Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Starfshópur hefur mótað aðgerðaráætlun til að takmarka útbreiðslu ónæmis á Íslandi
Mynd / Wikimedia commons
Fréttaskýring 9. nóvember 2021

Starfshópur hefur mótað aðgerðaráætlun til að takmarka útbreiðslu ónæmis á Íslandi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þrátt fyrir mikla umfjöllun, á liðnum árum og viðtöl við sérfræðinga sem til þekkja þá virðist almennur skilningur á alvarleika vaxandi útbreiðslu sýkla­lyfja­ónæmra baktería enn vera ótrúlega takmarkaður. Hefur þetta m.a. komið fram í átökum hagsmunaaðila um tolla­mál og innflutning á fersk­um landbúnaðarafurðum. Stað­reyndin er hins vegar að án nothæfra sýklalyfja mun barátta við sýkingar í fólki verða mjög erfið með gríðarlegri aukningu dauðsfalla.

Ýmislegt hefur samt verið gert til að auka skilning á þessum málum, m.a. með myndun starfshóps sem setti saman aðgerðaráætlun með það að markmiði að draga úr heildarnotkun sýklalyfja, bæði hjá mönnum og dýrum.

Alþjóðaheilbrigðismála­stofn­unin (WHO) hefur skilgreint sýklalyfja­ónæmi sem eina af mestu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna. Aukning sýklalyfjaónæmis stafar að mestu af ofnotkun sýklalyfja hjá mannfólkinu og ekki síður í dýraeldi. Í Covid-19 faraldrinum virðist hafa dregið töluvert úr sýklalyfjagjöf.

Á árinu 2019 undirrituðu Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Í kjölfarið skipuðu ráðherr­arnir stýrihóp um varnir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum sem vinnur að framgangi aðgerðaáætlunar sem markar stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Auk þess settu ráðherrarnir á fót sýklalyfjaónæmis- og súnusjóð sem fjármagnar verkefni í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi, fjármögnuðu nýjar stöður sérfræðinga í sýklalyfjaónæmi í þremur stofnunum auk fleiri verkefna. Ríkisstjórnin lýsti því yfir á árinu 2019 að hún ætli að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Starfshópur um aðgerðaráætlun

Í samræmi við tillögu til þings­ályktunar um aðgerðaáætlun um matvæla­öryggi og vernd búfjárstofna skip­aði sjávarútvegs- og land­­búnaðar­ráðherra starfshóp árið 2019 sem var m.a. falið að móta aðgerðar­áætlun ef greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur í dýrum, sláturafurðum og matvælum. Starfshópurinn skilaði lokaskýrslu um málið 5. febrúar 2021 og kynnti helstu niðurstöður fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heilbrigðis­ráðherra og umhverfis- og auðlinda­ráð­herra.

Grunnmarkmið aðgerða­áætlunar er að varðveita möguleika á árangursríkri meðferð á bakteríusýkingum hjá fólki og dýrum, með forvörnum og skynsamlegri notkun sýkla­lyfja.
Skýrsla starfshópsins hefur ekki fengið mikla umfjöllun og sjálfsagt hefur Covid-19 og viðbragðsaðgerðir þar að lútandi haft þar einhver áhrif. Heimsfaraldurinn hafði einnig veruleg áhrif á vinnu skýrsluhöfunda og tafði þeirra vinnu.

Í skýrslu starfshópsins var lagður grunnur að aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í baráttunni við sýklalyfjaónæmi. Tekið er fram að tillagan að aðgerðaráætlun sé þó ekki fullbúin og telur starfshópurinn að til þess þurfi samtal og samráð við hagsmunaaðila og aðkomu annarra sérfræðinga, s.s. umhverfisstjórnvöld, heil­brigðis­eftirlit sveitarfélaga og hagfræðinga við gerð kostnaðar- og ábótagreiningar og kostnaðarmats.

Forsaga málsins er að í apríl 2017 skilaði starfshópur heilbrigðisráðherra skýrslu um aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis (HRN 2017). Starfshópurinn lagði fram 10 tillögur sem hann taldi nauðsynlegar í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Í framhaldi af þessari vinnu undirrituðu sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra og heilbrigðis­ráðherra yfirlýsingu þann 8. febrúar 2019 um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi og mörkuðu þannig opinbera stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 29. maí 2019 aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi. Á meðal aðgerðanna var að stofnaður yrði starfshópur sérfræðinga sem hefði það hlutverk að móta aðgerðaáætlun þegar alvarlegar sýklalyfjaónæmar bakteríur greinast í dýrum, sláturafurðum eða matvælum sem tekur/taka mið af eðli og alvarleika sýklalyfjaónæmis.
Starfshópurinn var skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra með skipunarbréfi dags. 17. september 2019 og var þannig skipaður:

  • Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir súna og lyfjaónæmis, Matvælastofnun, formaður.
  • Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala háskólasjúkrahúss og prófessor í sýklafræði, Háskóli Íslands.
  • Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri sýklalyfjaónæmis, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
  • Kjartan Hreinsson, dýralæknir, sérfræðingur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Verkefni starfshópsins var að móta aðgerðir sem miða að því að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfja­ónæmum bakteríum í matvælum.

  • Reifa mismunandi valkosti við stefnu stjórnvalda um að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur og að setja fram tímasetta áætlun um næstu skref.
  • Útbúa aðgerðaáætlun varðandi rakningu uppruna ónæmisins og fyrirbyggjandi aðgerðir.
  • Útbúa aðgerðaáætlun varðandi förgun dýra, sláturafurða eða matvæla eða aðrar aðgerðir.

Leggja mat á kostnað vegna aðgerða í tengslum við aðgerðaáætlanir.

Ísland ætlar að vera í fararbroddi

Í skýrslu fjórmenninganna kem­ur fram að með þingsályktun nr. 40/149 um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjár­s­tofna hafi ríkisstjórninni verið falið að hrinda í framkvæmd ýmsum aðgerðum sem miða að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisaðstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Á meðal aðgerða var að átak yrði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfja­ónæmra baktería á Íslandi. Í greina­rgerð með þings­ályktun­inni segir:

„Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Innan ramma alþjóðlegra skuld­bindinga og á grundvelli lýðheilsu­sjónarmiða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu skal náð m.a. með banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfja­ónæmra baktería í matvælum að undangenginni grein­ingu á stöðunni, uppsetn­ingu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum gegn útbreiðslu sýkla­lyfja­­ónæmra bakt­ería. Mikilvægt er að kallaðir séu til færustu sérfæðingar í því skyni að móta aðgerðir sem miði að því að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum.“

Skýrsluhöfundar benda á að Sýklalyfjaónæmi fari vaxandi á Íslandi eins og í öðrum löndum. Samanburður á sýklalyfjaónæmi á Íslandi og í öðrum löndum geti þó verið erfiður vegna þess að aðferðafræði við rannsóknirnar getur verið mjög mismunandi og í sumum löndum eru nánast eingöngu tekin sýni frá þeim sem eru mikið veikir og/eða svara ekki meðferð með sýklalyfjum. Þeir sem svara ekki meðferð með sýklalyfjum eru líklegri til þess að vera sýktir af fjölónæmum bakteríum en aðrir og getur þetta skekkt samanburð.
Í samantekt skýrsluhöfunda segir m.a.:

„Hér er lagður grunnur að aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í baráttunni við sýklalyfjaónæmi. Tillagan að aðgerðaáætlun er ekki fullbúin og telur starfshópurinn að til þess þurfi samtal og samráð við hagsmunaaðila og aðkomu annarra sérfræðinga, s.s. umhverfis­stjórnvöld, heilbrigðis­eftirlit sveitarfélaga og hagfræðinga við gerð kostnaðar – og ábóta­greiningar og kostnaðarmats. Einnig þarf að fullmóta markmiðin, hvort þau séu raunhæf og hver raunhæfur tímarammi þeirra sé, m.t.t. hvort það sé almenn eining um að ná markmiðunum og hvort fjárveiting fæst.“
Þá segir að grunnmarkmið aðgerða­áætlunar sé að varðveita möguleika á árangursríkri meðferð á bakteríusýkingum hjá fólki og dýrum, með forvörnum og skynsamlegri notkun sýklalyfja. Fjögur almenn markmið eru dregin fram til að ná grunnmarkmiðinu. Undir hverju almennu markmiði eru sértæk markmið og tillaga að útfærslu þeirra.

Í skýrslunni eru einnig tillögur að viðbrögðum við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum auk draga að aðgerðum í tengslum við baráttuna um sýklalyfjaónæmi sem starfshópurinn leggur til að unnar verði áfram í samráði við sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...