Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ágúst Sigurðsson rektor
Ágúst Sigurðsson rektor
Fréttir 3. apríl 2014

Fimmtán verður sagt upp

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson

Segja þarf upp að minnsta kosti fimmtán starfsmönnum Landbúnaðarháskóla Íslands verði ekki af sameiningu hans við Háskóla Íslands. Þetta kom fram í máli Ágústs Sigurðssonar rektors skólans á starfsmannafundi á mánudaginn.

„Þetta er alveg rétt. Við fengum bréf þess efnis frá okkar ráðuneyti um að við ættum að draga saman seglin. Við erum búin að gera áætlanir þar um, vorum í því alla síðustu viku. Þetta snertir alla okkar starfsemi þó við séum ekki búin að fara nákvæmlega yfir hvar þetta hittir fyrir. Við erum búin að senda þessa áætlun inn til ráðuneytisins en eigum eftir að fá staðfestingu á því hvort hún verði samþykkt eða ekki,“ segir Ágúst.

Lengi hefur verið talað um að skólinn þyrfti að fá leyfi til að selja eignir til að bæta fjárhagsstöðuna. Að sögn Ágústs er ekki um slíkt að ræða í fjárhagsáætluninni sem send hefur verið menntamálaráðherra nú.
„Þær óskir liggja fyrir og hafa legið fyrir síðustu tíu árin. Hluti af þeim hugmyndum sem lágu fyrir varðandi sameiningu skólans við Háskóla Íslands gengu út á að losa þessar eignir til að hægt yrði að fjárfesta í skólastarfinu. Það verður hins vegar ekki gert nú.“

Sameining myndi þýða mikil tækifæri

Ágúst segist eindregið þeirrar skoðunar að það myndi styrkja Landbúnaðarháskólann í rekstrarlegu og faglegu tilliti að sameina hann Háskóla Íslands.

„Algjörlega, ég er vita sannfærður um það. Sérstaklega á það við um faglegu hliðina og ég tala nú ekki um ef ríkisvaldið er tilbúið til, líkt og er staðreynd, að koma með aukna fjármuni inn í starfsemi skólans. Það myndi þýða heilmikil tækifæri fyrir okkur.“

Alþekkt í löndunum í kringum okkur

Ágúst bendir á að það sé ekki óþekkt að skólar sameinist þó langt sé á milli þeirra.

„Það má benda á Íþróttafræðasetur Háskólans á Laugarvatni. Það ber öllum saman um að þar hafi starfsemin eflst. Alls staðar í löndunum í kringum okkur hefur þetta verið að gerast. Landbúnaðarskólar hafa orðið hluti af stærri heild. Fyrir nokkrum árum var til Konunglegi danski dýralækna og landbúnaðarháskólinn. Nú er hann hluti af Kaupmannahafnarháskóla og fleiri dæmi mætti taka. Þetta er bara að gerast víða og með því er verið að efla og styrkja skólana en ekki láta hlutina koðna niður. Danir eru nú kannski einir mestu landbúnaðarmenn okkar heimshluta. Þeir gera þetta svona og við sjáum ekki annað en þetta gangi mjög vel og hafi eflt nám og rannsóknir. Hví ætti það ekki að verða svo hér á landi líka?“

Skilur afstöðu menntamálaráðherra

Gagnrýnt hefur verið að ríkisvaldið hafi verið tilbúið til að auka við fjármuni til rekstrar skólans ef af sameiningu yrði en nú. Þegar búið sé að slá slíka sameiningu út af borðinu sé skólanum gert að draga verulega saman í rekstri til að greiða uppsafnaðan halla á rekstrinum. Ágúst segir að það komi sér ekki á óvart.

„Hjarta mitt slær með þessari starfsemi og séu menn tilbúnir til að koma með starfsemi inn í hana þá set ég engin skilyrði fyrir því sem rektor. Hins vegar skil ég alveg hvað ríkisvaldið er að gera hér, okkar ráðuneyti. Þar á bæ segja menn: Við erum tilbúin að fjárfesta í þeirri leið að Landbúnaðarháskóli Íslands og hans fræðasvið verði hluti af stærri heild. Við erum hins vegar ekki tilbúin í að fjárfesta í óbreyttu ástandi. Það finnst mér bara mjög skiljanleg afstaða.“

Fækkað um 40 manns á níu árum

Ágúst segir að niðurskurðurinn muni gera skólanum mun erfiðara um vik við að sinna hlutverki sínu.
„Það er bara þannig. Ég hef mjög mikla trú á þessari starfsemi, hún er afar mikilvæg og starfsfólk skólans hefur staðið sig afar vel alla tíð. Skólinn býr að því að eiga mikinn fjársjóð í sínu starfsfólki. Þetta verður hins vegar enn erfiðara eftir því sem okkur fækkar sem störfum við skólann. Mannauðurinn skiptir öllu máli. Þegar Landbúnaðarháskólinn varð til [árið 2005] tóku um 130 manns til starfa við hann, sem komu frá stofnunum sem áður voru forverar hans. Nú starfa innan við 90 manns við skólann. Á sama tíma höfum við aukið við starfsemi skólans mjög mikið. Ég vil líka segja það að ef við hefðum þá fjármuni í dag sem voru við hendina í upphafi, og þóttu ekki nægir þá, hefðum við skilað rekstrarafgangi upp undir hundrað milljónir á síðasta ári. Okkur hefur tekist að hagræða gríðarlega á sama tíma og við höfum aukið við starfsemi skólans. Það eru takmörk fyrir því hins vegar hversu langt er hægt að ganga. Við erum undir það seld að þurfa að standast ákveðnar alþjóðlegar gæðakröfur, við höfum farið í gegnum eina slíka úttekt og komum faglega mjög sterk út úr henni, en eftir því sem fólki fækkar, þess erfiðara verður það.“

Starfsfólki ekki haldið í myrkrinu

Eftir fundinn í gær sendi kennari í skólanum harðort bréf á alla starfsmenn þar sem lýst er mikill óánægju með málatilbúnað rektors og menntamálaráðherra. Í bréfinu segir að ljóst sé að rektor og yfirstjórn skólans hafi unnið að því ötullega undanfarið ár með menntamálaráðuneyti að Landbúnaðarháskólinn skyldi sameinaður HÍ án þess að starfsfólk skólans hafi verið upplýst um það.

Ágúst segir að hann hafi ekki séð umrætt bréf en hann hafni þessum ávirðingum.
„Það er eðlilegt að ekki séu allir sammála um málið enda myndu felast miklar breytingar í sameiningu. Hins vegar neita ég því að þetta hafi farið leynt á nokkurn hátt. Allan þann tíma sem ég hef verið rektor hef ég reynt að koma hreinskilnislega fram við starfsfólk og segja þeim frá hvað er í gangi. Manni tekst samt líkleg aldrei að gera nóg af því að upplýsa. Það er hins vegar bara ekki rétt að starfsfólki hafi á einhvern hátt verið haldið í myrkrinu. Við höfum auðvitað verið að bíða eftir því að stjórnvöld taki ákvörðun um framtíð skólans. Nú þegar sú ákvörðun virðist liggja fyrir þá er auðvitað margt eftir í því að marka stefnu til framtíðar í starfsemi skólans. Þar þurfa auðvitað starfsmenn, nemendur og fleiri að koma að málinu. Við höfum verið í lausu lofti til þessa.“

Hyggst ekki stökkva frá vandanum

Ágúst segist ekki upplifa að upp sé kominn trúnaðarbrestur milli sín og starfsmanna skólans. Hann segist hafa hugsað sinn gang hvað sína stöðu varðar en ætli sér ekki að hverfa frá starfi á ólgutímum.
„Jú, ég hef að sjálfsögðu hugsað um það. Það hefur hins vegar aldrei hvarflað að mér að stökkva frá vandanum. Það þarf að koma þessum málum í höfn, þannig að ljóst sé hvaða ákvörðun hafi verið tekin. Síðan líður minn tími bara, ég er ráðinn til fimm ára í senn, og minn skipunartími rennur út núna í sumar. Þá mun ég bara taka ákvörðun um hvert framhaldið kann að verða.“

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...