Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Líflands, segir að kalla þurfi saman fólk úr landbúnaðargeiranum, þjónustuiðnaðinum og fræðimenn til að finna lausn sem gangi upp á vanda Landbúnaðarháskóla Íslands.
Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Líflands, segir að kalla þurfi saman fólk úr landbúnaðargeiranum, þjónustuiðnaðinum og fræðimenn til að finna lausn sem gangi upp á vanda Landbúnaðarháskóla Íslands.
Mynd / HKr.
Viðtal 17. október 2014

Framkvæmdastjóri Líflands segir að verið sé að lama starfsemi LbhÍ

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þórir Haraldsson, fram­kvæmda­­stjóri Líflands og formaður Hollvina­samtaka Landbún­aðar­háskóla Íslands, segist vera mjög hugsi vegna þess að verið sé að lama starfsemi skólans.

Mikilvægu námi, sem sé undirstaða fyrir vexti í landbúnaði og tengdum greinum, sé stefnt í verulega hættu. Hann segir mjög mikilvægt að allir sem málið varðar setjist niður og finni lausn sem verði öllum til hagsbóta. Þetta skipti ekki bara bændur og landbúnaðinn máli, því mikilvægt sé að fyrirtæki sem þjónusta landbúnaðinn geti líka sótt þangað menntað fólk. Þar sé m.a. mikill fjöldi starfa á höfuðborgarsvæðinu í húfi.

Bakhjarl landbúnaðarins rifinn niður

„Ég er búinn að fylgjast með þessum skóla síðan hann var Bændaskólinn á Hvanneyri og er fæddur og uppalinn á svæðinu. Ég sá skólann fara í rétta átt með stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá fór maður að sjá aðra nálgun á málunum, en nú sýnist mér á öllu að það sé verið að beygja af þeirri leið. Það er búið að draga þetta allt niður og sá neisti sem maður sá í starfi skólans fyrir nokkrum árum síðan er alveg slokknaður.“

Þórir segir það sérkennilegt að loks þegar jákvæð uppsveifla er í landbúnaði þá gangi menn fram og rífi niður bakhjarl hans í menntakerfinu.

„Það getur ekki verið góð stefna, því að mínu mati eigum við eftir að sjá enn þá meiri uppsveiflu í landbúnaðinum. Einnig að við förum að flytja út í auknum mæli dýra vöru undir merkjum íslensks landbúnaðar.“

Hann segist í þessu efni vera að lýsa sinni persónulegu skoðun en ekki skoðun Hollvinasamtakanna sem slíkra, þó hún geti að mörgu leyti farið saman. Það gildi líka þegar rætt er um niðurskurð á fjármagni til skólans í kjölfar framúrkeyrslu á fjárlögum með tilheyrandi uppsögnum á starfsfólki.

Skuldirnar hverfa ekki við að flytja þær til HÍ

„Mín skoðun er sú að það eru fjölmargar stofnanir sem hafa farið fram úr kostnaðaráætlunum. Landbúnaðarháskólinn á fullt af eignum sem hann hefur ekkert með að gera og eru að sumu leyti byrði á skólanum. Það má hins vegar ekki selja þær til að greiða niður skuldir skólans, vegna þess að eignasafnið heyrir beint undir ríkið. Auðvitað þarf samt að ganga frá þessum skuldum á einhvern hátt og meta hvernig framhald rekstrar skólans geti orðið. Það verður þó ekki gert með því einu að setja Landbúnaðarháskólann undir Háskóla Íslands og segja upp fjölda manns. Skuldirnar hverfa ekkert við að flytja þær til Háskólans. Ef menn ætla svo eftir sameiningu að fara að selja eignir sem ekki má í dag, þá er þetta orðin svolítið skrítin pólitík.

Það er líka ljóst að þegar Háskóli Íslands þarf að skera niður þá mun það fyrst bitna á  landbúnaðarþættinum. Því það er ekki að sjá að þar innandyra sé mikill áhugi fyrir þessari grein. Ef sá áhugi væri fyrir hendi, þá hefðu menn fyrir löngu farið í samkeppni við Landbúnaðarháskóla Íslands.“ 
Ekkert samráð haft við þjónustugreinar landbúnaðarins

„Frá mínum sjónarhóli hafa menn ekki sest niður til að ræða málin almennilega. Það hefur t.d. ekki verið haft samband við iðnaðinn sem er að nýta sér þá krafta sem verða til í skólanum. Það hefur ekki verið rætt við okkur og spurt hvaða þarfir við höfum. Sumt af þeirri þekkingu sem við erum að afla frá útlöndum ætti mögulega heima í þessum háskóla.

Menn verða að horfa á að þetta skiptir miklu máli í rekstri fjölda fyrirtækja, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru mjög mörg störf sem tengjast landbúnaðinum beint. Hjá Líflandi eru að minnsta kosti 15 einstaklingar sem eru að vinna beint í þjónustu við landbúnaðinn. Við fluttum að vísu fóðurverksmiðju okkar úr Reykjavík upp á Grundartanga. Það er tvennt sem réði því, annars vegar nálægðin við sveitirnar og að þar erum við meira miðsvæðis með tilliti til landsins alls. Svo er ekki lengur pláss að hafa undir slíka starfsemi í Reykjavík.

Þjónustuiðnaðurinn, eins og Lífland, er að horfa á hvernig landbúnaðurinn muni þróast á komandi misserum og árum. Á síðasta ári réðum við til okkar þrjá starfsmenn sem menntaðir voru í Landbúnaðarháskólanum. Við erum að byggja upp þessa starfsmenn með ákveðna þekkingu erlendis frá, sem þau hafa ekki fengið á Hvanneyri. Samt hafa þau fengið þar mjög góðan grunn.“

Sameining við HÍ illa ígrunduð

„Ég lít svo á að það sé mjög röng ákvörðun að ætla að taka Landbúnaðarháskólann og setja hann undir Háskóla Íslands án þess að farið sé nægilega vel í saumana á því máli. Mér finnst að sú ákvörðun sé ekki vel ígrunduð.

Ég segi það af því að Háskóli Íslands er ekki með þá þekkingu sem til þarf á landbúnaði. Það er fátt þar innan dyra sem er með beina tengingu við landbúnaðinn. Ég lít svo á að þegar búið verður að draga þetta allt til Reykjavíkur þá minnki sú þekking. Til þess að vera í sambandi við þá grein sem menn ætla að fara að stunda nám í, þá þurfa nemendur að vera í nágrenni við búskapinn. Hann er ekki til staðar í Vatnsmýrinni.

Auðvitað hlýtur góð samvinna á milli þessara stofnana samt að vera af hinu góða. Þar má nefna að líffræðikennslan er sú sama í báðum skólum sem og hagfræðin. Þegar kemur að landbúnaðinum sjálfum, skepnunum og að fá tilfinningu fyrir greininni, eða að fá lyktina í nefið, þá getum við aldrei verið að tala um að klára slíkt í Háskóla Íslands í Reykjavík.“

Skorið á bein tengsl við sveitina

Telur þú  þá ekki líklegt að við sameiningu skólanna verði í framhaldinu rekið öflugt útibú á Hvanneyri?
„Hvað okkar fyrirtæki varðar þá þarf þekkingin sem nauðsynleg er til að selja fóður að koma frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Við getum auðvitað ráðið hingað fullt af ómenntuðum sölumönnum úr þéttbýlinu. Ef þeir hafa hins vegar ekki þekkingu á landbúnaði og tala sama tungumál og bændurnir, þá geta þeir alveg eins setið heima. Það er mín skoðun að sú þekking verði ekki til í Háskóla í Vatnsmýrinni. Þekkingin á þessum málum verður ekki síst til með því að vera í beinum tengslum við sveitina.“
Rannsóknir verði efldar t.d. með flutningi starfseminnar á Keldum

„Auðvitað þarf þá líka að efla rannsóknarvinnuna sem iðkuð er í Landbúnaðarháskólanum. Mér sýnist að  rannsóknarstarfsemi sem verið hefur í gangi á Hvanneyri og annars staðar í landbúnaðinum, hafi nær alfarið byggst á vilja, getu og sérstökum áhuga einstakra persóna. Baklandið fyrir þessa vísindamenn hefur dofnað hræðilega mikið og það er mikil hætta á að sú þekkingaröflun glatist.

Þar þarf því að efla stuðninginn og það má gera á ýmsan hátt. Sá stuðningur þarf ekki eingöngu að koma frá ríkinu. Þar geta fyrirtæki,  samtök bænda og ýmsir fleiri líka komið að málum. Ég held að það sé ekki fullreynt hvaða möguleikar séu á að halda þessum skóla sjálfstæðum. Það mætti líka flytja mun meira af rannsóknarstarfsemi sem tengist landbúnaðinum upp á Hvanneyri. Þar má nefna tilraunastarfsemina á Keldum. Það mætti t.d. selja landið í Keldnaholti undir aðra starfsemi.“

Þarf að horfa á málið í víðara samhengi

„Við verðum að horfa á málið í víðara samhengi. Það mun verða mjög aukin eftirspurn eftir heilnæmum landbúnaðarvörum á komandi árum. Landbúnaður á Íslandi á því bara eftir að aukast. Það verður heldur ekki um alla framtíð auðsótt mál að flytja inn allar þær landbúnaðarafurðir sem við þurfum á að halda.
Það er líka vaxandi eftirspurn um allan heim eftir landbúnaðarafurðum sem unnar eru án eiturefna og sýklalyfja og eru ræktaðar í heilnæmu umhverfi og með hreinu vatni.

Möguleikar Íslendinga á að flytja út landbúnaðarvörur í háum gæðaflokki fara því ört vaxandi. Það er alveg ljóst miðað við þá þekkingu sem ég hef á þessu sviði að þar eigum við mikla möguleika.
Til mín koma sérfræðingar frá fóðurbirgjum og þeir spyrja gjarnan hvaða efnum og lyfjum við blöndum í fóðrið sem við seljum bændunum. Þeir verða steinhissa þegar við segjum þeim að við blöndum engum lyfjum í fóðrið, en samt sé heilbrigðið í dýrunum mjög gott. Erlendis er það lyfjagjöfin sem heldur uppi mikilli framleiðslu í landbúnaði, en nú eru æ fleiri farnir að efast um ágæti þess.“

Hvar á að fá gjaldeyri fyrir auknum innflutningi?

„Ef fólki finnst ekkert mál að hætta matvælaframleiðslu hér á landi og flytja allar þær vörur inn, við hvað á allt það fólk þá að starfa sem vinnur við íslenska matvælaframleiðslu í dag? Fyrir hvaða gjaldeyri á svo að kaupa þær erlendu vörur, ef við komum ekki til með að selja neinar afurðir til að afla okkur gjaldeyris?“

Þórir segir að í sínum huga gangi þessi speki ekki upp. Við verðum að framleiða hér matvæli ef við ætlum að komast af.

Menn verða að setjast niður og leysa málið

„Nú verða menn að fara að setjast niður með fólki úr landbúnaðargeiranum og iðnaðinum sem er að þjónusta landbúnaðargeirann sem og fræðimönnum. Þar verða menn að koma sér saman um niðurstöðu sem getur gengið upp. Þá verða líka allir að beygja sig undir þá útkomu. Nauðsynlegt er að menn komist þá að haldbærri niðurstöðu, því landbúnaðurinn þarf á sérhæfðum háskóla að halda,“ segir Þórir Haraldsson.

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...