Kolmunnahol. Kolmunni er aðalhráefnið fyrir fiskimjölsiðnaðinn.
Kolmunnahol. Kolmunni er aðalhráefnið fyrir fiskimjölsiðnaðinn.
Mynd / Viðar Sigurðsson.
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Sögulega lítið hráefni í boði

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Móttaka fiskimjölsverksmiðja á hráefni dróst saman um 6% á síðasta ári. Magn sem tekið var til vinnslu er það minnsta í marga áratugi. Verk­smiðjur Síldarvinnslunnar unnu úr um 32% þess hráefnis sem barst á land á árinu. Fiskimjöls­iðnaðurinn skilar um 24 milljörðum á ári í framleiðsluverðmæti.

Miklar breytingar hafa orðið í fiskimjölsiðnaði hér á landi á síðustu árum og áratugum. Verksmiðjum hefur fækkað og framboð á hráefni dregist saman. Greinin skilar enn verulegum verðmætum í þjóðarbúið þrátt fyrir samdrátt í loðnuveiðum og loðnubrest.

Hér á eftir verður fjallað um móttöku hráefnis hjá fiski­mjöls­verksmiðjum á síðasta ári og hvernig hráefnið skiptist á einstök félög, verksmiðjur og tegundir uppsjávarfisks. Einnig verður lítillega drepið á þróun greinarinnar undanfarin ár og áratugi.

Kolmunni.

Minna af kolmunna og loðnubrestur

Hráefni til fiskimjölsiðnaðar kemur frá fjórum uppsjávartegundum auk loðnu: Íslenskri síld, norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna. Um síld og makríl gildir það að nær öllum afla er fyrst landað til vinnslu á verðmætari afurðum til manneldis. Afskurður og það sem flokkast frá við manneldisvinnslu í landi og hjá vinnsluskipum á sjó fer í bræðslu, þ.e. er tekið til framleiðslu á mjöli og lýsi. Kolmunna er hins vegar landað beint til bræðslu en einungis lítið brot af aflanum er unnið til manneldis. Loðna, þegar hún veiðist, fer að verulegum hluta í manneldisvinnslu. Þegar loðnukvótinn er umfram það magn sem dugir til að sinna mörkuðum fyrir frysta loðnu og loðnuhrogn til manneldis þá er loðnu landað beint í bræðslu.

Á árinu 2020 tóku fiski­mjöls­verksmiðjur á Íslandi á móti um 385 þúsund tonnum af hráefni til vinnslu, samkvæmt upplýsingum sem Bændablaðið fékk frá Félagi íslenskra fiskmjölsframleiðenda. Á árinu 2019 nam móttakan tæpum 410 þúsund tonnum. Hér er því um 6% samdrátt að ræða milli ára. Samdráttur skýrist af því að minna barst af kolmunna til verksmiðjanna. Bæði árin var loðnubrestur.

Verksmiðjan í Neskaupstað hæst

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnsl­unnar í Neskaupstað tók sem fyrr á móti langmestu hráefni til bræðslu árið 2020, eða rúmum 106 þúsund tonnum, sem eru um 28% af heildinni. Verksmiðja Brims á Vopnafirði kemur þar á eftir með um 72 þúsund tonn, eða tæp 19% af heildinni. Eskja á Eskifirði er í þriðja sæti með um 49 þúsund tonn og tæp 13% af heild.

Hráefnið sem hver verksmiðja fær ræðst að sjálfsögðu af kvótastöðu viðkomandi útgerðar- og vinnslufélaga. Athygli vekur hins vegar að Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði, sem er ekki með stærstu kvótahöfum í uppsjávarfiski, er í 4. sæti og tók á móti tæpum 49 þúsund tonnum af hráefni á síðasta ári. Skýrist það af löndun erlendra skipa. Færeysk skip lönduðu um 24 þúsund tonnum af kolmunna á Fáskrúðsfirði á síðasta ári, samkvæmt tölum frá Fiskistofu.
Þrjú stærstu félögin með tæp 70%

Alls tóku 10 fiskimjöls­verk­smiðjur á móti hráefni á síðasta ári. Ein þeirra, verksmiðja Brims á Akranesi, er með mjög takmarkaða starfsemi meðan loðna veiðist ekki. Þar var aðeins brætt bolfiskfrá­kast.

Fiskimjölsverk­smiðj­­urnar eru í eigu sjö félaga. Síldar­vinnslan rekur tvær verksmiðjur (í Nes­kaupstað og á Seyðis­firði), Brim tvær (á Vopnafirði og Akranesi) og Ísfél­agið tvær (í Vestmanna­eyjum og á Þórshöfn).

Alls tók Síldar­vinnslan, þ.e. verksmiðjurnar tvær, á móti um 124 þúsund tonnum, sem eru um 32% af heildinni. Brim kemur þar á eftir með um 75 þúsund tonn og um 20% af heildinni. Eskja er þriðja í röðinni með um 63 þúsund tonn, sem eru um 16% af heildinni. Alls tóku þessi þrjú stærstu félög á móti um 68% af því hráefni sem fór til bræðslu á síðasta ári.

Mest af kolmunna

Framan af síðustu öld byggðist fiskimjölsiðnaðurinn á síldveiðum. Eftir hrun norsk-íslenska síldarstofnsins í lok sjöunda ártugarins varð loðnan aðalhráefnið og var svo allt til ársins 2006. Þá tók kolmunninn sæti hennar og hefur haldið því árlega síðan með fáeinum undantekningum.

Á árinu 2020 voru brædd 257 þúsund tonn af kolmunna sem eru 67% af öllu hráefni verksmiðjanna. Næst kemur makríll með um 53 þúsund tonn, þá norsk-íslensk síld með 46 þúsund tonn og íslenska síldin rekur lestina með tæp 23 þúsund tonn. Annað hráefni er hverfandi.

Fiskimjölsverksmiðja um borð

Hér að framan hefur aðeins verið rætt um verksmiðjur í landi enda var ekki öðru til að dreifa um langt skeið. Árið 2017 kom til landsins nýsmíðaður og fullkominn frystitogari, Sólberg ÓF, sem er með fiskimjölsverksmiðju um borð. Verksmiðjan stuðlar að fullvinnslu aflans en hún tekur á móti því sem fellur til við manneldisvinnslu á botnfiski um borð. Samkvæmt upplýsingum frá Ramma hf., sem gerir Sólbergið út, skilaði skipið á land 1.536 tonnum af mjöli og lýsi á síðasta ári að verðmæti 286 milljónir króna.

Minnsta magn í marga áratugi

Hráefni til fiskimjölsverksmiðja hefur minnkað verulega. Þess má geta að á árinu 2002 voru tæplega 1,6 milljónir tonna brædd sem er með því mesta sem um getur.


Samkvæmt tölum frá FÍF tóku fiskimjölsverksmiðjur á móti um 570 þúsund tonnum að meðaltali á ári á árunum 2006 til 2019. Magnið á síðasta ári, 385 þúsund tonn, er það minnsta í marga áratugi.

Fækkun verksmiðja

Um miðjan sjöunda áratuginn voru tæplega 40 fiskimjölsverksmiðjur stórar og smáar starfandi hér á landi. Þeim fækkaði fljótt niður í kringum 30 verksmiðjur eftir síldarhrunið 1968. Þróun í þessa átt hélt áfram og upp úr síðustu aldamótum voru verksmiðjurnar 12 að tölu og eru nú 10. Afkastageta verksmiðjanna í dag er tæp 10 þúsund tonn á sólarhring. Ljóst er að þær geta tekið á móti mun meira hráefni til vinnslu en verið hefur í boði undanfarin ár.

Mikil verðmæti

Kaupendur á fiskimjöli og lýsi frá Íslandi eru aðallega framleiðendur á fóðri fyrir laxeldi enda þurfa laxar fóður sem er ríkt af omega-3 fitusýrum.

Þrátt fyrir að framboð á hráefni til framleiðslu á mjöli og lýsi hafi dregist saman skilar greinin umtalsverðum verðmætum í þjóðarbúið. Framleiðsluverðmæti á mjöli og lýsi nam um 23,4 milljörðum króna á árinu 2019 og er þar bæði um að ræða það sem var flutt út og selt innanlands. Til samanburðar má nefna að útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða nam í heild 260 milljörðum árið 2019.

Skylt efni: fiiskimjöl

Nýr fuglaflensufaraldur farinn að stórskaða alifuglaeldi víða um lönd
Fréttaskýring 4. mars 2021

Nýr fuglaflensufaraldur farinn að stórskaða alifuglaeldi víða um lönd

Fuglaflensa hefir skotið upp kollinum annað slagið í gegnum árin, en nú er óttas...

Örlagavaldur kríu og lunda
Fréttaskýring 2. mars 2021

Örlagavaldur kríu og lunda

Sandsíli við Ísland er í lægð. Stofninn hefur minnkað og nýliðun er lítil. Ástæð...

„Ekki einhver dulræn heimsendaspá eða hræðsluáróður – Þetta er raunveruleiki“
Fréttaskýring 19. febrúar 2021

„Ekki einhver dulræn heimsendaspá eða hræðsluáróður – Þetta er raunveruleiki“

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna

Ásælni auðmanna í land, og þá einkum ræktarland um allan heim, jókst verulega í ...

Sögulega lítið hráefni í boði
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Sögulega lítið hráefni í boði

Móttaka fiskimjölsverksmiðja á hráefni dróst saman um 6% á síðasta ári. Magn sem...

Vetni gæti leikið stórt hlutverk í að draga úr loftmengun í umferð og iðnaði
Fréttaskýring 19. janúar 2021

Vetni gæti leikið stórt hlutverk í að draga úr loftmengun í umferð og iðnaði

Nokkrir bílaframleiðendur eru nú að skoða möguleika sína að þátttöku í kapphlaup...

Stór hluti heimsaflans úr ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum veiðum
Fréttaskýring 19. janúar 2021

Stór hluti heimsaflans úr ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum veiðum

Áætlað er að 20–50% af fisk­aflanum úr heimshöfunum komi frá ólöglegum, óskráðum...

Iðnaðarhampur – ein planta sem uppfyllir allar þarfir mannkyns?
Fréttaskýring 5. janúar 2021

Iðnaðarhampur – ein planta sem uppfyllir allar þarfir mannkyns?

Iðnaðarhampur er afar marg­slungin planta sem hefur oft verið á milli tannanna á...