Fráleit ummæli forstjóra Haga
Á vef Bændasamtaka Íslands (BÍ) bregst Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ við ummælum Finns Árnasonar forstjóra Haga á Facebooksíðu sinni þar sem hann segir búvörusamningana vera ríkisstyrkt dýraníð. Sindri segir að Finnur ætti að sjá sóma sinn í að biðja bændur afsökunar á fráleitum ummælum.
„Honum er í sjálfsvald sett að gagnrýna samningana en ummæli af þessu tagi eru út fyrir öll mörk og bera vott um einkar fjandsamlegt viðhorf í garð íslenskra bænda. Ítrekað hefur forstjóri Haga haft uppi neikvæð ummæli um íslenskan landbúnað en með þessum tilteknu ummælum tekur steininn úr og eru því fyrirtæki sem hann starfar fyrir til háborinnar skammar.
Íslenskir bændur vinna að því hörðum höndum allan ársins hring við að tryggja íslenskum almenningi heilnæm matvæli án sýklalyfja eða annarra aukaefna sem algeng eru í landbúnaði í öðrum löndum. Það er eitt af forgangsmálum Bændasamtakanna að íslenskir bændur standist ítrustu kröfur um dýravelferð svo að Ísland verði í fararbroddi í þeim efnum.
Nýir búvörusamningar eru viðamiklir og skipta bændur og almenning á Íslandi verulegu máli. Þeir tryggja það að neytendur fá íslenskar búvörur á hagstæðu verði í verslunum og að hér sé hægt að reka blómlegan landbúnað. Við frábiðjum okkur þann málflutning sem forstjóri stærstu smásölukeðju landsins viðhefur. Menn verða að sýna lágmarks mannasiði þegar þeir tjá sig um atvinnugrein sem þúsundir manns byggja afkomu sína á um allt land,“ segir Sindri.