Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Mikill vöxtur var í rauðkálsræktun á síðasta ári.
Mikill vöxtur var í rauðkálsræktun á síðasta ári.
Mynd / Vallakot
Fréttaskýring 6. október 2023

Enginn hvati til framleiðsluaukningar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Garðyrkjubændur í útiræktun grænmetis eru nú í óða önn við að ljúka uppskeru úr görðum sínum. Ef að líkum lætur verður heildaruppskera á landinu svipuð og á undanförnum árum, bæði hvað varðar magn og tegundir. Sú hefur nefnilega verið raunin, uppskerumagn frá 2017 hefur verið á bilinu 13 þúsund tonn og upp í 15.500 tonn þegar skoðaðar eru uppskerutölur helstu ræktunartegunda í úti- og ylrækt.

Þetta er staðan þó að í núgildandi búvörusamningum frá 2016 sé tiltekið að markmið samkomulagsins sé að við endurskoðun hans árið 2023 hafi framleiðsla á íslensku grænmeti aukist um 25 prósent, miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019, í því miði að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu.

Stuðningur ekki aukinn

Seinni endurskoðun búvörusamninga á sum sé að ljúka á þessu ári. Garðyrkjubændur hafa sérstaklega lýst yfir vonleysi um gang viðræðna við samninganefnd stjórnvalda um starfsskilyrði þeirra.

Vonir þeirra um framgang í viðræðunum voru svo endanlega blásnar út af borðinu við birtingu fjárlagafrumvarps, nú á upphafsdögum Alþingis, en þá varð ljóst að ekki ætti að auka stuðninginn við þennan hluta íslenskrar matvælaframleiðslu.

Ítrekuð vilyrði stjórnvalda um frekari stuðning

Á undanförnum misserum hafa ítrekað komið fram vilyrði stjórn­valda um frekari stuðning við íslenska garðyrkju svo auka megi framleiðslu á íslensku grænmeti og hlutdeild þess á innlendum markaði í átt að fæðuöryggi fyrir Ísland.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar­innar er sérstaklega tiltekið að við endurskoðun búvörusamninga verði lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Stuðningur hins opinbera verði samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis­ og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. „Aukinni framleiðslu á grænmeti verður náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun í gegnum búvörusamninga,“ segir í stjórnarsáttmálanum frá árinu 2021.

Garðyrkja er meðal loftslags­vænstu greinum landbúnaðar á Íslandi. Þar er augljós skortur á fjölbreytni í ræktun auk þess sem framboð innlendrar framleiðslu hefur verið metið tæplega helmingur þess framboðs af grænmeti sem stendur íslenskum neytendum jafnan til boða og hefur lítið þokast upp á við.

Ekki sköpuð skilyrði til vaxtar

Sem fyrr segir er í markmiðum núgildandi búvörusamninga, um starfsskilyrði garðyrkjubænda, gert ráð fyrir að nú við endurskoðunina hafi framleiðsla á íslensku grænmeti aukist um 25 prósent miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019, til að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Það hefur ekki náðst eins og sjá má hér í meðfylgjandi töflu yfir framleiðslumagn helstu tegunda í úti­ og ylræktun á Íslandi.

Hvorki 2020 né 2021 var framleiðsluaukningu náð. Fram­ leiðslan dróst þá saman frá viðmiðunarárunum. Árið 2020 var framleiðslan tæpu einu prósenti undir meðaltali áranna 2017–19 og árið 2021 var hún um sjö prósentum undir meðaltalinu. Á síðasta ári varð aukning um þrjú prósent á framleiðslu þessara 13 tegunda sem Hagstofa Íslands tekur saman gögn um. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2028, og birt var í apríl á þessu ári, var gert ráð fyrir að skilyrði verði sköpuð til að framleiðsla á útiræktuðu og ylræktuðu grænmeti geti aukist um 25 prósent. Að í útiræktun geti framleiðslan farið úr 11.70 tonnum í 14.60 tonn og í ylræktinni úr 3.485 tonnum í 4.350 tonn.

Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands. Mynd/Espiflöt

Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bænda­ samtökum Íslands, segir að því miður virðist sem ríkisstjórnin hafi horfið frá þessum áformum – ekki verði sköpuð skilyrði til slíks vaxtar án frekari fjárhagslegs stuðnings við greinina.

„Það kemur fram bæði í stjórnarsáttmála og fjármálaáætlun að það eigi að bæta verulega í garðyrkjuna á næstu árum. Stóra ástæðan var hvað garðyrkja er loftslagsvæn og breyttar neysluvenjur almennings. Þessu átti að ná með því að festa niðurgreiðsluhlutfall á dreifingarkostnaði rafmagns við 95 prósent og með sérstökum stuðningi til útiræktunar. Einnig átti að koma með aðgerðaráætlun til stuðnings lífrænnar framleiðslu til að fá bændur til að færa sig í þá átt sem og fá nýja inn í greinina. Þá var gert ráð fyrir að dreifingarkostnaður raforku yrði sérstaklega skoðaður við endurskoðun á þessu ári,“ segir Axel.

Fá engan hljómgrunn hjá ráðuneytinu

„Staðan er ekki góð, við fáum engan hljómgrunn innan ráðuneytisins. Hvorki aukið fjármagn né að gera áherslubreytingar á samningnum. Samninganefnd ráðherra er með skýr skilaboð að það standi ekki til að gera neinar breytingar á endurskoðun. Við getum fært fjármagn milli liða innan samnings, annað ekki,“ heldur Axel áfram.

„Áherslur okkar eru að gera samninginn á þá vegu að hann sé hvetjandi fyrir framleiðendur og tryggi betur rekstrargrundvöll garðyrkjubænda. Til dæmis með því að festa niðurgreiðslu á dreifingarkostnaði raforku í 95 prósentum í stað þess að þetta sé pottur sem þynnist út, eins og raunin er núna. Sama á við um útiræktunina, við myndum vilja breyta þessum greiðslum til bænda sem miðast við hvern hektara sem þeir rækta. Þær eru letjandi á frekari framleiðslu. Þær koma úr einum potti og lækka um leið og einhver eykur framleiðsluna. Einnig viljum við að stuðningur til lífrænnar ræktunar verði á hærri stuðlum þannig að lífrænir ræktendur séu samkeppnisfærari á markaði.

Erfið samkeppni

Axel segir að í raun sé af nægu að taka þegar kemur að því að taka til í kerfinu. „Við erum í beinni samkeppni við erlendar garðyrkjustöðvar sem ná fram mikilli hagræðingu þar sem þær eru margfalt stærri en stærstu garðyrkjustöðvar hér á landi og með ódýrara vinnuafl. Íslenskt grænmeti er gæðavara sem er að verða ósamkeppnishæf við innflutt grænmeti vegna þess hversu dýrt það er í framleiðslu.“

Fyrirkomulaginu var breytt árið 2002, þannig að í stað tollverndar voru teknar upp beingreiðslur frá ríkinu. Ræktendur á gúrkum, tómötum og papriku fá þannig beingreiðslur til að eiga möguleika á að keppa í verði við sambærilegar innfluttar vörur, auk þess sem dreifingarkostnaður á raforku er greiddur niður af ríkinu.

„Ylræktað grænmeti er í beinni samkeppni við innflutt grænmeti, engir tollar. Svo eru tollatímabil á annan innflutning þar sem tollar koma á þegar uppskerutímabil eru í gangi hér á landi og fram eftir vetri eftir því hve hægt er að geyma grænmetið lengi.

Hann segir að í ylrækt sé launakostnaður orðinn langstærsti einstaki kostnaðarliðurinn, um 40 prósent, og raforkukostnaður um 15–20 prósent af rekstrarkostnaði. Áburðarkostnaður sé ekki hár af heildinni í ylrækt en verulegur kostnaður í útirækt,“ segir Axel.

Smærri framleiðendum hefur fækkað

Axel heldur áfram gagnrýni sinni á stuðningsfyrirkomulagið. „Í okkar kerfi virkar bara lögmálið að því meira sem er framleitt því minni stuðningur, þar sem fjármagnið er pottur sem þynnist út þegar meira er framleitt.

Þrátt fyrir þennan stuðning þurfa garðyrkjubændur að fá töluvert hærra verð fyrir sína vöru en það innflutta. Hvatinn til að framleiða meira er ekki til staðar og líklegra að stórir framleiðendur haldi velli þar sem þeir ná einhverri hagræðingu í gegnum stærðina. Þetta hefur leitt af sér að smærri framleiðendum hefur fækkað síðustu ár.

Sama má segja um annað ylræktað grænmeti, en þar er potturinn mun minni og má í raun segja að þeir bændur sem rækta salat séu þeir einu sem hafa náð að hagræða og vera samkeppnishæfir á markaði.“

Sjálfur er Axel blómræktandi á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reyk­ holti. „Ylræktendur í blómafram­ leiðslu og pottablómaframleiðslu fá dreifingarkostnað á raforku niðurgreiddan eins og aðrir og eru svo varðir með tollaumhverfi. Ekki öll blóm bera toll en þau sem gera það eru með 95 krónu stykkjatoll og 30 prósent toll ofan á það. Pottablóm er með 200 krónu stykkjatoll og svo 30 prósent toll ofan á það.

Útiræktendur fá greitt úr ákveðnum potti á hvern hektara sem þeir rækta. Þar er sama letjandi fyrirkomulag og með niðurgreiðslukerfið vegna raforkudreifingu; eftir því sem fleiri hektarar eru ræktaðir lækka greiðslurnar,“ útskýrir Axel.

Bændurerunúíóðaönnviðaðljúkauppskeruúrgörðumsínum. Mynd/Vallakot

Stoltir af framleiðslunni

Íslenskir garðyrkjubændur eru, að sögn Axels, afar stoltir af sinni framleiðslu og það er margt sem veldur. „Hreinleiki vörunnar er mikill, það eru afar fá ríki sem geta leyft sér að nota drykkjarvatn til framleiðslu grænmetis, nota græna orku bæði í formi hitunar gróðurhúsa og svo lýsingar.

Varnarefnanotkun er lítil sem engin þar sem skordýr þrífast illa hér á landi og því lítið sem ekkert af þeim í gróðurhúsum og auðvelt að ráða við það með notkun lífrænna varna. Einnig fær starfsfólk hér á landi mannsæmandi laun fyrir sína vinnu. Allt eru þetta atriði sem skipta miklu máli í nútímasamfélagi en vegna smæðar íslensks markaðar, hnattrænnar stöðu og launakostnaðar verðum við seint samkeppnishæf við innfluttar garðyrkjuafurðir.“

Mikilvæg fæðuöryggi landsins

Axel telur að með góðri umgjörð ættu Íslendingar að geta verið sjálfbærir í nánast öllu grænmeti, en staðreyndin sé að við náum rétt rúmlega 60 prósent af þeim tegundum sem við framleiðum, en þegar allt grænmeti er skoðað erum við nær 40 prósent framboðsins á Íslandi.

„Eins og stjórnvöld tala og við vitum þá er garðyrkjan mikilvæg þegar kemur að fæðu­ og matvælaöryggi þjóðarinnar.

Hér eru allar þær auðlindir sem þarf til að framleiða hágæða garðyrkjuafurðir.

Við trúum því að neytendur vilji að garðyrkjuafurðir komi úr nærumhverfi, hafi lítið kolefnisspor, gangi ekki á auðlindir landsins, sé hollt og næringarríkt og sé á sanngjörnu verði.

Við viljum ekki að íslenskt grænmeti verði lúxusvara sem er ekki fyrir alla. Íslenskt grænmeti þarf að standast samkeppni í verði til að verslunin fari að velja að framsetja það fram yfir innflutt grænmeti.“

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...