Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Jenny Shepherd og Rawdon Hayne á Ballacosnahan-Hillcrest býlinu eru á meðal helstu ræktenda ferhyrnds fjár af Manx Loaghtan kyninu, þarna með smalahund sinn. Lögð er áhersla á sauðakjöts- og ullarframleiðslu auk sölu líffjár.
Jenny Shepherd og Rawdon Hayne á Ballacosnahan-Hillcrest býlinu eru á meðal helstu ræktenda ferhyrnds fjár af Manx Loaghtan kyninu, þarna með smalahund sinn. Lögð er áhersla á sauðakjöts- og ullarframleiðslu auk sölu líffjár.
Mynd / ÓD
Fréttaskýring 9. júlí 2017

Ferhyrnda féð á eyjunni Mön á Írlandshafi

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson
Sauðfé með fögur horn er til á nokkrum stöðum í heiminum en því hefur farið fækkandi. Sums staðar er það alveg horfið; dæmi um þá eyðingu erfðaefnis sem hefur ágerst síðustu áratugina og er áhyggjuefni þeirra sem vilja stuðla að sjálfbærri þróun. Enn mun vera til ferhyrnt fé í Asíu en eftir því sem ég kemst næst er helst að finna ferhyrnt fé í Evrópu á Íslandi og á nokkrum stöðum á Bretlandseyjum, einkum á eyjunni Mön (Isle of Man) á Írlandshafi.  
 
Allt frá háskólaárum mínum í Wales þegar ég sá fáeina ferhyrnda hrúta frá Mön á landbúnaðarsýningu í Englandi, fyrir 50 árum, átti ég mér þann draum að heimsækja eyjuna og sjá  Manx Loaghtan féð þar. Sá draumur rættist í byrjun september 2016.
 
Norrænn uppruni
 
Það ferhyrnda fé sem enn finnst í  norðanverðri Evrópu er annars vegar með dindil og því af hinum norður-evrópska stuttrófustofni, þ.e.a.s. ferhyrnda féð á Íslandi, Mön og Suðureyjum (Hebrides), og hins vegar ferhyrnda, flekkótta Jakobsféð (Jacob Sheep) á Bretlandseyjum og víðar sem er langrófufé eins og önnur bresk fjárkyn. Jakobsféð á uppruna að rekja til Spánar, hefur hugsanlega átt  einhver erfðatengsl við norrænu kynin en er töluvert ólíkt þeim. Einnig mun enn vera til ferhyrnt langrófufé á Spáni og Kýpur. Þá er til stofn af  Churro fé í Bandaríkjunum, upprunnið á Spáni, sem með blöndun við Jakobsfé myndaði ferhyrnda Navajo-Churro kynið. Þetta fé hefur verið í útrýmingarhættu og ljóst er að ferhyrnt fé á alls staðar í vök að verjast. Fé af Churro stofni sá ég í Vermont í Bandaríkjunum fyrir réttum 10 árum.
 
Hluti af hrútahópnum á býlinu, veturgamlir og eldri, allir fallega ferhyrndir og mórauðir að lit. Sumir þeirra, ásamt nokkrum ferhyrndum ám, fóru skömmu eftir heimsókn mína til Spánar en þar hefur ferhyrndu fé farið fækkandi.
 
Sennilega er stærsti erfðahópur norræns, ferhyrnds fjár nú á eyjunni Mön á Írlandshafi, áætlaður um 3000 kindur þar, allt af Manx Loaghtan kyninu, sá næststærsti á Íslandi en hér er áætlað að um 1.000 kindur séu ferhyrndar, og sennilega eru fáein hundruð ferhyrninga á Suðureyjum. Allt eru þetta sérstakir stofnar af norrænum uppruna og á Mön er ferhyrnda féð stundum kallað Víkingafé til aðgreiningar frá breska langrófufénu. Þar er allt ferhyrnda féð mislitt, nær eingöngu mórautt, en svart á Suðureyjum. Hér á landi er margt af því mislitt en einnig töluvert hvítt enda er þetta ekki litatengdur eiginleiki.
 
Manx Loaghtan kynið
 
Á hinni fornu tungu Manverja, kölluð Manska, sem nú er að mestu dáin út sem móðurmál,  þýðir „ loaghtan“ mórautt og mjög líkt íslenska heitinu er  lýsingarorðið „ moorit“ notað um mórautt fé á Hjaltlandseyjum, sem er einnig mjög algengur litur þar. Norrænu tengslin leyna sér ekki.  Fyrr á tímum var Manx Loaghtan féð aðallega hvítt, svart og grátt en mórauður litur var fremur fáséður. Mórauð ull varð eftirsótt og þegar fénu fór að fækka var farið að velja markvisst fyrir mórauða litnum. Svo fór að nú er einungis skráð mórautt fé í ættbók fyrir hreinræktað Manx Loaghtan fé hjá  ræktunarfélaginu „The Manx Loaghtan Sheep Breeders Society“.
 
Þegar Jenny kallaði kom stór ærhópur til okkar utan úr einu beitarhólfinu, flestar ferhyrndar en sumar tvíhyrndar og fáeinar kollóttar. Framarlega á miðri myndinni sjást vel tvö lömb. Féð er allt mórautt.
 
 Hafa skal í huga að stofninn var orðinn mjög lítill upp úr miðri liðinni öld, jafnvel aðeins eitt eða fáein hundruð og því í útrýmingarhættu.  Nú telur hann rúmlega 3.000 fjár, eftir því sem næst verður komist, að hluta erlendis eftir nokkurn útflutning líffjár um árabil.
 
Á Mön er auk mórauða litarins lögð áhersla á að velja ferhyrnt fé til undaneldis. Þó er þar töluvert af  venjulegu tvíhyrndu fé, einkum ám, og einnig er til nokkuð af ferukollóttum kindum líkt og hér á landi. Þetta fé er heldur smávaxnara og léttara en íslenska féð og ullin á því er fínni líkt og á Hjaltlandseyjafénu eftir markvisst úrval um fjölda ára. Þessi ull er eftirsótt til handprjóns og vefnaðar.  Ullarverð er þó ekki hátt.
 
Búskaparhættir
 
Þótt haglendi sé ágætt og beit oftast næg allt árið er töluvert gefið með að vetrinum, sérstaklega fyrir og um sauðburð, sem er aðallega í apríl. Þá eru ær jafnvel hýstar um skeið. Frjósemi er nokkru minni en í íslenska fénu. Enn er viðhaldið þeim sið að framleiða sauðakjöt, slátra við 18 mánaða aldur, þannig að aðeins hluti þeirra lamba sem ekki eru sett á, fara í sláturhús á haustin. Líkt og hér á landi þykir sauðakjötið bragðmikið og það selst ekki síður en lambakjötið. Féð gengur mest á úthaga en einnig nokkuð á ræktuðu landi, gjarnan á haglendi sem ekki nýtist fyrir nautgripi.
 
Þess ber að geta að sumir bændur nota Manx Loaghtan ær í blendingsrækt til dilkakjötsframleiðslu og eru þá notaðir á þær hrútar af þekktum holdakynjum, svo sem Suffolk. Það er talinn mikil kostur við ærnar að þeim gengur oftast vel að bera og þær eru góðar mæður.
 
Líkt og raunin er á hér og í nágrannalöndunum eru tekjur sauðfjárbænda á Mön lágar og því er algengt að afkoman sé bætt með ferðaþjónustu eða vinnu utan bús.
 
Heimsókn á Ballacosnahan-Hillcrest býlið
 
Ég flaug  2. september til Ballasalla flugvallar við Ronaldsway, sunnarlega á Mön, frá George Best flugvelli í Belfast á Norður-Írlandi eftir að hafa setið ráðstefnu Búfjárræktarsambands Evrópu þar í borg (sjá Bændablaðið 9. mars 2017, bls. 46).
 
Á móti mér tóku gestgjafar mínir, dr. Jenny Shepherd og sambýlismaður hennar, Rawdon Hayne, en þeim kynntist ég á sauðfjár- og ullarráðstefnunni á Blönduósi haustið 2014. Jenny er húðsjúkdómalæknir og starfar hún við þá sérgrein í hlutastarfi en Rawdon vinnur eingöngu við fjárbúið sem þau hafa byggt upp síðan 2004. Áður bjuggu þau og störfuðu í London, hún sem læknir en hann vann við kvikmyndagerð. Jenny  er ættuð frá Ballacosnahan-Hillcrest  og átti þar heima á barns- og unglingsárum en býlið er í Dalby-sveit á vesturströnd eyjarinnar skammt frá hafnarbænum Peel. Þaðan sést yfir til Norður-Írlands í góðu skyggni. Land jarðarinnar, allt vel gróið, um 100 hektarar og að hluta einnig nýtt til heyskapar, er allt í hlíðum fjallsins Slieau Whallian, ofan við ána Neb. Mjög fallegt bæjarstæði.  Vitað er að fyrir rúmri öld var þar á bæ eitt stærsta bú eyjarinnar með Manx Loaghtan fé og nú er hjörðin aftur orðin stór eða um 800 fjár að meðtöldum sauðum, flest ferhyrnt. Að auki er verið að byggja upp ferðaþjónustu í tengslum við búskapinn.
 
Þótt sauðakjöt sé aðalafurðin hafa þau Jenny og Rawdon lagt mikla áherslu á að auka verðmæti ullarinnar á seinni árum. Reynt er að selja afurðir sem mest sérmerktar beint frá býli og einnig er töluverð sala á líffé. Fylgt er lífrænum búskaparháttum en ekki hefur verið leitað eftir vottun. Þess má geta að samkvæmt efnagreiningum sem búvísindastofnun í Skotlandi hefur gert er kjötið af þessu fé ekki eins feitt, er með hagstæðari samsetningu fitusýra og hefur lægra hlutfall kólesteróls en kjöt af bresku holdafé. Sauðakjötið þeirra bragðaðist vel. 
 
Jenny hefur verið formaður ræktunarfélagsins, the Manx Loaghtan Breeders Society, undanfarin fimm ár og til að vinna gegn skyldleikarækt hefur hún sýnt gott fordæmi með því að lána öðrum félögum hrúta gegn vægu gjaldi, einni vínflösku fyrir hvern hrút á fengitíma.
 
Heimsóknin reyndist hin ánægjulegasta, og ég naut mikillar gestrisni. Fór meira að segja í svolítið fjárrag með þeim Jenny og Rawdon því að þau voru að velja kindur til útflutnings til Spánar. Bættist þá dýralæknir í hópinn til að taka blóðsýni vegna rannsókna til þess að hægt væri að ganga frá vottorðum að kröfum Evrópusambandsins. Mön er þó ekki í ESB, engin áform eru um að sækja um aðild að sambandinu og  sterlingspundið er gjaldmiðill eyjarinnar.
 
Norræn áhrif á Mön
 
Það er áhugavert fyrir Íslendinga að heimsækja Mön, m.a. vegna  augljósra, norrænna tengsla. Þar heitir hæsta fjallið Snaefell (621 m) og þingið, sem enn starfar, heitir Tyndwald, stofnað árið 978  þegar norrænir víkingar réðu þar ríkjum. Nú á dögum er eyjan í konungssambandi við Bretland en telst samt ekki vera hluti af því og nýtur sjálfsstjórnar um flest mál. Bretar fara þó með utanríkis- og varnarmál eyjarinnar sem er 572 ferkílómetrar að flatarmáli. Manverjar eru um 85.000 að tölu, enska er tungumálið og bærinn Douglas á austurströndinni er höfuðstaður eyjarinnar. 
 
Þegar ferðaþjónustunni hnignaði sem undirstöðuatvinnugrein um síðustu aldamót breytti þingið í Tyndwald eyjunni í skattaparadís.  Nú er aflandsbankaþjónusta orðin aðalatvinnuvegurinn, mikilvægari en iðnaður og ferðaþjónusta, en fiskveiðar og landbúnaður fylgja þar á eftir. Til dæmis er lagður 10% skattur á hagnað banka og á leigutekjur af eignum á eyjunni en að öðru leyti munu fyrirtækjaskattar vera engir í flestum tilvikum. Mest er verslun við Bretland og er Mön í tollabandalagi við það. Þess má geta að kvikmyndagerð nýtur mikils opinbers stuðnings á Mön, margar kvikmyndir hafa verið teknar á eyjunni síðan um aldamót en samt er talið að þessi fjárfesting hafi ekki verið ábatasöm. Þá er athyglisvert að Mön hefur orðið miðstöð fyrir geimferðir einkaaðila og árið 2010 var talið að eyjan væri komin í fimmta sæti þeirra þjóða sem gætu næst lent á tunglinu.
 
Frá mínum sjónarhóli séð er þó full ástæða til að heimsækja Mön af jarðbundnari ástæðum en áhættufjárfestingum og geimferðakapphlaupi. Þótt ekki væri til annars en að skoða hið sérstæða ferhyrnda fé, sem ég kynntist mér til mikillar ánægju, og hugsanlega líka til þess að sjá þótt ekki væri nema einn þeirra rófulausu katta (Manx Cat) sem þar munu vera til en ég sá því miður ekki.
 
Höfundurinn, dr. Ólafur R. Dýrmundsson, er félagi í Rare Breeds International, Slow Food og Evrópuhópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga (oldyrm@gmail.com).
Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum
Fréttir 5. mars 2024

Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum

Enn er opið fyrir umsóknir um framlög vegna vatnsveitna á lögbýlum sbr. regluger...

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...