Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Réttað í Tungnaréttum.
Réttað í Tungnaréttum.
Mynd / Ruth Örnólfs
Fréttir 16. nóvember 2015

Enginn er eyland

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I Landbúnaður er ein megingrein heimsframleiðslunnar og íslenskur landbúnaður þar með í órjúfanlegu samhengi við ástandið á heimsvísu. Það á þá ekki aðeins við um landbúnaðarvörur, íslenskar og erlendar, til sölu innanlands eða íslenskar í útlöndum, heldur líka nýtingu innfluttrar vöru; véla, áburðar, fóðurs og eldsneytis. Gerum ráð fyrir tvennu á Íslandi: Bændur framleiða af áhuga og elju og neytendur vilja góða vöru og nægt úrval (látum hugtakið ódýra vöru liggja milli hluta í bili). Ég gantaðist í einni greininni með flugflutt bláber um miðjan vetur frá Chile, sunnan miðbaugs. Engu að síður fylgir því alvarlegur undirtónn. Þessi innflutningur kristallar nefnilega áunninn lífsstíl sem stangast orðið illilega á við raunveruleikann. Þar á meðal bágt ástand margra samfélaga og síaukinn vanda í umhverfismálum; hvort sem eru 5–8 milljón tonn af plastúrgangi sem hrannast árlega upp í heimshöfunum eða sveltandi milljónir í einu landi vegna þurrka. Hvað þá við vistspor Íslendinga sem er svo djúpt og stórt miðað við höfðatölu að það þyrfti að nýta 21 jörð ef mannkynið næði í fótsporin þau. Lífsstíll minnihluta mannkyns er þannig að umrædd bláber teljast næstum til mannréttinda í margra augum. En það gengur ekki upp.
 
II Hvergi í veröldinni er til ríki eða stórt landsvæði þar sem hluti íbúanna vinnur ekki við fæðuöflun, víðast hvar einhvers konar landbúnað. Enda er fæða ein af frumþörfum mannsins. Engum dettur í alvöru í hug að ekki skuli stundaður landbúnaður á Íslandi. Jarðvegur er ein af höfuðauðlindum landsins og hana er hagkvæmt og eðlilegt að nýta. Þá með sjálfbærum hætti að því sögðu að menn eru verulega ósammála um hvað það merkir í verki. Hér á landi er til fátækt en hvergi nærri í sama hlutfalli og í tugum landa. Samkvæmt nýjum tölum Sameinuðu þjóðanna lifir nærri helmingur íbúa heims á minna en 400 íslenskum krónum á dag; þar af um 1,3 milljarðar í sárustu fátækt (undir 200 kr.). Dag hvern, skv. UNICEF, látast 22 þúsund börn á dag vegna fátæktar og um 800 milljón manns svelta. Tölurnar eru með skekkjumörkum og orsakirnar eru margar. Nefna má umhverfisbreytingar, illdeilur milli þjóðfélagshópa, styrjaldir og þekkingarskort.
 
III Því til viðbótar verður svo að nefna gallaða innviði samfélaga, þar með talið stjórnkerfi og landbúnaðarskipulag en hvort tveggja á það sér djúpar sögulegar rætur. Eftir að nýlenduveldin brutu upp samfélög, sem voru að mestu sjálfum sér nóg, í Asíu, S-Ameríku og Afríku, mistókst allt of víða, samfara nýfengnu þjóðfrelsi, að koma upp starfhæfu ríkisvaldi og hagfelldri innlendri framleiðslu. Samtímis náðu alþjóðlegar lánastofnanir og stórfyrirtæki tröllataki á efnahagsmálum, einkum í þá átt að gera ríki að framleiðanda einnar eða fárra vörutegunda (t.d. banana, kaffis, málma eða olíu), til útflutnings. Eftir því sem slaknað hefur á slíku (en of hægt!) vegna baráttu fyrir öðru betra í þróunarlöndunum sjálfum og vegna alþjóðlegs þróunarstarfs, hafa voldug ríki eða fyrirtæki fundið sér nýja leið. Hún felst í að leigja eða kaupa land undir matvælaframleiðslu handa viðkomandi ríki eða fyrirtæki en hygla jafnframt heimamönnum með því að kosta t.d. verklegar framkvæmdir. Þetta gerir ýmsum þróunarlöndum erfitt fyrir við að koma landbúnaði og framleiðslu fyrir innanlandsmarkað í viðunandi horf.
 
IV Inn í lítil og meðalstór iðnríki flæða landbúnaðarvörur að utan í gegnum nokkra eða marga milliliði, jafnvel þrátt fyrir umdeilda tollvernd. Margt telst vissulega nauðsynjavara. En einmitt samþjöppun í þessum geira og aukin hringamyndun í iðnríkjunum sjálfum verkar gegn dreifðum, sjálfbærum landbúnaði, skynsamlegum flutningi matvæla, sóun, umbúðafargani og fæðuöryggi. Og það jafnvel þótt tilhneiging meðal neytenda og margra bænda sé að krefjast fæðuöflunar í þveröfuga átt við hagsmuni t.d. Nestlé (svissneskt-bandarískt), Unilever (enskt-hollenskt) og bandarísku risanna Monsanto, Swift og Kraftco. Í stærstu iðnríkjunum er ástand landbúnaðar með ýmsu móti; greinilega aukin samþjöppun í Bandaríkjunum. Kína á í vandræðum með að brauðfæða vel rúman milljarð manna, í Rússlandi hefur sjálfþurftarbúskapur og smámarkaðsstarf bjargað miklu en nú sjást þar merki um aukna framleiðslu, og mér er sagt að stórir hringar hafi mörg spjót úti á Indlandi þar sem smábúskapur hefur verið nær allsráðandi.
 
V Viðskipti milli landa með landbúnaðarvörur eru nauðsynleg og gagnleg svo lengi sem þau byggja á jafnræði milli aðila, sjálfbærni og hóflegri neyslukröfum í iðnríkjunum. Við viljum okkar kaffi, hveiti og appelsínur hér á Íslandi, jafnvel alvöru parmesan­ost með pastaréttinum. Þeir sem framleiða það mikið af þessum vörum að hægt er að flytja þær út með alvöru hagnaði fyrir framleiðendurna, eiga að hafa þess kost. Ljóst er hins vegar að markaður, laus við jafnræði eða sjálfbæra stefnu, stýrir ekki viðskiptunum almenningi til heilla. Það verður að gera með því að huga af heilindum að vistspori framleiðslu og flutnings þessara vara milli landa og móta stefnu sjálfbærni. Hún byggir á almennum grunni sem lýðræðisleg yfirvöld, landbúnaðargeirinn, samtök neytenda og inn- og útflytjendur sameinast um og tekur mið af t.d. mannréttindaskrá SÞ, nýjum þróunarmarkmiðum samtakanna, verndarmarkmiðum í loftslagsmálum og markmiðum um holla og næga matvöru. Þar gæti gilt að menn verða að sætta sig  að hluta við ólíkt vöruframboð eftir árstíðum í helstu loftslagsbeltum jarðar.
 
Með einföldum orðum: Eigum við að neita okkur um fersku suður-amerísku bláberin í febrúar? 
Stjórnvaldssekt staðfest
Fréttir 20. maí 2024

Stjórnvaldssekt staðfest

Bændur á Vesturlandi telja jafnræðis ekki hafa verið gætt þegar Matvælastofnun (...

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...