“ segir Hulda. „Í túlkun hans birtist Guðmundur sem afskaplega sjarmerandi persóna, fullur atorku og hugsjóna, ekki bara á sviði jarðyrkjunnar heldur líka sem þátttakandi í þjóðfrelsisbaráttunni. Þegar ég las tuttugu bréf hans til Jóns Sigurðssonar forseta sem gefin voru út á bók árið 1991 fannst mér að túlkun Þórðar á Guðmundi væri rétt. Bréfin eru ómetanleg, bein heimild um hugsunarhátt hans og afstöðu til ýmissa mála, en maður finnur líka hvernig það dregur smátt og smátt af honum, eftir því sem árin líða. Hann þreytist og það þokast hægt í framfaraátt. Þeir Jón skrifast á, alveg þar til Jón deyr árið 1879. Þá hafði Guðmundur verið þingmaður Borgfirðinga frá 1875, en eftir andlát Jóns ,,vildi Guðmundur ekki úr því sitja á þingi þó farið væri þess á leit“, segir Stefán, sonur hans, í minniskompu sinni sem ég hef undir höndum. Þessi minniskompa Stefáns afa er góð heimild, en hún er auðvitað túlkun sonar á föður, eða sú mynd sem hann vill birta afkomendum sínum af Guðmundi. Kompan er því ekki jafngóð sendibréfunum, sem birta skoðanir og hugðarefni milliliðalaust.“

Bókstafurinn var harður húsbóndi

Hulda segist hafa sérstakan áhuga á nokkrum bréfum Guðmundar sem eru til Magnúsar Eiríkssonar sem var guðfræðingur og fyrstur karla á Norðurlöndum og þó víðar væri leitað til að gefa út rit til varnar kvenfrelsi, árið 1851, eða sama ár og Guðmundur kemur til baka úr námi. Það kemur margt áhugavert í ljós í guðfræðilegu tilliti í bréfum þeirra, segir Hulda, sem sjálf er MA í guðfræði og bætir við að það sé hennar túlkun að samfylgd Guðmundar og Magnúsar hafi haft afleiðingar fyrir Guðmund sem segir í einu bréfa sinna til Magnúsar frá 1853: ,,Ýmsir hafa haft það í flimtingum að jeg muni hafa nokkuð skrítnar skoðanir í trúarefnum. Halda sumir að jeg muni trúlaus með öllu og þykir þeim Ortodoxunum það illa, en bændurnir gruna að jarðyrkja hjá mjer muni þessvegna eigi þrýfast.“

Hulda segir að hafa verði í huga Mósebók en þar kveður á um hvíldarár lands. „Menn litu á það sem guðlega tilskipun og bókstafurinn var harður húsbóndi. Því hefur það vakið almenna tortryggni þegar Guðmundur taldi þekkingu á vísindum, eðlis- og  efnafræði og svo plægingar vera ávísun á bætta frjósemi landsins. Gat verið að svo óguðlegar skoðanir og umbylting landsins væru af hinu góða?“

Þurfti að finna upp orð á íslensku

Snemma árs 1853 kemur út fyrsti kafli af Ritgjörð um ætlunarverk bóndans sem jarðyrkjumanns, eftir Guðmund, prentað hjá S.L. Möller í Kaupmannahöfn. Einkunnarorð á titilblaði eru Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi.

Í formála Guðmundar kemur meðal annars fram að jafn mikilvægt og það sé að kenna eðlis- og efnafræði, eða eins og hann orðar það, „að lýsa efnum þeim, sem einkum mynda jarðveginn og grösin“ þá sé það ekki einfalt ,,því engin þess konar fræði eru hingað til samin á íslenzka tungu, málið er því óvant slíkri vísindagrein, og vantar bæði orð og talshætti, sem henni eru eiginlegir. Jeg hef því hlotið að smíða ýms ný orð bæði yfir efnin og áhrif þeirra“. 

„Það var því ekki auðvelt fyrir Guðmund að koma vísindalegri þekkingu sinni til skila,“ segir Hulda, „hann þurfti að byrja á því að búa til orð um það sem aldrei hafði verið nefnt í íslenskri tungu, og mæta svo því afturhaldi sem viðjar vanans skópu.“ 

Þörf fyrir búnaðarskóla

Í formála sama rits kemur einnig fram það baráttumál sem Guðmundi er hugstætt og hann nefnir í flestum bréfa sinna. Þetta er þörfin fyrir búnaðarskóla. Hann segir: ,,Það er vonandi og óskandi, að stjórn og þjóð vildu leggjast á eitt, til að koma á fót þess háttar stofnunum, þar sem bændaefni gætu átt kost á að afla sjer þeirrar menntunar, sem kennir þeim að þekkja ætlunarverk sitt eins og hæfir stöðu þeirra. Slíkar stofnanir hljóta að þykja öllum þeim nauðsynlegar, sem vita, hver þjóðheill er að góðum bændum og búskap. En þótt fátækt og samtakaleysi landsmanna kunni enn þá að vera því til fyrirstöðu að ein menntastofnun handa bændum geti komizt hjer á fót, þá má ætla, að slíkt geti ekki til langframa orðið. Þess má því vænta, að menn sýni vonum bráðara í verkinu, að þeim sje annt um vegna þjóðarinnar að koma slíkri stofnun á fót.“ 

Þegar stjórnendur áttuðu sig á því að jarðyrkjan gat ekki tekið framförum, nema með bættum kjörum bænda og ,,frjálslegum búnaðarlögum og ýmsum nytsömum tilhögunum“ þá fyrst urðu framfarir í jarðyrkjunni, segir Guðmundur í þessu riti sínu árið 1853.

„Lykilorðin voru frelsi og menntun, enn var þó langt í land. Fyrsti búnaðarskólinn var ekki stofnaður fyrr en 1880, sama ár og farið var að nota akfæri, eða vagna á hjólum og flestir bænda voru leiguliðar fram undir aldamót. Í rauninni ríkti hér þrælahald þar til vistarbandið rofnaði 1894.

Við, sem byggjum Ísland í dag, megum ekki gleyma því sem forfeður okkar og formæður lögðu af mörkum. Þess vegna er gott og mikilvægt að tengja sig sögunni og reisa þeim bautasteina til framtíðar,“ segir Hulda Guðmundsdóttir að lokum.

Guðjón ráðinn til Ísey
Fréttir 19. september 2024

Guðjón ráðinn til Ísey

Guðjón Auðunsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ísey útflutnings ehf.

Refaveiði í Skaftárhreppi
Fréttir 19. september 2024

Refaveiði í Skaftárhreppi

Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti nýlega skipulag um refaveiðar í sveitarfél...

Leyfir ekki sandnám
Fréttir 18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Fyrirtækið LavaConcept Iceland hefur sótt um framkvæmdaleyfi hjá Mýrdalshreppi v...

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum
Fréttir 18. september 2024

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er nú að hefjast nýtt rannsóknarverkefni í byggky...

Helsingjar valda usla
Fréttir 18. september 2024

Helsingjar valda usla

Umhverfisstofnun vill takmarka veiðar á helsingja en bóndi á austanverðu Suðurla...

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...