Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Helen Lawless, aðgengis- og verndunarfulltrúi hjá landssamtökum göngufólks á Írlandi, hefur í starfi sínu náð miklum árangri í að bæta samskipti landeigenda og göngufólks þar í landi. Hún hélt erindi á ráðstefnu um ábyrga ferðamennsku í síðustu viku og fó
Helen Lawless, aðgengis- og verndunarfulltrúi hjá landssamtökum göngufólks á Írlandi, hefur í starfi sínu náð miklum árangri í að bæta samskipti landeigenda og göngufólks þar í landi. Hún hélt erindi á ráðstefnu um ábyrga ferðamennsku í síðustu viku og fó
Fréttir 12. maí 2017

Fræðsla og gerð göngustíga forsenda verndar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Vernd og afþreying í náttúrunni getur farið saman með því að auka skilning ferðamanna á áhrif athafna þeirra sem og með því að gera ráðstafanir til að minnka þau áhrif. Það er til dæmis hægt að gera með viðeigandi uppbyggingu og slóðagerð á fjölförnum svæðum, en landeigendur eiga ekki að þurfa að bera kostnað af slíkri uppbyggingu. Það er skoðun Helenar Lawless, sem fjallaði um vernd og vitund göngufólks á ráðstefnunni „Öxlum ábyrgð – Hvað get ég gert?“ 
 
Hlutverk útivistarfélaga og ferðaþjónustunnar við að vernda og tryggja aðgengi að náttúrunni var til umræðu á málþinginu sem haldið var fimmtudaginn 4. maí sl. Tilefnið var 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands, sem stóð fyrir þinginu ásamt Landgræðslunni. Ein af málflutningsmönnum þingsins var Helen Lawless en hún gegnir starfi aðgengis- og verndunarfulltrúa hjá landssamtökum göngufólks á Írlandi, Mountaineering Ireland. Innan landssamtakana starfa 185 ferðafélög, með um 12.000 félaga, sem skipuleggja gönguferðir víðs vegar um Írland. Nokkur líkindi eru með ástandi Íslands og Írlands, að sögn Helenar, þar sem fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega á undanförnum árum. Á Írlandi sé einnig kallað eftir stjórn og skipulagi á ferðamannastraumnum því fjölfarin svæði hafa orðið fyrir varanlegum skemmdum og jarðvegseyðing sé víða orðið vandamál. 
 
Enginn almannaréttur
 
Mestallt landsvæði Írlands er í einkaeign og fjalllendi gjarnan í eigu bænda sem nýta það í landbúnað. Helen segir að hefð sé fyrir því að göngufólk hafi góðfúslegt leyfi til að nota land til afþreyingar, en lagalegur réttur er hins vegar enginn. Almannaréttur sé ekki til staðar í írskum lögum. „Við höfum notið velvildar bænda í áratugi en að undanförnu hefur fjölgun ferðamanna aukið ágang á svæði og það hefur vakið ugg hjá bændum,“ segir Helen Lawless.
 
Álag á náttúruna er víða orðið vandamál á Íslandi. Helen þykir mikilvægt að bregðast við með vandaðri uppbyggingu göngustíga. Hér má sjá aðkomu að vinsælum stað á hverasvæðinu Seltúni í Krýsuvík. Mynd/Landgræðsla ríkisins
 
Vandamál bænda á Írlandi eru af ýmsu tagi líkt og hér. Fólk hefur verið að leggja bílum sínum við hlið, skemmt girðingar og raskað ró búfénaðar. Bændur hafa einnig lýst yfir áhyggjum af slóðum sem hafa myndast og tilheyrandi jarðvegseyðingu vegna ágangs. Stundum skilur ferðafólk ekki að bændur eigi landið sem það fær afnot af og bregst illa við ábendingum þeirra. 
 
Góð samskipti bænda og göngufólks séu í reynd grundvallarþáttur í aðgengismálum og þar vinni landssamtökin með bændum á mörgum sviðum. „Stór þáttur í mínu starfi felst því í fræðslu og miðlun á réttindum landeigenda og skyldum göngufólks. Ég hitti bændur persónulega þegar upp koma vandamál en aðalatriðið er að fyrirbyggja vandræði og við leggjum megináherslu á góð samskipti svæðisfélaga við bændur á tilteknu svæði. Flest fjalllendi Írlands eru nýtt í landbúnaði, s.s. undir beit. Göngufólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir því, og nálgast landið sem frjálst afþreyingarsvæði. Ferðafólk verður að átta sig á að það er gestir á eignarlandi. Það á að hegða sér samkvæmt því og í því fellst að skerða ekki getu bóndans við að stunda landbúnað á því.“ 
 
Mikilvægi landgæða
 
Hún segir að landeigendur í Írlandi hafi ekki brugðið á það ráð að rukka aðgangseyri að svæðum en margir hafi þó óbeint gert það með því að innheimta gjald fyrir bílastæði, reisa tjaldstæði eða veitingaþjónustu nálægt svæðum sem eru vinsæl meðal göngu- og ferðafólks. Hún telur jákvætt að landeigendur sjái þessi tækifæri í fjölgun ferðamanna á land sitt. 
 
„Við viljum ekki sjá þá þróun að landeigendur geti rukkað aðgangseyri. Það eru aðrar leiðir fyrir þá til að græða á fjölgun ferðamanna. Ef bóndi ákveður hins vegar að innheimta aðgangseyri að svæði þá eykur það lagalega ábyrgð hans gagnvart gestum svæðisins og því velja fæstir landeigendur þá leið.  Viðeigandi þjónusta er því eitthvað sem við viljum frekar sjá en það eru ekki allir bændur í þeirri stöðu að geta byggt upp slíka þjónustu og því er það skoðun okkar að allir bændur, sem eiga og vernda land sem þjónustar vistkerfi og samfélag á einhvern hátt, ættu að fá umbun fyrir það.“
 
Í ljósi þessa  hafa Mountaineering Ireland og fleiri komið þeim tilmælum til stjórnvalda að greiða þurfi bændum í fjalllendi Írlands fyrir eiginleika umhverfisins og þeirra gæði sem almenningur nýtur af landi þeirra.  „Landslagið er ekki eingöngu aðdráttarafl fyrir ferðamenn og frábær vettvangur til afþreyingar. Þar eru einnig okkar vatnsuppsprettur sem tryggja hreinleika vatnsins og votlendi sem binda kolefni. Því er ljóst að á meðan írskt fjalllendi er í góðu ástandi þá bera margir hag af því, ekki eingöngu landeigandi eða ferðamaður. En þessi ávinningur er landeigandanum ekki til beinna hagsbóta. Hann hýsir í raun almannagæði og vistkerfisþjónustu en fær ekkert borgað fyrir.“  
 
Fleiri starfsmenn á plani
 
Álag á Ísland er víða orðið mikið og umkvartanir landeigenda vegna ágangs eru orðnar háværar. Á aðalfundi Landssamtaka landeigenda kom m.a. fram að ágangur ferðaþjónustufyrirtækja á eignarlönd hafi valdið verulegum spjöllum og landnauð, og því var velt upp hver væri réttur landeigenda til að vernda land sitt fyrir ágangi og óafturkræfum spjöllum.
 
Helen segir fræðslu grundvallarþátt verndar fjölfarinna staða. „Hingað kemur fjöldi fólks sem þekkir ekki til náttúrunnar og kemur úr gjörólíku umhverfi. Því væri við hæfi að sjá fleiri starfsmenn á fjölförnum stöðum sem gætu útskýrt fyrir fólki af hverju tiltekið umhverfi er sérstakt og gera þeim svo grein fyrir viðeigandi hegðun við það.“ 
 
Í Valahnúk í Þórsmörk er að finna dæmi um vel hannaðan göngustíg sem virðist endast vel. Stígurinn var gerður fyrir fáeinum árum, unnið var með náttúrunni, notast var við staðbundinn efnivið og kapp lagt á að hann félli vel að umhverfinu. Mynd/Landgræðsla ríksins
 
Þá þarf að mati Helenar að huga sérstaklega að skipulagningu svæða og gerð göngustíga. „Þið búið yfir sérstöku vistkerfi og fólk flykkist til Íslands vegna þess. Því verður augljóslega að finna leiðir til að vernda umhverfið og viðhalda því í sinni náttúrulegu mynd. Það þarf því að skipuleggja fjölfarin svæði þannig að reynsla ferðalangsins sé jákvæð en jafnframt þannig að náttúran þar sé vernduð. Gera þarf viðeigandi ráðstafanir, til dæmis með uppbyggingu göngustíga, en mikilvægt er að öll mannvirki sem gerð eru séu hönnuð með það í huga að þau hafi sem minnst áhrif á ásýnd umhverfisins. Meginuppistaða stígagerðar á að vera að vernda náttúrufegurðina, ekki að auðvelda gönguna. En einnig er mikilvægt að stígar þoli veðurfar og sé reglulega viðhaldið.“
 
En kostnaður við uppbyggingu og viðhald göngustíga á fjölförnum stöðum á ekki í öllum tilfellum að vera í höndum landeigenda að mati Helenar. „Það verður að eiga sér stað samráð við landeiganda um hvernig brugðist sé við jarðvegsrofi vegna ferðafólks, en það á ekki að vera á ábyrgð landeigenda að borga fyrir þær skemmdir sem ferðafólk gerir á landi þeirra,“ segir Helen Lawless.
 
Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...