Erfiðir tímar í nautakjötsframleiðslu
Fræðsluhornið 30. september

Erfiðir tímar í nautakjötsframleiðslu

Höfundur: Margrét Gísladóttir og Höskuldur Sæmundsson

Nautakjötsmarkaðurinn hefur tekið töluverðum breytingum undanfarið, ekki einungis vegna fækkunar ferðamanna í kjölfar COVID-19 heldur hefur tollaumhverfið einnig breyst. Saman hefur þetta töluverð neikvæð áhrif á framleiðslu og sölu nautakjöts hér á landi og hefur afkoma bænda farið versnandi.

Innanlandsframleiðsla dregst saman

Framleiðsla og sala nautgripakjöts innanlands fyrstu 8 mánuði ársins 2020 var tæplega 3.100 tonn. Það er 4,6% minni framleiðsla en á sama tímabili árið 2019 þegar fram­leiðslan var um 3.240 tonn og árið 2018 þegar hún var um 3.225 tonn. Á sama tíma hefur verð til bænda lækkað, fyrst um og upp úr síðastliðnum áramót, þegar verð á kýrkjöti fór niður um 10%, og nú í septembermánuði þegar bæði SS og KS lækkuðu verð hjá sér. Lækkun SS náði yfir ungneyti, ungar kýr og naut og nam allt að 9,5% og KS lækkaði verð fyrir ungneyti og kýr í lökustu flokkunum um allt að 23,3% % (verðfelling vegna fituflokkunar undanskilin). Má rekja verðlækkunina til ýmissa samverkandi þátta samkvæmt fyrirtækjunum, s.s. langra biðlista, birgðasöfnunar á hakkefni og aukins innflutnings, auk um 75% verðlækkunar á tollkvóta frá Evrópusambandinu sl. 2 ár.

Augljóst er að þessar verðlækk­anir munu hafa töluverðar afleið­ingar á búrekstur nautgripabænda, sem er í raun orðinn neikvæður miðað við síðustu verðlækkanir. Launaliður bóndans skerðist þannig enn frekar enda hefur bóndinn fáa vasa til að sækja sínar lækkanir úr. Meðalframleiðslutími fullbúins UN sláturgrips eru tæp 3 ár, rúm 2 ár á fæti m.v. 2019 og 9 mánuðir í burði. Það er því ljóst að sú framleiðsla sem bændur byggja þessa skertu afkomu sína á næstu misserin hefur þannig verið í bígerð síðan amk í ársbyrjun 2018.

Afurðaverð til bænda fallið hratt

Þegar horft er til þróunar verðskráa fyrir ungneyti (UN) eftir upptöku EUROP kerfisins frá áramótum 2018 er hægt að sjá að vigtað afurðarverð til bænda hefur einungis farið niður. Landssamband Kúabænda hefur verið að vinna að afurðarverðsmeðaltali fyrir UN kjöt með sömu forsendum og sauðfjárbændur hafa verið að taka saman afurðarverð til bænda.

Á þessum tíma hefur hins vegar vísitala neysluverðs hreyfst í gagnstæða átt, hefur hækkað um 8,5 % á meðan vigtað afurðarverð til bænda fyrir UN kjöt hefur lækkað um rúm 10% með síðustu lækkunum nú í september. Öll aðföng og kostnaður hafa hækkað meðan verðið hefur lækkað og því augljóslega blikur á lofti. Það er því ljóst að þessi þróun þarf að liggja til grundvallar þegar bændur í dag undirbúa sig fyrir slátrun sumarsins 2023.

Innflutningur 14,6% minni en í fyrra

Innflutningur á nautgripakjöti fyrstu 7 mánuði ársins er 670 tonn leiðrétt fyrir beini. Þar af er einungis um 5,5 tonn ófrosin, sem er minna en maður hefði ætlað. Ljóst er að eftirspurnin eftir þessari tegund kjöts er nánast engin, innan við 1%, sem vekur upp spurningar um hinn mikla þrýsting sem var að heimila þennan innflutning. En markaðurinn nú er vissulega minni en áður sökum COVID-19. Ferðamönnum fækkar og fólk er meira heimavið og veitingastaðir kaupa því minna en áður.

Tollkvótar aukast áfram

En fækkun ferðamanna var reyndar hafin fyrr. Árið 2019 komu 14,1% færri ferðamenn til Íslands en 2018 og má ætla að heildarfjöldi ferðamanna árið 2020 verði einungis brot af þeim fjölda sem gert var ráð fyrir í öllum spám. Þrátt fyrir þetta eru tollkvótar að aukast ár frá ári og um næstu áramót verður tollkvóti fyrir nautakjöt frá Evrópusambandinu til Íslands orðinn 696 tonn, tæplega sjöföldun frá því sem var árið 2017. Þegar vaxandi tollkvótar og minnkandi eftirspurn fara saman gerir það að verkum að það magn sem er að koma til landsins hefur meiri verðmyndandi áhrif á innanlandsframleiðslu. Haldi þróunin áfram gæti farið svo að allt nautakjöt sem flutt er inn til landsins sé á tollkvótum og því enn ódýrari en ella.

Í ljósi þessa höfum við fundað með utanríkisráðherra og lagt þunga áherslu á að tollasamningurinn við Evrópusambandið verði hið minnsta endurskoðaður, enda forsendur samningsins löngu brostnar.

Nýjar úthlutunarreglur tollkvóta þungar fyrir nautgriparæktina

Til viðbótar við aukningu á tollkvótunum kemur svo að í júnílok var í fyrsta sinn beitt nýjum úthlutunarreglum á tollkvótum, svokölluð hollensk leið. Kom breytingin verst út fyrir nautakjöt en verð á tollkvótum hríðféll og var þá einungis fjórðungur þess sem það var í upphafi árs 2018. Hafði Landssamband kúabænda varað við þessu frá upphafi viðræðna um innleiðingu þessa kerfis og höfum við nú óskað eftir fundi með landbúnaðarráðherra til að ræða þá erfiðu stöðu sem komin er upp fyrir samkeppnishæfni greinarinnar.

Breyttir tímar kalla á ný ráð

Það hefur svo ótal margt gott áunnist undanfarin ár og þeim árangri má ekki glata. Nýtt erfðaefni í holdanautarækt er komið út í hjarðir víðsvegar um landið, bæði með sæðingum og Angus nautum sem seld hafa verið frá einangrunarstöðinni á Stóra Ármóti. Flokkun gripa þokast uppá við og veitinga- og kjötiðnaðarfólk hefur haft orð á því að gæði innlendrar framleiðslu hafi aukist mjög á stuttum tíma. En til að halda uppi sterkri hagsmunagæslu í harðnandi samkeppni er mikilvægt að gögn séu til staðar, gefi rétta mynd af stöðunni hverju sinni og séu sett fram á aðgengilegan hátt. Við hjá LK höfum óskað eftir að gögn um innflutning berist fyrr en hefur verið sem og að skráningar á birgðum og sölu í opinberum gögnum séu nákvæmari. Þá er einnnig gerð gagnagrunns fyrir fyrrgreint afurðarverðsmeðaltal nautgripa í vinnslu hjá samtökunum.

Samkeppni við innflutt matvæli fer líka harðnandi og við þreytumst seint á að berjast fyrir betri merkingum til neytenda, hvort sem er í búðum, á veitingustöðum eða í mötuneytum. Það er ekki nóg að eiga gögnin, það þarf líka að huga að markaðssetningu vörunnar. Um þessi mál hefur verið rætt á flestum fundum bænda undanfarin ár og erum við hjá LK nú að vinna að gerð sérstakrar merkingar fyrir íslenskt nautakjöt svo greinilegra sé fyrir neytendur að um sé að ræða íslenska vöru. Hafa sláturleyfishafar og kjötvinnslur tekið vel í slíkar merkingar og vonumst við eftir að sjá afrakstur þeirrar vinnu í búðum landsmanna fyrir lok þessa árs.

Þau eru mörg og fjölbreytt verk­efnin sem þarf að ráðast í í nautakjötsframleiðslu á Íslandi. En við búum hins vegar vel að eiga fagfólk víða um land sem starfar af reynslu, þekkingu og hugsjón. Við stöndum á tímamótum þar við getum með réttum handtökum og bættu erfðaúrvali náð fram mikilli framþróun í gæðum nautgripakjöts. Deilum þekkingu, hugum vel að fóðrun, náum fleiri gripum í hærri flokka og verum stolt af framleiðslunni okkar.

Höfundar:

Margrét Gísladóttir,
framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda,

Höskuldur Sæmundsson,
verkefnastjóri markaðsmála hjá LK.

Nýtt naut í notkun
Fræðsluhornið 21. október

Nýtt naut í notkun

Fyrir skömmu birtist yfirlit um reynd naut í notkun hér á síðum blaðsins. Nú hef...

Skortur á slökkvivatni til sveita og löng bið eftir slökkviliði
Fræðsluhornið 21. október

Skortur á slökkvivatni til sveita og löng bið eftir slökkviliði

Nær þriðjungur bænda, eða rúmlega 30 prósent, telja að ekki sé nægur og greiður ...

Búa til melassa úr spæni
Fræðsluhornið 20. október

Búa til melassa úr spæni

Það er líklega öllum ljóst að í Noregi er til mikið af skógi og sögunar-verksmið...

Silkivöndur er réttnefni á fallegu blómi
Fræðsluhornið 13. október

Silkivöndur er réttnefni á fallegu blómi

Silkivöndur (Eustoma, þekkist líka undir nafninu Lisianthus) er eitt af þessum f...

Talsverðar brotalamir á eldvörnum í útihúsum bænda
Fræðsluhornið 7. október

Talsverðar brotalamir á eldvörnum í útihúsum bænda

Talsverðar brotalamir eru á eldvörnum í úti- og gripahúsum bænda hér á landi sam...

Skógrækt og loftslagsmálin – Inngangur
Fræðsluhornið 5. október

Skógrækt og loftslagsmálin – Inngangur

Það kann að vera að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um möguleika aukinnar sk...

Staða í ullarmálum vegna COVID-19
Fræðsluhornið 2. október

Staða í ullarmálum vegna COVID-19

Það hefur skapast mjög skrýtin og snúin staða í ullarmálum vegna COVID-19. Mörg ...

Erfiðir tímar í nautakjötsframleiðslu
Fræðsluhornið 30. september

Erfiðir tímar í nautakjötsframleiðslu

Nautakjötsmarkaðurinn hefur tekið töluverðum breytingum undanfarið, ekki einungi...