Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sæmundur Sveinsson, doktor í þróun plöntuerfðamengja og sérfræðingur í kornkynbótum við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Sæmundur Sveinsson, doktor í þróun plöntuerfðamengja og sérfræðingur í kornkynbótum við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Á faglegum nótum 9. mars 2017

Fólk ætti að hræðast margt annað en erfðatækni

Höfundur: Vilmundur Hansen

Tilgangurinn með nýtingu erfðatækni í landbúnaði er margþættur. Þar á meðal eru rannsóknir til að kanna virkni gena og að auka uppskeru, bæta gæði matvæla og eða þol plantna gegn sjúkdómum, skordýrum eða umhverfisþáttum.

„Í dag eru erfðabreytingar flokkaðar þannig að ef tekið er gen eða erfðaefni úr einni lífveru og flutt yfir í aðra óskylda lífveru, þá flokkast síðarnefnda lífveran sem erfðabreytt,“ segir Sæmundur Sveinsson, doktor í þróun plöntuerfðamengja og sérfræðingur í kornkynbótum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

„Dæmi er um að flutt hafi verið gen milli óskyldra plöntutegunda eða úr bakteríum yfir í plöntur með góðum árangri. Mest er samt um að gen séu flutt milli skyldra plöntutegunda og þá með hefðbundnum kynbótum en slíkur flutningur erfðaefnis flokkast ekki sem erfðabreytingar.“

Tilgangur erfðatækni er margþættur

Tilgangurinn með erfðatækni í landbúnaði er margþættur. Tæknin nýtist í grunnrannsóknum til að kanna eiginleika ákveðinna gena. Með því að flytja gen milli lífvera má kanna virkni þeirra eftir flutninginn. Þetta er einnig hægt að gera með því að slökkva á genum og sjá hvaða áhrif það hefur á tiltekna lífveru. Enn fremur er tæknin nýtt til þess að skilgreina erfðamörk í nytjaplöntum sem nýtast til þess að auka afköst í plöntukynbótum.

Tæknin nýtist einnig til að auka uppskeru, bæta gæði matvæla eða þol plantna gegn sjúkdómum, skordýrum eða öðrum umhverfisþáttum sem geta haft áhrif á vöxt þeirra.

Sæmundur segir að rannsóknir á því að flytja gen inn í plöntur hafi farið á flug á níunda áratug síðustu aldar en að lengra sé síðan menn fóru að eiga við erfðaefni á annan máta með kynbótum og handahófskenndum stökkbreytingum með geislum og efnum sem valda stökkbreytingum.

„Tilraunir með að geisla fræ voru mikið stundaðar og mjög mikilvægar við jurtakynbætur milli 1950 og 1960 en minna notaðar í dag, enda ónákvæm aðferð og mikið um handahófskenndar stökkbreytingar sem ekki skila árangri. Stökkbreytingar framkallaðar með efnum eru aftur á móti talsvert notaðar enn í dag.

Það er áhugaverður tvískinnungur að plöntur sem meðhöndlaðar hafa verið með þessari tækni flokkist ekki sem erfðabreyttar lífverur.“

Jarðvegsbakteríur flytja gen milli plantna

„Stórt framfaraspor í plöntuerfðatækni var stigið á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar þegar kom í ljós að hægt var að nota jarðvegsbakteríu sem kallast Agrobacterium til að flytja gen á milli plantna. Það sem gerist við flutninginn er að bakterían flytur sín gen inn í plönturnar. Bakteríugenin framleiða hormón eins og auxín og cytokínin sem valda ofvexti eða æxli á ákveðnum svæðum í plöntunum þar sem bakteríurnar lifa. Þetta er hægt að nýta til að flytja erfðaefni milli plantna með því að setja þau gen sem áhugavert er að rannsaka úr einni lífveru inn í bakteríuna og flytja svo genin inn í plöntu með hjálp bakteríunnar,“ segir Sæmundur.

Erfðatækni og matvælaframleiðsla

„Erfðatækni er mikið notuð við rannsóknir í dag, við matvælaframleiðslu með plöntum og lítillega við ræktun á eldislaxi. Tilgangurinn með notkun tækninnar við matvælaframleiðslu með plöntum er margþættur en aðallega til að auka þol þeirra gagnvart sjúkdómum og skordýrum og til að auka uppskeru.

Í dag eru svo að koma á markað plöntuyrki með ýmiss konar aðra eiginleika eins og þol gegn þurrki og betri afurðagæði.

Einnig hefur tæknin gert mönnum kleift að koma fram með plöntuyrki sem þola illgresiseitrið glyphosat, sem er virka efnið í Roundup, og fleiri gerðum af plöntueitri.

Sæmundur segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi sé glyphosat með skaðminna illgresiseitri á markaði í dag.

„Að sjálfsögðu verður alltaf að fara varlega þegar nota á eiturefni í landbúnaði og kanna virkni þeirra vel. Andstæðingar glyphosats vitna oft til þess að með aukinni ræktun á glyphosat-þolnum plöntum hafi notkun á efninu aukist en það gleymist iðulega að segja frá því að á sama tíma hefur notkun á öðrum mun skaðmeiri efnum dregist verulega saman.“

Annað sem bent hefur verið á í sambandi við notkun á glyphosat er að svo virðist sem ýmsar illgresistegundir hafi myndað ónæmi við glyphosat og það eitt og sér dugi víða ekki lengur til að halda illgresi niðri. Slíkt hefur svo leitt til þess að menn hafi þurft að úða akra með ýmiss konar blöndum af plöntueitri og séu því komnir á byrjunarreit að nýju.

Sæmundur segir að slíkt hafi gerst og að alltaf sé hætta á að gen úr glyphosat-þolnum plöntum víxlist yfir í skyldar tegundir og þær myndi þannig þol gegn efninu. „Svo er alltaf ákveðinn hluti af plöntum sem getur haft náttúrulegt þol gagnvart eitrinu vegna breytileika í erfðamengi þeirra. Það er aftur á móti ekki þannig að einstaka plöntur myndi af sjálfsdáðum þol gegn glyphosati.

Það getur því verið samband milli glyphosat-þolinna plantna og að aðrar plöntur myndi þol gegn efninu en það þarf ekki að vera eina ástæða þess.“

Gyllt hrísgrjón

Gyllt hrísgrjón (golden rice) eru afurð manngerðra erfðabreytinga þar sem tvö gen úr óskyldum plöntutegundum voru flutt inn í hrísyrki, annað úr maís og hitt úr páskalilju. Hrísyrkið framleiðir grjón sem innhalda mikið magn af beta-karótíni en það efni er forveri A-vítamíns. Markmiðið með gylltu hrísgrjónunum var að fækka tilfellum af A-vítamínskorti í þróunarlöndum, þar sem þetta átti að vera hagstæð leið fyrir fátækt fólk til að fá nauðsynleg næringarefni í mataræði sitt. A-vítamínskortur er ein algengasta orsök blindu hjá börnum í þróunarlöndunum.

Þrátt fyrir mikla möguleika til að hjálpa fólki í fátækustu löndum heims með þessari aðferð þá hefur notkun hrísyrkisins mætt mikilli andstöðu fyrir þær einu sakir að vera erfðabreytt. Greenpeace-samtökin hafa verið sérstaklega andsnúin yrkinu og barist gegn ræktun þess.

Byggyrkið Mari

Sæmundur segir að mörg byggyrki, sem ræktuð eru á norðlægum slóðum, hafi verið kynbætt með erfðaþætti sem gerir því kleift að þroska korn við stutt sumur.

„Þessi erfðaþáttur var upprunalega fenginn úr sænska byggyrkinu Mari en það yrki var búið til með hjálp röntgengeisla. Þessir geislar ollu fjölda handahófskenndra stökkbreytinga í erfðamengi Mari. Einn þessara erfðaþátta gerði því kleift að þroska korn við tiltölulega stutt og svöl sumur. Erfðabreytileiki, sem tilkominn hefur verið með hjálp handahófskenndra stökkbreytinga, hefur verið gríðarlega þýðingarmikill í plöntukynbótum. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða manngerða stökkbreytingu í erfðamengi lífveru þá er hún ekki flokkuð sem erfðabreytt lífvera.“

Tvær andstæðar fylkingar

Viðhorf fólks til erfðabreyttra lífvera og notkunar þeirra í landbúnaði og matvælaframleiðslu skiptist nánast í tvær andstæðar fylkingar, með eða á móti. Þeir sem eru hlynntir tækninni segja hana stórt framfaraspor í kynbótum, en þeir sem eru á móti segja afleiðingar tækninnar ekki hafa verið rannsakaðar til hlítar og að hún geti verið skaðleg.

Sæmundur segir að í sínum huga sé margt í heiminum sem fólk ætti fremur að hræðast en erfðatækni.

„Ég hef ekki enn séð neinar óyggjandi vísindalegar staðreyndir sem sýna fram á að erfðabreytt matvæli séu á einhvern hátt óhollari en óerfðabreytt.

Afstaða fólks í þessu máli byggir oft á persónulegum skoðunum en ekki vísindalegum staðreyndum. Umræðan er því oft tilfinningaþrungin en ekki byggð á staðreyndum og það er vandamál þegar rætt er um þessa hluti. Staðreyndin er sú að málið er mun flóknara en svo að erfðabreytt matvæli séu endilega óhollari eða óumhverfisvænni en óerfðabreytt.

Víða í Evrópu er mikil andstaða gegn ræktun á erfðabreyttum lífverum og ég tel að sú andstaða byggi oft á persónulegum skoðunum fólks frekar en vísindalegum rökum eða staðreyndum.

Menn hafa búið til nýjar tegundir plantna með kynbótum öldum saman og eins og í öðrum greinum hefur tækninni farið fram. Rúghveiti, sem er blendingur milli rúgs og hveitis, var búið til með hefðbundnum kynbótum í kringum 1980 og er í dag ræktað á rúmum fjórum milljón hekturum.

Annað sem andstæðingar ræktunar á erfðabreyttum lífverum hafa áhyggjur af er einkaréttur kynbótafyrirtækja á genum og að ræktendur verði að borga fyrirtækjunum eins konar höfundarrétt til að fá að rækta yrki sem innihalda ákveðin gen. Sæmundur segir að víða þurfi bændur að greiða svokallað yrkisréttargjald, jafnvel þótt menn safni sínu útsæði sjálfir. Það á þó helst við um þá bændur sem stunda stórfellda ræktun. Í ræktun sumra tegunda, t.d. maís, kaupi bændur útsæði á hverju ári og borgi þannig fyrir það nýtingarréttinn.

„Það er aftur á móti rétt að hugsunin um að fá risafyrirtæki hafi einkarétt á stórum hluta fræja til matvælaframleiðslu hræðir mjög marga.“

Ræktun á erfðabreyttum lífverum umhverfisvæn

„Séu áhrif ræktunar á erfðabreyttum lífverum skoðuð út frá umhverfissjónarmiðum bendir flest til að þau séu jákvæð. Til að mynda getur aukin uppskera dregið úr landnotkun. Notkun á mörgum verulega hættulegum eiturefnum hefur dregist saman með aukinni ræktun nytjaplantna sem þola skordýrabit. Víða í heiminum hafa menn komist upp með að sleppa því að plægja árlega, til dæmis í soja-ræktun, með því að nota glyphosat-þolin yrki, en sé jarðvegur plægður mikið getur það valdið uppblæstri og jafnvel jarðvegsþreytu og því að jarðvegurinn falli saman og verði ónothæfur til ræktunar.

Helsta vandamálið við ræktun á erfðabreyttum matvælum og sem þarf að passa vel er að plöntur eru fremur lauslátar lífverur og ekkert feimnar við það að skiptast á genum við skylda einstaklinga. Eiginleikar eins og þol gegn illgresiseitri getur því hæglega borist milli skyldra tegunda og orðið til illgresi sem getur orðið vandamál í ræktun.

Erfðatæknin er fyrir löngu búin að sanna ágæti sitt og ég sé enga ástæðu fyrir því að við ættum að hætta að nota hana til matvælaframleiðslu.“

Engin erfðabreytt matvæli framleidd á Íslandi

Að sögn Sæmundar eru ekki neinar lífverur sem hefur verið breytt með flutningi á genum milli þeirra í ræktun við matvælaframleiðslu á Íslandi.

Orf líftækni notar aftur á móti erfðabreytt bygg við sína framleiðslu á eggjahvítuefnum en sú ræktun fer öll fram í gróðurhúsum. Orf líftækni stundar ekki matvælaframleiðslu.

„Við erum ekki að glíma við mikið skordýra- né illgresisálag í ræktun sem ekki er hægt að vinna bug á með annars konar aðferðum. Þannig að það eru engin erfðabreytt matvæli framleidd á Íslandi í dag.“

 

Skylt efni: kynbætur | erfðabreytingar

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...