Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ísland er norðlægt land, sumarið stutt og við slíkar aðstæður tekur lengri tíma að byggja upp ríkulega næringarhringrás.
Ísland er norðlægt land, sumarið stutt og við slíkar aðstæður tekur lengri tíma að byggja upp ríkulega næringarhringrás.
Lesendarýni 27. apríl 2016

Forðumst gjaldþrot Gleðibankans

Hringrásir eru eðli lífríkisins á jörðinni. Þar sem framvinda er í snauðum vistkerfum hleður hringrásin smám saman utan á sig og efnin í hringrásinni aukast. Þar með verður lífkerfið auðugra og öflugra. Lífverur taka upp næringarefnin, nýta þau og láta svo aftur frá sér í hringrásina handa öðrum lífverum. 
Þetta á við um lífverur af öllum toga, allt frá smæstu örverum til stærstu plantna og dýra. Mikilvægt er að við mennirnir virðum þessar hringrásir og komum þeim lífrænu efnum sem við höfum notað aftur út í hringrásina í stað þess að rjúfa hringrásina með urðun.
 
Ísland þarf næringu
 
Ísland er norðlægt land, sumarið stutt og við slíkar aðstæður tekur lengri tíma að byggja upp ríkulega næringarhringrás. Þegar landið byggðist fólki hafði náttúran haft frið í þúsundir ára frá lokum ísaldar til að byggja upp þær hringrásir sem fóstruðu birkiskóga á allt að þriðjungi landsins og jafnvel meira en það. Þar sem ekki voru birkiskógar eða birkikjarr var víða gróið land engu að síður.
 
Hinar hæggengu næringar­hringrásir Íslands voru viðkvæmar fyrir því að tekin væri út úr þeim næring. Fljótlega eftir landnám varð staðan sú í vistkerfum að meira var tekið út af næringarefnum en náttúran sjálf náði að byggja upp á móti. Nýting landsins varð ósjálfbær en næringarefnin úr vistkerfunum urðu að kjöti og innmat búpenings sem ekki skilaði sér aftur út í hringrásina með sama hætti og áður. Þjóðin þurfti að afla sér matar. 
 
Urðun er óhæfa
 
Nú eru Íslendingar rík þjóð og búa við allsnægtir. Við þær aðstæður er ótækt að þjóðin skili ekki aftur inn í hringrásir lífkerfisins öllu því sem mögulegt er að skila. Urðun lífræns úrgangs er í hróplegri mótsögn við hringrásir náttúrunnar. Með urðun taka menn úr hringrásinni lífrænt efni sem á uppruna sinn í náttúrunni og koma í veg fyrir að það geti nýst aftur og aftur í kerfinu. Urðun slíkra verðmæta er athæfi sem verður að stöðva og ætti hvergi að líðast í þróuðu samfélagi. Við höfum þörf fyrir lífrænt efni í hringrásinni og það er beinlínis heimska að urða það. Hér er talað um lífrænan úrgang í víðri merkingu þess orðs, allt lífrænt efni sem hægt er að endurvinna og nýta til ræktunar. Í reglugerðum er hugtakið lífrænn úrgangur þó aðeins notað um lífbrjótanlegan matar- og eldhúsúrgang og garðaúrgang.
 
Brennum ekki verðmætum
 
Nú er rætt um förgun sláturúrgangs frá sláturhúsum landsins. Fyrirtæki þessi vilja koma sér upp brennsluofnum til að farga þeim sláturúrgangi sem skylt er samkvæmt Evrópureglum að eyða og gera hættulausan. Þetta er úrgangur af áhættuflokki eitt, skrokkhlutar með taugavef sem hætta er á að geti borið smit illvígra taugasjúkdóma. Að sjálfsögðu verður að fara að settum reglum. Hættan er þó sú að fyrirtækin freistist til að spara með því að setja í ofnana fleira en úrgang af áhættuflokki eitt. Með því færi forgörðum dýrmætt lífrænt efni sem ætti betur heima í eðlilegri hringrás næringarefnanna í náttúrunni, þar á meðal í uppgræðslu, skógrækt og á ræktarlöndum bænda. Endurvinnsla á dýraleifum er auðvitað líka liður í því að skapa ímynd hreinna og sjálfbærra framleiðsluhátta.
 
Úrgangsmálum á Íslandi hefur farið hratt fram á undanförnum árum og meðvitund þjóðarinnar um þessi efni fer batnandi. Lífræn úrgangur lendir þó enn í sorphaugum, gerjast þar og losar út í andrúmsloftið metangas sem er tuttugu sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Tapið er því tvöfalt. Næringarefnin skila sér ekki í hringrásina og við stuðlum að hlýnun loftslags á jörðinni. 
 
Lífrænt efni til landbóta
 
Jákvæð skref hafa þó verið tekin. Kjötmjölsverksmiðja Orkugerðarinnar í Hraungerði í Flóa framleiðir kjötmjöl sem reynst hefur frábærlega við landgræðslu og skógrækt. Molta ehf. í Eyjafirði framleiðir moltu sem sömuleiðis er fyrirtaks áburðarefni og jarðvegsbætir. Kostir bæði kjötmjöls og moltu eru ekki síst þeir að áburðaráhrifin endast mun lengur en af tilbúnum áburði. Seyra úr rotþróm reynist líka frábærlega við uppgræðslu eyðisanda eins og sýnt hefur verið fram á í Hrunamannahreppi. Hrunamenn hafa snúið dæminu við og farga engri seyru heldur græða með henni upp örfoka afréttarsvæði með frábærum árangri. Megnið af lífrænum úrgangi frá okkur mönnunum lendir samt enn í sjónum og fer því forgörðum.
 
Leggjum inn í áburðarbankann
 
Raunverulega má líta á það sem skyldu okkar að viðhalda hringrásum náttúrunnar. Ef við leggjum ekkert inn, tökum bara út, verður Gleðibankinn á endanum gjaldþrota. Með sameiginlegu átaki stjórnvalda, sveitarstjórna, fyrirtækja og almennings mætti koma öllum lífrænum úrgangi á Íslandi rétta leið í hringrásina að frátöldu því sem verður að eyða vegna smithættu. Samhliða þarf að þróa leiðir til að nýta úrganginn með hagkvæmum hætti til ræktunar og landbóta. Við búum við flókið og óskilvirkt regluverk sem þarf að skýra. Sömuleiðis hefur skort á samstarf og verkefnum ekki alltaf verið fylgt nægilega vel eftir. 
 
Samráðshópur um lífrænan úrgang
 
Úrbóta er þörf. Þó er gaman að nefna að starfandi er samráðshópur um lífrænan úrgang. Upphaflega varð hópurinn til fyrir einskæran áhuga fólks sem tengdist úrgangs- og ræktunarmálum og fyrsta verk­efni hópsins var að skipuleggja ráðstefnu um lífrænan úrgang sem haldin var í Gunnarsholti vorið 2015. 
Í samráðshópnum sitja fulltrúar nokkurra fyrirtækja á sviði úrgangsmála, sveitarfélaga og stofnana, meðal annars Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Hópurinn berst fyrir framförum í þessum efnum og lokatakmarkið er að allur lífrænn úrgangur komist aftur út í hringrásina.
 
Fyrir hönd samráðshóps um lífrænan úrgang,
 
Magnús Jóhannsson, Landgræðslu ríkisins,
Pétur Halldórsson,
Skógrækt ríkisins

3 myndir:

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...