Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Gunnar Björnsson, sauðfjárbóndi í Sandfellshaga í Öxarfirði, er atkvæðamesti
fósturtalningamaður landsins.
Gunnar Björnsson, sauðfjárbóndi í Sandfellshaga í Öxarfirði, er atkvæðamesti fósturtalningamaður landsins.
Fréttaskýring 1. maí 2025

Langvarandi áhrif ótíðarinnar koma í ljós

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Sauðfjárbændur glíma enn við veruleg áhrif af ótíðinni á síðasta ári. Að vori var ljóst að talsvert kal var í túnum á Norðurlandi og svo gekk óveður yfir í byrjun júní með kulda og hvassviðri. Bein áhrif og langvinn verða á bændur og bústofna þeirra, sem mun meðal annars skila sér í mun færri lömbum á komandi sauðburði.

Aðbúnaður kinda fyrstu vikurnar eftir burð 2024 – og þá sérstaklega í kuldakastinu fyrstu vikuna í júní – hafði mikil áhrif á undirbúning þeirra fyrir frjósemi næsta árs.

Beinu áhrifin á bústofninn voru þau að bæði misstu bændur gripi vegna þess að þeir náðust ekki inn í hús áður en óveðrið skall á, auk þess sem slæmt ástand túna leiddi til lakari heyfengs. Þau áhrif höfðu svo sitt að segja um fjölda og vænleika lamba – að minni afurðir í kílóum dilkakjöts voru í haust að meðaltali eftir hverja fullorðna kind, miðað við undanfarin ár. Það hafði svo bein áhrif á afkomu margra sauðfjárbænda það haustið.

Margþætt áhrif

Til lengri tíma birtast áhrifin með mismunandi hætti. Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður sauðfjárdeildar Bændasamtaka Íslands, segir að vitað sé að það inngrip að þurfa að taka ær og lömb aftur inn í hús svo dögum skipti hafi veruleg neikvæð heilsufarsleg áhrif til lengri tíma. Áhrifin séu sjáanleg í lakari frjósemi í vor, sem mun þó verða breytilegt á milli búa og allt eftir því hvernig heyfengur var. Sýnt hafi verið fram á að magn og gæði þess fóðurs sem notað var í vetur geti svo líka haft áhrif á þroskaferilinn hjá þeim lömbum sem fæðist í vor. Þá sé ljóst að ekki hafi allar ær með ónýt júgur fundist síðasta haust og því muni það koma í ljós í sauðburðinum á næstu vikum. Allt muni þetta hafa áhrif á framleiðsluna í ár en vonast sé eftir að hún geti orðið sambærileg síðasta ári, verði sumarið hagstætt. Margar breytur muni hins vegar hafa áhrif á hver lokaútkoman verður. Einn mælikvarði á frjósemi ánna, fyrir væntanlegt framleiðsluár, eru fósturtalningar og segist Eyjólfur hafa heyrt að útkoman úr þeim sé víða lakari en í meðalári.

Mun færri lömb væntanleg í vor

Gunnar Björnsson, sauðfjárbóndi í Sandfellshaga í Öxarfirði, er atkvæðamesti fósturtalningamaður landsins. Hann segir að almennt sé staðan þannig að víða hafi óveðrið haft veruleg áhrif á sauðfjárbændur, bústofn þeirra, afurðir og þar með afkomu. Þetta sé auðvitað mjög misjafnt milli bæja, en þar sem staðan sé verst hafi frjósemi í ám hrapað verulega. Tröllaskagann, Fljótin, hluta af Suður-Þingeyjarsýslu og Öxarfjörð nefnir hann sérstaklega. Þó hafi þetta ekki komið jafnilla niður á öllum bæjum, sumir hafi jafnvel alveg sloppið við veruleg eftirköst.

Hann segir að ljóst sé þegar hann horfi yfir heildina að þá séu mun færri lömb væntanleg í vor en vænta mætti við venjulegar aðstæður. Hann metur það þannig að á ýmsum þeim bæjum sem hvað verst koma undan ótíðinni sé það þannig, að ef venjan sé að fá tvö lömb eftir hverja kind sé hægt að búast við 1,8 í vor. Þannig sést að á þeim bæjum fækki lömbum um 20 fyrir hverjar 100 ær. Ef bú er með 400 kindur þá er ekki ólíklegt að um 80 færri lömb fæðist en mætti venjulega búast við.

Langflestir sauðfjárbændur láta telja fóstur

Hann segir að margt fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað afleiðinga af svona óveðri gæti lengi. Margar ær hafi farið illa út úr þessu og júgurskemmdir eigi eftir að koma frekar fram og því þurfi bændur margir hverjir að endurnýja sína bústofna í nánustu framtíð með tilheyrandi kostnaði og minni afurðum. Hann segist sjálfur hafa verið með um tveggja kílóa minni meðalvigt hjá sínum sláturlömbum síðasta haust, sem er bein afleiðing af ótíðinni. Það séu í heildina um 1,4 tonn af lambakjöti.

Hann áætlar að um 80 prósent sauðfjárbænda láti telja fóstur hjá sér á hverju ári og hann geri það um allt land í febrúar og mars.

Stjórnvöld gáfu út í byrjun apríl að bændur myndu fá tjónastuðning í kjölfar kuldakastsins á síðasta ári. Fá sauðfjárbændur bætur vegna beins afurða- og gripatjóns – og fá þær úr atvinnuvegaráðuneytinu – en Bjargráðasjóður bætir tjón á ræktarlöndum. Skaði bænda verður þó ekki að fullu bættur með þessari viðleitni stjórnvalda. Þeir sitja líka uppi með varanleg heilsufarsleg áhrif á ærnar og lengri tíma áhrifin á afurðirnar.

Skylt efni: óveður

Yfirborð sjávar hækkar – útlit er fyrir aukin sjávarflóð og landbrot
Fréttaskýring 6. júní 2025

Yfirborð sjávar hækkar – útlit er fyrir aukin sjávarflóð og landbrot

Yfirborð sjávar fer hækkandi og við blasir að Íslendingar þurfa að undirbúa sig ...

Horfur afar góðar í íslensku landeldi
Fréttaskýring 20. maí 2025

Horfur afar góðar í íslensku landeldi

Ef áætlanir ganga eftir hjá íslenskum fyrirtækjum í landeldi er ekki ósennilegt ...

Langvarandi áhrif ótíðarinnar koma í ljós
Fréttaskýring 1. maí 2025

Langvarandi áhrif ótíðarinnar koma í ljós

Sauðfjárbændur glíma enn við veruleg áhrif af ótíðinni á síðasta ári. Að vori va...

Lóum og spóum fækkar ógnvænlega
Fréttaskýring 16. apríl 2025

Lóum og spóum fækkar ógnvænlega

Heiðlóu og spóa fækkar ört. Ástæðan er rakin til samþættra áhrifa hér á landi, e...

Gömul saga og ný
Fréttaskýring 24. mars 2025

Gömul saga og ný

Í niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps matvælaráðuneytisins um fjárhagsvanda landbún...

Mikil þörf á afleysingafólki
Fréttaskýring 21. mars 2025

Mikil þörf á afleysingafólki

Mikil þörf er á fleira afleysingafólki fyrir bændur. Fáir virðast hafa afleysing...

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja
Fréttaskýring 12. mars 2025

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja

Dýraverndarsamtök Íslands telja að færa eigi stjórnsýslu dýravelferðar frá Matvæ...

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega
Fréttaskýring 25. febrúar 2025

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega

Dýrahræ og -leifar flokkast sem „aukaafurð dýra“ í regluverki úrgangsmála, sem e...