Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Í einföldu máli má segja að hunang sé sætur seigfljótandi vökvi sem bý- eða hunangsflugur búa til úr plöntusafa og frjói sem flugurnar safna úr blómum og flytja heim í búið.
Í einföldu máli má segja að hunang sé sætur seigfljótandi vökvi sem bý- eða hunangsflugur búa til úr plöntusafa og frjói sem flugurnar safna úr blómum og flytja heim í búið.
Á faglegum nótum 18. mars 2022

Sælgæti guðanna

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hunang hefur verið kallað sælgæti guðanna og til eru átta þúsund ára gamlar hellaristur í Valensía á Spánn sem sýna fólk safna hunangi. Hunang hefur verið borðað af bestu lyst, drottningar hafa baðað sig í því, það hefur verið notað til að græða sár og höndlað hefur verið með hunang frá því að skráning sögunar hófst.

Hunang sem fannst við fornleifarannsóknir í gröfum faraóa í Egyptalandi reyndist vera óskemmt og hæft til neyslu og hunang var eina sætuefnið sem Evrópubúar þekktu áður en sykur kom til sögunnar.

Árleg heimsframleiðsla á hunangi 2020 var tæp tvö milljón tonn og þar af framleiddi Kína 458 þúsund tonn og í kjölfarið komu Tyrkland, Kanada, Argentína og Íran en með talsvert minni framleiðslu hvert land.

Sætur seigfljótandi vökvi

Í einföldu máli má segja að hunang sé sætur seigfljótandi vökvi sem hunangsflugur eða humlur búa til úr plöntusafa og frjói sem flugurnar safna úr blómum og flytja heim í búið. Á sama tíma og flugurnar flögra á milli blómanna flytja þær frjó og frjóvga blómin og eru þær þannig undirstaða ávaxtaframleiðslu í heiminum.

Á sama tíma og humlurnar flögra frá einu blómi til annars og safna blómasafa bera þær frjó milli blómanna og frjóvga þau.

Maðurinn hefur frá ómunatíð safnað hunangi úr býflugnabúum í náttúrunni og síðar úr manngerðum búum. Bragð hunangs ræðst af því úr hvers konar umhverfi flugurnar lifa og blómum sem plöntusafinn kemur úr. Framleiðsla á náttúrulegu hunangi er staðbundin og afurðin breytileg af bragði, árstíð, lit og áferð, milli upprunastaða.

Hunang er oftar en ekki flokkað eftir blómunum sem safinn sem það er búið til úr kemur. Það getur því komið úr einni tegund blóma eða verið blanda blómasafa margra tegunda. Langmest af hunangi á markaði er gert úr blöndu tveggja eða fleiri blómasafa.

Einblómahunang er, eins og nafnið gefur til kynna, búið til úr einni gerð af blómasafa eins langt og slíkt er hægt. Bragð af slíku hunangi ber sterkan keim af blóminu sem blómasafinn kemur úr, auk þess er liturinn ólíkur eftir blómategundum. Við framleiðslu á einblómahunangi er stefnt að því að halda flugunum sem mest á svæði þar sem ein tegund blóma er ríkjandi. Dæmi um tegundir sem humlunum er beitt á í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Evrópu við framleiðslu á einblómahunangi eru smári, appelsínutré, bókhveiti, sigurskúfur, blóðberg, þistill, lyng, fíflar, sólblóm og bláberjalyng. Í Norður-Afríku og Egyptalandi er búið til hunang úr blómasafa sítrustrjáa og bómullarplantna en í Ástralíu meðal annars út tröllatrjám og leðurviði.

Hunang úr ákveðnum tegundum blóma getur verið eitrað og valdið einkennum eins og svima, máttleysi, svita, velgju, uppköstum og jafnvel dauða. Dæmi um slíkar plöntur sem vaxa á Íslandi eru lyngrósir og
jafnvel gullregn.

Býflugnabú á Íslandi.

Iðnar þernur

Verkaskipting innan býflugnabúa er mikil og staða flugnanna ákveðin af aldri þeirra. Drottningar eðla sig tveimur vikum eftir að þær klekjast við allt að 20 karldýr eða drunta og safna þannig sæði sem þær nota yfir sumarið. Eftir mökun verpa þær eggjum og frjóvga þau eftir þörfum. Vitað er til þess að drottningar hafi lifað í átta ár.

Druntar klekjast úr ófrjóum eggjum og því með sama erfðamengi og drottningin. Helsta hlutverk þeirra er að fljúga milli búa og makast við drottningar. Kvenflugurnar, þernur og tilvonandi drottningar, klekjast aftur á móti úr frjóvguðum eggjum. Þernurnar ná ekki kynþroska í búinu vegna lyktarefna sem drottingin gefur frá sér og kallast ferómon. Þernurnar, sem að jafnaði lifa í þrjátíu daga, eru vinnudýr búsins. Þær stækka búið og þrífa og sjá um að safna blómasafa, framleiða hunang og fæða lirfurnar.

Býflugur eru einstaklega iðin kvikindi og sagt er að fluga í söfnunarleiðangri fljúgi á 20 til 25 kílómetrahraða í eins til átta metra hæð eftir veðri. Þær geta heimsótt allt frá 50 og upp í nokkur þúsund blóm í einni og sömu söfnunarferðinni, allt eftir því hvernig safnast. Yfirleitt eru býflugur ekki utan búsins nema í hálfa til eina klukkustund í einu.

Söfnun hunangs

Í fyrstu söfnuðu áar okkar hunangi sem fæðu úr búum villiflugna og til eru hellamyndir í Afríku, Evrópu og Ástralíu sem sýna slíka söfnun. Elstu minjar um ræktun býflugna eru frá því um 5000 fyrir upphaf okkar tímatals en talið er að söfnunin, í frumstæðri mynd, eigi sér allt að 20 þúsund ára sögu.

Eftirmynd hellamyndar á Spáni sem sýnir mann vera að safna hunangi. Frummyndin er sögð vera frá átta til sex þúsund fyrir Krist.

Elstu minjar hunangs sem þekktar eru fundust í Georgíu þegar unnið var að lagningu olíuleiðslu frá Baku í Azerbajian yfir til Georgíu til Svartahafs. Við lagningu leiðslunnar fundust leifar af hunangi í leirkrukku í fornu grafhýsi sem talið er vera 4700 til 5000 ára gamalt. Í Georgíu var algengt að jarða fólk með krukku af hunangi, líni, berjum og vendi af villtum blómum til að auðvelda því ferðalagið um móðuna miklu til handanheima.

Fornleifarannsóknir á Krít og í Grikklandi hafa dregið fram í dagsbirtuna 3000 ára gamlar ofnar strákúpur og býkúpur úr brenndum leir. Í Egyptalandi eru til 3.500 ára myndir sem sýna menn annast býkúpur. Kínverjar hófu snemma að ala býflugur og gáfu út kennslubók um býflugnarækt nokkrum öldum fyrr en Vesturlandabúar.

Fyrir nokkrum árum fundust við fornleifauppgröft í Ísrael þrjátíu þriggja hæða og ríflega 3000 ára gömul manngerð býbú. Talið er að um milljón býflugur hafi getað hafst við í kúpunum og framleitt um hálft tonn af hunangi á ári.

Grikkinn Aristóteles, sem var uppi fyrir um 350 árum fyrir Krist, fjallaði um býflugur í einu af ritum sínum og Rómverjar stunduðu umfangsmikla býflugnarækt á blómaskeiði Rómaveldis og notuðu það meðal annars sem græðandi smyrsl á sár.

Býflugnarækt til hunangsgerðar hefur verið stunduð í Evrópu í að minnsta kosti þrjú þúsund ár en býflugnarækt barst vestur yfir Atlantshafsála eftir að Kólumbus og kónar hans römbuðu á Suður-Ameríku.

Býflugnabú

Bú ræktaðra býflugna eru oftar en ekki kassi sem hægt er að opna að ofan. Í kassanum eru vaxhólf með sexhyrndu munstri og sama munstur er að finna í búum villtra býflugna. Munstrið á klæðningu Hörpu í Reykjavík líkist að mörgu leyti munstri í býflugnabúi.

Uppsett hártíska kvenna frá sjöunda áratug síðustu aldar minnir óneitanlega á býkúpu.

Trú og goðsagnir

Hunang og býflugur gegna veigamiklu hlutverki í helgihaldi margra trúarbragða og ákveðin uppsett hártíska kvenna frá sjöunda áratug síðustu aldar minnir óneitanlega á býkúpu.

Samkvæmt grískum goðsögnum var það gyðjan Melissa sem kenndi mönnum að nýta sér hunang og til er gullnæla frá sjöttu öld fyrir Krist sem sýnir gyðjuna í býflugnalíki. Í Austurlöndum nær var býflugan talin vera tengiliður við undirheima. Í guðatali Maya í Suður-Ameríku er að finna guðinn Ah Musen Kab sem var nátengdur villtum býflugum.

Samkvæmt sköpunarsögu San-fólksins í Kalaharíeyðimörkinni ætlaði býfluga að fljúga með engisprettu yfir stórt fljót sem aðskildi tvo heima. Býflugan þreyttist á fluginu og varð að skilja engisprettuna eftir á blómi sem flaut í ánni miðri. Engisprettan drapst skömmu síðar en áður en býflugan yfirgaf hana sáði hún fræi í líkama hennar og upp af því fræi álaði fyrsti maðurinn.

Í egypskum goðsögum segir að býflugur hafi orðið til þegar tár guðsins Ra féllu í eyðimerkursandinn og gyðjan Kamadeva í hindúasið á boga sem gerður er úr býflugum.

Hunang í Biblíunni

Í Þriðju Mósebók 20. kafla 24. línu segir Drottinn meðal annars við Móses, eftir að hann hefur lagt Ísraelsmönnum lífsreglurnar hvað varðar hórlífi, blóðskömm og eitt og annað og hrakið frumbyggja svæðis sem hann ætlaði sinni útvöldu þjóð á brott: „Þess vegna sagði ég við ykkur: Þið skuluð taka land þeirra til eignar. Ég mun sjálfur fá ykkur það svo að þið getið tekið það til eignar, þetta land sem flýtur í mjólk og hunangi.“

Hunangs er reyndar víða getið í Biblíunni og ekki síst í Gamla testamentinu. Í 14. kafla Fyrri Samúelsbókar segir: „Býflugnabú voru víða á landsvæðinu svo að þar var hunang að hafa. Þegar liðið kom að býflugnabúunum sá það að hunang rann úr þeim en enginn lagði sér það til munns af ótta við eiðinn.

En Jónatan hafði ekki heyrt að faðir hans hafði látið liðið vinna eið. Hann stakk þá endanum á stafnum, sem hann hélt á, inn í eitt býflugnabúið og dýfði honum í hunangskökuna, tók hunangið, stakk því í munn sér með hendinni og ljómuðu þá augu hans aftur. Þá sagði maður nokkur úr liðinu: „Faðir þinn lét liðið sverja og sagði: Bölvaður sé sá maður sem neytir einhvers í dag. Þess vegna er liðið dauðþreytt.“ Jónatan svaraði: „Faðir minn leiðir ógæfu yfir landið. Sjáið hve augu mín ljóma af því að ég bragðaði aðeins á hunanginu. Vissulega hefði ósigur Filistea orðið enn meiri ef liðið hefði etið af herfanginu sem það tók af fjandmönnum sínum.“

Býflugnaeldi frá því um 1900. Mynd Clara Southern.

Samkvæmt Jobsbók var illa komið fyrir Job þegar hann fékk ekki að „njóta rennandi lækja eða streymandi mjólkur og hunangs“. Í Ljóðaljóðunum kveður svo við annan tón þegar elskhuginn segir við brúði sína, „hunang drýpur af vörum þínum, brúður, hunang og mjólk undir tungu þinni.“

Hunang í lækningum

Mikil trú var á lækningamætti hunangs fyrr á tímum og er eflaust enn. Við inntöku átti hunang að hafa góð áhrif á meltinguna og græða sár í maga en einnig þótti gott að græða sár og bruna útvortis með hunangi.

Nytjar og geymsla

Lengi vel var hunang nánast eina sætuefnið sem þekkt var í Evrópu og það var notað í matargerð, til að brugga mjöð og við náttúrulækningar. Við hunangsframleiðslu er vaxköku­hunang, hunangið sem býflugur safna í hólf lirfulausra vaxkaka, nýtt. Hunang er unnið með að láta það drjúpa úr vaxkökum, skilja það frá vaxkökunum í skilvindu eða pressað úr þeim við lágan hita.

Reykur er oft notaður til að róa flugurnar þegar hunangi er safnað úr hunangsbúum.
Að öllu jöfnu eru um 304 kílókaloríur í 100 grömmum af hunangi, 82,4 grömm af kolvetnum og svipað magn af sykri, 0,2 grömm af trefjum en engin fita.

Geymsluþol hunangs er nánast ótakmarkað og sagt að það sé eina matvaran sem ekki skemmist við geymslu. Best er að geyma hunang í glerkrukku á köldum og dimmum stað. Stundum gerist það að í hunangi í geymslu myndast kristallar en það skemmir ekki hunangið og nóg er að setja krukkuna í heitt vatn til að kristallarnir hverfi.

Býflugur og hunangsframleiðsla á Íslandi

Ekki eru til heimildir um býflugna­rækt og hunangsgerð hér á landi fyrr en á tuttugustu öld.
Á árunum 1936 til 1938 voru flutt til landsins býflugnabú frá Noregi og gáfu búin um 10 kíló af hunangi en flugurnar lifðu ekki veturna af.

Árið 1951 flutti Melitta von Urbancic, frá Austurríki, inn bú frá Skotlandi og tvö næstu ár þar á eftir frá Noregi og hélt býflugur í Reykjavík í nokkur ár. Melitta von Urbancic og Geir Gígja stofnuðu Býræktarfélag Íslands árið 1953.
Býrækt von Urbancic naut ekki mikilla vinsælda meðal Íslendinga og árið 1960 var Melittu gert að drepa flugurnar og fjarlægja búin vegna óánægju nágranna. Árin 1975 og 1976 flutti Olgeir Möller inn bú frá Danmörku en þau bú lifðu ekki veturna af.

Aldamótaárið 2000 var stofnað nýtt félag um býflugnarækt á Íslandi og fékk það heitið Býflugnaræktendafélag Íslands. Meðlimir þess eru um 120 og er framleiðsla á hunangi í smáum stíl nokkur hér á landi.

Hunangi safnað úr búi.

Skylt efni: hunang

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...