Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Í árslok 2018 voru mjaltaþjónar á fjórða hverju kúabú Norðurlandanna (25,2%) en hæsta hlutfallið var hér á landi en um síðustu áramót var þessi mjaltatækni á 35,4% af kúabúum landsins.
Í árslok 2018 voru mjaltaþjónar á fjórða hverju kúabú Norðurlandanna (25,2%) en hæsta hlutfallið var hér á landi en um síðustu áramót var þessi mjaltatækni á 35,4% af kúabúum landsins.
Mynd / HKr.
Fræðsluhornið 7. október 2019

Norðurlöndin framleiddu rúmlega 12,3 milljarða lítra af mjólk 2018

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
NMSM samtökin, sem eru samstarfs­vettvangur Norður­land­anna um ýmis málefni sem snerta mjólkurframleiðslu, héldu nýverið aðalfund sinn og á þeim fundi voru birtar hinar árlegu upplýsingar um þróun mjólkur­framleiðslu Norður­landanna. Helstu upplýsingar má sjá hér í meðfylgjandi töflu. Þar kemur m.a. fram að mjólkur­framleiðslan stóð í stað á milli ára en heildarfram-leiðsla Norðurlandanna á mjólk nam alls 12,3 milljörðum lítra í fyrra sem er nánast sama mjólkurmagn og hefur verið síðustu árin. 
 
Þrátt fyrir ákveðna stöðnun í framleiðslunni hafa kúabúin verið að bæta mikið við sig enda fækkaði þeim um 7,4% á milli ára og voru í árslok 20.590 talsins.
 
Mjaltaþjónabúum fjölgar enn
 
Síðustu árin hefur mjaltaþjónabúum fjölgað nokkuð reglulega á Norðurlöndunum en þróunin hefur þó verið harla ólík á milli landanna (sjá bæði mynd og töflu). Þannig hefur þeim fjölgað nokkuð hratt í þeim löndum þar sem bústærðin er að jafnaði minni, þ.e. Noregi, Finnlandi og hér á landi en í bæði Svíþjóð og Danmörku hefur þróunin verið önnur. Raunar fækkaði þeim á tíma-bili í báðum löndum en er nú aðeins að fjölga á ný. 
 
Fjöldi dönsku mjaltaþjóna­búanna er þó langt frá því að vera sá sami og var þegar mest lét, en það var árið 2011 þegar fjöldi þeirra fór í 920. Nú eru búin 722 í Danmörku. Þessi nokkuð ólíka þróun innan Norðurlandanna skýrist eins og áður segir af bústærðinni þar sem afköst mjaltaþjóna takmarkast við um það bil 65 kýr í hverjum mjaltaþjónaklefa. Þar með hentar tæknin síður stærri búum í jafnri stækkun þar sem alltaf þarf að bæta við nýrri 65 kúa einingu við stækkun með tilheyrandi kostnaði. Þetta kann þó að vera að breytast með lækkandi kostnaði hvers mjaltaþjóns með aukinni samkeppni og nýrra tæknilegra lausna sem gera viðbótar­kostnaðinn minni þegar bændur bæta afköst búanna.
 
 
Langstærsta hlutfallið hér á landi
 
Mjaltaþjónabúum, talin sem starfandi bú 31. desember 2018, fjölgaði á árinu úr 4.811 í árs­lok 2017 í 5.187 um síðustu áramót eða alls um 376 bú. Árið þar á undan fjölgaði þeim ekki nema um 182 bú og árið þar á undan um 185 bú svo síðasta ár sker sig verulega úr með tvöfalt meiri fjölgun mjaltaþjóna­búa sem bendir til betri stöðu kúabúanna á Norðurlöndum nú. 
 
Í árslok 2018 voru mjaltaþjónar á fjórða hverju kúabú Norðurlandana (25,2%) en hæsta hlutfallið var hér á landi en um síðustu áramót var þessi mjaltatækni á 35,4% af kúabúum landsins.
 
Rúmlega 8 þúsund mjaltaþjónar!
 
Eins og hér að framan greinir þá fjölgaði mjaltaþjónabúunum um 376 bú en mjaltaþjónunum sjálfum fjölgaði mun meira eða um 474. Í árslok síðasta árs var fjöldi mjaltaþjóna í notkun kominn í 8.227 stykki. Flesta mjaltaþjóna er enn að finna í Danmörku eða 2.132 en bæði Noregur og Svíþjóð eru skammt undan með annars vegar  2.052 og 2.065 mjaltaþjóna. 
 
Það er við­búið að yfir­burðastaða Dana á þessu sviði sé að líða undir lok haldi þróunin innan Norður­landanna áfram með svipuðu sniði á komandi árum. Það eru reyndar tíðindi að sjá að mjaltaþjónum fjölgar á ný í Danmörku eftir nokkra fækkun á liðnum árum.
 
Dönsk mjólkurframleiðsla langstærst
 
Líkt og undanfarin ár þá er danska mjólkurframleiðslan langumsvifamest innan Norður­landanna en dönsku kúabúin fram­leiddu í fyrra 5,6 milljarða lítra eða 45,6% allrar mjólkur á Norður-löndum. Árið 2017 var þetta hlutfall 44,6% og hefur þetta hlutfall dönsku búanna aukist ár frá ári undanfarin ár. 
 
Næststærsta framleiðsluland mjólkur á Norðurlöndunum er svo Svíþjóð með 22,4% og þar á eftir kemur svo Finnland með 19,1%. Norsku kúabúin standa svo undir 11,7% og við Íslendingar rekum síðan lestina með 1,2% af heildarframleiðslu mjólkur á Norðurlöndunum.
 
 
Langstærstu búin í Danmörku
 
Meðalbústærðin á Norðurlönd­unum er nú komin í 67 árskýr og jókst bústærðin í öllum löndunum nema Danmörku á síðasta ári, í samanburði við árið 2017. Þrátt fyrir að þar hafi kúabúin ekki vaxið á árinu eru dönsku kúabúin langstærst en þar var meðalbúið með 193 árskýr í árslok 2018. 
 
Bústærðin á hinum Norður­löndunum er mun minni en næststærstu búin eru í Svíþjóð þar sem meðalbúið er með 93 árskýr. Þar á eftir koma íslensku búin með 49 árskýr, þá þau finnsku með 42 árskýr og norsku búin reka lestina með ekki nema 27 árskýr að jafnaði.
 
Meðalbúið með 598 þúsund kíló
 
Ársframleiðsla norrænu kúabúanna er auðvitað nátengd bústærðinni en að jafnaði lagði hvert bú inn 598 þúsund lítra á síðasta ári sem er aukning um 41 þúsund lítra á einu ári eða um 7,4% frá fyrra ári. Eins og við er að búast fylgist innvigtunin nokkuð vel kúafjöldanum þó svo að afurðasemi kúnna hafi þar auðvitað töluverð áhrif.
 
Eins og undanfarin ár bera dönsku búin höfuð og herðar yfir önnur bú á Norðurlöndunum og raunar í allri Evrópu en þau voru að jafnaði að leggja inn 1,9 milljónir lítra sem er tífalt meira mjólkurmagn en norsku búin voru að leggja inn að meðaltali, en þau eru að framleiða langminnsta mjólkurmagnið á Norðurlöndum og meðalinnlögnin þar er ekki nema 192 tonn á ári.
 
Kúnum fækkar líka
 
Samhliða fækkun kúabúa hefur kúnum líka fækkað en afurðasemin hefur þó aukist að sama skapi. Þannig fór fjöldi þeirra úr 1.402 þúsund kúm í árslok árið 2017 í 1.377 þúsund kýr í árslok 2018 sem er þó ekki nema fækkun um 1,8% á milli ára. 
 
Mest fækkaði sænskum og finnskum kúm en heldur minni fækkun varð í Noregi og Danmörku. Ísland er eina landið sem stóð í stað á milli ára þegar horft er til fjölda á mjólkur­kúm.
 
Meðalkýrin að skila 8.947 kg í afurðastöð
 
Þegar horft er til afurðasemi kúnna á milli landanna er staðan nokkuð ólík eftir því hvaða land á í hlut enda hefur þar áhrif bæði kúakynið sem er notað við framleiðsluna og það umhverfi sem kúabúin starfa við. Þannig er t.d. kvótakerfi bæði í Noregi og á Íslandi en framleiðslan í hinum löndunum er frjáls sem getur haft sín áhrif á það hvernig bændurnir stýra sínum búum.
 
Þegar meðalafurðir eru metnar er oft notast við skýrsluhaldsafurðir, þ.e. uppgefnar afurðir búa sem taka þátt í skýrsluhaldi og þá er ekki tekið tillit til heimanota á mjólk eða mögulegra áfalla vegna sjúkdómameðhöndlunar svo dæmi sé tekið. Í samanburði NMSN er hins vegar notast við upplýsingar um alla innvegna mjólk til afurða­stöðvanna í löndunum og svo heildarfjölda skráðra mjólkurkúa í löndunum. Þegar þetta er reiknað þannig út kemur í ljós að sem fyrr eru mestar afurðir að finna í Danmörku, þar sem hver kýr er að skila að jafnaði 9.851 kílói í afurðastöð. Vegna þess hve danska mjólkurframleiðslan vegur þungt á norræna vísu er meðaltal Norðurlandanna hátt, eða 8.947 kíló. Á eftir dönsku kúnum koma þær finnsku með þó nærri einu tonni minna mjólkurmagn, eða 8.917 kíló og þar á eftir eru sænsku kýrnar með 8.818 kíló. Norsku kýrnar eru þær fjórðu afurðamestu með 7.054 kíló en þær íslensku eiga nokkuð í land með að ná dönsku kúnum með ekki nema 5.630 kíló að jafnaði.
 
Heimild: Tæknihópur NMSM
Með öllu óætur og jafnvel eitraður!
Fræðsluhornið 30. september 2022

Með öllu óætur og jafnvel eitraður!

Gulllaxinn skilaði hálfum milljarði króna í útflutningstekjur á síðasta á...

Skjólbelti og korn
Fræðsluhornið 30. september 2022

Skjólbelti og korn

Kornrækt á Íslandi er ekki bara möguleg heldur æskileg og nauðsynleg. En það ...

Gargönd
Fræðsluhornið 28. september 2022

Gargönd

Gargönd, eða litla gráönd eins og hún er kölluð í Mývatnssveit, er fremur...

Landbúnaðarsýningin Libramont
Fræðsluhornið 28. september 2022

Landbúnaðarsýningin Libramont

Seinnipartinn í júlí á hverju ári, ef frá eru talin heimsfaraldursár, er ...

Geymsla heyfengs í turnum
Fræðsluhornið 27. september 2022

Geymsla heyfengs í turnum

Heyturnar eru ekki nýjung fyrir Íslendinga en segja má að blómatíð þeirra h...

Ein mest selda dráttarvél landsins
Fræðsluhornið 26. september 2022

Ein mest selda dráttarvél landsins

Claas Arion 470 sem Vélfang selur er millistór traktor á íslenskan mælikvarð...

Um sýni úr heyjum, jarðvegi og búfjáráburði
Fræðsluhornið 26. september 2022

Um sýni úr heyjum, jarðvegi og búfjáráburði

Að gera góða áburðaráætlun getur verið kúnst og reynist stundum talsvert van...

,,Auðveldara að ásaka en útskýra“
Fræðsluhornið 21. september 2022

,,Auðveldara að ásaka en útskýra“

Öðru hvoru eru skrifaðar greinar eða fréttir sagðar af því að íslensk sjáva...