Fræðsluhornið 22. nóvember 2019

Instagramstjarnan meðal pottablóma

Ingólfur Guðnason

Þessi skrýtna og skemmtilega pottaplanta (Pilea pepero­mioides) er orðin vinsæl víða um lönd og Ísland er þar engin undantekning. Lauf­blöðin eru nánast kringlótt, stjörnustrengjótt og sitja þétt á stuttum stöngli.

Hægt er að móta lögun plönt­unnar með því að fjarlægja toppinn en þá myndar plantan margar greinar. Neðst á plöntunni myndar plantan svo margar smáar hliðargreinar sem auðvelt er að fjarlægja og fá þannig efnivið í margar plöntur af einni móðurplöntu.

Ræktunarsaga blettaskyttu er merkileg. Norskur trúboði, Agnar Espegren að nafni, starfaði í Yunnan-héraði í Kína á 5. áratug síðustu aldar. Árið 1944 varð hann að yfirgefa trúboðsstarfið og flytja heim til Noregs. Ferða­lagið var langt og strangt og meðal annars þurfti hann að staldra við í Kunming-borg í Kína og í Kalkútta á Indlandi, þannig að hann og fjölskylda hans komu ekki til Noregs fyrr en árið 1946. Hann hafði eignast þessa skrýtnu jurt meðan á Kínadvölinni stóð og flutti hana með sér alla leið til heimalandsins. Þar dafnaði jurtin á heimili Aspegren-fjölskyldunnar. Þau voru iðin við að gefa vinum og kunningjum græðlinga af henni en starfs síns vegna þurfti herra Aspegren að ferðast talsvert um Noreg. Fyrr en varði var blettaskyttuna víða að finna á norskum heimilum og nafnið „trúboðaplanta“ festist við hana þar. Von bráðar barst plantan til Svíþjóðar og þar barst hún víða inn á heimili fólks með gjafagræðlingum. Víkur nú sögunni vestur til Bretlandseyja.

Sidebottoms-fjölskyldan bjó í Cornwall í Englandi á þessum árum. Þar dvaldist um tíma norsk vinnukona sem átti dóttur, Jill að nafni. Dóttirin unga fór árið 1963 í heimsókn til skyldfólks síns á Jaðri í Noregi og fékk þar að gjöf blettaskyttu í potti sem hún kom með til Cornwall. Hún varð fljótt vinsæl stofuplanta þar líkt og í Noregi og Svíþjóð og án efa víðar.

Árið 1976 tók sænski grasa­fræðingurinn Lars Kers eftir því að óþekkt planta óx í Grasagarðinum í Stokkhólmi þar sem hann starfaði. Hann brá á það ráð að auglýsa eftir fleiri eintökum af plöntunni í vinsælum sænskum sjónvarpsþætti og fékk viðbrögð frá meira en 10.000 áhorfendum, svo ljóst var að tegundin var orðin verulega útbreidd sem pottaplanta þrátt fyrir að hún væri svo til óþekkt hinum akademíska heimi og hvergi til sölu í gróðrarstöðvum.

Á Englandi var saga plöntunnar sömuleiðis óþekkt grasa­fræðingum sem ólmir vildu kynnast henni betur. Grasafræðingar konunglega grasagarðsins í Kew á Englandi fengu að endingu sýnishorn af plöntunni og það var ekki fyrr en árið 1984 sem henni var fyrst lýst af vísindalegri nákvæmni þar á bæ. Reyndar hafði hún verið greind árið 1906 af skoskum grasafræðingi en hún fékk ekki mikla athygli þá.

Til Bandaríkjanna og Kanada barst blettaskyttan upp úr 1980 og e.t.v. eitthvað fyrr, og sem áður var það áhugafólk um pottaplöntur sem stóðu að dreifingu hennar þar í fyrstu. Fljótlega varð hún að mikilli tískuplöntu og varð vinsæl á samfélagsmiðlum þegar þeir komu til sögunnar, sérstaklega á Instagram og Facebook þar sem fólk skiptist á upplýsingum og ljósmyndum. Netsala jókst mikið og er hægt að finna hana til sölu á netinu í dag.

Fyrir fáeinum árum fóru svo garðyrkjuframleiðendur að taka við sér og bjóða blettaskyttu til sölu á Vesturlöndum og nú er hún auðfáanleg í blómaverslunum. Ekki þurftu blómabændur mikið að auglýsa blettaskyttuna því hún er eitt mesta tískufyrirbærið í pottaplöntuheiminum og ein sú vinsælasta á samfélagsmiðlum á Íslandi um þessar mundir.