Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Forystumenn bænda óttast ekki offramleiðslu
Mynd / TB
Fréttir 9. mars 2016

Forystumenn bænda óttast ekki offramleiðslu

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Um 140 bændur komu saman á Hótel Borgarnesi á þriðjudagskvöld til þess að ræða efni og innihald nýrra búvörusamninga. Forystumenn bænda, þeir Einar Ófeigur Björnsson sauðfjárbóndi og stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands og Sigurður Loftsson, kúabóndi og formaður Landssambands kúabænda, héldu framsögu og kynntu samningana. Ágætar umræður voru á fundinum þar sem bændur skiptust á skoðunum. Sitt sýnist hverjum um samningana en samhljómur var með fundarmönnum um að tækifæri íslensks landbúnaðar væru víða fyrir hendi.

Í máli framsögumanna kom fram að samningarnir væru ekki framlenging eða beint framhald af fyrri samningum. Um nýja samninga væri að ræða þar sem miklar breytingar væru fram undan í starfsumhverfi bænda. Einar Ófeigur sagði að rauði þráðurinn í sauðfjársamningnum væri að treysta á aukið virði afurða og selja meira kjöt til sívaxandi hóps ferðamanna og í útflutning. Hann spurði hvaða aðrar leiðir væru færar með sauðfjárræktina. Án hærra afurðaverðs og bættrar afkomu yrði engin nýliðun. Hann hvatti bændur til að hafa heildarhagsmuni íslensks landbúnaðar í huga þegar þeir greiddu atkvæði um samningana.

Þórhildur Þorsteinsdóttir fundarstjóri og Einar Ófeigur Björnsson stjórnarmaður í BÍ.
Þórhildur Þorsteinsdóttir fundarstjóri og Einar Ófeigur Björnsson stjórnarmaður í BÍ.

„Ég er búinn að vera sauðfjárbóndi í 37 ár og er ekki enn búinn að ná meðalaldri sauðfjárbænda á Íslandi. Við verðum að reyna að ná árangri við að auka virði sauðfjárafurða,? sagði Einar Ófeigur. Hann sagðist ekki óttast offramleiðslu í sauðfénu og spurði hverjir væru líklegastir til að fjölga fé. Varla væru það þeir sem væru 56 ára og eldri en meðalaldur sauðfjárbænda er 56 ár.

Stuðningsformið er fjölbreyttara en áður

Sigurður Loftsson sagði margar áskoranir fram undan hjá kúabændum. Nýr samningur skapaði ýmis tækifæri og margir varnaglar væru slegnir, m.a. með endurskoðunarákvæðum. Nefndi hann sérstaklega að endanleg ákvörðun um afnám kvótakerfis í mjólk verði tekin samhliða endurskoðun samningsins og atkvæðagreiðslu á meðal bænda árið 2019.


Sigurður Loftsson formaður Landssambands kúabænda.

„Stuðningsformið er fjölbreyttara en áður og horft er til breytts skipulags varðandi verðlagningu. Ekki er lengur vilji til að viðhalda verðlagsnefnd búvöru og nýjar leiðir þarf að finna í þeim efnum. Það er tekinn upp stuðningur við nautakjötsframleiðslu sem er nýlunda og mikilvægt atriði. Hámarksstuðningur er einnig skilgreindur með þeim hætti að hver framleiðandi getur ekki fengið meira en sem nemur 0,7% af árlegum heildarframlögum samningsins. Gripagreiðslur verða teknar upp en þær eru þrepaskiptar og minnka eftir því sem kúahjarðir eru stærri. Fjárfestingastuðningur verður tekinn upp til að koma til móts við auknar kröfur um bættan aðbúnað gripa,? sagði Sigurður.

Líflegar umræður í Borgarnesi

Magnús Hannesson, kúabóndi í Eystri-Leirárgörðum, kvaddi sér fyrstur hljóðs þegar opnað var fyrir mælendaskrá og setti upp mikla glærusýningu með útreikningum. Hann óttaðist verðfall afurða og að framleiðslan myndi aukast of mikið ef samningarnir yrðu samþykktir. Taldi hann að útflutningur myndi ekki skila viðunandi tekjum í framtíðinni og samkeppni við útlönd yrði seint á jafningjagrundvelli við þjóðir sem misnotuðu sýklalyf í sinni framleiðslu og huguðu lítt að dýravelferð.

Samningurinn lýsir velvilja stjórnvalda

Pétur Diðriksson, bóndi á Helgavatni, óskaði bændum til hamingju með það að ná samningi um rekstrarskilyrði landbúnaðar á Íslandi. „Samningurinn lýsir ákveðnum velvilja stjórnvalda til landbúnaðarins. Þjóðin vill reka landbúnað á Íslandi en spurningin er með hvaða hætti,? sagði Pétur. Hann sagði samningana góða að mörgu leyti en taldi það galla á mjólkursamningi að ekki væri gerð nógu mikil krafa á mjólkurframleiðendur að minnka kostnað. Draga þyrfti verulega úr kostnaði til þess að mæta aukinni erlendri samkeppni. „Lág framleiðni leiðir það af sér að við verðum að fá miklu hærra verð en bændur á meginlandinu. Freistingin að flytja inn mjólkurvörur yfir tollmúra, þó háir séu, er mikil. Þetta er veikleiki nýja samningsins. Stjórnmálamenn gera sér ekki allir grein fyrir því hvað framleiðni íslensks landbúnaðar er lág – það er stóra vandamálið,” sagði Pétur.

Nýliðun mikilvæg

Sigríður Þorvaldsdóttir í Hjarðarholti spurði um nýliðun í sauðfjárræktinni. Varla borgaði sig að kaupa greiðslumark eins og þróunin væri. Hún beindi því til Einars Ófeigs hvernig hann sæi fyrir sér að ungt fólk kæmi inn í sauðfjárræktina eins og málum er háttað. Einar Ófeigur svaraði því til að fjárfestingastuðningur nýtist nýliðum, nýliðunarstuðning væri að finna í rammasamningi og býlisstuðningur nýttist sömuleiðis. Enn nefndi hann markmiðið um aukið virði afurðanna. „Sú nöturlega staðreynd málsins að ef við náum ekki betra verði fyrir afurðirnar þá hafa nýliðar lítið erindi í greinina,? sagði hann.

Gagnrýni á samningana úr ólíkum áttum

Haraldur Benediktsson, alþingismaður og bóndi á Vestri-Reyni, þakkaði samninganefndinni fyrir að ná þessum samningi en viðbrögðin væru misjöfn, bæði á meðal bænda og úti í samfélaginu. Hann sagði, sem fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, ótrúlegt að sitja á móti fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem hvöttu Alþingi til að hafna samningum við bændur. Þetta gerðu þessir aðilar stuttu eftir að kjarasamningar, sem víða væri engin innistæða fyrir, hefðu náð í gegn. Þungamiðjan í gagnrýni á samningana væri á tímalengd þeirra, tollamál og undanþáguákvæði frá samkeppnislögum. Hvatti hann bændur til að ganga til móts við þessa umræðu því áfram yrði sótt að landbúnaðinum.

Færast tekjur milli svæða?

Haraldur viðraði áhyggjur sínar af tekjusamdrætti á vissum svæðum vegna nýrra samninga og að landbúnaðarráðherra hefði ekki útvegað neinar greiningar á áhrifum á ólíkar byggðir. „Samkvæmt reiknivél Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins fara 58 milljónir út úr Strandasýslu með tilkomu nýju samninganna,? sagði Haraldur og beindi spurningu sinni sérstaklega til Einars Ófeigs Björnssonar hvernig ætti að mæta þessu. Sagði Haraldur alveg ljóst að það yrði ekki hlaupið með það í gegnum Alþingi að stuðningur flyttist á milli byggðarlaga.

Einar Ófeigur var fljótur til svara. „Allt sem gerist eftir 2017 er samkvæmt nýjum samningi. Sjálfur á ég mikið greiðslumark en ég gerði ekki ráð fyrir að það myndi gilda fram yfir árið 2016. Allar áætlanir ganga út á að ná hærra skilaverði fyrir afurðir,? sagði Einar Ófeigur og benti á að í Strandasýslu væru 50 framleiðendur en 80 greiðslumarkshafar í sauðfé. Margir óvirkir greiðslumarkshafar væru á svæðinu. „Það gat enginn reiknað með því að það sem stendur í gömlu samningunum gildi um alla framtíð,” sagði hann og lagði áherslu á að í samningnum væri horft til heildarhagsmuna yfir allt landið.

Mikil verðpressa felst í innflutningi

Sigurður Loftsson sagði erfitt að kyngja því sem væri fram undan í innflutningi á nautakjöti. Hann hafði gert sér vonir um að það næðust meiri fjármunir í nautakjötsframleiðsluna en það voru takmörk fyrir því sem hægt var að ná út úr ríkisvaldinu að hans sögn. Sagði hann mikla verðpressu felast í innflutningnum. Hann benti á að ástandið sem núna væri upp hefði skapast undir núverandi kerfi – ekki undir kerfinu sem ætlunin væri að taka upp.

Óttast ekki offramleiðslu á mjólk

„Mjólkurframleiðslan núna er meiri en flest okkar gerðum okkur í hugarlund fyrir eingöngu ári síðan,? sagði Sigurður og taldi margar ástæður fyrir því. Búið væri að hvetja bændur til aukinnar framleiðslu og miklar breytingar hefðu orðið á neysluhegðun á síðastliðnum 15 árum. Neysla á próteini og fitu hefði gjörbreyst og í raun hefðu kúabændur og mjólkuriðnaðurinn gengið í gegnum fordæmalausa þróun síðustu ár.

Sigurður sagði atriði innan nýja samningsins geta hamlað því að framleiðsla fari úr böndunum. „Við erum ekki að leggja kvótakerfið niður og það verður ekki gert af hendi bænda fyrr en að lokinni atkvæðagreiðslu 2019.? Hann sagðist sjálfur vera sannfærður um að kúabændur gætu lifað án kvótakerfis en nú hefðu menn tíma til að þess að meta hvort kvótakerfið verði við lýði eftir fyrstu endurskoðun samningsins.

Sigurður nefndi að aðstæður væru ólíkar á milli búa. Hann lagði áherslu á að margt væri breytingum háð á næstu 10 árum. Rifjaði hann upp útreikning frá góðum og gegnum bónda sem hafði hallmælt samningnum sem er í gildi í dag. Sá væri ennþá við störf og gengi vel.

Bændur þurfa að vera stoltir af sinni framleiðslu

Heidi Andersen í Örnólfsdal sagði íslenska bændur mættu vera stoltari af eigin framleiðslu. Hún væri dönsk og var alin upp við það að bera takmarkalausa virðingu fyrir smjöri og beikoni! Íslenskir bændur hefðu traustan grunn til að byggja á og hefðu mikla sérstöðu. Tækifæri væru fyrir hendi að auka verðmætasköpun en hugsa þyrfti „út fyrir boxið? og hafa dýravelferð að leiðarljósi.

Hvaða aðferðum á að beita við markaðssetningu á kindakjöti?

Snædís Anna Þórhallsdóttir sauðfjárbóndi á Hesti spurði hvaða aðferðum ætti að beita við að auka virði og sölu sauðfjárafurða. Lítið hefði komið fram um það og margir vísuðu til fyrri reynslu sem hefði gengið upp og ofan. Einar Ófeigur svaraði því til að verkefnið væri í mótun undir forystu Svavars Halldórssonar framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda. Ætlunin væri meðal annars að höfða betur til ferðamanna en gert hefði verið hingað til.

Efasemdir um gripagreiðslur

Sveinn Hallgrímsson, fyrrum skólastjóri á Hvanneyri, tók til máls og gerði gripagreiðslur að umtalsefni. Hann varaði við þeim og rifjaði upp þegar Margrét Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, jók mjög styrki til landbúnaðar á níunda áratugnum. Eitt af því sem hún gerði var að taka upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt. Þær leiddu til þess að á örfáum árum minnkaði framleiðni í enskri sauðfjárrækt um 20%.

Sveinn minnti á að árið 1943 bar úthaginn uppi alla sauðfjárframleiðslu. Í dag ber ræktað land um 60% af sauðfjárræktinni og úthaginn stendur undir 40% framleiðslunnar. Sveinn óttaðist að ef gripagreiðslurnar verði að veruleika muni áherslur bænda breytast. Nær hefði verið að miða greiðslurnar við afurðir eftir hvern grip.

Ávinningur felst í að fá meira út úr hverri kind

Einar Guðmann Örnólfsson á Sigmundarstöðum lýsti ánægju sinni með sauðfjársamninginn og sagði stærsta kost hans að nú stæðu allir sauðfjárbændur jafnfætis. Hann taldi forsendu fyrir bættum hag væri að ná betra afurðaverði. Sjálfur sagðist hann trúlega fá eitthvað minni tekjur en hann hefði 10 ár til þess að gera betur. „Ávinningurinn felst í því að fá meira út úr hverri kind sem ég á,? sagði Einar sem nefndi að auki jarðræktarstuðning sem framfaraspor.

Ekki meira að sækja til ríkisvaldsins

Í lok fundar sagði Sigurður Loftsson að hversu vel eða illa sem bændum hugnuðust samningarnir þá yrðu menn að gera sér grein fyrir því að ekki væri meira að sækja til ríkisvaldsins. „Meginverkefni fjármálaráðherra er að standa á bremsunni. Það er víða kallað og margar holurnar sem þarf að fylla upp í – jafnvel þó menn séu bjartsýnir og stutt í kosningar. Ég held að við fáum ekki meira,? sagði Sigurður þegar hann svaraði ákalli bænda um betri samningsniðurstöðu.

Hefur trú á útflutningi og unga fólkinu

Sigurður áréttaði að mörg tækifæri væru fram undan í útflutningi á sérvörumarkaði. „Reyndin er sú að Finnland skilar gríðarlegum ábata en vandinn þar er tollar inn á ESB. Bretland og Sviss lofa mjög góðu. Skilaverð þar er það sama og hér heima – þetta kalla ég tækifæri. Ef við ætlum að njörva okkur föst við það að framleiða eingöngu fyrir innanlandsmarkaðinn gerist það sem gerðist nærri því fyrir fáum misserum síðan þegar við önnuðum vart eftirspurn í mjólkinni, ? sagði Sigurður og bætti því við að hann hefði mikla trú á því unga fólki sem væri að hasla sér völl í atvinnugreininni.

Þórhildur Þorsteinsdóttir, sauðfjárbóndi í Brekku, var fundarstjóri og sleit fundi rétt fyrir miðnætti með þeim orðum að það væri uppgjöf að gefast upp fyrirfram. Hún hvatti fundarmenn til að vera stolta af landbúnaðinum og hafa trú á búskapnum. „Við sem erum yngri en 56 ára verðum að trúa á framtíðina og vera montin af landbúnaðinum. Hinn kosturinn er að pakka niður og gefast upp.  Ég vel fyrri kostinn!?

25 myndir:

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...