Þjóðaröryggi landa byggist m.a. á að borgararnir hafi tryggan aðgang að matvælum. Hér er gott fæðuöryggi og fæðusjálfstæðið mikið vegna umfangsmikilla fiskveiða, þó nánast allt sé flutt út. Sjálfsaflahlutfallið er þó ófullnægjandi þar sem huti af neyslu matvæla sem kemur frá innlendri framleiðslu fer lækkandi.
Þjóðaröryggi landa byggist m.a. á að borgararnir hafi tryggan aðgang að matvælum. Hér er gott fæðuöryggi og fæðusjálfstæðið mikið vegna umfangsmikilla fiskveiða, þó nánast allt sé flutt út. Sjálfsaflahlutfallið er þó ófullnægjandi þar sem huti af neyslu matvæla sem kemur frá innlendri framleiðslu fer lækkandi.
Mynd / Hlynur Gauti Sigurðsson
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið er á skilgreiningu Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna er fæðuöryggi á Íslandi með því besta sem gerist. Rof á aðfangakeðjum í kjölfar heimsfaraldursins og stríðsátaka minnti fólk á að fæðuöryggi Íslendinga býr við ýmsa veikleika, til að mynda ófullnægjandi sjálfsaflahlutfalli.

Lykilhugtak í þessu samhengi er fæðusjálfstæði (e. food independency), en samkvæmt skilgreiningu frá Jóhannesi Sveinbjörnssyni, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), er það „getan til að framleiða innanlands þá fæðu sem dugar til að uppfylla þarfir viðkomandi þjóðar“. Þá er sjálfsaflahlutfall (e. food self suffiency, d. selvforsyning) „tölulegt mat á fæðusjálfstæðinu, sem má reikna fyrir einstaka fæðuflokka eða vörur“.

Alþjóðlega skilgreiningin á fæðuöryggi er eftirfarandi: „[Það] er til staðar þegar allt fólk hefur ávallt raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum til að uppfylla næringarþarfir sínar með frjálsu fæðuvali, til að geta lifað virku og heilsusamlegu lífi.“ Rétt er að rugla fæðuöryggi ekki við matvælaöryggi, sem á við hversu örugg fæða er til neyslu.

Jóhannes hefur unnið talsvert með þessi viðfangsefni. Árið 2021 ritstýrði hann, ásamt Erlu Sturludóttur, skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í framhaldi af því vann hann verkefnið Aðgerðir til að auka fæðuöryggi Íslands – tillögur og greinargerð fyrir matvælaráðuneytið, sem kom út árið 2022. Tilgangur síðarnefnda verkefnisins var að stjórnvöld hefðu það til hliðsjónar við mótun fæðuöryggisstefnu.

Fullkomið fæðusjálfstæði óraunhæft

Í skýrslunni frá 2022 skrifar Jóhannes að efnaðar þjóðir eins og Ísland hafi val um að hve miklu leyti fæðuöryggi sé tryggt með innlendri framleiðslu eða með alþjóðlegum viðskiptum. Óraunhæft sé að stefna að fullkomnu fæðusjálfstæði – ekki einu sinni Norður-Kóreu hefur tekist að ná því markmiði.

Hann bendir á að raunsærri skilgreining á fæðusjálfstæði sé „hvort fæðuframleiðsla þjóðar nær að fullnægja reiknaðri fæðuþörf, burtséð frá því hvort þjóðin velur að selja hluta af hinni framleiddu fæðu og kaupa aðra fæðu í staðinn“. Þannig sé hægt að nýta kosti alþjóðaviðskipta, sem séu til að mynda sérhæfing og vöruúrval, á sama tíma sem fæðuöryggis borgaranna sé gætt þegar aðfangakeðjur rofni, svo sem vegna stríðs, faraldra og umhverfisslysa, og mögulegt sé að standa undir neyslunni með innlendum matvælum. Í tilviki Íslands gæti það verið með fiski sem annars hefði verið fluttur út.

Sé sjálfsaflahlutfall Íslendinga skoðað fyrir árin 2019 og 2009 sést að hlutfall innlendra matvæla af heildarneyslu hefur minnkað. Íslensk framleiðsla grænmetis sá fyrir 56 prósent neyslunnar árið 2009, en hafði minnkað niður í 43 prósent tíu árum síðar. Þá féll neysla á innlendu kjöti úr 98 prósent niður í 90 prósent á sama tíma.

Jóhannes tekur fram að helstu veikleikar fæðuframleiðslukerfis Íslendinga liggja í framleiðslu plöntuafurða. Þá séu helstu sóknarfærin til að auka fæðusjálfstæði í að efla kornrækt og innlenda grænmetisframleiðslu á meðan óraunhæft sé að fara í ræktun á hnetum, baunum og ávöxtum. Nú dekki innlend framleiðsla á korni til manneldis um eitt prósent af neyslunni. Í fyrirlestrum hefur Jóhannes tekið fram að fæðusjálfstæði verði helst eflt með því að stjórnvöld skapi góð skilyrði fyrir þær búgreinar sem á annað borð er raunhæft að stunda hérlendis.

Almennt gott fæðuöryggi

„Frá degi til dags, þegar allt er venjulegt, þá er fæðuöryggi hérna mjög gott. Við höfum nóg úrval og framleiðum heilmikinn mat sjálf og getum flutt inn það sem við getum ekki framleitt,“ segir Jóhannes í samtali við Bændablaðið.

The Global Food Security Index (GFSI) er alþjóðleg vísitala þar sem löndum er raðað út frá hversu mikið fæðuöryggi borgarar þeirra búa við. Ísland er ekki á þeim lista sem Jóhannes telur skýrast af smæð landsins. Norðurlöndin séu þó öll frekar ofarlega og má áætla að Ísland myndi líka fá góða einkunn. Þegar veikleikar hvers lands séu hins vegar skoðaðir komi í ljós að á Norðurlöndunum er einn helsti veikleiki fæðuframboðsins sveiflukennd uppskera plöntuafurða. Leiða megi líkur að því að á Íslandi sé þetta jafnvel enn meiri veikleiki en á hinum Norðurlöndunum.

„Það hefur að gera með fábreytni á því sem við getum framleitt af plöntuafurðum og það eru miklar líkur á uppskerubresti í korni.“

Í norðurhluta Skandinavíu sé kornuppskera mjög óstöðug og Ísland standi verr að vígi í þeim hlutum. Á móti því komi góðar aðstæður til að framleiða dýraafurðir, eins og mjólk, kjöt, fisk og egg.

„Annar stór veikleiki er hversu háð við erum innfluttum aðföngum, þá sérstaklega eldsneyti og áburði en einnig fóðri og sáðvöru, ásamt ýmsum tólum og tækjum sem notuð eru við framleiðsluna. Framleiðslugreinarnar eru misháðar aðföngunum og áhrif af skorti á einhverjum þessara aðfanga eru því mismikil eftir greinum.“

Helstu tækifærin til að efla sjálfsaflahlutdeild landsins liggja í aukinni grænmetisrækt. Mynd/Odd Stefán
Möguleikar í grænmeti og kornrækt

Í áðurnefndri skýrslu ritstýrðri af Jóhannesi og Erlu Sturludóttur frá 2021 er bent á að helstu möguleikar Íslands til að auka sjálfsaflahlutfall séu að rækta meira grænmeti og að efla kornrækt. Hlutfall innlends grænmetis af neyslunni hafi hins vegar lækkað eins og kom fram hér að ofan. Bent er á að ef stefna stjórnvalda sé að vera með útiræktun á grænmeti þurfi að hlúa betur að bændum og koma í veg fyrir að innflutningur á viðkvæmum tegundum, eins og blómkáli, kaffæri innlenda framleiðslu á uppskerutíma.

Í ríkjum Evrópu og Ameríku séu víða góðar aðstæður til landbúnaðarframleiðslu og fjölbreytni í matvælaframleiðslu. ESB ýti sérstaklega undir mikla breidd í úrvali og ræktun. Þá sé minna flutt inn og út, en stefnan í þessum ríkjum sé að framleiða sem næst eigin þörfum, en offramleiðsla sé slæm fyrir markaðinn.

Svo gætum við horft á ríki eins og Ísland og Noreg sem eru með mikinn fiskútflutning en krefjandi aðstæður til fjölbreyttrar búvöruframleiðslu – þó möguleikarnir séu fyrir hendi. „Þessi lönd eru að færast í þá átt að flytja meira inn.“

Haldi þessi þróun áfram segir Jóhannes að við gætum nálgast fyrirkomulagið sem olíuríkin við Persaflóa búa við, þar sem sjálfsaflahlutfallið er lítið sem ekkert og fæðuöryggið byggist á innflutningi. Það stafi af því að aðstæður henti illa til matvælaframleiðslu á meðan olíuframleiðslan gefur mikinn gjaldeyri. „Þá hafa menn valið þann kost að flytja meira inn í staðinn fyrir að baslast við að framleiða sjálfir.“

Fæðusjálfstæði Íslands hafi minnkað á undanförnum árum. Ekki vegna skorts á náttúruauðlindum eða lélegra innviða, heldur vegna slæmrar afkomu bænda, á meðan lífskjör almennings eru að skána hefur skapast atgervisflótti úr greininni. Bændur hafi lítinn hvata til að auka fjölbreytni í framleiðslu og sé fátt gert til að standa vörð um að viðhalda besta landbúnaðarlandinu í landbúnaðarframleiðslu. Niður- staðan er sú að landbúnaður verður undir í samkeppni um jarðnæði og mannauð.

Vegna hnattstöðu Íslands segir Jóhannes að við þurfum ekki bara gott akuryrkjuland, heldur besta akuryrkjulandið til að eiga kost á að rækta korn til manneldis í einhverju magni. Tryggja þurfi að landið falli ekki í aðra notkun ef stuðla skal að fæðuöryggi.

53% sjálfsaflahlutfall hérlendis

Norræna ráðherranefndin lét nýlega vinna skýrslu um eyþjóðirnar á Norðurlöndunum – Grænland, Ísland, Færeyjar, Borgundarhólm og Álandseyjar. Þar var reiknað út hversu stór hluti af neyslu matvæla kæmi frá innlendri framleiðslu og kemur þar fram að Ísland er með 53 prósent sjálfsaflahlutfall ef reiknað er út frá orku matvælanna. Jóhannes segir það í ágætu samræmi við skýrslu LbhÍ frá 2021.

Í skýrslunni frá Norrænu ráðherranefndinni er opinber stefna og umræða eyríkjanna fimm á Norðurlöndunum hvað varðar sjálfsaflahlutfall borin saman. Þar sést að Íslendingar halda umræðu um fæðusjálfstæði ekki á lofti, á meðan hugtakið er vel þekkt hjá nágrönnum okkar – fyrir utan Færeyjar.

Álandseyjar eru með besta sjálfsaflahlutfallið, eða 59 prósent, á meðan Borgundarhólmur stendur verst með sex prósent. Á þessum lista er Ísland í öðru sæti.

Umfangshlutfall (d. dækningsgrad) matvælaframleiðslu allra eyríkjanna er minnst 100 prósent. Ísland, Grænland og Færeyjar eru öflug í útflutningi á fiskafurðum, en 98 til 99 prósent sjávarafurða framleidda á Íslandi fer í útflutning. Borgundarhólmur framleiðir mikið svínakjöt, á meðan á Álandseyjum er umframframleiðsla á grænmeti, korni og fiski flutt út.

Möguleikar til að auka sjálfsaflahlutdeild

Skýrsluhöfundar nefna nokkrar leiðir til að efla sjálfsaflahlutdeild. Í fyrsta lagi sé að auka grænmetis- framleiðslu, en Ísland sé einstakt að því leyti að geta nýtt jarðvarma til hitunar gróðurhúsa. Framleiðsla á grænmeti með sjálfbærum orkugjöfum í jafnköldu loftslagi og er á Íslandi takmarki alla þörf á plöntuvarnarefnum, sem ætti að gefa möguleika á að selja íslenskt grænmeti sem hágæðavöru á erlendum mörkuðum.

Í öðru lagi hafi ferðaþjónustan aukið neyslu matvæla, á sama tíma sem ferðamenn vilji upplifa hefðbundna matargerð sem byggir á sjálfbærri framleiðslu. Það gefi mikla vaxtarmöguleika fyrir matvælaframleiðslu sem auki sjálfsaflahlutdeild.

Í þriðja lagi eru mikil tækifæri í aukningu á sjálfbærri orku. Nú séu Íslendingar háðir innflutningi á jarðefnaeldsneyti til véla á hafi og landi. Með því að skipta yfir í innlenda orkugjafa myndi þanþol alls kerfisins eflast. Jafnframt sé hægt að minnka þörfina á tilbúnum áburði með því að bæta nýtingu lífrænna áburðarefna.

Í fjórða lagi skipti máli að ræktarland sé varðveitt í skipulagi lands. Í fimmta lagi felist miklir vaxtarmöguleikar í hreinu umhverfi og heilnæmi íslenskra matvara. Neytendur horfi í auknum mæli til umhverfisþátta og gæða frekar en verðs matvæla. Ef aukin framleiðsla matvæla hérlendis miðast alfarið við útflutning myndi það skapa aukið umfangshlutfall en ekki stuðla að aukinni sjálfsaflahlutdeild.

Þá hvetja skýrsluhöfundar stjórnvöld til að kanna hvernig stuðningskerfi hafi áhrif á matvælaframleiðendur og möguleika þeirra til að aðlaga sína framleiðslu að breyttum kröfum neytenda.

Jafnframt er bent á að stjórnvöld ættu að lækka rafmagnskostnað grænmetisframleiðenda með því að bjóða þeim strauminn á verði stórnotenda. Nú séu stuðningsgreiðslur ylræktarinnar bundnar í potti sem takmarki alla möguleika grænmetisbænda á að stækka og minnki allan fyrirsjáanleika.

Enn fremur væri gott að uppfræða neytendur um að ákveðnar vörur séu árstíðabundnar og á sumum tímum árs þurfi að flytja matvörur um langan veg. Þetta geti leitt til þess að fleiri velji að kaupa staðbundna framleiðslu og sætti sig við að vöruúrvalið sé breytilegt.

Áskoranir í aukningu sjálfsaflahlutdeildar

Helstu hindranir í að efla sjálfsaflahlutdeild séu meðal annars ótryggur sölumarkaður sem komi í veg fyrir nýsköpun. Þó Íslendingar framleiði stóran hluta sinna matvara, þá eru innfluttar vörur oft ódýrari og keppa því íslenskir framleiðendur við alþjóðlegan markað.

Skýrsluhöfundar benda á þá miklu áherslu sem hefur verið á að efla útflutning íslenskra matvara. Það geti hins vegar oft verið á kostnað innlenda markaðarins. Þar sem stjórnvöld séu svo upptekin af útflutningi stórra aðila, vilji minni aðilar oft gleymast sem komi í veg fyrir vöruþróun.

Þá er matvælaframleiðsla Íslands sérstaklega háð innfluttum aðföngum, helst eldsneyti, áburði, fóðri og fræjum. Þá sé nánast allur búnaður til framleiðslunnar innfluttur. Íslensk kornframleiðsla standi einungis undir fjórum prósentum af fóðurþörfum landbúnaðarins. Skýrsluhöfundar hvetja stjórnvöld til að sjá til þess að alltaf séu til einhverjar birgðir af nauðsynlegum varningi komi til þess að innflutningur stöðvist.

Aðrar áskoranir felist í takmörkuðum pólitískum stuðningi, efnahagslegum hvötum, háum launakostnaði og takmörkuðum aðgangi að hæfu vinnuafli.

Aðstæður á Íslandi henta sérstaklega vel til grasræktar. Ein leið til að auka sjálfsaflahlutfall væri grasprótein- og graskögglaframleiðsla, en þá aukast notkunarmöguleikarnir og birgðasöfnun verður auðveldari.

Styrkleikar í grasrækt

Þá bendir Jóhannes á í samtali við Bændablaðið að aðstæður á Íslandi henti sérstaklega vel til grasræktar, en mikil daglengd á vaxtartíma stuðli að næringarríku heyi. Því geti grasköggla- eða graspróteinframleiðsla verið ein af þeim leiðum sem er hægt að fara til að auka sjálfsaflahlutfall – sérstaklega ef verksmiðjurnar eru knúnar með sjálfbærum innlendum orkugjöfum.

Graspróteinframleiðsla snúist um að draga próteinhlutann úr grasinu og nota sem alhliða fóður sem geti líka hentað svínum, á meðan graskögglar hafi mikla notkunarmöguleika fyrir jórturdýr, og einnig nokkra fyrir svín og hross. „Það eru möguleikar á að auka hlutdeild af grasi í fóðri og það væri mjög spennandi í samspili við aukna kornrækt.“

Þá geti graskögglar skipt mjög miklu máli ef til stendur að Ísland komi upp fóðurbirgðum, enda auðveldari í geymslu en ferskt hey. „Fæðuöryggi snýst að hluta til um að hafa einhverjar birgðir til að grípa til þegar illa árar, annaðhvort af náttúrunnar hendi eða af mannanna völdum.“

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...

Ágreiningur um áhrif veiða
Fréttaskýring 11. nóvember 2023

Ágreiningur um áhrif veiða

Samkeppni um rými og auðlindir geta valdið misklíð milli manna og dýra. Í tilfel...

Beislun sjávarorku handan við hornið
Fréttaskýring 20. október 2023

Beislun sjávarorku handan við hornið

Virkjun sjávarorku er á margan hátt aðlaðandi kostur í þeim orkuskiptum sem fram...

Orka sjávar óbeisluð
Fréttaskýring 19. október 2023

Orka sjávar óbeisluð

Engin verkefni eru í gangi á vegum stjórnvalda varðandi nýtingu sjávarorku hér v...

„Grænmetið sprettur ekki upp af sjálfu sér“
Fréttaskýring 12. október 2023

„Grænmetið sprettur ekki upp af sjálfu sér“

Óli Finnsson og Inga Sigríður Snorradóttir tóku við garðyrkjustöðinni Heiðmörk í...

Enginn hvati til framleiðsluaukningar
Fréttaskýring 6. október 2023

Enginn hvati til framleiðsluaukningar

Garðyrkjubændur í útiræktun grænmetis eru nú í óða önn við að ljúka uppskeru úr ...

Varnarlínur og niðurskurður ekki lengur einu tólin
Fréttaskýring 29. september 2023

Varnarlínur og niðurskurður ekki lengur einu tólin

Hér á landi hafa verið lagðar ýmsar takmarkanir á sauðfjárræktina til að hindra ...

Í sókn eftir erfiðleika
Fréttaskýring 8. september 2023

Í sókn eftir erfiðleika

Kornrækt virðist vera í sókn á nýjan leik og hefur ákvörðun stjórnvalda að setja...