Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Á síðasta ári veiddu færeysk skip um 624 þúsund tonn af fiski, miðað við landaða vigt, og var aflaverðmæti tæpir 3,3 milljarðar danskra króna, að jafngildi 67 milljarða íslenskra króna.
Á síðasta ári veiddu færeysk skip um 624 þúsund tonn af fiski, miðað við landaða vigt, og var aflaverðmæti tæpir 3,3 milljarðar danskra króna, að jafngildi 67 milljarða íslenskra króna.
Mynd / HKr
Fréttaskýring 7. maí 2021

Sjávarafurðir skila rúmum 90% útflutningsverðmæta í Færeyjum

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Þrátt fyrir aflasamdrátt hjá færeyskum skipum á síðasta ári má segja að árið hafi verið gjöfult. Í heild gaf færeyskur sjávarútvegur og fiskeldi tæpa 150 milljarða íslenskra króna í útflutningstekjur. Mikilvægasta tegundin, eldislax, skilaði um 67 milljörðum íslenskum sem er um 46% af verðmæti útfluttra sjávarafurða.

Fáar þjóðir ef nokkrar eru jafnháðar sjávarútvegi og fiskeldi og frændur okkar í Færeyjum. Þessi fámenna þjóð, sem telur um 53 þúsund íbúa, fær megnið af gjaldeyristekjum sínum með sölu á fiski og fiskafurðum. Hér á eftir verður fjallað um færeyskan sjávarútveg á árinu 2020; veiðar, fiskeldi og útfluttar sjávarafurðir með stöku samanburði við Ísland.

Heildaraflinn 624 þúsund tonn

Á síðasta ári veiddu færeysk skip um 624 þúsund tonn af fiski, miðað við landaða vigt, og var aflaverðmæti tæpir 3,3 milljarðar danskra króna, að jafngildi 67 milljarða íslenskra króna. Þessar upplýsingar og fleiri sem tilgreindar eru hér á eftir má finna á vef færeysku hagstofunnar.

Aflinn skiptist þannig að veiði á bolfiski, flatfiski og skelfiski nam samtals um 104 þúsund tonnum, þar af voru um 70 þúsund tonn veidd á heimamiðum en rúm 30 þúsund tonn í lögsögum annarra ríkja eða svæða. Veiðar á uppsjávarfiski voru tæp 520 þúsund tonn.

Heildarafli íslenskra skipa í fyrra var um milljarður tonna, og aflaverðmætið rúmir 148 milljarðar króna, að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Hafa ber í huga að Íslendingar miða skráningu sína við afla upp úr sjó en Færeyingar við landaðan afla. Erfitt er því að bera aflatölur þjóðanna saman. Munurinn fer eftir fisktegundum og meðhöndlun á fiski um borð.

Rúm 70 þúsund tonn af eldislaxi

Laxeldi er snar þáttur í sjávarútvegi í Færeyjum eins og að framan greinir. Færeyingar framleiddu um 78 þúsund tonn af eldislaxi árið 2019 og um 73 þúsund tonn á síðasta ári. Athygli vekur að eldislaxinn er svipaður í tonnum talið og allur sá fiskur sem Færeyingar veiddu í eigin lögsögu, að uppsjávarfiski frátöldum, á árinu 2020.

Á síðasta ári nam framleiðsla Íslendinga á eldisfiski, bæði laxi, bleikju og fleiri tegundum, um 40,6 þúsund tonnum sem er framleiðslumet samkvæmt radarinn.is, sem er fréttavefur um sjávarútveg og fiskeldi á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Tæpur þriðjungur þorsks í eigin lögsögu

Drjúgan hluta bolfisksaflans fá Færeyingar í lögsögu annarra ríkja og svæða eins og fram er komið, svo sem í lögsögu Rússa, Norðmanna, Grænlendinga við Svalbarða og síðast en ekki síst á Íslandsmiðum.

Sérstaklega á þetta við um þorskinn. Í heild nam þorskveiðin um 31 þúsund tonni árið 2020, sem er 15% samdráttur frá fyrra ári. Aðeins tæpur þriðjungur þorsksins var veiddur í færeyskri lögsögu. Mest veiddist af þorski í rússneskri lögsögu, eða 8.554 tonn. Einnig fékkst verulegur afli í norskri lögsögu og við Svalbarða. Í íslenskri lögsögu veiddust 1.565 tonn (landað magn), samkvæmt upplýsingum á vef færeysku hagstofunnar. Fiskistofa hér umreiknar þennan afla í 2.270 tonn upp úr sjó. Þá er tekið tillit til þess til dæmis hvort fiskur sé slægður eða hausskorinn um borð.

Mikill samdráttur í þorski í færeyskri lögsögu

Á síðasta ári var umtalsverður samdráttur í þorskveiðum í færeysku lögsögunni. Aflinn fór úr rétt rúmum 20 þúsund tonnum 2019 niður í rúm 9 þúsund tonn árið 2020. Samdrátturinn nam 53,5% frá árinu áður. Hér er ekki öll sagan sögð því að þorskafli á heimamiðum var óvenjumikill 2019 miðað við nokkur ár þar á undan.

Veiðar á ýsu í færeyskri lögsögu minnkuðu um næstum fjórðung milli ára fóru úr 8.284 tonnum 2019 í 6.320 tonn árið eftir. Veiðar á öðrum botnfiskum jukust, til dæmis um 21% í löngu og 36% í keilu.

Lítils háttar aukning í uppsjávarfiski

Færeyingar láta mikið að sér kveða í veiðum á uppsjávarfiski; makríl, norsk-íslenskri síld og kolmunna. Afli þeirra í uppsjávarfiski jókst lítilsháttar, fór úr 516 þúsund tonnum 2019 í tæp 520 þúsund tonn 2020. Verðmæti landaðs uppsjávarfisks var rúmir 1,7 milljarðar danskra króna, eða um 35 milljarðar íslenskir.

Til samanburður þá fengu íslensk skip rúm 529 þúsund tonn af uppsjávarafla í fyrra sem er nánast jafn mikið og Færeyingar veiddu. Óvíst er þó að hve miklu leyti þessar tölur eru sambærilegar. Í fyrra var loðnubrestur en í góðum loðnuárum veiða Íslendingar mun meira af uppsjávarfiski en Færeyingar.

Fiskurinn gaf 147 milljarða íslenska

Á síðasta ári fluttu Færeyingar út vörur fyrir rétt tæpa 8,4 milljarða danskra króna. Þar af nam útflutningur sjávarafurða rúmum 7,2 milljörðum, um 147 milljarðar íslenskir, eða um 92% af verðmæti vöruútflutnings í heild.

Samdráttur varð í sölu sjávarafurða milli ára um 1,2 milljarða danskra króna, eða 12%. Mest minnkuðu verðmæti á eldislaxi og þorskafurðum. Þessar tölur þarf að skoða með hliðsjón af því að árið 2019 var óvenju hagstætt.

Eins og að líkum lætur skilaði laxinn mestum verðmætum í fyrra. Útflutningsverðmæti á laxi var rúmir 3,3 milljarðar danskra króna, eða 67 milljarðar íslenskir, sem er um 46% af verðmæti útfluttra sjávarafurða.

Makríll er önnur verðmætasta tegundin. Makrílafurðir náðu tæpum 1 milljarði danskra króna, um 20 milljörðum íslenskum.

Hér á árum áður hafði sjávarútvegur svipaða þýðingu fyrir Íslendinga og Færeyinga, þ.e. skilaði um 90% af verðmæti vöruútflutnings. Sjávarútvegur er að sjálfsögðu enn mikilvægur hér. Hann skilaði rúmlega 48% af verðmæti vöruútflutnings á síðasta ári og þá er verðmæti eldisafurða talið með, að því er fram kemur á radarinn.is. Í heild var útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða og eldisfisks 2020 rétt um 300 milljarðar króna. Þorskurinn er í fyrsta sæti með 132 milljarða en laxinn skaust upp í annað sæti með 20,5 milljarða.

Tæpur fjórðungur til Rússlands

Færeyingar njóta þeirrar sérstöðu að geta selt sjávarafurðir til Rússlands. Í kjölfar viðskiptaþvingana Vesturvelda í garð Rússa, sem Íslendingar studdu, svöruðu Rússar með banni á innflutningi matvæla frá viðkomandi þjóðum. Bannið tók gildi fyrir Ísland á árinu 2015. Þar með misstu Íslendingar af góðum og velborgandi markaði.

Færeyingar tóku ekki þátt í þessum viðskiptaþvingunum og Rússlandsmarkaður stendur þeim því opinn og er afar mikilvægur.

Á síðasta ári fluttu Færeyingar sjávarfurðir til Rússlands fyrir 1,7 milljarð danskra króna sem eru um 23,5% af heildarútflutningi sjávarafurða.

Um 52% af makrílafurðum Færey­inga í verðmætum talið fara til Rúss­lands og 62% af síld.

Samskipti Íslands og Færeyja

Sjávarútvegur í Færeyjum og á Íslandi er um margt ólíkur, bæði hvað varðar stjórn fiskveiða, gjaldtöku vegna aflaheimilda o.fl. Of langt mál yrði að gera nánari grein fyrir því hér.

Samskipti Íslendinga og Færey­inga í sjávarútvegsmálum hafa verið vinsamleg þótt kastast hafi í kekki í makríldeilunni á sínum tíma. Samningur er á milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar sem óhætt er að segja að sé frekar hliðhollur Færeyingum. Í stuttu máli fjallar hann aðallega um heimild þeirra til að veiða botnfisk hér við land. Færeyingar mega veiða 5.600 tonn af botnfiski, þar af 2.400 tonn af þorski að hámarki.

Að auki láta Íslendingar Fær­eyingum í té álitlegar heimildir í loðnu á Íslandsmiðum, þ.e. ákveðið hlutfall af heildarkvóta en að hámarki 30 þúsund tonn.

Samkomulagið felur einnig í sér gagnkvæman aðgang til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld.

Ávinningur Íslands af þessum samningi er aðallega heimild til að veiða kolmunnakvóta sinni í færeyskri lögsögu en lítið hefur verið af kolmunna í lögsögu Íslands á undanförnum árum. Fyrir utan veiðiheimildir í botnfiski og loðnu hafa Færeyingar aukið veiðar sínar á norsk-íslenskri síld af eigin kvóta í íslenskri lögsögu. Á síðasta ári veiddu þeir 77 þúsund tonn af síld hér sem er 70% af síldveiði þeirra.

Skylt efni: Færeyjar

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...