Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kúamykja, innihald og nýting
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 30. apríl 2020

Kúamykja, innihald og nýting

Höfundur: Eiríkur Loftsson ráðunautur, Rekstrar- og umhverfissvið - el@rml.is
Margir þættir hafa áhrif á áburðar­gildi kúamykjunnar sem bændur munu bera á túnin í vor og hvernig hún mun nýtast sem áburður fyrir grös. 
 
Þegar tilbúinn áburður er borinn á tún er vitað hve mikið er borið á af plöntunærandi efnum. Magnið er stillingaratriði og magn næringarefna er ákvarðað með vali á áburðartegund. Hvað varðar búfjáráburð er talsverð óvissa um þessa þætti. Til að vita innihald mykju af plöntunærandi efnum þarf að efnagreina hana og mæla þurrefnisinnihald hennar við dreifingu. Þetta þarf að gera reglulega, kannski oftar í byrjun til að fá fleiri samhljóma niðurstöður og betri tilfinningu fyrir þurrefnisinnihaldi, en síðan á nokkurra ára fresti því innihald mykju af næringarefnum endurspeglar innihald þess fóðurs sem gripirnir eru fóðraðir á og nýtingu þess við fóðrun þeirra. Breytingar í fóðrun hafa því áhrif á efnainnihald mykjunnar. Aðbúnaður mjólkurkúa og mjaltatækni hefur breyst mikið á síðustu árum og með tilkomu mjaltaþjóna fer í mörgum tilvikum meira vatn í haughúsin en áður var vegna þess að vatnsnotkun við þrif hefur aukist mikið. 
Í gegnum tíðina hefur verið notast við töflugildi um innihald búfjáráburðar til að áætla hve mikið af næringarefnum hann gefur, m.a. við gerð áburðaráætlana. Þessi töflugildi eru góð útaf fyrir sig og eru vissulega meðaltöl úr mælingum en breytileikinn er það mikill að ekki er víst að þau  gefi rétta niðurstöðu fyrir einstök bú. Niðurstöður úr sýnum sem tekin hafa verið á síðustu árum sýna talsverðan mun milli búa, bæði hvað varðar efnainnihald kúamykju og þurrefnisinnihald hennar við dreifingu. Dæmi um þetta má sjá í 1. töflu sem sýnir mælingar frá 5 búum. Til samanburðar er viðmið úr Jörð.is fyrir kúamykju með 6,2% þurrefnisinnihaldi. Eins og sjá má er mikill munur milli búa hvað varðar þurrefni, magn efna og hlutföll þeirra. 1. mynd sýnir hve mikið væri borið á af fosfór og kalíi ef 30 tonn/ha væru borin á af mykju með innihaldi skv. þessum mælingum. 
 
1. tafla. Niðurstöður efnagreininga á mykju frá fimm búum. Til samanburðar er viðmiðunargildi úr Jörð.is fyrir kúamykju með 6,2% þurrefni.
 
 
Hvert er þurrefnið í mykjunni þegar henni er dreift á tún?
 
Það er mjög mikilvægt að vita hvert þurrefnið er í mykjunni þegar henni er dreift á tún. Bæði er það til að vita hve mikið er í raun borið á af næringarefnum og eins hefur það áhrif á nýtingu þeirra, einkum köfnunarefnisins í mykjunni. Til að fá rétta niðurstöðu eru sýni tekin meðan á útkeyrslu stendur.
 
Kalíið og um helmingur köfnunarefnisins er í vatnshluta mykjunnar en fosfórinn bundinn í föstu efni hennar. Með mikilli þynningu verður mykjan þunn og léttfljótandi og rennur hratt niður í jarðveginn. Þannig megum við búast við mun betri nýtingu, einkum á köfnunarefni þar sem tap á ammoníaki út í andrúmsloftið verður minna. 
 
1. mynd. Fosfór (kg P) og kalí (kg K) í 30 tonnum af kúamykju frá fimm búum ásamt viðmiði úr Jörð.is fyrir kúamykju með 6.2% þe. Nýting fosfórs er reiknuð 90% en nýting kalís 80%. Þurrefni mykjunnar er tilgreint fyrir hvert bú.
 
2. tafla. Nýting á ammoníum (NH4+ ) úr kúamykju við mismunandi aðstæður. Norskar tölur sem eiga við um mykju sem dreift er með yfirbreiðslu á vaxtartíma grasa. 
 
 
2. mynd.  Reiknuð nýting á ammoníum (kg NH4+) í 30 tonnum af kúamykju frá fimm bæjum ásamt viðmiði úr Jörð.is fyrir mykju með 6,2% þe. Annars vegar er slæm nýting (40%), hins vegar góð (70%). Þurrefni mykjunnar er tilgreint fyrir hvert bú.
 
Köfnunarefni (N)
 
Í áburðaráætlunum vinnum við út frá því magni af köfnunarefni sem áætlað er að bera þurfi á tún eða akra því það hefur jafnan mest áhrif á uppskerumagn. Köfnunarefni í búfjáráburði má skipta í lífrænt bundið köfnunnarefni og ammoníum (NH4+). Ammoníum (ólífræna köfnunarefnið) nýtist plöntum hratt en getur líka auðveldlega tapast út í andrúmsloftið við dreifingu þegar skilyrði eru  óhagstæð. Lífrænt bundið köfnunnarefni er oft tæplega helmingur af heildarmagni köfnunnarefnis í mykjunni. Það verður aðgengilegt plöntum á lengri tíma samhliða því sem hið lífræna efni mykjunnar brotnar niður í jarðvegi og skilar sér á nokkrum árum. Í norskum tölum er ætlað að þannig skili sér árlega sem áburður 10-20% af lífrænt bundna köfnunarefninu eftir því hver niðurbrotshraðinn er. Hér á landi má væntanlega frekar horfa á lægri töluna.
 
Til að lágmarka tap af ammoníum við dreifingu  er eins og áður segir góð þynning mykjunnar mikilvæg þannig að hún sígi hratt niður í jarðveginn. En það er fleira sem hefur áhrif. Aðstæður við dreifingu eru þar afgerandi þáttur. Þannig eru hátt hitastig, mikill vindur og þurrviðri ávísun á mikið tap ammoníaks en að sama skapi lágt hitastig, logn og hátt rakastig kjöraðstæður til dreifingar. Að ekki sé nú talað um ef rignir meðan á dreifingu stendur eða strax að henni lokinni. Í 2. töflu má sjá norskar viðmiðunartölur um nýtingu á ammoníum við ólíkar aðstæður og ólíkt þurrefni mykjunnar. Tölurnar eiga við um mykju sem er dreift með yfirbreiðslu á vaxtartíma grasa.
 
Aðferð við dreifingu hefur einnig mikil áhrif á nýtingu köfnunarefnisins. Þannig er nýting þess best ef mykjan er felld niður, niðurlagning þar sem mykjan er lögð niður í rastir með slöngum er lítið lakari. Yfirbreiðsla (bunudreifing) er sú aðferð sem mest er notuð hér á landi og er hún talsvert lakari en niðurfelling og niðurlögn mykju þegar kemur að nýtingu köfnunarefnisins auk þess sem dreifing mykjunnar verður ekki eins jöfn.
 
Vordreifing mykju er jafnan besta tímasetningin en dreifing milli slátta er einnig góður kostur séu veðuraðstæður sem áður eru nefndar hagstæðar. Haustdreifing hentar einnig ef hún er gerð meðan rætur grasa og aðrar lífverur jarðvegsins geta nýtt sér næringarefni mykjunnar. Á 2. mynd má sjá hve miklu skiptir að vel takist til við dreifingu mykjunnar m.t.t. nýtingar á köfnunnarefninu í henni. Reiknuð er annars vegar slæm nýting (40%) og hins vegar góð (70%) fyrir niðurstöður mælinga á ammoníum í mykju, frá fimm búum. Einnig sést að miklu munar á milli búa í innihaldi mykjunnar. Til viðmiðunar er mykja úr Jörð.is með 6,2% þe.
 
Fosfórinn er fyrst og fremst að finna í „fasta efninu“ í mykjunni. Fyrir nýtingu hans hefur þynning mykjunnar hvorki jákvæð áhrif né neikvæð. Fosfór í búfjáráburði nýtist plöntum jafn vel eða betur en fosfór í tilbúnum áburði. Fosfórþarfir túngrasa eru yfirleitt ekki það miklar að stundum má uppfylla þær með búfjáráburði. Hann er dýrastur megin næringarefnanna í tilbúnum áburði og því full ástæða til að nýta búfjáráburðinn þannig að spara megi innkaup á fosfór. Til þess að svo megi vera þarf að vita hve mikið er af honum í búfjáráburðinum.
 
Það sýnir sig að innihald búfjáráburðar af kalíi er breytilegt. Það hefur líka sýnt sig að oft er erfitt er að áætla kalíþörf túna því niðurstöður jarðvegssýna og heyefnagreininga af sömu spildum sýna stundum ólíka mynd. Innihaldi búfjáráburður mikið af kalíi og mikið er borið á af honum getur það valdið því að kalí verður of mikið í uppskeru og raskar eðlilegum steinefnahlutföllum. Þau áhrif snerta einkum kalsíum og magnesíum. Jafnframt vill kalígjöf verða of lítil ef innihald mykjunnar er minna en gert er ráð fyrir. Það getur líka raskað eðlilegum hlutföllum steinefna í fóðri og dregið úr magni uppskeru, sérstaklega í þurrkatíð.
 
Nýlegar efnagreiningar á búfjáráburði sýna mjög breytilegar niðurstöður. Á það bæði við um þurrefni og efnainnihald. Það er því talsvert að vinna fyrir bændur að taka sýni úr búfjáráburði og senda til efnagreiningar. Leiðbeiningar um sýnatöku er að finna á heimasíðu RML (Ráðgjöf/Jarðrækt/Áburður).
 
Heimildir:
NIBIO. Tabeller over virknings­grad av husdyrgjødsel. Sótt af https://www.nibio.no/tema/jord/gjodslingshandbok/husdyrgjodsel/2.tabeller-over-virkningsgrad-av-husdyrgjodsel
Ragnhild Borchsenius, 2020. Usikre verdier for næringsinhold i husdyrgjødsel. Buskap 2. tbl. 2020.
Ríkharð Brynjólfsson, 2013. Efnamagn mykju. Freyja, 3 (1) 20.
Svanhildur Ósk Ketilsdóttir og Þóroddur Sveinsson, 2010. Efnainnihald kúamykju og mælingar in situ á þurrefni, NH4-N og P með Agros Nova mælibúnaði. Fræðaþing landbúnaðarins, 207-215.

Skylt efni: kúamykja | áburður

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...