Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Datteln 4 kolaorkuverið í Þýskalandi sem gangsett var í maí 2020.
Datteln 4 kolaorkuverið í Þýskalandi sem gangsett var í maí 2020.
Fréttaskýring 5. nóvember 2021

Verð á gasi og raforku hefur hækkað um mörg hundruð prósent

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Meira en helmingur af orkuþörf Evrópu­sambandsríkja er inn­fluttur í formi jarðefna­eldsneytis, kola, olíu og jarðgass. Í sumum löndum ESB er hlutfallið yfir 90%. Hlutfallslega kemur langmest af þessum orkugjöfum frá Rússlandi, sem ESB á í afar sérkennilegu pólitísku sambandi við. Evrópa er mjög háð Rússum með orku en ESB er samt að sýna umheiminum tennurnar og að hún hafi einhverja burði til að standa uppi í hárinu á nágrönnunum í austri á pólitíska sviðinu.

Rússar voru fyrir nokkrum árum mjög háðir ESB varðandi ýmsar landbúnaðarvörur, einkum kjöt og mjólkurafurðir. Viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum í kjölfar deilna um Úkraínu og Krímskaga neyddu Rússa hins vegar til að verða sjálfum sér nægir í framleiðslu á landbúnaðarvörum. Þetta hefur orðið til að styrkja enn stöðu Rússlands gagnvart Evrópusambandinu. Þá hafa verið skiptar pólitískar skoðanir um lagningu á nýjum gasleiðslum frá Rússlandi til ESB ríkja, en í ljósi orkukreppunnar virðast Rússar líka standa þar með pálmann í höndunum.

Um 46,7% af kolainnflutningi ESB kom frá Rússlandi árið 2019 og 17,7% frá Bandaríkjunum. Þá kom 41,1% af jarðgasinu frá Rússlandi og 26,9% af olíunni. Það er því augljóst að Rússar hafa öflugt tak á Evrópusambandinu.


Hækkunin fór mest í 809% milli ára og stóð í 479% í lok október

Verð á gasi fór hæst í rúmlega 116 evrur á megawattstund þann 5. október síðastliðinn samkvæmt tölum Trading Economics og Natural Gas EU Duch TTF. Það er yfir 809% hækkun á tæpu ári. Síðan hefur gasverð fallið töluvert og var komið í 64,84 evrur þann 29. október. Gasverðið er samt enn margfalt hærra en það var 29. október 2020 þegar það stóð í 14,37 evrum á megawattstund sem þýðir 479% hærra verðhækkun á milli ára. Þá má nefna að gasverð var um 20 evrur þann 4. janúar 2021.

Verðlækkun á gasmarkaði í októberlok kom í kjölfar aukinnar bjartsýni eftir að rússneska ríkisfyrirtækið Gazprom, stærsti gsaframleiðendi heims, sagðist ætla að vera búið að fylla allar birgðageymslur í Evrópu af gasi þann 8. nóvember. Er það sagt hafa verið samkvæmt skipun Vladimir Putins Rússlandsforseta um að hafist yrði handa við að fylla gasbirgðastöðvar í Þýskalandi og Austurríki. Gazprom áætlar að framleiða 506,5 milljarða rúmmetra af gasi á þessu ári sem streymir um leiðslur til fjölmargra landa auk þess sem flutt er út með tankskipum.

Evrópsk heimili blæða vegna ört hækkandi orkuverðs

Samkvæmt tölum Eurostat fer um 26% heildaorkunotkunar í Evrópu­sambandinu til heimila. Af orkunotkun heimilanna fer svo um 64% til húshitunar og um 0,4% til loftkælingar.

Staðan er grafalvarleg og versnar ört. Með mörg hundruð prósent hækkunum á raforku- og gasverði er ljóst að staðan í vetur verður mjög erfið.

Evrópusambandið er orðið gríðar­lega háð gasi frá Rússlandi og það vægi hefur aukist mikið vegna krafna um að draga úr losun gróður­húsalofttegunda, m.a. frá kolaorkuverum. Ef skrúfað yrði fyrir þetta gas myndi það stórskaða hagkerfi margra Evrópuríkja.

Tugir milljóna manna hafa ekki lengur efni á húskyndingu

Samkvæmt könnun sem kynnt var af Eurostat í janúar 2021 sögðust 6,9% íbúa Evrópusambandsins, eða tæplega 31 milljón manna, ekki hafa efni á að kynda íbúðir sínar. Þá var heildaríbúafjöldi í ríkjum ESB talinn vera 447 milljónir. Síðan hefur orkuverð rokið upp um 300 til 450% og hefur nú áhrif á alla framleiðslukeðjuna frá matvælum til iðnaðarvara. Hafi 31 milljón íbúa ESB ekki átt fyrir kyndingarkostnaði í janúar síðastliðnum, þá verður sá fjöldi án efa mun meiri um komandi áramót.

Kol og olía standa enn fyrir 35% af raforkuframleiðslunni

Þrátt fyrir að Evrópusambandið sé smám saman að reyna að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og snúa sér að endurnýjanlegri raforku, þá ganga þau áform afar hægt og halda ekki í við aukna eftirspurn eftir raforku. Jarðgas og kol standa enn fyrir meira en 35% af heildarraforkuframleiðslu ESB, en þar af er gas meira en fimmtungur. Orkusamsetningin er þó gríðarlega ólík milli landa. Jarðefnaeldsneyti stendur t.d. fyrir tiltölulega litlum hluta raforkuframleiðslunnar í Svíþjóð, Frakklandi og Lúxemborg, þar sem kjarnorkan er yfirgnæfandi. Hins vegar vegur jarðefnaeldsneyti meira en 60% af heildarframleiðslu á raforku í Hollandi, Póllandi, Möltu og Kýpur.

Þjóðverjar með 84 kolaorkuver sem á að loka á næstu 17 árum

Í Þýskalandi eru starfrækt 84 kolaorkuver, þrátt fyrir háværar kröfur og áform um lokun þeirra. Þann 26. janúar 2021 kynnti ríkisstjórn þýska sambandslýðveldisins að 16 ríki sambandsins myndu hrinda af stað áætlun um framleiðslu á raforku með endurnýjanlegri orku. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að búið verði að loka öllum kolaorkuverunum árið 2038. Mundi ríkið leggja 40 milljarða evra til að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Í dag virðist orkuskortur í landinu ekki beint gefa vísbendingar um að þessar hugmyndir verði að veruleika. Einnig vonbrigðin sem menn upplifðu í sumar af vindorkunni þar sem vindmyllurnar snerust lítið vegna lítils vinds.

Frumgerð Haliade-X vindmyllunnar frá General Electric. Hún er gefin upp með 14 megawatta afli og 60-64% orkunýtni sem þýðir í raun að vindmyllan á að geta skilað 8,96 MW að meðaltali sem þykir mjög gott í þessum bransa. Þvermál spaða er 220 m. Til að anna raforkugetu Datteln 4 kolaorkuversins í Þýskalandi þyrfti um 118 slíkar vindmyllur og þokkalega stöðugan vind.

Það þyrfti 66 stærstu vindmyllur heims til jafna raforkugetu stærsta kolaorkuvers Þjóðverja

Nýjasta kolaorkuver Þjóðverja, Datteln 4, sem tók til starfa í maí 2020, getur skilað 1.435 mega­wöttum (MW) í heildarorku. Þar af fara 642 MW af raforku inn á raforkunetið og 413 MW inn á net þýsku járnbrautanna Deusce Bahn. Síðan verður til 380 MW hitaorka sem nýtt er til að kynda um 100.000 heimili í nágrenninu. Til samanburðar er uppsett afl Kárahnúkavirkjunar (Fljótsdalsstöðvar) 690 MW. Væntanlega þarf ansi margar vindmyllur og eða sólorkusellur til að leysa Datteln 4 af hólmi.

Vindmyllan frá MingYang Smart Technology í Kína er sögð verða sú langstærsta í heimi og á að geta skilað 16 megawöttum í raforku. Hún verður með þrjá 118 metra spaða og er skurðflötur þeirra 46.000 fermetrar, eða eins og sex fótboltavellir. Það þyrfti nærri 66 slíkar vindmyllur til að skila sama afli í raforku og Datteln 4 kolaorkuverið í Þýskalandi. Þá er miðað við 100% nýtni og að vindmyllurnar snúist allan sólarhringinn alla daga ársins sem er fræðilega útilokað. Samt vantar hitaorku upp á 380 MW.

Stærsta vindmyllutegund sem þegar er í lokafasa prófana er 14 MW af gerðinni Haliade-X frá General Electric Hún er 248 metra há og þvermál spaða er 220 metrar. Haliade-X er aflandsvindmylla (offshore) og er sögð með einstaka nýtni, eða 60-64%.

Þetta sýnir vel hversu risavaxin áskorunin er ef hætta á rekstri allra kolaorkuvera á komandi árum. Þá á eftir að ræða olíu- og gasorkuverin.

Í umfjöllun Eronews um málið segir m.a. að þar sem kol eru mest mengandi af öllu jarðefnaeldsneyti, hefur smám saman verið reynt að draga úr notkun þeirra. Þess í stað hafa mörg Evrópulönd gripið til þess að nýta jarðgas til raforkuframleiðslu, þar til aðrar grænar lausnir bjóðast, eins og vindmyllur og sólarrafhlöður. Þar að auki er gas einnig notað til húshitunar og eldunar, sem gerir verðhækkunina enn áhrifameiri í endanlegum útgjöldum heimilanna.

Hæstu orkureikningar í sögunni blasa nú við almenningi

Almenningur í löndum eins og Spáni, Ítalíu, Frakklandi og Póllandi standa nú frammi fyrir hæstu orkureikningum í sögunni sem eykur enn á efnahagsvandann sem skapast hefur vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hefur þetta skapað almenna óánægju og hefur sett ríkisstjórnir í varnarstöðu. Þar hafa ráðherrar keppst við að leggja fram neyðarráðstafanir, jafnvel þótt þær séu til skamms tíma og aðeins að hluta til árangursríkar til að draga úr áhrifunum. Á sama tíma er gagnrýnt að sömu ráðherrar hafi ætlað að skunda á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Skotlandi á kostnað skattborgaranna til að bjarga heiminum og flagga þar ábyrgðarlitlum óskhyggjuloforðum um að draga úr notkun jarð­efna­eldsneytis.

Ítalir varaðir við yfirvofandi verðhækkunum

Á Ítalíu hefur Roberto Cingolani, ráðherra vistfræðilegra umbreyt­inga, þegar varað Ítali við því að búast megi við 40% hækkun á rekstrarreikningum heimila á næstu mánuðum. Yfirvöld í Frakklandi sögðust ætla að senda 100 evra eingreiðslu til yfir 5,8 milljóna lágtekjuheimila, eða það sem nefnt er „chèque énergie“. Á Spáni hefur ríkisstjórnin lofað að lækka neysluverð niður í það sem var 2018. Þar hefur skattur á raforku t.d. verið lækkaður úr 5,1% í 0,5% sem er það lágmark sem ESB setur. Framámenn í Madrid sendu einnig bréf til Brussel þar sem þeir fóru fram á aðgerðir frá ESB.

„Við þurfum evrópska „stefnu­mörkunarmatseðil“ sem er fyrirfram hannaður til að bregðast strax við stórkostlegum verðhækkunum,“ sagði m.a. í bréfinu.

En þegar orkukreppan leggst yfir sambandið og borgarar lýsa yfir auknum áhyggjum er óljóst hversu miklu valdi Evrópusambandið getur beitt til að hefta óhóflegar hækkanir á frjálsum orkumarkaði þar sem aðaluppspretta á hækkun gasverðs eru utan þeirra eigin landamæra.

„Þetta snýst um aukna eftirspurn eftir orku þegar við komum út úr takmörkunum sem heimsfaraldurinn hefur sett á, ásamt minna framboði á gasi á heimsmarkaði,“ segir Tim Gore, yfirmaður Low Carbon and Circular Economy áætlunarinnar fyrir evrópska umhverfisstefnu (IEEP).

„Svo eru aðrir þættir sem auka á vandann, sérstaklega í Evrópu. Okkur hefur tekist að minnka kolanotkunina í raforkuframleiðslu inn á sameiginlegt orkunet Evrópu (Eurogrid) og það gerist á sama tíma sem vindorka hefur verið mun minni vegna veðursfars.“

Gasbirgðir hættulega litlar

Vandræði hófust á síðastliðnum vetri sem var mun kaldari en búist var við. Það leiddi til þess að orkuþörf m.a. til húskyndingar jókst verulega. Þetta olli því líka að hratt gekk á gasbirgðir sem voru í mars komin niður fyrir hættumörk, eða 30% af því sem talið er æskilegt. Á vorin, þegar bólusetningarherferðin var komin á fullt um álfuna, fór atvinnulífið að taka við sér. Skrifstofur, veitingastaðir, og aðrir þjónustustaðir opnuðu aftur dyr sínar fyrir viðskiptavinum sem voru meira en tilbúnir til að eyða þar sparnaði sínum. Þetta olli efnahagsbata sem varð til þess að eftirspurn eftir orku tók stóran kipp. Þá kallaði stillt veður og hár lofthiti í sumar líka á að fólk notaði loftkælingu meira en venjulega. Á sama tíma var atvinnulíf í Austur-Asíulöndum, þar sem stór hluti iðnaðarframleiðslu heimsins fer fram, að fara í gang með sívaxandi orkuþörf.

Dennis Hesseling, yfirmaður innviða, verslunar og gass hjá ACER (Sameiginleg orkueftirlitsstofnun ESB), segir að samhliða þessu öllu hafi skort á aukna gasflutninga til Evrópu frá Rússlandi, Noregi og Alsír.

„Þeir hafa haldið sig nokkurn veginn við venjulegt magn. Þetta er svolítið skrítið því venjulega þegar verðið hækkar nota birgjar tækifærið til að selja meira gas á hærra verði. Það hefur ekki gerst enn þá.“

Um leið og fyrirtæki alls staðar að úr heiminum reyndu að næla sér í aukna orku fór verðið að hækka jafnt og þétt. Í ágúst var orkuverð að slá öll met í Evrópu.

Ekki tókst að auka gasbirgðir í sumar

Hefð er fyrir því að gas sé ódýrara á sumrin og fyrirtæki grípi þá tækifærið til að safna gasbirgðum í miklu magni til að vera vel undirbúin áður en veturinn gengur í garð. Samspil mikillar eftirspurnar og hátt orkuverð hefur nú valdið því að birgðir eru í sögulegu lágmarki miðað við árstíma. Staðan er því ógnvekjandi fyrir næstu mánuði.

„Ef við fáum sérstaklega kaldan vetur aftur á þessu ári, þá verður þetta erfitt tímabil og verðið mun halda áfram að hækka í kjölfarið,“ segir Tim Gore hjá IEEP.

„Ríkisstjórnir ættu að undirbúa sig núna og gera ráðstafanir til að bregðast við og hjálpa heimilum í gegnum þetta tímabil. Það er enn tími til þess.“

Svo virðist sem Rússlandsforseti hafi einna helst tekið þessari áskorun með fyrirskipun til rússneska ríkisfyrirtækisins Gazporm um að fylla á gasbirgðatanka í ESB-löndum.

Ríflega 230% hækkun á raforkuverði

Gasverð hefur hækkað almennt raforkuverð um rúmlega 230% á síðasta ári. Tengingin þar á milli byggir á reglum orkumarkaðar ESB, sem hefur orðið sífellt samþættari á undanförnum áratugum.

Í dag starfar raforkumarkaður Evrópusambandsins í heildsölu sem byggir á grundvelli jaðarverðlagningar, einnig þekktur sem „pay-as-clear market“. Samkvæmt þessu kerfi bjóða allir raforkuframleiðendur – allt frá jarðefnaeldsneyti til vind- og sólarorku – inn á markaðinn og bjóða orku í samræmi við framleiðslukostnað.

Þar sem flest lönd treysta enn á jarðefnaeldsneyti til að mæta allri orkuþörf sinni, er endanlegt verð á raforku oft ákvarðað af verði á kolum eða jarðgasi. Ef gas verður dýrara hækka rafmagnsreikningar óhjákvæmilega, jafnvel þótt hreinar, ódýrari orkuuppsprettur leggi sitt einnig til heildarorku­framboðsins.

Frakkar og Spánverjar hafa gagnrýnt mjög uppbyggingu verðmyndunarkerfis raforku í ESB og telja að það sé ekki að sýna að ávinningur náist af grænum umskiptunum í orkuframleiðslunni. Því hafa menn verið að velta fyrir sér algjörlega opnu kerfi óháð framleiðslukostnaði. Þar sem orkusalar geti selt á því verði sem þeim sýnist að eftirspurn sé eftir eða „pay-as-bid“ kerfi. Slíkt er líka gagnrýnt á þeim forsendum að þá yrði orkuverðið í raun algjörlega stjórnlaust.

Kveikja upp í kolaorkuverum til að mæta orkuþörf

Samkvæmt frétt European GAS HUB hafa Bretar fundið fyrir gasskortinum í Evrópu og hækkandi gasverði. Til að koma í veg fyrir að skortur verði á raforku í landinu ákváðu stjórnvöld að kynda upp í kolaorkuverunum sem enn eru til staðar líkt og nágrannar þeirra hinum megin við Ermarsundið gerðu nú seinni part sumars. Sem dæmi var raforka frá kolaorkuverum í Þýskalandi komin í sömu stöðu í september og var síðla árs 2018. Þá jókst raforkuframleiðsla kolaorkuvera í Hollandi, Frakklandi og Ítalíu um 4% frá ágúst til september. Þetta gerist á sama tíma og háværir aðgerðarsinnar krefjast tafarlausra aðgerða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og heimta að lýst verði yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Kolaorkuverin í Evrópu gætu þó enn aukið raforkuframleiðslu sína verulega í yfirstandandi orkukorti, en eiga þar að glíma við harðar reglugerðartakmarkanir. Því er erfitt um vik fyrir stjórnmálamenn að taka ákvarðanir í þá átt til að takast á við orkuskortinn. Bretar hafa aftur á móti sagt skilið við Evrópusambandið og eru ekki eins rígbundnir regluverki þess og áður. Þeir hafa því meiri möguleika á að bjarga sér fyrir horn með því að auka raforkuframleiðslu með kolum.

Skylt efni: Rússland | raforka | jarðgas | gaslagnir

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...