Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum
Skeifudagurinn fór fram í blíðskaparveðri sumardaginn fyrsta á Hvanneyri þar sem Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir sópaði að sér verðlaunum.
Skeifudagurinn hefur verið haldin hátíðlegur hvert ár síðan 1957 og er nokkurs konar útskriftarhátíð nemenda sem eru að útskrifast úr reiðmennskuáföngum við bændadeild Landbúnaðarháskóla Íslands.

Eiðfaxabikar, ásetu- og reiðmennskuverðlaun FT og Gunnarsbikar.
Á Skeifudeginum eru hin ýmsu verðlaun veitt og að þessu sinni hlaut Eyjalín Harpa Morgunblaðsskeifuna, Eiðfaxabikarinn, ásetu- og reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna og Gunnarsbikarinn, en hann hefur verið gefinn allt frá 2008 af Bændasamtökum Íslands til heiðurs Gunnari Bjarnasyni, fyrrum hrossaræktarráðunauti og kennara á Hvanneyri. Hann er veittur þeim nemanda sem hlýtur hæstu einkunn í fjórgangi, en úrslitin fara fram á Skeifudaginn. Í næstu sætum á eftir komu Melkorka Gunnarsdóttir, Saga Björk Jónsdóttir, Einar Ágúst Ingvarsson, Laufey Ósk Grímsdóttir, Ingiberg Daði Kjartansson og Maria Kim Desirée Edman.
Morgunblaðsskeifuna hlýtur sá nemandi í búfræði sem náð hefur bestum árangri í frumtamningarprófi og í áfanganum Reiðmennska III og Eiðfaxabikarinn fær sá nemandi sem er með bestu einkunn fyrir bóklegt nám í áföngunum Reiðmennska I-III. Félag tamningamanna veitir verðlaunaskjöld fyrir ásetu og reiðmennsku.
Búfræðin alltaf heillað
„Markmiðið er auðvitað alltaf að gera sitt besta og er ég búin að vita af þessari Morgunblaðsskeifu frá því að maður var lítill krakki. Þetta var mjög skemmtilegt og mikill heiður. Það kom mér líka á óvart að fá ásetu- og reiðmennskuverðlaun FT og þykir mér mjög vænt um það. Það er búið að vera virkilega gaman að vera hér á Hvanneyri, góð stemning og góður hópur af fólki. Það sorglegasta við þetta er hvað þetta er fljótt að líða,“ segir Eyjalín Harpa, sem er að útskrifast úr búfræði frá LbhÍ.
„Mig hefur lengi langað í búfræðinámið og ákvað að slá til fyrst ég hafði tækifæri til þess. Ég hef mikinn áhuga á landbúnaði og alls konar búfjárrækt svo búfræðin lá beinast við, enda búin að heyra góða hluti um námið. Ég er fædd og uppalin í sveit og langar ekki að vera neins staðar annars staðar.“
Á hrossi úr eigin ræktun
Eyjalín ólst upp á sauðfjárbúinu Bjarnanesi í Hornafirði en foreldrar hennar lögðu einnig stund á hrossarækt. Eyjalín hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini og var með hryssu úr þeirra eigin ræktun í náminu.
„Ég er af stóru sauðfjárbúi en mamma og pabbi eru með tæplega þúsund kindur og hafa alltaf verið í hrossarækt líka. Það kom aldrei neitt annað til greina en að velja hestamennskuna í vali á Hvanneyri. Ég var með Ósk frá Bjarnanesi í náminu en hún er 10 vetra hryssa sem er úr okkar ræktun. Við erum miklar vinkonur og þekkjumst vel. Það gerir árangurinn enn skemmtilegri að vera með hross úr eigin ræktun. Ég ætla að halda eitthvað áfram með hana áður en ég set hana í ræktun.“
Stefnan sett á Skagafjörðinn
Með Eyjalín í náminu var kærasti hennar, Jón Hjálmar Ingimarsson, en þau stefna á að taka við kúabúinu á Flugumýri í Skagafirði í haust.
„Við erum bæði að útskrifast núna í vor og ætlum okkur að taka við kúabúinu á Flugumýri á haustmánuðum en Jón er þaðan. Ég sé líka fyrir mér að fara í meira nám í búvísindum og hestafræði þegar tími gefst. Í gegnum tíðina hef ég kynnst öllum öngum í landbúnaði og hef mikinn áhuga á öllum skepnum svo ég get vel hugsað mér að jafnvel stunda blandaðan búskap í framtíðinni.“
Að þessu sinni kláruðu 4 nemendur í búfræði og 3 í hestafræði. Þau Einar Ágúst Ingvarsson, Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir, Ingiberg Daði Kjartansson og Laufey Ósk Grímsdóttir í búfræði og þær Maria Kim Desirée Edman, Melkorka Gunnarsdóttir og Saga Björk Jónsdóttir í hestafræði Bs.
Einar Ágúst hlaut framfaraverðlaun Reynis, sem veitt eru þeim nemanda sem sýnt hefur hvað mestan áhuga, ástundun og tekið sem mestum framförum í áföngunum Reiðmennska I-III og eru gjöf Hestamannafélagsins Grana til minningar um Reyni Aðalsteinsson.