Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Nesstofa og núverandi urtagarður á Nesi.
Nesstofa og núverandi urtagarður á Nesi.
Á faglegum nótum 12. september 2014

Eplatré, lækningajurtir og kál

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fyrsti lyfsalinn á Íslandi var skipaður í embætti árið 1772 og bjó að Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Björn Jónsson kom sér upp garði þar sem hann gerði ræktunartilraunir og ræktaði lækningaplöntur.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur er mikil áhuga­manneskja um garðinn og hefur undanfarin ár viðað að sér upplýsingum um hann og hvað var ræktað í honum. Fyrir skömmu sagði hún frá því sem hún hefur komist að á málþingi í Lyfjafræðisafninu á Nesi.

Korn, kartöflur og krydd

„Áður en Björn tók við embætti apótekara var hann aðstoðarmaður Bjarna Pálssonar landlæknis í fjögur ár og þar áður hafði hann stundað lyfjafræðinám í Danmörku í sex ár auk þess að starfa í tvö ár í Vajsenhus-apóteki í Danmörku sem aðstoðar-lyfjafræðingur,“ segir Jóhanna.

„Af þeim heimildum sem ég hef skoðað voru garðyrkjutilraunir Björns fjölbreyttar og hann ræktaði meðal annars kartöflur, matjurtir, krydd- og lækningajurtir fyrir apótekið, auk þess að fást við trjárækt.“

18. öldin spennandi í garðrækt

Jóhanna segir að síðari hluti 18. aldar hafi verið spennandi tími í sögu garðræktar á Íslandi. Fyrstu kartöflurnar hér voru ræktaðar 1758 en grænmetisrækt var þá svo til óþekkt í landinu nema í undantekningartilfellum, helst á einstaka klaustri eða á biskupsstólunum.

„Stjórnvöld í Danmörku stóðu fyrir miklu átaki til að breiða út garðrækt meðal almennings með útgáfu tilskipana og leiðbeiningarita. Betri bændur og embættismenn hlóðu túngarða, sléttuðu tún og lögðu stund á alhliða jarðabætur. Þeir gerðu tilraunir með kornrækt og prófuðu sig áfram í garðyrkju og voru verðlaunaðir af konungi þegar vel tókst til. Boðskapurinn náði þó ekki eyrum almennings nema að takmörkuðu leyti og inn í þetta umhverfi kom Björn Jónsson apótekari þegar hann fluttist til landsins.

Hann settist að á Nesi hjá Bjarna Pálssyni landlækni. Fyrst sem aðstoðarmaður Bjarna en fjórum árum síðar, eða 1772, var hann skipaður lyfsali. Jörðinni Nesi var þá jafnframt skipt milli embættanna og Björn fékk hálfa jörðina til ábúðar.“

Stór garður

„Samkvæmt úttekt frá 1779 stóð matjurtagarðurinn sunnan við steinhúsið í Nesi á móti miðdegissólinni og var afgirtur með löngu gerði úr torfi. Einungis er sagt frá heildarlengd gerðisins, um 200 metrar, en ekki lengd og breidd garðsins. Ef við gerum ráð fyrir gerði sem er 50 metrar á hvern veg getur garðurinn hafa verið allt að 2.500 fermetrar sem er stór garður.

Í hluta garðsins gerði Björn tilraunir með ræktun margs konar lækningajurta og trjáa og tekið er fram að þessar tilraunir hans gangi þokkalega. Í aðalgarðinum sjálfum var hann hins vegar með korn og matjurtir.“

Hvað var Björn að rækta?

Þegar Jóhanna er spurð hvað Björn hafi verið að rækta segir hún að fyrst megi nefna korn. „Hann lýsir kornræktinni ágætlega í bréfi til Landsnefndarinnar 1770 sem er tveimur árum eftir að hann fluttist til landsins þannig að greinilegt er að hann hefur hafist handa við ræktunarstörf um leið og hann settist að Nesi.

Björn prófaði bygg, hafra, rúg og hveiti. Í fyrstu voru tilraunirnar í smáum stíl, uppskera haustsins 1769 var um einn lítri af byggi. Af höfrunum fékk hann einungis handfylli. Um haustið sáði hann fyrir rúgi og hveiti, en það eyðilagðist hins vegar allt í frostum um veturinn.

Í þessu sama bréfi skrifar Björn einnig um kartöflurækt sína. Hann segist hafa fengið um fjórfalda uppskeru um haustið 1769, en mun betri árið eftir, eða tuttugufalda uppskeru sem telst gott.“

Tuttugu tegundir grænmetis

„Skúli Magnússon landfógeti tók saman skýrslu yfir kál- og kartöflugarða í Gullbringusýslu og sendi til stjórnvalda í Danmörku í lok árs 1777. Í þeirri skýrslu eru taldar upp 20 tegundir grænmetis sem Björn lyfsali var með í ræktun. Þetta voru tegundir eins og grænkál, hvítkál, gulrófur, næpur, botfelskar rófur eða fóðurnæpur, blaðsalat, sellerí, radísur, spínat, laukar, bæði hvítir og rauðir, rauðrófur og piparrót.

Káltegund sem kallast snitkál og blöðrukál og plöntu sem kallast kaalrabi under jorden sem er líklega einhvers konar næpa.

Í garði Björns voru einnig nokkrar kryddjurtir eins og pétursselja eða steinselja, einnig karsi eða garðperla, meiran og garðablóðberg.“

Skarfakál, sæhvönn og burnirót

Jóhanna segir að sér hafi gengið erfiðast að finna heimildir um hvaða lækningajurtir Björn ræktaði. „Ég hef fundið bréf sem hann skrifaði Hannesi Finnssyni, síðar biskupi í Skálholti. Í bréfinu segir Björn lauslega frá tilraunum sínum með rúg og hveiti sem ekki báru árangur og nefnir nokkrar matjurtir. Þar nefnir Björn líka þrjár lækningaplöntur sem hann var með og eru skarfakál, sæhvönn og burnirót.

Árið 1790 bað Björn bróður sinn, Brynjólf garðyrkjumann, sem bjó í Danmörku og Svein Pálsson náttúrufræðing, sem þá var einnig í Kaupmannahöfn við nám, að kaupa fyrir sig fræ. Því miður segir ekkert um hvernig fræ en dýr voru fræin og kostuðu heila 50 ríkisdali, sem var mikil peningur á þeim tíma. Til samanburðar má geta þess að mjöltunnan kostaði þá 3 ríkisdali og 6 skildinga.“

Jóhanna segist hafa leitt líkum að því að hér gæti hafa verið um rabarbarafræ að ræða en þau voru mjög dýr á þessum tíma.

Plöntur samkvæmt dönsku lyfjaskránni

Jóhanna telur nokkuð víst að Björn hafi ræktað eða í það minnsta reynt að rækta flestar sömu tegundir lækningajurta og ræktaðar voru í Danmörku á hans tíma. Björn stundaði lyfjafræðinám og starfaði í apóteki í Kaupmannahöfn og hefur því haft sínar fyrirmyndir í fræðunum þaðan.

„Ég tel því að hann hafi tekið mið af dönsku lyfjaskránni frá árinu 1772 við val sitt á plöntum til ræktunar en eftir henni starfaði hann. Í henni er að finna plöntur eins og brenninetlu, garðabrúðu, græðisúru, kamillu og malurt, sem voru allar mikið notaðar í lyfjagerð fyrr á öldum.

Eina íslenska plöntu til viðbótar get ég nafngreint fyrir víst en í Ferðabók sinni getur Sveinn Pálsson náttúrufræðingur þess að í lyfjabúðargarðinum í Nesi vaxi geysistór baldursbrá.“

Trjárækt á Nesi

Að sögn Jóhönnu lét Björn sér ekki nægja að rækta mat- og lækningajurtir því hann gerði einnig tilraunir með að rækta tré.

„Trjárækt var svo til óþekkt á Íslandi á þeim tíma og ég veit bara um tvo aðra menn sem voru eitthvað að fást við hana á þessum tíma en það voru Skúli Magnússon fógeti í Viðey og stiftamtmaður Levetzow á Bessastöðum.

Í úttekt á Nesi frá 1779 er þess getið að Björn hafi gert tilraunir með ræktun trjáa og að þær tilraunir gangi þokkalega en ekki minnst á hvaða tré hann hafi verið að rækta.

Björn segir frá tilraununum í bréfi til Hannesar Finnssonar á eftirfarandi hátt. „Afliðið vor [það er þá vorið 1769] varð mér gengið fram á 1 kassa hér í túninu, sem stóð fullur af trjám, hvar af 7 greni og 1 epla voru enn nú lifandi, þó var eplatréð mikið fordjarfað orðið. Þessi 8 flutti ég í garðinn [...] og umplantaði þeim þar með sinni eigin jörðu. Að hálfum mánuði liðnum beskar ég grenitrén, og sagaði það fordjarfaða ofan af eplatrénu og forbatt það síðan. Það er annars merkilegt að fyrrnefndur kassi með trjánum í, kom til landsins 1766 og hefur síðan staðið umhirðingarlaus í 3 ár, þetta sýnist að vilja svekkja nokkuð þeirra fólsku innbyrling sem uppástanda að hér í landi geti engin framandi tré lifað eður vaxið. Þar um ei fleira að sinni.“

Fann tré í kálgarði landlæknis

„Auk þess fann Björn nokkur tré í kálgarði landlæknis, sem voru fjögur hulletré (yllir), sem hann kallar svo og tvo stikkilsberja- og einn rifsberjarunna, sem stóðu á víð og dreif innan um kálið. Þessi tré flutti Björn í garðinn til sín og setti sitt hulletréð í hvert horn en stikkils- og rifsberjarunnanna í afvikið pláss í garðinum.

Hann snyrti eplatréð til sem hann segir að hafi verið alþakið blöðum og tekur fram að annar stikkilsberjarunninn hafi verið með fjórum berjum. Ég held þetta hljóti að vera í fyrsta sinn sem reynt var að rækta ávaxtatré hér á landi.

En trén hafa því miður líklega öll drepist fáum árum síðar enda veðurfar á síðari hluta 18. aldar afar óhagstætt fyrir hvers kyns garðrækt. Mörg hafísár, hvað eftir annað, með tilheyrandi kuldum,“ segir Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...