Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Jökulsárlón og Öræfajökull. Íslenskir jöklar tapa nú árlega 0,2 til 0,3% af ísmassanum.
Jökulsárlón og Öræfajökull. Íslenskir jöklar tapa nú árlega 0,2 til 0,3% af ísmassanum.
Mynd / ATG
Fréttir 20. október 2015

Epli, bláber, svartþrestir og makríll −2. grein

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I
Foreldrar mínir gróðursettu eplatré í góðu skjóli við sumarbústað fjölskyldunnar skömmu fyrir 1960. Það blómstraði síðla vors í nokkur ár, svo förlaðist því og þessi útlenska jurt var orðin óskaplega hnípin undir síðustu aldarlok. En þá tók smám saman að hýrna yfir hríslunni og æ oftar sáust á því hvít blóm. Þessar og skyldar breytingar í lífríki lands og sjávar eru glöggar vísbendingar um hlýnun veðrahvolfsins, eins þótt stað- og tímabundin kólnun geti skyggt á heildartilhneiginguna. Hún er afdráttarlaus. Á nokkur þúsund veðurstöðvum heims hefur meðalárshiti samanlagt hækkað um tæpt eitt stig á um einni öld, um leið og helsta lofttegundin (koltvíildi) í andrúmsloftinu, sem megnar að halda hita að yfirborðinu, hefur risið mjög snögglega úr 340 milljónustu hlutum upp í 400. Það er hraðari hækkun og hærri gildi en sést hafa í nokkur hundruð þúsund ár (skv. mælingum á innihaldi lofts í borkjörnum úr risajöklum). Á svipuðu tímabili hefur gengið hratt á trjágróður jarðar eða sem nemur 1–2 sinnum flatarmáli Írlands á ári hverju. Gróðurinn og hafið binda koltvíildi og jurtirnar skila súrefni til okkar. Um hlýnunina og afleiðingar hennar núorðið deilir hvorki allur þorri sérfræðinga né mikill meirihluti pólitíkusa.
 
II Einu gildir hvort menn velja að halda því fram að hlýnunin sér aðallega af völdum náttúrulegra ferla eða samþykkja að mannleg virkni sé meginorsökin.
 
Afleiðingar hlýnandi loftslags koma svo sterkt við pyngju eða lífsskilyrði flestra að heimsbyggðin er orðin sammála um að grípa verði til margvíslegra mótvægisaðgerða. Því er enda þannig varið að miklu fleiri afleiðingar hlýnunar valda erfiðleikum en þær sem gera gagn. Bætt gróðurskilyrði gera gagn sums staðar en stærri eyðimerkur valda hungursneyð annars staðar. Söngur svartþrastar hljómar vel hjá okkur en engisprettufaraldur á nýjum slóðum veldur uppskerubresti. Makríll færir sig norðar en súrnun hafsins veldur hruni í skelfiskræktun í Kaliforníu. Nú er stefnt að bindandi samkomulagi um alþjóðlegar aðgerðir þar sem hvert ríki heims setur sér alvörumarkmið til mótvægis. Ef fyrirhuguð ráðstefna í París (COP 21) fellur á prófinu, er engin von til að unnt verði að minnka núverandi hlýnunarhraða og ef til vill halda hækkun ársmeðalhitans innan 2 stiga á næstu áratugum.
 
III
Ísland er auðvitað ekki eyland í veðurfarssamhengi. Hér eru bætt gróðurskilyrði augljós með hlýnandi loftslagi, en til dæmis hækkun sjávarborðs um hríð, súrnun hafsins og sennilega auknir veðuröfgar eru aftur á móti staðreyndir sem valda áhyggjum. Samhengi okkar við umheiminn og hlýnunina er þó enn afdráttarlausara þegar kolefnislosun á Íslandi, að húshitun og orkuframleiðslu frátaldri (það er raunhæft til þess að skoða raunveruleikann). 
 
Í ljós kemur að fáar ef nokkrar þjóðir losa jafn mikið af koltvíildi og við, á hvert mannsbarn. Skýringin er stór skipafloti, gríðarlegir landflutningar, véla- og bílanotkun og myndarlegur flugfloti. „Hausareglan“ er réttmæt, ella væri helmingur allra þjóða heims stikkfrí því meginhluti loftmengunar stafar frá iðnríkjum og stórveldum. Í heild er íslensk losun á við eitt mjög stórt raforkuver í Evrópu sem kynt er með jarðefnaeldsneyti, alls um 5 milljónir tonna á ári. Enginn flýr eigin ábyrgð á því sem miður fer í umhverfismálum heima fyrir.
 
IV
Í íslenskum landbúnaði stafar losun gróðurhúsalofttegunda aðallega af bíla- og vélanotkun (koltvíildi) og skepnuhaldi (metan). Meta má hana sem 15–17% af heildarlosuninni, deilt á ríflega 4.000 býli. Um 40% losunar skrifast á allan iðnað og má af því ráða að landbúnaður er í tiltölulega mengunarmiklum flokki. Til viðbótar notkun jarðefnaeldsneytis hefur til dæmis framræsla votlendis aukið gróðurhúsaáhrifin vegna þess að hún veldur losun koltvíildis. Þar á móti kemur veruleg skógrækt bænda og uppgræðslu- og gróðurverndarátak á borð við Bændur græða landið, og sennilega einhver fækkun búpenings. Við blasir að bændur geta unnið með ýmsum hætti að því að minnka losun koltvíldis, auk þess að stuðla að aukinni bindingu kolefnis með endurheimt votlendis, aukinni trjárækt og annarri uppgræðslu. Til þess þarf að leggja fram leiðbeiningar um hvernig það getur gerst, stuðla að nýsköpun og veita styrkjum til ýmissa verkefna. Einna mikilvægast er þó, þegar allt kemur til alls, að bændur nái samkomulagi sín í milli og við viðskiptaaðila, auk stjórnvalda, um markmið og leiðir.
 
V
Ábyrgð bænda við að minnka hlut landbúnaðar í losun kolefnislofttegunda er jafn augljós og annarra þjóðfélagshópa. Hingað til hefur umræða um hana farið lágt og til að mynda í deilum um inn- og útflutning landbúnaðarvara er líkt og enginn sé morgundagurinn í þessum efnum. Þar er einblínt á verð og vöruúrval rétt eins og flug- og sjóflutningar yfir hálfan hnöttinn komi ekki við sögu. Dapurlegt er að horfa á eða hlusta á þá, sem hæst kalla á sem óheftastan innflutning, sleppa hagrænum þáttum umhverfismála í málflutningnum. Þeir sem koma innan úr landbúnaðargeiranum gleyma þeim að mestu í sínum mótrökum. Hvort ætli sé farsælla: Að kaupa innflutt bláber (500 g) frá Chile í plastfötu á 1.399 kr. eða 350 g í endurnýttum pappabakka úr Haukadal á 999 kr.? Af sjálfu leiðir að í leit að svari ber að muna að margt þarf að flytja inn matarkyns á Íslandi. Eða er snjallt að aka sauðfé til slátrunar 200 km leið og svo afurðir sömu leið til baka? Í leit að svari skipta krónurnar einar ekki öllu máli. Sammála?
Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...