Eru tækifæri í kolefnisbindingu?
Mynd / HKr.
Fræðsluhornið 4. febrúar 2021

Eru tækifæri í kolefnisbindingu?

Höfundur: Sveinn Margeirsson, Ólafur Margeirsson og Sigurlína Tryggvadóttir.

Kolefnisbinding hefur verið talsvert til umræðu á síðustu árum og verður eflaust áfram, einfaldlega vegna aðgerða víða um heim til að bregðast við loftslagsvandanum. Til þess þarf bæði að draga úr kolefnislosun sem og að auka kolefnisbindingu. Kolefnisbinding í landi er ein af lykilaðgerðum verkefnisins Nýsköpun í norðri (NÍN), en það er samstarfsverkefni Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Hluti af NÍN er verkefnið KOLNÍN, en það snýr að fýsileikagreiningu kolefnisbindingar á starfssvæði NÍN. 

Geta lands til kolefnisbindingar er mikil. Hún fer eftir landnotkun og sem dæmi má reikna með að kolefnisbinding asparskógar sé að jafnaði um 18 tonn á hektara á ári, skv. niðurstöðu fagráðstefnu Skógræktarinnar árið 2019. Binding í ræktuðum birkiskógi er mun minni, en þó umtalsverð, eins og meðfylgjandi tafla um kolefnisbindingu í ræktuðum skógi sýnir.

Ef gengið er út frá landkostum á NÍN-svæðinu og hóflegri nýtingu lands til kolefnisbindingar, má gera ráð fyrir að kolefnisbinding þar geti verið 300-500 þúsund tonn á ári. Mikilvægt er að kolefnisbinding fari saman við önnur landnot og skipulag lands og er því til skoðunar hjá Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi (NÍN) að taka kolefnisbindingu í landi sérstaklega til athugunar við uppfærslu aðalskipulags sveitarfélaganna.

Markaðurinn með kolefnisbindingu

Kolefnisbinding er þjónusta sem stórfyrirtæki jafnt sem einstaklingar borga fyrir, m.a. til að ná eigin markmiðum um nettó kolefnislosun. Verðlagning á kolefnisbindingu er nokkuð sem margir velta fyrir sér. Verðlagning fer m.a. eftir kolefnisbindingaraðferð og staðsetningu. Þannig bjóða sumir landeigendur í þróunarlöndum upp á kolefnisbindingu fyrir ca. 5 USD/tonn í formi þess að vernda gamla skóga en grónir skógar binda meira en nýskóglendi og kosta minna í umsýslu, sérstaklega í þróunarlöndum þar sem laun eru lág. Þegar kemur að nýskógrækt á Íslandi má nefna Kolvið, sem þjónustar fjölda íslenskra fyrirtækja með kolefnisbindingu fyrir um 17 USD / tonn. 

Markaðurinn með kolefnisbindingu mun væntanlega stækka á næstu árum, einfaldlega vegna vaxandi eftirspurnar eftir þjónustunni. Sú eftirspurn verður drifin af bæði fyrirtækjum sem hinu opinbera. Má nefna Þýskaland sem hefur byrjað að heimta kolefnisgjald fyrir hvert tonn af CO2 útblæstri vegna húshitunar með olíu eða vegna samgangna. Gjaldið í dag er 25 EUR / tonn en það mun hækka í 30 EUR / tonn á næsta ári og verða nálægt 60 EUR / tonn eftir fimm ár. Þetta kolefnisgjald mun stuðla að minni útblæstri og aukinni eftirspurn eftir kolefnisbindingu. 

Fyrirtæki í Evrópu með stór kolefnisfótspor, þ.m.t. álfyrirtæki á Íslandi, eru einnig skyldug til að taka þátt í kolefniskvótamarkaði Evrópusambandsins (EU Emission Trading Scheme). Tonn af kolefnisútblæstri kosta þar ríflega 30 EUR (m.v. EUR 9 fyrir þremur árum síðan) en fyrirtæki geta minnkað kostnað sinn vegna kaupa á kolefniskvóta með því að kaupa kolefnisbindingu. 

Þá er fjöldi fyrirtækja byrjuð að byggja upp kolefnisjöfnunarsjóði sem notaðir verða til að kaupa kolefnisbindingu í náinni framtíð. Má nefna Swiss Re tryggingafélagið í Sviss sem dæmi en það borgar 100 USD fyrir hvert tonn af CO2 útblæstri sem fyrirtækið er ábyrgt fyrir í sjóð sem verður notaður til að kaupa kolefnisbindingu í náinni framtíð. Meðlimir „Nettó Núll Útblástur” hópsins (Net-zero Asset Owner Alliance) munu einnig þurfa á kolefnisbindingu að halda en þessi 33 fyrirtæki, með heildareignir yfir 5.100 milljarða dollara, hafa lýst því yfir að valda engum útblæstri árið 2050. Til þess þurfa þau að minnka útblástur annars vegar og kaupa kolefnisbindingu hins vegar.

Kolefnisbinding sem tækifæri fyrir íslenska landeigendur

Það er eðlilegt að spurt sé hvort tækifæri séu í kolefnisbindingu fyrir íslenska bændur og aðra landeigendur. Um er að ræða nýlegan markað sem er enn að þroskast. Tíminn verður að leiða í ljós hversu mikil tækifærin eru, en það er vitanlega að miklu leyti í höndum þeirra sem þróa þau áfram. Líklegt verður að teljast að kolefnisskattar verði lagðir á og jafnframt að ferðahegðun muni að einhverju leyti taka mið af viðhorfum gagnvart kolefnisjöfnunar. Sökum þessa hafa aðgerðir NÍN miðað að samþættum áhrifum, eins og sýnt er á meðfylgjandi skífuriti.

Sveinn Margeirsson, verkefnisstjóri NÍN og sveitarstjóri Skútustaðahrepps

Ólafur Margeirsson 

hagfræðingur

Sigurlína Tryggvadóttir 

landfræðingur

Áhrif sauðfjárbeitar á plöntur í hlýnandi heimi
Fræðsluhornið 4. mars 2021

Áhrif sauðfjárbeitar á plöntur í hlýnandi heimi

Loftslagsbreytingum á norður­heimskautinu fylgir hækkandi lofthiti sem hefur áhr...

Álalogia II
Fræðsluhornið 2. mars 2021

Álalogia II

Ólíkt öðrum fiskum sem finnast í ám og vötnum, eins og lax og silungur, leitar á...

Öflug naut komin til notkunar
Fræðsluhornið 2. mars 2021

Öflug naut komin til notkunar

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í janúar að loknu ársuppgjöri og því er ágætt að ...

Framleiðsla og sala á kindakjöti árið 2020
Fræðsluhornið 1. mars 2021

Framleiðsla og sala á kindakjöti árið 2020

Árið 2020 verður af mörgum ástæðum haft til viðmiðunar þegar sagan verður rýnd. ...

Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins
Fræðsluhornið 26. febrúar 2021

Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins

Hvað getur verið einfaldara en að setja álegg á milli tveggja eða fleiri brauðsn...

Jeep Renegade PHEV, skemmtilegur bíll á góðu verði
Fræðsluhornið 24. febrúar 2021

Jeep Renegade PHEV, skemmtilegur bíll á góðu verði

Í nóvember síðastliðnum prófaði ég rafmagns/bensínbílinn Jeep Compass Trailhawk,...

Álalogia
Fræðsluhornið 22. febrúar 2021

Álalogia

Íslendingar hafa lengst af verið hræddir við ála og jafnvel talið þá eitraða, þr...

Bubblur í glasi
Fræðsluhornið 18. febrúar 2021

Bubblur í glasi

Í huga margra er allt freyðivín kampa­vín en það er ekki rétt. Kampavín er freyð...