Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Horfur afar góðar í íslensku landeldi
Mynd / Samherji
Fréttaskýring 20. maí 2025

Horfur afar góðar í íslensku landeldi

Höfundur: Þröstur Helgason

Ef áætlanir ganga eftir hjá íslenskum fyrirtækjum í landeldi er ekki ósennilegt að ársframleiðsla eftir 10 til 15 ár verði um 150 til 200 þúsund tonn af laxi, að sögn Bjarka Más Jóhannssonar, formanns búgreinadeildar fiskeldisbænda. Heildar útflutningsverðmæti framleiðslunnar gætu numið allt að 150 til 220 milljörðum króna árlega.

Á síðustu árum hefur átt sér stað talsverð uppbygging á landeldisstöðvum hér á landi en í þeim er fiskur alinn upp í sláturstærð. Nú þegar hafa þrjú fyrirtæki hafið framleiðslu, að sögn Bjarka Más: „Samherji Fiskeldi hefur framleitt lax í Silfurstjörnunni á Núpsmýri í fjölda ára. First Water í Þorlákshöfn eru komnir í framleiðslu og slátra reglulega í sinni starfsstöð. Einnig er lax kominn í áframeldi hjá Laxey og gert er ráð fyrir að þeim laxi verði slátrað í haust. Seiðaeldi GeoSalmo hefur rekstur í sumar á Laugum í Landsveit.“

Nokkur önnur íslensk fyrirtæki eru komin vel af stað með hönnun og undirbúning sinna stöðva og gætu öll verið komin í framleiðslu innan tíu ára, bætir Bjarki Már við. „GeoSalmo og Thor fiskeldi, sem eru staðsett í Þorlákshöfn, verða vafalaust komin í framleiðslu þá. Einnig voru kynnt áform nýlega um væntanlegt eldi í Hvalfirði og telja má líklegt að þar verði einnig komin af stað framleiðsla innan þess tíma.“

Geti orðið í forystu á heimsvísu

Í skýrslu sem unnin var á vegum matvælaráðuneytisins árið 2023 um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi segir að „á Íslandi sé að finna tækifæri til að nýta þá náttúrulegu kosti sem landið hefur upp á að bjóða til að styðja við sjálfbæran vöxt í landeldi og að margt bendi til þess að íslenskt landeldi geti orðið í forystu á heimsvísu“. Þeir náttúrulegu kostir sem átt er við eru hlýr og hreinn sjór og endurnýjanleg orka á viðráðanlegu verði.

Í skýrslunni kemur einnig fram að ekki verði hægt að anna vaxandi eftirspurn eftir laxi með sjókvíaeldi og það sé meginástæða þess að áhugi og fjárfesting í landeldi hafi aukist á allra síðustu árum.

5–7% árleg aukning

Eftirspurn eftir laxi á heimsmarkaði hefur farið vaxandi, en hverjar eru horfur næstu tíu árin?

„Spár gera ráð fyrir um 5–7% árlegri aukningu á neyslu eldislax,“ segir Bjarki Már. „Ástæðurnar eru þær að fólk sækir sífellt meir í hollar og góðar fiskafurðir sem framleiddar eru á sjálfbæran og umhverfisvænan máta. Vöxtur í laxeldi í hefðbundnu sjókvíaeldi hefur verið lítill síðastliðin ár á heimsvísu og eftirspurn eftir vörunni hefur haldið áfram að aukast. Nýjar aðferðir við framleiðslu á laxi hafa verið í mikilli þróun síðastliðin ár og þær aðferðir sem íslensku fyrirtækin nýta sér, sökum einstakra aðstæðna á Íslandi þegar kemur að aðgengi að hreinum jarðsjó, landnæði og grænni orku, gera okkur kleift að framleiða umhverfisvæna fyrsta flokks vöru sem uppfyllir kröfur ströngustu kaupenda.“

Sleppur við sníkjudýraálag

Hefur sá vandi sem sjókvíaeldið hefur átt við að stríða og tengist einkum sýktum laxi haft áhrif á eftirspurn almennt?

„Eftirspurn eftir eldislaxi heldur áfram að aukast á heimsvísu,“ segir Bjarki Már. „Neytendur eru alltaf að verða meira upplýstir og margir hverjir eru kröfuharðari varðandi uppruna og framleiðsluaðferðir þeirra vara sem þeir kaupa. Þetta hefur vissulega leitt af sér aukinn áhuga á landeldislaxi. Landeldislax er framleiddur í lokuðum kerfum í mjög stýrðum aðstæðum. Fiskurinn sleppur við sníkjudýraálag og önnur vandamál sem herja á laxinn í hefðbundnu sjókvíaeldi.“

Krefst mikils stofnfjármagns

Hverjar eru helstu áskoranirnar við að koma þessari starfsemi á laggirnar?

„Landeldi á laxi er atvinnugrein sem krefst bæði mikils stofnfjármagns sem og langtíma fjárfestinga. Leyfisferlið á Íslandi er umfangsmikið og hafa sum fyrirtækjanna lent í því að afgreiðslutími stofnana hefur dregist mikið. Það er þó að vissu leyti skiljanlegt í ljósi þess að verkefnin sem um ræðir eru á óþekktum skala í íslensku umhverfi og mikilvægt að vanda vel til verka. Mikil tækniþróun hefur orðið á síðastliðnum árum og mikil sérhæfð þekking hefur orðið til hérlendis í greininni. Þrátt fyrir það er ljóst að með þeim fjölda verkefna sem eru í uppbyggingu verður mikil þörf fyrir hæft starfsfólk í framtíðinni og ljóst er að mikil tækifæri eru fyrir fólk sem hefur áhuga á að starfa í landeldisgreininni.“

Áskoranir í viðskiptaumhverfinu

Hefur reynst erfitt að sannfæra fjárfesta um að leggja pening í atvinnugreinina?

„Áhugi fjárfesta á greininni hefur farið ört vaxandi á síðastliðnum árum. Fjárfestingar á Íslandi hafa verið umfangsmiklar og fréttir síðastliðnar vikur sýna fram á áhuga bæði innlendra og erlendra aðila á að taka þátt í þessum verkefnum. Staðreyndin er sú að verkefnin eru stór og fjárfesta þarf til lengri tíma. Óvissuástand í heimsmálum hefur vissulega sett sinn svip á samtöl við fjárfesta en þrátt fyrir það gengur vel hjá fyrirtækjunum að sækja það fé sem til þarf og augljóst að verkefnin eru eftirsóknarverður fjárfestingarkostur.“

Hefur ástand í heimsviðskiptum áhrif, t.d. tollastríð?

„Alþjóðleg efnahagsóvissa hefur vissulega áhrif á alla útflutningsstarfsemi, en Íslendingar hafa þó sterka stöðu miðað við samkeppnisþjóðir þegar kemur að laxi. Ísland hefur greiðan aðgang að Evrópumörkuðum. Einnig eru mikil tækifæri á mörkuðum í Ameríku þar sem neysla á laxi hefur aukist verulega með aukinni heilsuvitund neytenda. Asíumarkaðurinn heldur áfram að stækka og mikil eftirspurn er eftir hágæða laxi. Kostir landeldis þegar kemur að markaðssetningu laxins eru, ásamt mörgum öðrum atriðum, hið stöðuga framboð sem stöðvarnar bjóða upp á. Mögulegt verður að slátra fiski daglega svo framboðið helst stöðugt til neytenda.“

Orkuþörf mikil

Orkuþörf landeldis er mikil og í því felst ákveðin áskorun.

„Það er rétt að landeldi á laxi krefst talsvert mikils af raforku fyrir reksturinn,“ segir Bjarki Már. „Flest fyrirtækin hafa þegar tryggt orku fyrir fyrstu fasa verkefnanna. Landeldisfyrirtækin eru stöðugir og fyrirsjáanlegir notendur á orku sem nýta orkuna á hagkvæman hátt.“

Er til nóg af orku fyrir alla þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á næstu árum?

„Það er mikilvægt að horfast í augu við það að raforkumál eru áskorun á Íslandi í dag, sérstaklega þegar rætt er um stór verkefni líkt og hér um ræðir. Hins vegar býr Ísland yfir miklum endurnýtanlegum orkukostum sem við verðum að nýta með ábyrgum hætti. Einnig er vel þess virði að fara í skoðun á verðmætasköpun hverrar kílóvattstundar sem seld er í annars konar framleiðslu á Íslandi, bæði með tilliti til útflutningsverðmæta sem og starfa sem orkunýtingin skapar. Til að tryggja framtíð landeldis er augljóst að setja þarf þessi mál í forgang til að tryggja orkuöryggi fyrir atvinnulífið.“

Horfur afar góðar

Niðurstaðan í fyrrnefndri skýrslu matvælaráðuneytisins er sú að þrátt fyrir að atvinnugreinin sé á mótunarstigi bendi margt til þess að landeldi hafi ýmsa kosti fram yfir sjókvíaeldi, t.d. bætta heilsu fiska, hraðari vöxt og möguleika á hærra afurðaverði á grundvelli sjálfbærari afurðar. Bjarki Már segir að horfur séu afar góðar í þessari atvinnugrein hér á landi:

„Ísland hefur einstakt forskot með hreinum vatnsauðlindum landsins, raforkuframboði og greiðum aðgangi að helstu mörkuðum með skipaflutningum. Ef haldið er rétt á spöðunum getum við orðið leiðandi í framleiðslu á hágæða landeldislaxi í heiminum. Þetta er tækifæri sem við eigum að nýta okkur, fyrir atvinnusköpun, verðmætasköpun og til að styrkja ímynd Íslands enn frekar sem leiðandi framleiðanda hreinna og sjálfbærra matvæla.

Mislangt komin en fjármögnun gengið vel

Í viðtölum við forsvarsmenn þeirra þriggja landeldisfyrirtækja sem þegar hafa hafið framleiðslu kemur fram að þau eru mislangt komin í uppbyggingu starfseminnar. Fjármögnun hefur gengið vel þótt þar séu vissulega áskoranir fyrir hendi. Þessi fyrirtæki eru að mestu leyti í eigu innlendra fjárfesta, þau eru komin stutt á veg með framleiðsluna en stefna á að hún aukist mikið á næstu 5 til 10 árum.

Samherji fiskeldi lokið fjármögnun

Samherji fiskeldi ehf., dótturfélag Samherja hf., sendi nýlega frá sér fréttatilkynningu um að hafa lokið fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs, nýrrar landeldisstöðvar við Reykjanesvirkjun, með útgáfu nýs hlutafjár og sambankaláni. „Fjármögnun fyrsta áfanga nemur 235 milljónum evra, jafnvirði 34 milljarða króna. Eitt hundrað ný störf verða til í stöðinni og annar eins fjöldi afleiddra starfa,“ segir í tilkynningunni.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og stjórnarformaður Samherja fiskeldis, segir í tilkynningunni að eldisgarður byggi á reynslu fyrirtækisins af landeldi í Öxarfirði. „Frá árinu 2023 höfum við fjárfest í stöðinni í Öxarfirði fyrir rúmlega fjóra milljarða króna. Sú fjárfesting fólst í stækkun og innleiðingu á nýrri tækni sem verður notuð í Eldisgarði. Árangurinn af þessum breytingum hefur ekki látið á sér standa og styrkir væntingar okkar um rekstur nýju landeldisstöðvarinnar. Öflugt teymi hefur í langan tíma unnið að undirbúningi þessa stóra og fjárfreka verkefnis og lagt grunninn að uppbyggingu landeldis í fremstu röð á heimsvísu. Ég er afskaplega stoltur af starfsfólki Samherja á þessum tímamótum og við teljum okkur vel í stakk búin að takast á við margfalt stærra landeldi,“ segir Þorsteinn Már.

Fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs er tvíþætt. Hún felst annars vegar í útgáfu nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi ehf. upp á 125 milljónir evra og hins vegar sambankaláni upp á 110 milljónir evra. Samherji hf., sem er í dag eigandi 99% hlutafjár í Samherja fiskeldi, mun leggja til um helming hlutafjáraukningarinnar á móti fjárfestingu frá hópi fjárfesta. Þar er um að ræða AF3 slhf. (framtakssjóð í rekstri Alfa Framtaks ehf.), CCap (hollenskt fjárfestingarfélag í fjölskyldueigu) og Snæból ehf. (íslenskt fjárfestingarfélag í fjölskyldueigu). Sambankalán upp á 110 milljónir evra er leitt af Íslandsbanka með þátttöku Landsbankans, Nordea og Eksfin – Eksportfinansiering i Noregi.

Í tilkynningunni segir að Samherji fiskeldi ehf. hafi stundað landeldi á bleikju og laxi í tvo áratugi. Fyrirtækið sé í dag stærsti bleikjuframleiðandi í heimi með um 30% markaðshlutdeild í bleikju. Frá árinu 2002 hafi Samherji fiskeldi framleitt meira en 60.000 slægð tonn af laxi og bleikju. Á síðustu árum hafi verið ráðist í umfangsmikla stækkun á núverandi landeldisstöðvum félagsins og hafi þær í dag árlega framleiðslugetu upp á 6.000 slægð tonn.

Jón Kjartan Jónsson.

Útflutningsverðmæti á þessu ári eru, að sögn Jóns Kjartans Jónssonar, framkvæmdastjóra fiskeldis Samherja, um 6,5 milljarðar króna. Hann segir tolla í Ameríku vera þeirra stærsta áskorun sem stendur. „Burt séð frá því hafa markaðir verið ágætir undanfarið og vel gengið að selja. Birgðir okkar í bleikju hafa til að mynda aldrei verið minni.“

Jón Kjartan segir að heilbrigði fisksins hjá þeim sé með allra besta móti. „Þar sem er verið að ala dýr í miklu magni koma alltaf upp sjúkdómar öðru hverju.Ef einhver óværa kemur upp eru það yfirleitt minni háttar kvillar í mjög afmörkuðum hluta lífmassans.“

First Water að byggja fyrsta áfanga
Eggert Þór Kristófersson.

Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri First Water, segir að fyrirtækið sé að byggja fyrsta áfanga af sex og stefnt sé að því að klára hann fyrir sumarið 2026. Hann skili framleiðslu á 8.500 tonnum af 5 kg slægðum laxi á ári. Um 3.000 tonn verða framleidd á þessu ári en þegar allir sex áfangarnir eru tilbúnir árið 2030 eða 2031 mun fyrirtækið framleiða 50.000 tonn á ári.

Fyrsti áfanginn er fullfjármagnaður og hefur fjármögnun gengið vel þó að áskoranir séu vissulega til staðar, að sögn Eggerts Þórs:

„Þetta er ný atvinnugrein sem þarf að kynna vel og sannfæra fjárfesta um en einnig eru markaðsaðstæður erfiðar, háir vextir og tollastríð, sem hefur áhrif á sjálfstraust fjárfesta sem er lítið þessa dagana.“

Sem stendur eru íslenskir fjárfestar og íslenskir bankar 99% þeirra sem hafa fjárfest í fyrirtækinu.

Áætlað útflutningsverðmæti framleiðslunnar á þessu ári fer vitanlega eftir verði á laxi en hver áfangi skilar útflutningsverðmæti upp á 70 milljónir evra, eða 11 milljarða íslenskra króna.

Eggert Þór segir að tollastríð hafi áhrif á markaði. „En Noregur er stærsti framleiðandi af eldislaxi og markaðsverð sveiflast mikið eftir því hvernig tekst til hjá Norðmönnum. Eftirspurn eftir laxi er að vaxa um 3–5% á ári sem er mjög jákvætt og þetta er markaður sem er um 3.4 milljónir tonna á þessu ári.“

Eru sjúkdómar að hrjá fiskinn?

„Í tæplega 3 ár sem við höfum verið að ala upp lax hafa engir sjúkdómar komið upp sem hafa haft áhrif á laxinn hjá First Water og erum við búin að slátra yfir 2.000 tonnum af hágæða laxi með undir 3% afföllum (mortality) og yfir 94% hefur verið í efsta gæðaflokki (superior).“

Laxey með fullkláraða seiðaeldisstöð

Laxey í Vestmannaeyjum eru með fullkláraða seiðaeldisstöð sem er komin í fullan rekstur og framleiðir 4,6 milljón seiða á ári. Í fyrsta áfanga áframeldis er búið að reisa átta 5.000 rúmmetra fiskeldisker. Fjögur þeirra eru komin í notkun en næstu fjögur fara í notkun í júlí. Einnig er búið að byggja helstu þjónustubyggingar eins og rafmagns-, fóður- og stjórnstöð, vatnsinntakshús, vinnsluaðstöðu og stórseiðahús sem hefur 6.900 rúmmetra fiskeldisker innadyra.

Lárus Ásgeirsson.

Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Laxeyjar, segir að þegar séu komnir fimm skammtar af seiðum og sex væntanlegir. „Tveir af þeim eru komnir í áframeldið. Undirbúningur fyrir annan áfanga í áframeldinu er hafinn þar sem byggð verða í sumar átta 5.000 rúmmetra fiskeldisker til viðbótar ásamt þjónustuhúsi.“

Lárus segir að starfsemin sé fullfjármögnuð, sem og næsti áfangi í uppbyggingunni.

„Í byrjun maí lauk félagið við hlutafjáraukningu upp á fimm milljarða króna, eða um 35 milljónir evra, til að fjármagna annan áfanga í áframeldinu. Samhliða þeirri fjármögnun hefur LAXEY gert langtímasamkomulag við Arion banka sem felur í sér bæði endurfjármögnun og stækkun lánalína vegna fyrsta áfanga, auk nýrrar lánsfjármögnunar til að styðja við annan áfanga verkefnisins.

Heildarfjármögnun sem tryggð hefur verið með þessari blöndu hlutafjár og lánsfjár nemur alls nítján milljörðum króna (um 130 milljónum evra) og endurspeglar sterkt traust fagfjárfesta á framtíðarsýn félagsins. LAXEY hefur frá stofnun safnað yfir sautján milljörðum króna í hlutafé.

Hlutafjáraukningin vegna annars áfanga var studd af núverandi hluthöfum, en einnig bættust við öflugir nýir fjárfestar. Hluthafahópur félagsins er fjölbreyttur og reyndur, bæði innlendir og erlendir fjárfestar taka þátt, en fjölskylda Sigurjóns Óskarssonar í Vestmannaeyjum er áfram leiðandi fjárfestir í félaginu.“

Hvernig hefur fjármögnun gengið?

„Fjármögnunin hefur gengið mjög vel og sérstaklega eftir því sem líður á þróun fyrirtækisins. Eftir því sem við höfum náð fleiri áföngum á réttum tíma hefur trú og traust fjárfesta á verkefninu aukist til muna. Þetta hefur gert okkur kleift að tryggja fjármagn á hagstæðum kjörum og með fjölbreyttum hópi fjárfesta, sem endurspeglar vaxandi styrk og trúverðugleika félagsins.“

Hverjar eru helstu áskoranir í fjármögnun starfseminnar?

„Í upphafi fólust helstu áskoranirnar í því að sannfæra fjárfesta um möguleika verkefnisins og framtíðarsýn þess. Sem nýtt félag með metnaðarfulla áætlun var mikilvægt að skapa traust og sýna fram á framkvæmanleika hugmyndarinnar. Það krafðist mikillar vinnu í að kynna verkefnið og rökstyðja áætlanir, sérstaklega þar sem um nýja nálgun í landeldi var að ræða.

Eftir því sem Laxey hefur náð lykiláföngum samkvæmt áætlun, hefur traust fjárfesta aukist og áskoranirnar í fjármögnun minnkað verulega. Þetta hefur gert félaginu kleift að tryggja fjármagn frá sterkum aðilum og á hagstæðari kjörum.“

Hvert er hlutfall innlendra og erlendra fjárfesta hjá ykkur?

„Um það bil 20% eru í eigu erlendra aðila. Allir erlendu aðilarnir hafa mikla reynslu í fiskeldi eða eru hluti af virðiskeðju laxeldis og eru fjölskyldufyrirtæki.“

Hversu mikið verður framleitt á árinu?

„Við gerum ráð fyrir að fyrsta slátrun fari fram í nóvember á þessu ári og nemi um 900 (LWE) tonnum. Þetta markar mikilvægan áfanga í starfsemi félagsins, þar sem þessi seiðahópur kom í nóvember 2023 og er sá fyrsti sem hefur farið í gengum allt eldisferlið, frá hrogni til slátrunar.“

Hvað sjáið þið fyrir ykkur að framleiðslan aukist mikið á næstu árum?

„Á næsta ári gerum við ráð fyrir 5.100 (LWE) tonnum sem mun svo aukast jafnt með tilkomu fleiri framleiðslueininga. Stefnt er að því að ná fullum afköstum, eða 42.000 (LWE) tonnum á ári, árið 2032.

Hvert er áætlað útflutningsverðmæti framleiðslunnar á þessu ári?

„Á þessu ári gerum við ráð fyrir að verðmætin séu um 800 milljónir.“

Hverjar eru helstu áskoranir og tækifæri á markaði?

„Markaðsaðstæður hafa að mestu verið jákvæðar, þó með tímabundnum sveiflum. Verð hefur sveiflast að einhverju leyti, m.a. vegna ytri þátta eins og tolladeilna Bandaríkjanna, en nú virðist vera kominn ákveðinn stöðugleiki og verð að færast í eðlilegt horf. Þrátt fyrir slíkar sveiflur er eftirspurnin eftir laxi áfram mikil. Lax er alþjóðleg og eftirsótt afurð sem nýtur sívaxandi vinsælda á öllum tímum dags, hvort sem er til morgunverðar, hádegis- eða kvöldmáltíða. Lax hefur náð að festa sig í sessi sem heilbrigt og fjölhæft próteinval. Helstu tækifæri felast í aukinni eftirspurn á helstu mörkuðum, sérstaklega í Norður-Ameríku og Asíu, sem og í vaxandi áherslu á sjálfbæra matvælaframleiðslu. Áskoranir felast helst í sveiflum á markaði, verðbreytingum á fóðri og öðrum aðföngum og flutningskostnaði.“

Eru sjúkdómar að hrjá fiskinn?

„Nei, við höfum ekki glímt við sjúkdóma í starfseminni. Við búum við og höfum hannað einstakt lokað og öruggt kerfi með mjög háu líföryggi sem lágmarkar líkur á smiti. Við erum einir á eyjunni. Seiðastöðin okkar er RAS-stöð (Recirculating Aquaculture System) þar sem við hreinsum allt vatn áður en það kemst í snertingu við seiðin og náum að stjórna helstu breytum í umhverfi seiðanna, sem tryggir öruggt og stöðugt umhverfi fyrir seiðin.

Í áframeldi eru öll fiskeldisker yfirbyggð og notum við sjó sem kemur úr borholum við Vestmannaeyjar. Þetta vatn hefur ekki verið í snertingu við aðrar sjávarlífverur og er náttúrulega síað í gegnum hraunlög, sem gerir það einstaklega hreint og öruggt til fiskeldis. Þetta skapar kjöraðstæður fyrir heilbrigðan vöxt og dregur úr líkum á sjúkdómum eða sýkingum.

Öll hönnun og starfsemi Laxeyjar miðar að því að tryggja hátt öryggisstig, með það að markmiði að vernda líföryggi og lágmarka líkur á smiti.“

Skylt efni: landeldi

Yfirborð sjávar hækkar – útlit er fyrir aukin sjávarflóð og landbrot
Fréttaskýring 6. júní 2025

Yfirborð sjávar hækkar – útlit er fyrir aukin sjávarflóð og landbrot

Yfirborð sjávar fer hækkandi og við blasir að Íslendingar þurfa að undirbúa sig ...

Horfur afar góðar í íslensku landeldi
Fréttaskýring 20. maí 2025

Horfur afar góðar í íslensku landeldi

Ef áætlanir ganga eftir hjá íslenskum fyrirtækjum í landeldi er ekki ósennilegt ...

Langvarandi áhrif ótíðarinnar koma í ljós
Fréttaskýring 1. maí 2025

Langvarandi áhrif ótíðarinnar koma í ljós

Sauðfjárbændur glíma enn við veruleg áhrif af ótíðinni á síðasta ári. Að vori va...

Lóum og spóum fækkar ógnvænlega
Fréttaskýring 16. apríl 2025

Lóum og spóum fækkar ógnvænlega

Heiðlóu og spóa fækkar ört. Ástæðan er rakin til samþættra áhrifa hér á landi, e...

Gömul saga og ný
Fréttaskýring 24. mars 2025

Gömul saga og ný

Í niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps matvælaráðuneytisins um fjárhagsvanda landbún...

Mikil þörf á afleysingafólki
Fréttaskýring 21. mars 2025

Mikil þörf á afleysingafólki

Mikil þörf er á fleira afleysingafólki fyrir bændur. Fáir virðast hafa afleysing...

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja
Fréttaskýring 12. mars 2025

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja

Dýraverndarsamtök Íslands telja að færa eigi stjórnsýslu dýravelferðar frá Matvæ...

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega
Fréttaskýring 25. febrúar 2025

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega

Dýrahræ og -leifar flokkast sem „aukaafurð dýra“ í regluverki úrgangsmála, sem e...