Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Enn eykst hlutfall mjaltaþjónamjólkur hér á landi
Á faglegum nótum 8. maí 2014

Enn eykst hlutfall mjaltaþjónamjólkur hér á landi

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2013 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna. Alls voru um áramótin 109 kúabú með mjaltaþjóna en árið 2011 voru þau 101 og árið 2012 105. Er þetta aukning um 3,8% frá árinu 2012 og áþekk aukningunni sem varð á milli áranna 2011 til 2012. Þrátt fyrir að kúabúum með mjaltaþjóna hafi fjölgað um 4 á síðasta ári, þá fjölgaði mjaltaþjónum á landinu um 6 og fór fjöldi þeirra úr 123 í 129 sem er aukning um 4,9% á milli ára. Nýtt met var sett á árinu í innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum en hlutfallið fór úr 29,7% árið 2012 í 31,1% árið 2013 og er þetta hlutfall með því allra hæsta sem þekkist í heiminum. Á árinu bættust ekki við nýjar tegundir mjaltaþjóna á Íslandi og enn sem komið er eru einungis Lely og DeLaval mjaltaþjónar í notkun hér á landi.

31,1% mjólkurinnar

Árið 2011 settu íslensk kúabú heimsmet þegar hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum nam alls 28,2% af heildarinnvigtun til afurðastöðva á landinu öllu. Það ár nam innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum 35,2 milljónum lítra en árið 2012 jókst þetta magn í 37,2 milljónir lítra og hlutfall þeirrar mjólkur af heildarinnvigtun nam 29,7%. Sama ár fóru lögðu sænsk mjaltaþjónabú inn rúm 30% mjólkurinnar þar í landi og náðu því heimsmetinu það ár. Síðasta ár nam innvigtun mjólkur hér á landi frá mjaltaþjónabúum alls 38,3 milljónum lítra af 122,9 milljón lítrum eða 31,1% og jókst hlutfall mjaltaþjónamjólkurinnar um 4,9% á milli ára. Hvort 31,1% er nýtt heimsmet er ekki hægt að segja til um fyrr en uppgjör liggur fyrir frá hinum Norðurlöndunum en á aðalfundi NMSM, sem haldinn verður í Hamra í Svíþjóð í júní, verður uppgjörið birt. Fullyrða má að engin önnur lönd í heiminum komist á nánd við Norðurlöndin þegar horft er til hlutfallslegrar notkunar mjaltaþjóna.

Með 351 þúsund lítra að jafnaði

Að jafnaði er hvert bú að leggja inn 351 þúsund lítra og til samanburðar má geta þess að önnur bú á landinu lögðu inn að jafnaði 158 þúsund lítra. Þar sem hvert bú er með að meðaltali 1,19 mjaltaþjóna (19 bú með fleiri en 1 mjaltaþjón) nemur innvigtunin 297 þúsund lítrum frá hverjum mjaltaþjóni. Afar mikill munur er á milli búanna og nam t.d. mesta innvigtunin 450.888 lítrum frá hverjum mjaltaþjóni og minnst var hún 171.896 lítrar. Samanborið við fyrra ár er innvigtun á hvern mjaltaþjón nú heldur minni en hún var árið 2012, en það ár var hún að jafnaði 302 þúsund lítrar. Að sama skapi er mesta innvigtunin alllangt frá því sem mest hefur verið en árið 2011 var mesta innvigtun eftir einn mjaltaþjón 470 þúsund lítrar. Alls voru 8 kúabú hér á landi með meira en 400 þúsund lítra innlagða eftir hvern mjaltaþjón árið 2013 en árið 2012 voru 10 bú með meira en 400 þúsund lítra. Þá voru 11 bú með minna en 200 þúsund innlagða lítra eftir hvern mjaltaþjón árið 2013 en árið 2012 voru 8 bú í þessum hópi.

Má stórauka nýtinguna

Ef horft er til hámarks­framleiðslu­getu (miðað við innlagða mjólk) árið 2013 mætti auka framleiðslu mjaltaþjónabúanna í 58,2 milljónir lítra án a.m.k. nýfjárfestinga í mjaltatækninni sem slíkri, en vissulega þyrftu aðrar aðstæður einnig að vera til staðar. Í raun svarar þetta til þess að nýting mjaltatækjanna í dag nemi um 65,8% sé horft til þess tækis sem mestu skilar á landinu öllu. Sé horft út fyrir landsins steina og rýnt í innvigtunartölur afurðahæstu búanna með mjaltaþjóna erlendis þá er algengt að meðal innvigtun sé í kringum 700-750 þúsund innvegnir lítrar og allt upp í 1 milljón lítra, sem þó er fremur sjaldséð framleiðslugeta.

Ekki nema 90,8% innvigtunarhlutfall

Þegar skoðaðar eru niðurstöður skýrsluhalds Bændasamtakanna og þær bornar saman við skráningar búa með mjaltaþjóna kemur í ljós að af þessum 109 búum taka 104 þeirra þátt í skýrsluhaldinu eða 95,4% sem er góð aukning frá árinu 2012 þegar 93,3% búanna voru með í skýrsluhaldi. Meðalnýtingarhlutfall þessara búa, þ.e. innvegið mjólkurmagn miðað við reiknaða skýrsluhaldsnyt, er 90,8% sem er örlítil lækkun frá árinu 2012 þegar þetta hlutfall var 91,0% en töluverð lækkun frá árinu 2011 þegar hlutfallið var 92,8%.

Rangar mælingar?

Erfitt er að skýra þennan mun á milli ára en ætla má að þegar innvigtunarhlutfallið er svona lágt þá sé líklegt að um mæliskekkju sé að ræða enda skýra heimanot að jafnaði ekki svona mikinn mun. Erlendis er miðað við að skoða sérstaklega þau tilfelli þegar veruleg frávik verða frá innvigtun miðað við reiknaða framleiðslu og er þá oft horft til þess hvort hlutfallið sé hærra en 98% eða lægra en 90%. Árið 2013 voru alls 27 mjaltaþjónabú með meiri innvigtun en 98% skýrsluhaldsmjólkurinnar og þar af lögðu 10 bú inn meira en alla þá mjólk sem skýrsluhaldið sagði að búið hefði framleitt! Hér er augljóst að mjaltaþjónarnir mæla nyt kúnna ekki rétt. Að sama skapi er afurðasemin ofmetin á öðrum búum og á 42 mjaltaþjónabúum skilaði sér minna en 90% skýrsluhaldsmjólkurinnar í afurðastöð, þar af lögðu 18 bú inn minna en 85% skýrsluhaldsmjólkurinnar. Alls eru 69 kúabú utan 90-98% markanna sem telst í flestum löndum til hreinna undantekninga og bendir þessi mikli fjöldi sterklega til þess að skoða þurfi stillingar á afurðamælum. Þetta er sérlega brýnt þar sem kjarnfóðurgjöf er miðuð við afurðasemi kúnna og séu afurðirnar ranglega metnar, verður kjarnfóðurskömmtunin einnig kolröng.

28,2% árskúa landsins

Svo unnt væri að áætla heildar árskúafjölda allra mjaltaþjónabúa var nauðsynlegt við þetta uppgjör að setja inn áætlun um fjölda kúa á þeim búum sem ekki taka þátt í skýrsluhaldinu. Var það gert út frá upplýsingum um heildar innvigtun búanna í afurðastöð og svo reiknað meðalnýtingarhlutfall allra búa á þessi umræddu bú. Svo var miðað við að þau væru öll með „meðalkýr“ annarra mjaltaþjónabúa. Með þessum hætti var hægt að ætla heildarfjölda árskúa í mjaltaþjónum árið 2013 en ætla má að fjöldi þeirra hafi verið 6.983 en árið 2012 var þessi fjöldi 6.785. Sé miðað við að árskúafjöldinn á Íslandi sé áþekkur því sem hann var árið 2012, þ.e. 24.779 kýr (nýrri upplýsingar ekki aðgengilegar enn) er hlutfall kúa í mjaltaþjónafjósum því 28,2% árið en árið 2012 var þetta hlutfall 26,4%. Meðalfjöldi árskúa á hverju mjaltaþjónabúi var 64,3 árið 2013 eða sem svarar til 54,1 árskú á hvern mjaltaþjón. Önnur bú hér á landi voru að jafnaði með 33,7 árskýr árið 2013.

6.035 kg að meðaltali

Líkt og vænta má er meðalnyt kúabúa með mjaltaþjóna nokkuð hærri en annarra búa en skýringin felst m.a. í tíðari mjöltum og virkara framleiðslustýringarkerfi. Samkvæmt skýrsluhaldinu var meðalnytin árið 2013 á landinu öllu 5.621 kg en þegar búið er að draga skýrsluhaldsafurðir kúa mjaltaþjónabúa frá kúm í öðrum búum er meðalnyt kúa annarra búa 5.446 kg en meðalnyt kúa mjaltaþjónabúanna 6.035 kg. Munar þarna 10,8% á milli þessara ólíku fjósgerða sem skýra má sem fyrr segir með bæði tíðari mjöltum og góðri bústjórn.

Snorri Sigurðsson
Nautgriparæktarsviði
Þekkingarsetri landbúnaðarins
í Danmörku

Samantekt þessi byggir á upp­lýsingum frá Fóðurblöndunni, VB landbúnaði, Bændasamtökum Íslands, Landssambandi kúabænda, Auðhumlu, Mjólkurafurðastöð KS, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Matvælastofnun.

9 myndir:

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...