Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðrún Arna kann vel við sig í starfi mjólkurbílstjóra og segir sérstaklega gaman að heimsækja kúabændur og sækja mjólkina til þeirra.
Guðrún Arna kann vel við sig í starfi mjólkurbílstjóra og segir sérstaklega gaman að heimsækja kúabændur og sækja mjólkina til þeirra.
Mynd / MHH
Fréttir 23. janúar 2019

Enginn rembingur í körlunum

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Ég hef fengið frábærar viðtökur, það er enginn rembingur í körlunum, það vilja allir hjálpa mér og gefa mér góð ráð, þetta er bara frábært,“ segir Guðrún Arna Sigurðardóttir, sem tók nýlega við starfi mjólkurbílstjóra hjá MS á Selfossi. 
 
Guðrún er fyrsta fastráðna konan í starfi mjólkurbílstjóra hjá fyrirtækinu. Hún er þriðji ættliðurinn í fjölskyldunni til að gerast mjólkurbílstjóri en pabbi hennar, Sigurður Júníus Sigurðsson, er mjólkurbílstjóri hjá MS Selfossi og afi hennar, Sigurður Óskar Sigurðsson heitinn, keyrði mjólkurbíl hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Þá má geta þess að mamma Guðrúnar, Hjördís Gunnlaugsdóttir, sér um matinn fyrir starfsmenn MS á Selfossi og eiginmaður Guðrúnar, Sigþór Magnússon, er líka mjólkurbílstjóri hjá MS.