Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Engar reglur um birgðir dýralyfja
Fréttir 22. maí 2014

Engar reglur um birgðir dýralyfja

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson

Engar reglur gilda í landinu um birgðahald á dýralyfjum og ekki er til samræmt yfirlit yfir lyfjabirgðir. Undanfarið hefur verið skortur á selen stungulyfi í sauðfé og nautgripi en nú er þó búið að kippa því í liðinn. Þá hafa tvær tegundir algengra júgurbólgulyfja í kýr ekki fengist um allnokkra hríð og ekki er útlit fyrir að svo verði fyrr en í haust. 

Mímir Arnórsson, deildarstjóri upplýsingadeildar hjá Lyfjastofnun, segir að í lyfjalögum séu engin handföst ákvæði um birgðahald.
„Frá löggjafans hálfu eru engar reglur um birgðahald lyfja yfirleitt, hvort sem um er að ræða lyf fyrir dýr eða menn, aðrar en sú klásúla í lyfjalögum að lyfsalar skuli eiga hæfilegar birgðir lyfja, hvað svo sem það þýðir. Engar aðrar reglur gilda um birgðahald. Þegar fyrirtæki fær markaðsleyfi fyrir lyf ber það ákveðnar skyldur en þær eru ekki tilgreindar nánar en þetta. Varðandi lyf sem ekki hafa markaðsleyfi, og verulegur fjöldi dýralyfja hefur ekki slíkt leyfi, gilda ekki nokkrar reglur af þessu tagi.“

Engin samræmd yfirsýn

Lyfjastofnun hefur því ekki sérstaka yfirsýn yfir birgðastöðu lyfja í landinu. Inni á heimasíðu stofnunarinnar eru þó birtir listar yfir lyf á biðlista. Fyrirtækin sjálf birta þá lista en Mímir segir þeim það þó ekki skylt.
„Við fórum fram á þetta fyrir allnokkru og þau brugðust vel við og uppfæra listana reglulega. Það er því fyrir tilstilli Lyfjastofnunar að það er gert en að baki því er enginn lagagrunnur.“

Að sögn Mímis er sjaldnast um að ræða handvömm hjá inn­flytjendum lyfja þegar skortur verður. Ástæðurnar eru fremur þær að skortur verður hjá framleiðendum erlendis og stundum getur slíkur skortur verið á heimsvísu. Í nóvember 2012 var til að mynda greint frá því í Bændablaðinu að svampar sem notaðir væru til sam­stillingar gangmála í ám væru nálega ófáanlegir á landinu. Ástæða þess var að hráefni í svampana fengust ekki.

Vandræðaástand skapaðist í vor

Hákon Hansson dýralæknir á Breiðdalsvík telur að tímabundin vöntun á seleni muni ekki hafa áhrif á skepnur.„Ég er búinn að vera í þessu í 37 ár og veit því að ég þarf að panta lyf af þessu tagi tímalega. Reyndir dýralæknir gera það held ég almennt. Líklega hafa því flestir fengið lyf og þessi tímabundni skortur hefur ekki haft veruleg áhrif.“

Hákon segir að verra ástand hafi skapast í vor vegna þess að bóluefni við lambablóðsótt, vinstrabólgu í lömbum og legeitrun í ám hafi klárast og menn lent í miklum vandræðum út af því. „Menn fengu því sumir ekki bóluefni í seinni bólusetninguna.“

Fjarri því fyrsta skipti

Hákon segir að þetta sé fjarri því fyrsta skipti sem lyfjaskortur verði. „Það hefur reglulega gerst að tímabundinn skortur hafi orðið á ákveðnum lyfjum. Yfirleitt er þá um að kenna vandamálum erlendis. Til dæmis hafa tvær tegundir lyfja gegn júgurbólgu í kúm ekki fengist vegna þess að framleiðendur erlendis fá ekki hráefni sem notuð eru í lyfin. Þessi lyf hefur nú vantað í þrjá mánuði og ekki er fyrirséð hvenær þau koma, hugsanlega ekki fyrr en í haust. Það er vissulega hægt að nota önnur lyf en þar sem þessi lyf hafa gefist vel er vandræðaástand að staðan sé þessi. Það er afar bagalegt en ekkert hægt að gera við því.“

Að mati Hákonar hlýtur það að vera samvinnuverkefni bænda, dýralækna og lyfjainnflytjenda að nægar birgðir af lyfjum séu til í landinu. „Ef dýralæknar sýna forsjálni og vita nokkuð hvaða lyf þarf að nota reyna þeir auðvitað að tryggja að þau séu til. Ef dýralæknar eru í góðu sambandi við lyfjainnflytjendur er líklegt að þeir tryggi að nægar birgðir séu til. Bændur þurfa svo einnig að vera vakandi og hafa samband við sína dýralækna um lyf.“

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...

Sala á 3.357 ærgildum
Fréttir 5. desember 2023

Sala á 3.357 ærgildum

Á innlausnarmarkaði með greiðslumark í sauðfé, sem haldinn var 15. nóvember, bár...

Sæðingar verða niðurgreiddar
Fréttir 5. desember 2023

Sæðingar verða niðurgreiddar

Sæðingar verða niðurgreiddar til að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðu.

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.