Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Ólafur Arnalds bendir á að samspil nokkurra þátta valdi jarðvegsrofi. Landnýtingin, þar á meðal beitin, er eini þátturinn sem við höfum stjórn á. Með því að friða viðkvæm svæði eykst viðnámsþol
gagnvart náttúrulegum áföllum, á borð við gjóskufall og kuldatíð. Hér sést viðkvæmt svæði skammt frá Þingvallavatni sem nýtt er til sauðfjárbeitar.
Ólafur Arnalds bendir á að samspil nokkurra þátta valdi jarðvegsrofi. Landnýtingin, þar á meðal beitin, er eini þátturinn sem við höfum stjórn á. Með því að friða viðkvæm svæði eykst viðnámsþol gagnvart náttúrulegum áföllum, á borð við gjóskufall og kuldatíð. Hér sést viðkvæmt svæði skammt frá Þingvallavatni sem nýtt er til sauðfjárbeitar.
Mynd / Áskell Þórisson
Fréttaskýring 16. júní 2023

Áhrif beitar: Beit á ekki við í viðkvæmum vistkerfum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ólafur Gestur Arnalds er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann lærði jarðvegsfræði við Montana State University og útskrifaðist með doktorspróf á því sviði frá Texas A&M University árið 1990.

Ólafur Gestur Arnalds hefur beitt sér fyrir að varlega sé farið í beit í viðkvæmum vistkerfum. Mynd/Aðsend

Á þessu ári kom út eftir hann bókin Mold ert þú, rúmlega 500 blaðsíðna ritverk sem gefur glögga mynd af jarðvegi og íslenskri náttúru. Hann hefur í gegnum tíðina fengist við greinar tengdar beitarfræðum og ástandi vistkerfa á Íslandi. Ólafur telur of algengt að viðkvæm vistkerfi séu nýtt til sauðfjárbeitar.

Beit viðheldur slæmu ástandi

Hann segir hóflega beit ekki hafa mikil áhrif á vistkerfi sem eru í góðu ástandi og hafa mörg vistkerfi þróast í milljónir ára samhliða ágangi beitardýra. „Það á ekki við á Íslandi,“ segir Ólafur. Hér á landi sé gríðarlega viðkvæmt vistkerfi, sem hafi verið án spendýra sem bíta gras fyrir landnám. Mörg af þurrlendisvistkerfunum hérlendis höfðu kjarrgróður, þ.e. birki og víði, sem voru ákaft nýtt eða reynt að losna við til að fá beitarhaga.

„Það gerði vistkerfin á þurrlendi mun viðkvæmari en ella fyrir álagi hvers konar, eins og beit, en líka eldgosum og kuldaköstum.

Fólk á síðmiðöldum upplifði jafnvel tíu stiga frost í júlí einhverja morgna. Þegar þetta allt lagðist saman í landi, þar sem fólksfjöldinn fór eftir því hversu mikla fæðu var hægt að framleiða á hverjum tíma, þá þýðir það að nýtingarstigið var alltaf rosalega hátt, ekki síst þegar fólki fór að fjölga. Beitin er meginþáttur í að valda jarðvegsrofi á undanförnum öldum og beitin er meginþáttur í að viðhalda slæmu ástandi lands,“ segir Ólafur.

Beit raskar viðnámsþoli

Ólafur segir að samspil nokkurra þátta valdi jarðvegsrofi. Hins vegar er landnýtingin, þ.á m. beitin, eini þátturinn sem við höfum stjórn á. Vistkerfi Íslands verður reglulega fyrir náttúrulegum áföllum, á borð við gjóskufall eða kuldatíð. „Þegar er búið að raska viðnámsþoli vistkerfanna með nýtingunni, þá verða afleiðingar af náttúrulegum áföllum miklu meiri. Þetta eru samverkandi þættir, þar sem landnýtingin er umliggjandi og allt um kring.“

Í sterku vistkerfi segir Ólafur að beit geti styrkt gróðurþekjuna, sé hún hófleg. Einkennist vistkerfið hins vegar af óþéttri gróðurþekju, þar sem lítið er um æðplöntur á borð við grös, þá á beit ekki við. Þar geti kerfið orðið fyrir miklum skakkaföllum við minnstu beit. Ólafur segir oft miklar breytingar verða á vistkerfum við minnkaða beit eða friðun. Þau kerfi sem einkennast af lyngtegundunum, sem er mjög víða að finna á hálendum grónum vistkerfum, sé í raun beitarlandslag, því það er búið að beita út þær tegundir sem sauðféð sækist eftir. „Þess vegna erum við búin að búa til mikið af rýrum lyngmóum sem einkenna landið.

Þeir geta þótt eftirsóttir sem slíkir og eru víða búsvæði viðkvæmra fuglastofna.“

Ódýrast að friða

Ólafur segir viðkvæmustu vistkerfin hérlendis vera meira og minna í mjög hnignuðu ástandi, eða horfin. Það séu hins vegar til vistkerfi í prýðilegu ástandi þar sem beitarnýting eigi vel við, en Ólafur telur of algengt að alhæft sé um mismunandi vistkerfi og þau sett í sama flokk.

„Það sem við þurfum að fókusera á er að bæta ástand þess lands sem er í versta ástandi. Þar sem ástand er slæmt á að friða – skilyrðislaust,“ segir Ólafur og bætir við að sauðfjárbeit geti ekki bætt ástand viðkvæms lands. Ódýrasta og skynsamasta leiðin til að endurheimta hnignað vistkerfi sé að stöðva beit. Ólafur tekur þó fram að bændur séu mjög öflugir í að rækta landið með uppgræðslu og áburðargjöf, en það sé mjög kostnaðarsöm leið. „Það er ekki siðferðilega rétt að níðast á landi sem er í slæmu ástandi. Beitin á ekki alltaf að vera aðalatriðið, heldur ástand landsins. Í þessu samhengi eru til staðar önnur sjónarmið sem fara líka ansi hátt í dreifbýlissamfélaginu í dag. Það eru þessi meintu réttindi um að beita megi allt land – að sauðkindin eigi rétt á frjálsri för um allt landið. Eftir úrskurð umboðsmanns Alþingis er orðið ljóst að það er röng túlkun. Það er hugsunarháttur aftan úr öldum og alveg komin tími til að taka á þessu vandamáli.“

Við erum á gatnamótum

Ólafur segir að árið 1998 hafi jarðvegsrof verið kortlagt yfir allt landið. Þar segir hann jarðvegsrofið hafa verið metið mjög mikið á stórum hluta landsins. Í kjölfarið hafi landnýtingarþátturinn í gæðastýringunni í sauðfjárrækt verið þróaður þar sem átti að tryggja að beitin einskorðaðist við land í góðu ástandi. Þeir sem það gerðu áttu að fá hærri styrki.

„En kerfið brást fullkomlega og er falskt, í raun ónýtt með öllu, því það fá allir bætur án tillits til beitarhátta. Samkvæmt kerfinu er ekki heimilt að beita á aðra án leyfis. Þeir sem verða hins vegar fyrir slíkri beit fá enga úrlausn og allir fá áfram greitt eins og ekkert hafi í skorist. Það er ekki hægt að benda á neinn farveg í stjórnsýslunni hvernig er hægt að taka á þessum málum. Með þessum nýjustu vendingum og úrskurði umboðsmanns Alþingis og dómsmálaráðuneytisins er ljóst að sveitarfélögin standa fyrir rosalegri dílemmu. Við erum á gatnamótum. Það er ljóst að það þarf að taka aðra stefnu. Þegar nýr kúrs er tekinn er mjög æskilegt að ástand landsins verði haft að leiðarljósi. Það er hægt! Ég hef ekkert á móti sauðfjárbeit þar sem er fallega gróið land og bóndinn á sannarlega rétt á að nýta það. Landgræðslan og sauðfjárbændur standa að verkefninu Grólind. Þar eru til upplýsingar, sem batna ár frá ári, um ástand lands, þannig að það er hægt að verða miklu markvissari í stýringu á beitarnýtingu á Íslandi.“

Tekur langan tíma

„Þessi kerfi eru oft í afar hnignuðu ástandi, með kolefnisforða sem hefur gengið gríðarlega mikið á. Við friðun breytist þetta, en við megum ekki gleyma því að það tekur mjög langan tíma að endurheimta landkosti.

Okkur hættir til að hugsa í árum eða áratugum – mannsævin er svo stutt. Þegar við erum komin hátt upp til fjalla þurfum við að hugsa í árhundruðum, því þessi kerfi eru svo svifasein, það er svo kalt og það er svo lítil umsetning.“

Ólafur segir að mosi taki ekkert endilega yfir þegar landsvæði er friðað fyrir beit. Vistkerfin og tegundasamsetningin taki hins vegar breytingum. „Blómplöntur og grös fara síðan að vera meira áberandi í þessum kerfum, sé ekki búið að útrýma þeim. Þetta er það sem sést við friðun úti um allt.“
Aðspurður út í rannsóknir á þessu málefni, segir Ólafur að vandamálið í þessum efnum sé tíminn. Fólk sé hins vegar búið að friða land úti um allt og þar sjáist þróunin á landinu. „Þú setur ekki upp girðingu og kemur svo þremur árum, eða jafnvel tíu árum, seinna og dregur einhverjar stórfenglegar ályktanir um hvað er að gerast. Það er hægt að horfa á land sem hefur verið lítið notað um langa hríð og bera það saman við land sem hefur verið mikið notað. Svo eru til eyjar, klettasyllur og annað sem hafa notið algerar friðunar, í landi sem er handónýtt, og þá kemur í ljós að þar vex kannski birkiskógur. Það er engum blöðum um þetta að fletta og ég held að flestir vistfræðingar landsins séu á einu máli, þó það séu ekki allir.

Þetta er hitamál af því það tengjast þessu hagsmunir, en þetta er ekki hitamál innan vistfræðinnar. Það eru þessir beitarhagsmunir og rómantísk „ítök“ sauðkindarinnar í hugum margra sem gera að verkum að það verða skiptar skoðanir.“

Nýta af skynsemi

„Það eru mörg svæði á Íslandi þar sem beit hefur verið hætt. Eftir því sem beitarálag minnkar á svæðum, þá eykst framleiðni og gróðurhula í landinu. Það er ekki þar með sagt að við eigum að hætta að nýta landið. Við eigum að gera það af skynsemi og ekki nýta land sem er í slæmu ástandi. Það má sjá þessar breytingar, eins og í Þórsmörk, sem stendur þó í nágrenni þriggja eldfjalla. Sé beitin mikil, kemur hún í veg fyrir endurnýjun birkiskóga,“ segir Ólafur.

Víða eru stórar „eyjar“ birkiskóga sem þrífast þrátt fyrir beit, en hún kemur í veg fyrir að þær breiðist út. Þórsmörk hafi verið samansafn birkieyja sem hafa tengst eftir að beit létti. Þar sem fræuppspretta er til staðar getur birkið breiðst mjög mikið út. Þetta sést einnig á Skeiðarársandi, þar sem sem nú vex upp sjálfsáður birkiskógur. Ólafur segir það vera þrátt fyrir beit, en hún er mjög lítil í þessu tilfelli. „Þegar birkiskógar eru í eðlilegu ástandi og vaxinn upp þannig að sauðfé útrými honum ekki með beitinni, þá eru beittir skógar mjög fallegir, frjósamir og opnir. Skilyrðin eru að það þarf að friða birkiskógana af og til, til að tryggja það að þeir deyi ekki út, því teinungur og fræplöntur vaxa ekki upp á beittum svæðum.“

Ólafur nefnir í þessu samhengi skógareyðingu sem á sér stað í Skyndidal á Lóni, Heklubyggðum og á Jökuldal. „Það er líka hægt að sjá hvernig birkið kemur aftur þegar beitinni er létt,“ segir Ólafur. Þetta sé til dæmis hægt að sjá á landgræðslusvæðum í Landsveit.

Ólafur segir að birkiskógur geti vaxið á rýru landi ef beitar nýtur ekki við. Þess sjást dæmi á eyjum og klettasyllum þar sem sauðfé hefur ekki náð til.
Hér sést birkihrísla á Héraði. Mynd/Áskell Þórisson

Umhverfiskröfu í styrki og aðgerðir

„Áratugurinn sem nú er að líða er áratugur endurheimtar vistkerfa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt hefur sáttmálinn um líffjölbreytileika beint því til þjóða að við tökum frá vistkerfi og höldum þeim í náttúrulegu ástandi. Við þurfum að endurheimta landgæði á stórum svæðum á Íslandi. Það er hægt, oft og tíðum með að stýra landnýtingunni betur inn á svæði sem þola nýtinguna, en hlífa öðrum. Það þýðir að við eigum að breyta styrkjakerfi landbúnaðarins, sem oft og tíðum styður við ranga landnýtingu,“ segir Ólafur, og tekur fram að það sé vandamál um heim allan.

„Evrópusambandið og fleiri hafa lagt áherslu á að gera miklu ríkari umhverfiskröfu í styrkjum og það hefur miðað töluvert. Við getum notað styrkina til að breyta þessari landnýtingu á ekki löngum tíma. Síðan þarf vitaskuld aðgerðir. Þær aðgerðir geta meðal annars miðast við að endurheimta birkiskóga á landi sem nú er auðn og notað kolefnisbindingu sem fjárhagslegan hvata. Það sem skiptir máli fyrir okkur Íslendinga til framtíðar er að endurheimta þessi náttúrulegu vistkerfi, Re-wilding eða Regeneration er þetta stundum kallað.“

Ólafur hvetur til að gætt sé hófs við notkun á erlendum plöntutegundum og telur að þegar fram líða stundir muni skógrækt og önnur svæði með mjög einsleitri tegundasamsetningu framandi trjátegunda ekki vera tekin gild til kolefnisjöfnunar.

„Ef umhverfisáhrifin eru mjög neikvæð eða stuðla að miklum breytingum á því sem er náttúrulegt, þá er umhverfisávinningurinn umdeilanlegur. Allt land sem er í framför er hægt að fá til að binda mikið kolefni, sérstaklega það sem hefur verið í slæmu ástandi. Það er meira kolefni í moldinni á hnattræna vísu en í gróðri og andrúmsloftinu samanlagt. Moldin er langmikilvægasti geymirinn þegar upp er staðið,“ segir Ólafur. Hann nefnir að erlendis finnist graslendi með svartri mold. Sú jörð bindur mjög mikið kolefni ef hún fær að vera graslendi og er hóflega beitt. Vegna þeirra agna sem myndast við efnaveðrun í moldinni á Íslandi er eðli jarðvegsins sérstakt og getur hann bundið mjög mikið kolefni.

„Efnaveðrun hér er mjög ör. Birkiskógar sem vaxa upp hér á illa grónu landi binda á endanum margfalt meira en frjósöm svartjörð erlendis. Þetta eru mjög sérstök kerfi og þetta gerist annars staðar á eldfjallasvæðum jarðar.

Það er eðli íslenskrar moldar að binda kolefni. Mikil nýting kemur í veg fyrir að þessi binding verði og það getur gengið á forðann.

Þar sem land er í slæmu ástandi, þar sem mikið er af rofdílum og það er opið, getur það andað frá sér koltvísýringi í stórum stíl,“ segir Ólafur Gestur Arnalds.

Skylt efni: áhrif beitar

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...