Mynd/smh Gunnar Þorgeirsson, garðyrkjubóndi í Ártanga.
Fréttir 25. nóvember 2019

Tíu hektarar í fyrsta fasa en síðan allt að fimmföld stækkun

smh
Paradise Farm er heiti á verkefni sem gengur út á að reisa risavaxið ylræktarver á Víkursandi nálægt Þorlákshöfn þar sem rækta á tómata, papriku og salat fyrst í stað og síðar meir svokallaða suðræna ávexti líka, eins og papaja og mangó.
 
Gunnar Þorgeirsson, garðyrkjubóndi í Ártanga í Grímsnesinu, er einn þeirra sem hafa unnið að undirbúningi verkefnisins.  Hann segir að búið sé að undirrita viljayfirlýsingu við bæjarstjórn Ölfuss um 50 hektara lóð vestan við Þorlákshöfn. „Við höfum verið að leita að landi til að reisa ylræktarver víða á Suðurlandi en höfum ekki getað fengið land af þessari stærðargráðu fyrr en nú í Ölfusi. 
 
Hugmyndin er að byrja á því að reisa um tíu hektara ylræktarver í fyrsta fasa og svo í framhaldinu allt að 50 hektara. Vinna við undirbúning er hafin þar sem fram að þessu höfum við unnið að lóðarmálum svo unnt yrði að fara að ræða við orkusala – sem er grundvallaratriði í málinu,“ segir Gunnar.
 
Til samanburðar má nefna að heildarstærð íslenskra garðyrkjustöðva að flatarmáli er um 19 hektarar.
 
Horft yfir svipað hús í Svíþjóð og Paradise Farm ætlar að reisa í Ölfusinu.
 
Innanlandsmarkaður og útflutningur
 
Að sögn Gunnars gera áætlanir ráð fyrir að undirbúnings- og samningsvinnu verði lokið á næsta ári, framkvæmdir gætu hafist síðla árs 2020 og framleiðsla svo árið 2021. „Hugmyndin er að rækta í fyrsta fasa tómata, papriku og salat bæði til innanlandsmarkaðar og útflutnings. Svo á seinni stigum að horfa til suðrænni ávaxta eins og mangó og papaja og þar yrði einnig horft til innanlandsmarkaðar og útflutnings.“
 
Fullbyggt þarf ylræktarverið allt að 120 megawött
 
„Við áætlum að þurfa í fyrsta fasa um 30 megawött (MW) af raforku en ef allt yrði byggt værum við að tala um 100 til 120 MW.
 
Við erum komin í viðræður við orkusala um að tryggja orku fyrir verkefnið. En eitt er nú að tryggja orkuna og þá sérstaklega raforkuna – þar sem hún virðist ekki alveg liggja á lausu – og svo að koma henni á áfangastað sem er annað. Búið er að kynna Landsneti fyrirhugaða staðsetningu og er unnið í því máli þessa dagana. Varðandi hitaorku þá er það næsta skref að ræða við Veitur en þeir eru með dreifiveitur á þessu svæði.“
 
Viðræður við fjárfesta á lokastigi
 
Gunnar segir að þau séu þrjú í undirbúningshópnum, auk hans þau Ásdís Guðmundsdóttir og Kerry Babb. 
„Viðræður við fjárfesta eru á lokastigi en það sem gerir þetta heldur flókið er eins og áður hefur komið fram; hvernig tryggjum við orku og fyrir hvaða verð – en það er ekki tengipunktur á svæðinu. Það er líka kannski umhugsunarvert að enginn tengipunktur sé í raun á Suðurlandi fyrir svona umfangsmikinn kaupanda þrátt fyrir að um 70 prósent raforkunnar séu framleidd þar. Við höfum ekki fengið neinar tölur um raforkuverð ennþá.“
 
Þegar Gunnar er spurður hvort það komi til greina að vera með fiskeldi samhliða ylræktinni segir hann það vera í skoðun. „Það gæti verið mögulegt í tengslum við þessa ræktun og þá kannski helst til að nýta varmann, en það þarf ekki endilega að vera samræktun eða sameldi við plönturnar. Þetta er allt í skoðun hjá okkur. Varðandi ræktunarefni þá er ekki enn ákveðið hvort um lóðrétta ræktun verði að ræða (vertical farming) eða hefðbundna ræktun í vikri eða mold.“
Erlent