Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fræðslufundaröð fyrir sauðfjárbændur
Á faglegum nótum 5. október 2015

Fræðslufundaröð fyrir sauðfjárbændur

Frá haustinu 2013 hefur RML starfrækt fundaröð fyrir sauðfjárbændur sem hefur gengið undir nafninu Sauðfjárskólinn.
 
Í nokkur ár þar á undan höfðu nokkur búnaðarsambönd starfrækt sambærilega fundaröð og hefur Sauðfjárskólinn nú verið í boði fyrir sauðfjárbændur í öllum landshlutum. Þátttaka hefur verið góð og eru t.d. um 90 bú á Vesturlandi og Vestfjörðum sem eru að ljúka sínum fundum nú í nóvember. 
 
Á fundunum er fjallað um ýmsar hliðar sauðfjárbúskapar og reynt að fara vel yfir og ræða það sem mestu máli skiptir til að ná góðum árangri í þessari búgrein. Sauðfjárskólinn stendur í u.þ.b. eitt framleiðsluár, haldnir eru sjö fundir á þeim tíma sem standa alla jafna frá kl. 13–17. 
 
Fundirnir eru haldnir á virkum dögum. Leiðbeinendur verða fyrst og fremst starfsmenn RML á sviði sauðfjárræktar, starfsmenn RML á sviði jarðræktar, bútækni og rekstrar koma inn sem leiðbeinendur  á staka fundi og dýralæknir verður aðalleiðbeinandi á einum fundi. Umsjónarmaður með þessu verkefni, Sauðfjárskólanum, er Árni B. Bragason, ab@rml.is.
 
Næsta fundaröð í Sauðfjárskólanum
 
Starf Sauðfjárskólans hefur verið héraðabundið til þessa en þar sem nú er búið að starfrækja hann einu sinni í öllum landshlutum er ætlunin að bjóða bændum hvar sem þeir búa á landinu að skrá sig í næstu fundaröð.
 
Sauðfjárskólinn sem nú er langt kominn kostaði 60.000 krónur á bú en fyrirsjáanlegt er að hækka þarf þátttökugjaldið eitthvað. Gjaldið þarf að greiða fyrir 20. desember 2015. Aðeins er hægt að kaupa allan pakkann en ekki einstaka fundi. Þeir bændur sem greiða búnaðargjald geta sótt um styrk  í Starfsmenntasjóð bænda en hver bóndi hefur getað fengið að hámarki um 33.000 krónur í styrk vegna endurmenntunar árlega. Sjóðurinn greiðir út styrkina að námi loknu þannig að í þessu tilfelli yrði hugsanlegur styrkur ekki greiddur fyrr en eftir rúmt ár. 
 
Frá hverju búi geta komið á fundina þeir aðilar sem standa að búrekstrinum (allt að þrír) þannig að t.d. hjón geta komið bæði eða skipst á að mæta ef það hentar. 
 
Árið 2013 gaf bókaútgáfan Uppheimar, í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, út veglega 300 bls. kennslubók um sauðfjárrækt. Reiknað er með að þátttakendur í Sauðfjárskólanum hafi þessa bók til aflestrar á meðan á námi stendur. Bókina er m.a. hægt að kaupa hjá Landbúnaðarháskóla Íslands  og verður bókin boðin til sölu á fyrsta fundi Sauðfjárskólans á hverjum stað gegn staðgreiðslu. 
Hér á eftir fer örstutt lýsing á áætlaðri dagskrá fundanna með fyrirvara um breytingar.
 
1. fundur, miður nóvember 2015
Fóðrun og umönnun áa til frjósemi og afurða.
Haustmeðferð og fóðuráætlun - Farið yfir niðurstöður tilrauna og almennar ráðleggingar. 
Nokkur atriði um sauðfjársæðingar, tilgangur og leiðir til að ná góðri fangprósentu.
Frágangur á haustbók í fjárvís.is og skipulag á  komandi fengitíð. 
 
2. fundur, miður janúar 2016
Fóðrun og markmið með fóðuröflun og haustbeit.
Kynning á skýrsluhaldi í sauðfjárrækt og uppbyggingu þess.
Fjárvís, uppgjör síðasta árs. 
Uppgjörsskýrslur, stöðumat og markmiðasetning.  
Skráning fangs, fósturtalninga o.fl.
 
3. fundur, miður febrúar 2016  
Fóðurkostnaður, fóðuröflun og fóðurgæði, greining á kostnaðarþáttum. Sniðið að sauðfjárbúum.
Undirbúningur vorsins, áburðardreifing, sáningar í tún og grænfóður. 
Skipulagning vor og haustbeitar. 
Sumarbeitin afréttir/heimalönd – rætt um nokkur umhugsunaratriði.
 
4. fundur, miður mars 2016
Húsvist sauðfjár, vinnuhagræðing á vetri, fóðrunaraðferðir.
Byggingarreglugerð, gólfgerðir og einangrunarefni (kostir og gallar), helstu húsgerðir, gjafagrindur, gjafavagnar, brynningar.
Vinnuhagræðing við gjafir, umhirðu og meðhöndlun áa á vetri.
Undirbúningur sauðburðar, flokkun áa, bólusetning og lyfja­gjöf. Vinnuskipulag á sauðburði.
 
5. fundur, fyrri hluti í apríl 2016
Sauðburður, fæðingarhjálp, sjúkdómavarnir, undirvenjur, vinnulag, beitarskipulag.
Helstu sjúkdómar á sauðburði og meðhöndlun þeirra. Fjárvís.is, burðarskráning og aðrar vorskráningar.
 
6. fundur, seint í ágúst 2016 
Hauststörfin, flokkun lamba og beitarskipulag og vinnulag við fjárrag haustsins. 
Hagkvæmni haustbötunar, mat á væntanlegu verðmæti afurða og val á sláturtíma. 
Fjárvís.is, nýting hans til undirbúnings hauststarfa og líflambavals.
Þuklun ásetningslamba – verkleg kennsla
 
7. fundur – í lok nóvember 2016
Rýnt í ræktun og rekstur. Helstu áhrifaþættir og helstu leiðir til að bæta afrakstur búsins? 
Þátttakendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta skoðað ýmsar tölur framleiðsluársins sem hér er að ljúka og metið árangurinn. 
 
Hafir þú/þið áhuga á að taka þátt í „Sauðfjárskólanum“ skaltu endilega skrá þig/ykkur fyrir 25. október 2015. Senda skal skráningu í tölvupósti á netfangið rml@rml.is eða hringja í síma 516-5000. Í skráningunni þarf að koma skýrt fram nafn bæjar og nöfn, kennitölur, símanúmer og netföng þátttakenda frá búinu.
 
Haft verður samband við alla sem skrá sig fyrstu dagana í nóvember en að sjálfsögðu þarf einhverja lágmarksþátttöku til þess að grundvöllur sé fyrir því að fara að stað með fundaröð t.d. í landsfjórðungi. Það gæti því verið upplagt að ræða þetta við aðra sauðfjárbændur í héraðinu og safna liði.

Skylt efni: Sauðfjárskóli RML

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...