Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Þróun viðskipta með greiðslumark mjólkur
Á faglegum nótum 21. maí 2021

Þróun viðskipta með greiðslumark mjólkur

Höfundur: Margrét Gísladóttir

Nú hafa verið haldnir fjórir markaðir með greiðslumark mjólkur frá því tilboðsmarkaðir tóku við af innlausn ríkisins í ársbyrjun 2020. Við endurskoðun samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt árið 2019 var ákveðið að heimilt væri að setja hámarksverð á markað og á fyrsta markaði var ákveðið að hámarskverðið skyldi verða tvöfalt afurðaverð, þá 185 krónur.

Í kjölfarið náðist ekki samkomulag um að halda því fyrirkomulagi þrátt fyrir kröfu LK og BÍ um það. Voru uppi skiptar skoðanir um hvort hámarksverð skyldi yfir höfuð vera á viðskiptum en niðurstaða þeirra viðræðna var sú að hámarksverð skyldi vera við lýði út árið 2023, eða fram að næstu endurskoðun samningsins, og yrði það þrefalt afurðastöðvaverð. Taka skal fram að hér er um hámarksverð að ræða en ekki fast verð og er það í höndum hvers framleiðanda að meta hvað tilboð viðkomandi hljóðar upp á, en búið er að tryggja að verð verði þó aldrei hærra en sem nemur þreföldu afurðastöðvaverði.

Verðþróun greiðslumarks

Verð á greiðslumarki þegar tilboðsmarkaður var tekinn upp árið 2010 og út árið 2013 var ansi hátt, eða milli 369-381 krónur á lítra á núvirði, en var þó nokkuð lægra en tíðkaðist fyrir tíma tilboðsmarkaðarins. Þá hafði verðið verið um 400 krónur eða 541 króna á núvirði. Ef litið er til jafnvægisverðs á markaði 1. nóvember 2013, þegar hvað hæst lét, þá nam jafnvægisverðið um fjórföldu afurðastöðvaverði þess tíma. En þá var hins vegar greitt fullt verð fyrir umframmjólk og því má segja að þörf bænda fyrir kvóta hafi verið með allt öðrum hætti en nú er.

Eftirspurn eftir greiðslumarki dróst svo saman upp úr áramótum 2013/2014 og verðið lækkaði, en skýringu þess má rekja til að þá fékkst sama verð fyrir umframmjólk og mjólk sem framleidd var innan greiðslumarks. Það er sannanlega ekki staðan í dag og því eftirspurn eftir greiðslumarki meiri. Sett hámarksverð á síðasta markaði var um 20% lægra á núvirði en jafnvægisverð þegar hæst lét eftir að tilboðsmarkaður var tekinn upp.

Eftirspurn eftir greiðslumarki rokið upp

Sé litið til þess hvernig viðskipti með greiðslumark hafa þróast undanfarið má sjá að þau eru komin ágætlega af stað aftur, þó svo eftirspurn undanfarinna ára hafi verið langt umfram framboðið. Í byrjun árs 2018, ári eftir að innlausn ríkisins tók við af fyrri kvótamörkuðum, byrjuðum við að sjá mun hærri eftirspurnartölur en áður höfðu sést. Fram að þeim tíma hafði eftirspurnin að meðaltali verið um 1,3 milljón lítra á hverjum markaði en rauk þá upp í rúmlega 9 milljón lítra. Í kjölfarið komu 3 markaðir með afar óeðlilega mikla eftirspurn en á þeim tíma var ekkert hámark á því hvað bændur gætu óskað eftir miklu greiðslumarki og fengu þeir úthlutað hlutfall af umbeðnu magni. Í byrjun árs 2019 var ákveðið að setja hámark á hvað hver og einn framleiðandi gæti óskað eftir miklu greiðslumarki á hverjum markaði fyrir sig, eða 50.000 lítrum, og fór þá eftirspurnin aftur niður í um 9,5 milljón lítra. Síðan þá hefur eftirspurnin verið á bilinu 8,7-9,8 milljón lítrar. Ljóst er á fjölda kauptilboða hverju sinni að langflest tilboðin hljóða upp á það hámark.

Meðalframboð 598 þúsund lítrar

Sé litið til framboðshliðarinnar þá hefur hún verið mjög rokkandi frá upphafi tilboðsmarkaða í árslok 2010. Meðalframboð á greiðslumarki hverju sinni, hvort sem er tilboðsmarkaður eða innlausn, er um 598 þúsund lítrar. Mesta framboðið var á síðasta kvótamarkaði ársins 2016 áður en innlausn ríkisins tók gildi en þá voru boðnir til sölu 5,9 milljón lítrar og náðu viðskipti til 2,7 milljón lítra á þeim markaði. Minnsta framboðið var á lokamarkaði ársins 2019, þegar ljóst var að kvótamarkaðir myndu aftur taka við af innlausn ríkisins, en þá var ekkert greiðslumark boðið til sölu og því enginn markaður.

Nóvembermarkaðurinn sá næststærsti frá upphafi

Frá því að tilboðsmarkaður með greiðslumark tók aftur við af innlausninni hefur framboðið verið um og yfir meðaltali. Einungis á fyrsta markaðnum, í apríl 2020, var framboð undir meðaltali eða 586 þúsund lítrar. Þá var nóvembermarkaðurinn 2020 sá næststærsti frá upphafi en þá voru boðnir til sölu tæpar 2 milljónir lítra og viðskipti náðu til sama magns.

Heildargreiðslumark aukist um 20% á 10 árum

Magntölur á kvótamarkaði segja þó ekki alla söguna því líta verður til þróunar heildargreiðslumarks samhliða. Frá árinu 2011 hefur heildargreiðslumark aukist um rúm 20%, eða úr 116 milljón lítrum í 145 milljón lítra. Hefur heildargreiðslumark haldist óbreytt frá árinu 2018 eftir að hafa hækkað hratt þar á undan sökum gríðarlegrar aukningar á ferðamannastraumi til landsins sem og breyttum neysluvenjum og aukinnar eftirspurnar eftir fituríkum mjólkurvörum. Með hliðsjón af þróun heildargreiðslumarks er því ljóst að mun lægra hlutfall er að skipta um eigendur en áður þó magnið sé um og yfir meðaltali frá desember 2010.

Framleiðsluvilji mikill

Frá upphafi hafa verið miklar umræður meðal kúabænda hver sé réttasta leiðin að fara þegar kemur að viðskiptum með greiðslumark mjólkur sem og hvort framleiðslustýring eigi yfir höfuð að vera í greininni í formi kvótakerfis. Í ársbyrjun 2019 var atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfisins. Þátttakan var 88,35% og vildu tæplega 90% halda kvótakerfinu en rúm 10% sögðust vilja afnema það. Með endurskoðuninni árið 2019 var kvótakerfið fest í sessi og í samræmi við aðalfundarályktanir LK eiga viðskiptin sér nú stað í gegnum miðlægan tilboðsmarkað, en þó með hámarksverði.

Mikil uppbygging hefur verið í greininni undanfarin ár og margir bændur hafa stækkað fjósin sín og tæknivætt, sem er vel. Þó eru margir í þeirri stöðu að geta ekki bestað nýtingu fjárfestinga sinna þar sem kvótaeign nær einungis yfir hluta framleiðslunnar og eru þetta þeir aðilar sem hvað sárlegast þurfa á kvóta að halda, þá sérstaklega þar sem afurðastöðvaverð fyrir umframmjólk er einungis tæplega 20% af verði fyrir greiðslumarksmjólk. Og framboð greiðslumarks til sölu á sama tíma hefur ekki dugað til. Ljóst er á þessu að framleiðsluvilji greinarinnar er mikill. Fáir eru að hætta í greininni en margir vilja auka framleiðsluna. Hvort sem menn líta jákvætt eða neikvætt á þessa stöðu þá er staðreyndin sú að til að bæta við sig greiðslumarki þarf annað hvort að auka heildargreiðslumark hvers árs eða að treysta á að aðrir séu að hætta framleiðslu. Fyrri kosturinn er hér ávallt vænlegri.

Stækkun kökunnar

Líkt og áður segir hefur heildargreiðslumark haldist óbreytt frá árinu 2018 og hækkaði einungis um 1 milljón lítra milli 2017 og 2018. Það verður þó að líta jákvætt á það að þrátt fyrir fækkun ferðamanna milli áranna 2018 og 2019 og svo Covid faraldursins sem hófst hérlendis í mars 2020 – og við förum vonandi að sjá fyrir endann á – hefur sala haldið sér nokkuð vel og ekki talin þörf á að lækka heildargreiðslumarkið. Það gefur okkur vonir um að þegar ferðamannastraumurinn tekur aftur við sér munum við sjá aukningu á eftirspurn eftir mjólkurvörum að nýju og þar með hækkun á heildargreiðslumarki. Einnig þarf að huga að nýsköpun sem og nýjum tækifærum til útflutnings.

Þar er hægt að nefna að í Mjólkur­póstinum í desember sl. kom fram að gerður hefur verið samningur við tvær verslunarkeðjur í Danmörku um að kaupa skyr beint frá Íslandi sem og að unnið hefur verið markvisst að því að koma skyri frá Íslandi á markað í Þýskalandi og stefnt á að sala þar í landi hefjist fljótlega. Þá standa einnig vonir til þess að hægt verði að nota íslenskt mjólkurduft til framleiðslu á skyri í Bretlandi í framtíðinni. Tækifærin eru því víða og þau ber að grípa.

Margrét Gísladóttir,
framkvæmdastjóri LK

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...