Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
„Búfræðingar verða að kunna allt,“ segir Sigurður sposkur, en hann er einmitt búfræðingur og hefur að mestu unnið sjálfur við lagfæringar í Sveinbjarnargerði. Hér er hann framan við Sveitahótelið, tilbúinn í að moka frá heimreiðinni.
„Búfræðingar verða að kunna allt,“ segir Sigurður sposkur, en hann er einmitt búfræðingur og hefur að mestu unnið sjálfur við lagfæringar í Sveinbjarnargerði. Hér er hann framan við Sveitahótelið, tilbúinn í að moka frá heimreiðinni.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 17. mars 2015

Ferðamenn eru mitt búfé

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það er nauðsynlegt að breyta til í lífinu af og til, takast á við eitthvað annað en maður er vanur og finna að maður fyllist við það nýjum krafti,“ segir Sigurður Jóhannsson, nýr eigandi að Sveitahótelinu í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd. 
 
Sigurður og Auður Björk Jakobsdóttir, eiginkona hans, keyptu hótelið um miðjan janúar á þessu ári af Byggðastofnun. Þau hafa unnið við endurbætur og lagfæringar og eru á síðustu metrunum um þessar mundir, tilbúinn í slaginn fyrir komandi ferðamannatíð í sumar.
 
„Mjólkar túristana“
 
Sigurður hefur undanfarin tíu ár rekið ásamt fleirum tvo vinsæla veitingastaði á Akureyri, Strikið og Bryggjuna. Hann er menntaður framreiðslumaður og hefur lengi starfað á þeim vettvangi, en hann lauk einnig búfræðinámi frá Hvanneyri og stefndi í eina tíð að því að verða bóndi. „Mér hefur alltaf liðið vel í sveitinni og er alsæll með að vera kominn hingað í sveitasæluna,“ segir hann. Og grínast með að ferðamenn séu hans búfé, „ég er bara í því að mjólka túristana, það er enginn kvóti í þeirri grein.“
 
Lærði búfræði
 
Móðurfjölskylda Sigurðar er frá Stórhamri í Eyjafjarðarsveit og þar var hann á æskuárum í sveit öll sumur. „Það má raunar segja að annað heimili okkar systkina hafi verið á Stórhamri, ég fékk snemma áhuga fyrir öllu því sem tengist landbúnaði og störfum í sveit,“ segir hann. Föðurafi hans og nafni, Sigurður Karlsson, var á sínum tíma bústjóri á Hólum, hann var óþreytandi að fræða drenginn um landbúnaðarmálin. „Ég var mikið með honum og allt hans líf snerist um þessi mál, þannig að þetta síaðist fljótt inn,“ segir Sigurður. Hann byrjaði þó á að læra til þjóns og starfaði á þeim vettvangi suður í Reykjavík um tíma, en lét draum sinn um búfræðinámið rætast og stefndi ótrauður að því að hefja búskap. Af því varð þó ekki, enda segir hann aðstæður í landbúnaði ekki hafa boðið upp á mikla nýliðun þegar hugur hans var hvað mestur. 
 
Að hrökkva eða stökkva
 
Sigurður starfaði eftir búfræðinámið á Stórhamri, en skellti sér aftur í veitingageirann og hefur sem fyrr segir rekið í félagi við aðra vinsæla veitingastaði á Akureyri. „Það gekk mjög vel hjá okkur og ekki yfir neinu að kvarta, en ég var búinn að vera í þessum rekstri í tíu ár og var aðeins farinn að velta fyrir mér að skipta um. Það var kominn í mig einhver fiðringur, mig langaði að breyta til. Þegar þær aðstæður sköpuðust í byrjun árs að ég hafði tækifæri á að kaupa rekstur Sveitahótelsins í Sveinbjarnargerði fannst mér ég ekki geta sleppt því. Ég hugsaði málið skamma stund og komst að þeirri niðurstöðu að hollt væri að takast á við nýja áskorun í lífinu eftir áratug á sama stað. Það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva og ég valdi að stökkva fremur en að líta ef til vill til baka síðar meir með eftirsjá eftir horfnu tækifæri,“ segir hann.
 
Um miðjan janúar fékk Sigurður lyklavöld í Sveinbjarnargerði og hófst þá þegar handa við lagfæringar og endurbætur. „Ég fór yfir allt og skipulagði hvernig best væri að standa að þessu verki, hvað nauðsynlega þyrfti að gera strax og hvað mætti bíða. Svo hófst ég handa, hef mest verið einn í þessu, verið að dunda mér hér í sveitasælunni og haft mjög gaman af,“ segir hann. 
 
Stefnum á að auka veitingareksturinn
 
Alls eru 52 rúmgóð og vel útbúin herbergi á Sveitahótelinu, öll með baðherbergi. Rúmgott anddyri er framan við veitingasal sem tekur um 110 manns í sæti. Pallur er framan við hótelið þar sem gestir geta notið útsýnis um Eyjafjörð.  Þá er fundaraðstaða einnig í boði. Salur framan við veitingaaðstöðu hefur fengið andlitslyftingu og sama má segja um matsalinn sjálfan, en m.a. var borðum og stólum skipt út þannig að eftir breytingar er yfirbragðið léttara en var. Þá var eldhúsið endurskipulagt og algjörlega tekið í gegn. Menntaður matreiðslumaður var ráðinn til starfa, enda er stefnan að auka við í veitingarekstrinum og verður veitingastaðurinn opinn fyrir almenning alla daga frá og með komandi sumri. „Við bjóðum upp á mat fyrir okkar gesti en munum einnig hafa opið fyrir alla þá sem kjósa að eiga góða stund hér í sveitinni, hvort heldur sem er með kaffibolla í hönd úti á palli eða njóta annarra veitinga,“ segir Sigurður, en m.a. mun staðurinn bjóða upp á hlaðborð í allt sumar fyrir gesti og gangandi.
 
Veturinn mun stækka sjálfkrafa
 
Sumarið fram undan lítur mjög vel út og segir Sigurður að nánast sé fullbókað fram á haust. Hann er í samstarfi við Ferðaþjónustu bænda. „Það er svo alltaf reytingur yfir veturinn, það voru hér tveir hópar um daginn, fólk í norðurljósaferð, en slíkar ferðir njóta æ meiri vinsælda. Þá er fólk líka á ferðinni utan háannatíma í ýmsum erindagjörðum, skíðaferðum, leikhús- eða menningarferðum og eins tel ég að ótal tækifæri séu fyrir hendi varðandi það að selja íslenskan vetur. Hann er ágætis söluvara og ég held að á næstu árum muni vetrarferðir útlendinga aukast mjög, veturinn á sjálfkrafa eftir að stækka,“ segir Sigurður.
„Ég er bjartsýnn og tel að þetta muni ganga prýðilega, sumarið lofar góðu og ferðamannastraumur hingað til lands eykst ár frá ári, þannig að það er ekki ástæða til annars en að vera bara nokkuð brattur,“ segir Sigurður.

7 myndir:

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...