Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
1 mynd. Eitrunaráhrif eftir úðun með Glyphosate á Krithóli 2014. Það tókst ekki að drepa grasið sem óx nálægt stofnunum.
1 mynd. Eitrunaráhrif eftir úðun með Glyphosate á Krithóli 2014. Það tókst ekki að drepa grasið sem óx nálægt stofnunum.
Mynd / Elsa Möller
Á faglegum nótum 27. maí 2016

Er hraðræktun jólatrjáa á ökrum raunhæf ræktunaraðferð á Íslandi?

Höfundur: Else Möller, Bjarni Diðrik Sigurðsson
Akurræktun jólatrjáa er búgrein sem enn hefur ekki náð fótfestu á Íslandi, hvorki í skógræktinni né hjá garðyrkjubændum. Sú búgrein er hins vegar mjög vinsæl víða erlendis þar sem akurræktun er skilvirk og fjárhagslega hagkvæm búgrein. Í Þýskalandi eru framleidd um 18 milljónir jólatrjáa árlega (norðmannþinur) og í Danmörku um 10 milljónir, aðallega til útflutnings og þar af rúmlega 30.000 tré til Íslands (upplýsingar frá Danske Juketræer v. Claus J. Christensen, 2016). 
 
Akurræktun jólatrjáa hefur aðeins verið reynd á Íslandi (Jón Geir Pétursson, 1993) en aldrei náðst neinn verulegur árangur eða vinsældir hjá ræktendum. Reynslan var töluverð og skoðanir margar á akurræktun en engar formlegar rannsóknir hafa verið gerðar hérlendis til að kanna hvort akurræktun sé fýsileg ræktunaraðferð fyrir jólatrjáaframleiðslu á Íslandi. 
 
Til að kanna málið var langtímaverkefnið „Hraðrækt jólatrjáa á ökrum“ sett af stað 2009 á Hvanneyri sem BS verkefni höfundar í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmið verkefnisins var að afla meiri þekkingar á akurræktun jólatrjáa við íslenskar aðstæður, sérstaklega hvað varðar tegundanotkun og ræktunaraðferðir. Í tilrauninni á Hvanneyri var áherslan lögð á samanburð tegunda (rauðgrenis, blágrenis og stafafuru) og áhrif mismunandi áburðargjafar. Niðurstöður tilraunarinnar voru birta í lokaritgerðin: „Hraðrækt jólatrjáa á ökrum – Lifun ungplantna og áhrif mismunandi áburðarmeðferða“.
Aðalniðurstöðurnar voru að áburðargjöf hefur engin jákvæð áhrif á lifun og vöxt plantna fyrstu árin eftir gróðursetningu (Else Möller, 2010). 
 
Árið 2011 var tveimur sambærilegum tilraunum bætt við á Norðurlandi (Krithóli í Skagafirði) og á Suðurlandi (Prestsbakkakoti á Síðu) sem MS verkefni höfundar. Við tilraunina bættust þrjár breytur: Eitrunarmeðferð, skjóláhrif og landshlutamunur.  Fyrstu niðurstöður tilraunanna voru birtar í lokaritgerðinni: „Hraðrækt á ökrum – Áhrif mismunandi ræktunaraðferða á lifun og vöxt jólatrjáa á fyrstu vaxtarstigum“ (Else Möller, 2013). 
 
Aðalniðurstöðurnar voru að stafafura var með bestu lifun og vöxt, áburðargjöf hafði engin jákvæð áhrif á lifun og vöxt fyrstu tvö árin, illgresiseyðing er nauðsynleg að minnsta kosti tvisvar helst þrisvar á hverju ári, skjól hefur áhrif á lifun, lifun er betri á landrænum svæðum fjærri sjó og mikilvægt er að undirbúa jarðveginn vel fyrir gróðursetningu (Else Möller, 2013).
 
Tilraununum var áfram fylgt eftir og úttektir á lifun fóru fram 2013, 2014 og 2015. Niðurstöðurnar þá sýndu að lifun hrakaði með hverju ári. Við síðustu úttektina var meðallifun plantna á öllum tilraunarstöðum komin vel undir 50% (Else Möller, 2014, 2015, 2015A). Því var ákveðið að leggja niður tilraunarverkefnið.
 
Langtímaverkefninu var því hætt eftir sex ár, sem var mun fyrr en ætlað var, en markmiðið var að ná ræktunarlotunni niður í um 12-15 ár og halda áfram að fylgjast með tilraununum yfir þann tíma. Það var þó ljóst árið 2015, að akurræktun á þessum þremur trjátegundum ekki er fýsileg ræktunaraðferð fyrir jólatrjáaframleiðslu á þessum svæðum eins og staðan er í dag.
 
Efni og aðferðir
 
Fyrsta tilraunaverkefnið á Hvanneyri (2009) var sett út sem blokkatilraun með 7 endurtekningum (9 reitir í hverri blokk). Þrjár tegundir voru valdar sem rannsóknatré, rauðgreni (Picea abies kvæmið BØ frá Noregi), blágreni (Picea engelmannii  kvæmið Rio Grande) og stafafura (Pinus contorta kvæmið Skagway). Í hvern reit voru gróðursettar 10 plöntur af hverri tegund samtals 1890 plöntur. Þrjár mismunandi áburðarmeðferðir voru notaðar við gróðursetningu og síðan dreift á hverju ári (0g (viðmið), 12g eða 24g á plöntu). Síðan var úðað með illgresiseyði (Glyphosate) einu sinni á vaxtartímanum (í júníbyrjun). 
 
Lifun og vöxtur voru metin, mælt og skráð fyrir hverja plöntu eftir ákveðnum skala (Else Möller, 2010). Tölfræðiforrit (SAS 9.1) var notað til að greina gögnin og kanna hvor marktækur munur væri milli mismunanda meðferða.  
 
Annað tilraunaverkefni, á Krithóli og í Prestsbakkakoti (2011), var með sambærilegri uppsetningu nema aðeins með 5 endurtekningar á hvorum stað, samtals 1350 plöntur. Síðan var bætt við tveimur mismunandi eitrunaraðferðum, úðun vor og haust í kringum plöntur eða heilúðun yfir plönturnar á haustin. Einungis Glyphosate var notað sem illgresiseyðing. Síðan var lifun og vöxtur plantna metin og könnuð með tilliti til staðsetningar tilraunarreita á landinu (landshlutamunur) og skjóláhrifa frá skjólbeltum með því að bera saman ólíkar blokkir á hverjum stað. Notað var sama aðferðafræði við mat og mælingar á plöntum eins og á Hvanneyri (Else Möller, 2013). 
 
Öllum tilraununum var fylgt eftir af eigendum eða aðstoðarfólki með áburðargjöf og illgresiseyðingu skv. fyrirmælum í ræktunaráætlun, sem var hluti af verkefninu. Úttekt á lifun fór fram á öllum stöðum 2013, 2014 og á Krithóli líka 2015. Niðurstöður úttektanna voru birtar í stöðuskýrslum 2014 og 2015 (Else Möller, 2014, 2015, 2015A). 
 
Niðurstöður − Áburðargjöf
 
Tilraunin á Hvanneyri sýndi strax fyrsta árið að lifun og vöxtur var best í óábornum reitum en verst í reitum með hæstu áburðargjöf.  Lifun stafafuru hrakaði mikið fyrsta árið, líklega vegna afleiðingar af saltstressi eftir langa þurrkakafla bæði  gróðursetningarárið og árið þar á eftir. Íbætur fóru fram tvö fyrstu árin eftir gróðursetningu en sama munstur sást aftur þó afföllin væru mun minni. Á 4. ári eftir gróðursetningu var stafafura komin með hæsta vaxtarstuðul (e. Volume index = hæð x þermál2) en bæði rauðgreni og blágreni voru, líklega vegna vetraráfalla, enn ekki komin í almennilegan vöxt.
 
Niðurstöður frá barrsýnum, sem tekin voru 2012 á öllum tilraunastöðum, sýndu að engin marktækur munur var á næringarinnihaldi óborinna plantna miðað við ábornar einu til fjórum árum eftir að áburðargjöf hófst á frjósömum ökrum. Niðurstöður sem eru í samræmi við erlendar rannsóknir um áburðargjöf í jólatrjáaræktun á ökrum (Christensen, 1998).
 
Samkeppni á frjósömu landi
 
Samkeppnisgróður var verulegt vandamál frá upphafi á Hvanneyri. Um leið og jarðvegurinn var opnaður með jarðvinnslu fór fræforðinn að lifna við og mikið af grösum ásamt öðrum ein- og tvíkímblöðungum birtust á tilraunasvæðinu strax fyrsta sumarið og haustið. Við 4. úttekt var samkeppnisgróðurinn mjög  mikill og farin að kæfa ungplönturnar og ljóst var að ekki dugði að eitra einungis einu sinni á vaxtartímanum. 
 
Á Krithóli og í Prestsbakkakoti var illgresiseyðing framkvæmd tvisvar á vaxtartímanum. Við úðun vor og haust fór grasið að vaxa nálagt stofni trjánna og flæktist í plöntunum (1 mynd).
 
Heilúðun um haustið lofaði góðu í upphafi og virtist hafa hamlandi áhrif á samkeppnisgróðurinn en fljótt fór klóelfting (Equisetum arvense) að þekja jarðveginn (2 mynd). Við úttekt 2013 sást, sérstaklega á rauðgreni, stutt og gulleit barr, sem eru þekkt einkenni eitrunarskemmda (Hartvig, 2012; 3 mynd). Tilraunin sýndi að hvorki úðun tvisvar á vaxtartímanum né heilúðun að hausti dugði ekki til að halda samkeppnisgróðrinum niðri.
 
Skjól 
 
Tilraunin var sett upp á svæðum með skjólbeltum á mismunandi aldri og gæðum, því var ekki hægt að túlka niðurstöðurnar með afgerandi hætti. Það var þó marktækt samband milli affalla og fjarlægðar frá skjólbelti og niðurstöðurnar frá Hvanneyri og Krithóli sýndu að lifun og vöxtur minnkaði því fjær skjólbelti sem plönturnar uxu.  
 
Munur milli landshluta 
 
Tilraunin var sett upp á þremur stöðum á Íslandi með ólíkum umhverfis- og veðurfarsáhrifum. Almennt var best lifun og vöxtur þar sem veðurfarið var landrænast (Krithóli) og slakast á hafrænasta svæðinu (Prestsbakkakoti). Þessar niðurstöður ber að taka með varúð því margt annað getur haft áhrif á útkomuna, meðal annars staðsetning tilraunarreitanna í landslaginu, mismunandi plöntugæði og ólík gróður-setningarár. 
 
Tegundir 
 
Stafafura varð fyrir miklum afföllum á Hvanneyri strax fyrsta árið. Rauðgreni fór að hraka á öðru ári og blágreni tórði en varð fyrir miklu kali. Við síðustu úttekt á Hvanneyri 2015 var meðallifun stafafuru 21%. Hjá rauðgreni var 31% lifandi en var mikið kalið og hjá blágreni voru einungs 13% lifandi (gögn ekki sýnd). Á Prestsbakkakoti drapst allt rauðgreni fyrsta veturinn, líklega vegna vorkals og mikilla frostlyftinga. Þar voru líka mikil afföll hjá bæði blágreni og stafafuru eftir annað árið. Á Krithóli var lifun og vöxtur best til að byrja með en á þriðja ári varð rauðgreni fyrir afföllum og lifun plantna hrakaði. Við síðustu úttekt 2015 á Krithóli var lifun allra tegunda komin undir 50% (4 mynd). 
 
Stafafura var sú tegund sem stóð sig best á öllum stöðum þrátt fyrir erfileika fyrstu árin. Veturinn 2013-2014 var mjög óhagstætt veðurfar sem hafði slæm áhrif, sérstaklega á stafafuru á öllu Suður- og Vesturlandi. Barrið sviðnaði, gulnaði og fururnar litu almennt mjög illa út. Eftir þetta minnkaði lifun en frekar hjá stafafuru við síðustu úttektir 2014 og 2015 (4 mynd).
 
Umræður og ályktanir 
 
Niðurstöður verkefnisins voru ekki þær sem vonast var eftir. Jafnfram sýna niðurstöðurnar að akurræktun er flókin og krefjandi ræktunaraðferð sem felur í sér talsverða áhættu fyrir ræktendur hérlendis. Margir þættir spila þar inn og geta haft afgerandi áhrif hvort akurræktun getur staðið undir sér efnahaglega með þessum þremur trjátegundum, sérstaklega kjarrænir þættir (veðurfarsþættir) sem erfitt er að hafa áhrif á. 
Fyrsta tilraun, á Hvanneyri, var með fókus á áburðargjöf og tegundanotkun. Markmið með áburðargjöf er að gefa plöntum aukna næringu fyrir vöxt strax frá gróðursetningu (Christensen o.fl. 2006). Áburðargjöfin virkaði neikvætt á lifun og vöxt plantna í frjósömum akurjarðvegi, en örvaði vöxt samkeppnigróðursins sem, eins og búist var við, var marktækt meiri í ábornum reitum fyrstu árin (Else Möller, 2010). Með árunum varð samkeppnisgróðurinn ríkjandi í öllum meðferðum þrátt fyrir eina árlega eitrun að vorlagi og þar með hamlandi fyrir lifun og vöxt plantna í tilrauninni. 
 
Jarðvinnsla fyrir gróðursetning er stöðluð aðferð við akurræktun erlendis (Nielsen, 2012) en um leið og jarðvegurinn er opnaður fær samkeppnisgróðurinn tækifæri til að lifna við. Erlendis er illgresiseyðing mikilvægur verkþáttur í ræktunni. Mismunandi plöntueitri er dreift með vélknúnum tækjum yfir allan vaxtartímann (Hartvig, 2012). 
 
Á tilraunareitunum á öllum stöðum kom fljótt í ljós að brýnt er að takast á við samkeppnisgróðurinn. Úðun vor og haust eða heilúðun um haustið var ekki nóg og Glyphosate (Roundup), dugði ekki eitt og sér til að halda klóelftingu og njólum í skefjum. Til þess þarf t.d. efnið „MCPA“ (Hartvig, 2007) sem ekki er leyft á Íslandi. Eitrunarskemmdir á barri eftir heilúðun með Glyphosate, sem fundust á Krithóli (3. mynd) er ekki óalgengur fylgifiskur við heilúðun (Hartvig, 2012).
 
Tilraunin var ekki hönnuð sérstaklega til að kanna skjóláhrif á ungplöntur og skjólumhverfið var mjög misjafnt á tilraunasvæðunum. Þó var marktækt neikvætt samband milli fjarlægðar einstakra blokka frá skjólbeltum og lifunar plantna bæði á Hvanneyri og Krithóli. Þetta eru niðurstöður sem styðja við mikilvægi þess að undirbúa ræktunarsvæði vel með öflugum skjólbeltum ef markmiðið er að hefja ræktun með viðkvæmum sígrænum plöntum eins og greni (Nielsen, 2012).
 
Í Prestsbakkakoti var ágætt skjól frá eldri skjólbeltum á ræktunarsvæðinu, en svæðið var staðsett á flatlendi fyrir neðan brekku og var því mikill frostpollur. Miklar sveiflur í hitastigi (umhleypingar) um vorið eftir gróðursetningu hafa líklega gert lífsbarráttuna  enn erfiðari fyrir ungplönturnar. Ræktun sömu trjátegunda hefur hinsvegar gengið ágætlega í útjörð uppi í brekkunum í Prestbakkakoti.
 
Langtíma-tilraunirnar á Hvanneyri, Krithóli og Prests­ba­kkakoti voru settar af stað til að kanna hvort fýsilegt væri að rækta jólatré á ökrum við íslenskar aðstæður. Rannsóknin hefur sýnt, að það er mjög erfitt að rækta jólatré á skjóllitlum svæðum, að akrræktun er flókin ræktunaraðferð sem krefst millar kunnáttu og eftirfylgni. Ennfremur er ljóst að vegna mikilla affalla hefði akurræktun aldrei orðið arðbær á tilraunastöðunum. Sérstaklega endurtekin illgresiseyðing er mjög tímafrek aðgerð og því er ljóst að ein helsta hindrunin fyrir að jólatrjáarækt á ökrum hér verði arðbær, fyrir utan afföllin sem komu fram, væri ef þá vinnu þarf að vinna með höndum. Erlendis eru sérhæfðar vélar notaðar til þeirra verka, sem eykur mjög afköstin en einnig fjárhagslega áhættu ræktenda. Það væri nauðsynlegt að fjárfesta í slíkum búnaði ef akurræktun jólatrjáa ætti að vaxa umtalsvert hérlendis.
 
Niðurstaða
 
Niðurstaða verkefnisins er því sú að ekki er hægt að mæla með stórfelldri akurræktun hérlendis eins og staðan er í dag. Fremur skal rækta jólatré í brekkum á útjörð. Þar er það líklegra að ræktunin standi undir sér þrátt fyrir einhver afföll, þar sem umhirða er þar mun minni og kostnaður ræktenda því lægri. Enn er þó mörgum spurningum einnig ósvarað um jólatrjáaræktun á útjörð á Íslandi og því eru áframhaldandi rannsóknir nauðsynlegar til að bæta þekkingu og kunnáttu og til að finna aðferðir sem henta á Íslandi og gera jólatrjáaræktun ábatasama, skilvirka, sjálfbæra og framkvæmanlega.
 
Heimildir 
Christensen, C. J. (1998). Startgødning af nordmannsgran kulturer på tidligere agerjord. Pyntegrøntsserien Nr.8 1998. Hørsholm Dk: Forskningscentret for Skov & Landskab. Christensen, C. J., Frahm, A., Christensen, B. K., Damgaard, I., Klausen, K., Sønnichsen, K., Theilby, F., Gjel, U.& Geil, L. (2006). Dyrkningsvejledning for juletræer dyrket efter tankegangen om Integreret produktion (IP). 
Produktionsafgiftsfonden for Juletræer og Pyntegrønt L. nr. 2005-0001. Hørsholm Dk:  Forskningscentret for Skov & Landskab.
Else Møller (2010). Hraðrækt jólatrjáa á ökrum. Lifun ungplanttna og áhrif mismunandi áburðarmeðferðar. Óútgefin BS ritgerð, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
Else Möller (2013). Hraðrækt jólatrjáa á ökrum. Áhrif mismunandi ræktunaraðferða á lifun og vöxt jólatrjáa á fyrstu vaxtarstigum á ökrum. Óútgefin MS ritgerð, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
Else Möller (2014). Hraðrækt jólatrjáa á ökrum. Þróun verkefnisins á Hvanneyri, Krithóli og í Prestsbakkakoti 2013. Skýrsla til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
Else Möller (2015) Hraðrækt jólatrjáa á ökrum. Staða tilrauna á hvanneyri, Krithóli og Prestabakkakoti 2014. Skýrsla til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
Else Möller (2015A) Hraðrækt jólatrjáa á ökrum. Staða tilraunarinnar á Krithóli júlí 2015. Skýrsla til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
Hartvig, P. (2007). Bekæmpelse af agerpadderok - additiver til forbedring af MCPA´s effekt. Slagelse, Dk: Det Jordbrugsvidenskabelige Fakultet.
Hartvig, P. (2012). Ukrudtsbekæmpelse i nordmannsgran - Rent for 100 kr. pr. hektar? Aarhus, Dk: Institut for Agroøkologi.
Jón Geir Pétursson (1993). Jólatré og jólagreina. Skógræktarriti. Bls. 43-60.
Nielsen, C. N. (2012). Håndbog i skovrejsning. København, Dk: Skovdyrkerforeningen.
 
Þakkir 
 
Sérstakar þakkir til landeigenda á Krithóli og í Prestsbakkakoti fyrir að taka virkan þátt í verk­efninu og leggja til land og vinnu! Sömuleiðis þakkir til Vesturlandsskóga, Norðurlandsskóga og Suðurlandsskóga fyrir þátttöku og stuðning við verkefnið. Jafnframt ber að þakka rannsóknarstöðinni á Mógilsá og Landssambandi skógareigenda. Síðast en ekki síst takk til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins fyrir fjárstyrki og áhugann sem sjóðurinn hefur sýnt þessu verkefni frá 2013. 
 
Else Möller, 
sjálfstætt starfandi sérfræðingur
Bjarni Diðrik Sigurðsson,
Landbúnaðarháskóli Íslands

3 myndir:

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...