Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Mjölormar eru fitu- og próteinríkir. Í verkefninu verður skoðað hvort fóðra megi mjölorma með tómata- og gúrkublöðum sem síðan nota megi til fóður- og matvælaframleiðslu. Til hægri má sjá þá gæða sér á brauðafgöngum, bjórhrati og lúpínufræjum.
Mjölormar eru fitu- og próteinríkir. Í verkefninu verður skoðað hvort fóðra megi mjölorma með tómata- og gúrkublöðum sem síðan nota megi til fóður- og matvælaframleiðslu. Til hægri má sjá þá gæða sér á brauðafgöngum, bjórhrati og lúpínufræjum.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því að kanna möguleika á að nýta hliðarafurðir úr íslenskri ylrækt, tómata- og gúrkublöð, til að fóðra mjölorma með til fóður- og matvælaframleiðslu.

Eva Margrét Jónudóttir.

Að sögn Evu Margrétar Jónudóttur verkefnastjóra er þetta verkefni angi annarra verkefna sem hafa verið unnin hjá Matís á undanförnum misserum og ganga út á betri nýtingu hliðarafurða frá garðyrkju, sem annars er sóað, til verðmætasköpunar við matvælaframleiðslu. Þá skarist verkefnið við vinnu sem hafi verið unnin í LbhÍ á undanförnum árum sem snýst um fóðrun mjölorma á brauðafgöngum, bjórhrati og lúpínufræjum til fóðurframleiðslu.

Geta mjölormar brotið niður óæskileg efni?

Mikið magn af tómata- og gúrkublöðum fellur til í ylrækt á Íslandi, sem ekki er nýtt í dag að neinu marki til verðmætasköpunar og með nýlegri gildistöku laga hér á landi er bannað að urða þennan úrgang.

Eva segir að í fyrri verkefnum Matís hafi sjónum verið beint að nýtingu á næringarríkum plöntuhlutum og afskurði sem fellur til við ylrækt til beinnar matvælaframleiðslu, öðrum en tómatablöðum því í þeim finnist efni sem geti valdið eitrunaráhrifum. „Því er vert að kanna hvort mjölormarnir geti brotið þessi efni niður með einhverjum hætti svo þau skili sér ekki í lokaafurð. Það stendur þá til að gera mælingar á þessum efnum sem og aðrar efna- og örverumælingar bæði í fóðri og í lokaafurð mjölormanna.

Vegna þess að við höfðum verið svo mikið að skoða hliðarafurðir garðyrkju og aukna nýtingu þeirra þá hafði ég samband við Rúnu [Þrastardóttur hjá LbhÍ] með þessa verkefnahugmynd því ég vissi að hún hefði verið að gera tilraunir með mjölormana,“ segir Eva um forsögu verkefnisins en það er styrkt af Matvælasjóði.

„Með verkefninu er lagður grunnur að ræktun og nýtingu skordýra á Íslandi til að framleiða prótein til fóður- og matvælaframleiðslu sem og að styrkja garðyrkjuframleiðslu í landinu með því að auka fullnýtingu innan greinarinnar.“

Ekki allt hráefni leyfilegt til fóðurframleiðslu

„Við höfum undanfarin ár verið að horfa meira og meira í nýtingu hliðarafurða frá garðyrkju. Eins og svo oft áður þá eru ótal margar leiðir sem hægt er að fara en að finna einhverja bestu leið getur verið snúið. Þegar við horfum til þess hvernig er hægt að skapa sem mest virði þá eru gjarnan einhverjar takmarkanir eða vandamál sem þarf að leysa til þess að hlutirnir gangi hreinlega upp. Það er þannig með hinar ýmsu hliðarafurðir að þó þær falli til við matvælaframleiðslu þá flokkast þær ekki endilega sem matvæli eða eru yfir höfuð leyfilegt hráefni til framleiðslu á fóðri eða fæðu,“ útskýrir Eva enn fremur.

Rúna Þrastardóttir.

„Núna er Rúna hjá Landbúnaðarháskólanum að gera fóðurtilraunir þar sem mjölormar fá þrjár mismunandi fóðurblöndur, hefðbundið fóður auk gulróta sem er til viðmiðunar, hefðbundið fóður auk tómatblaða og svo hefðbundið fóður auk gúrkublaða. Í kjölfarið þegar mjölormarnir eru orðnir fullvaxta munum við framkvæma mælingar á þungmálmum og varnarefnum í lokaafurð ásamt því að mæla önnur óæskileg efni, eins og sólanín og tómatín sem vitað er að finnst í tómatablöðum og geta valdið eitrunaráhrifum, og aðrar efna- og örverumælingar bæði í fóðri og í lokaafurð mjölormanna.

Ef allt gengur upp samkvæmt plani þá ættum við að geta birt niðurstöður í desember á þessu ári.“

Mikilvæg verðmætasköpun

Eva bendir á að ákveðið óhagræði sé í söfnun hliðarafurða í garðyrkju hér á landi þar sem talsverðar vegalengdir geti verið á milli garðyrkjustöðva. „Garðyrkjustöðvar erlendis eru alla jafna langtum stærri einingar og minni vegalengdir á milli þeirra. Það getur því ekki staðið undir kostnaði að flytja hliðarafurðir milli staða til frekari vinnslu nema sú vinnsla gefi vel af sér eða standi í það minnsta undir framleiðslukostnaði. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt fyrir okkur að finna hliðarafurðum farveg sem er mikils virði.

Á meðan hliðarafurðir ylræktar eru að stærstum hluta vatn þá innihalda mjölormaafurðir hátt hlutfall bæði próteina og fitu. Lirfur mjölorma er hægt að nýta sem fóður fyrir fiskeldi, alifugla eða svín ásamt því að hægt er að nýta þær til manneldis. Með því að nýta hliðarafurðirnar í mjölormafóður skapast þannig verðmæti. Þau eru fólgin í því að taka verðlausan lífmassa á því formi sem hann ekki nýtist og umbreyta honum í hráefni sem nýtist sem fóður eða fæða. Ef þessi aðferð gengur upp þá aukum við fæðuöryggi á Íslandi samhliða því að þróa fjölbreyttari framleiðsluaðferðir við matvælaframleiðslu.“

Aukin framleiðsla og aukið magn hliðarafurða

Eva segir að nú sé lagður grunnur að ræktun og nýtingu skordýra á Íslandi til að framleiða prótein til fóður- og matvælaframleiðslu, ásamt því að styrkja garðyrkjuframleiðslu í landinu með því að auka fullnýtingu innan greinarinnar.

„Aukin eftirspurn eftir matvælum leiðir jafnframt til aukins magns hliðarafurða úr matvælavinnslu. Á sama tíma gera neytendur auknar kröfur um minni sóun og umhverfisvænni vörur. Skilvirk nýting og stjórnun á hliðarafurðum er afar mikilvæg fyrir hagnýtingu á vannýttum lífmassa, aukinni verðmætasköpun og leið að sjálfbærri nýtingu.“

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...