Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ekki tekið á birgðavanda
Fréttir 12. september 2017

Ekki tekið á birgðavanda

Höfundur: Hörður Kristjánsson / Vilmundur Hansen

Haraldur Benediktsson, alþingis­­maður og formaður fjárlaganefndar Alþingis, sem jafnframt er bóndi á Vestra-Reyni, segist ekki vilja meiri eyðibýlastefnu þegar rætt sé um lausnir á vanda sauðfjárbænda.

Í tillögum ráðherra er gert ráð fyrir greiðslum til bænda fyrir að hætta búskap.

Starfslokaaðferðin er gamaldags nálgun

„Þessi starfslokaaðferð er gamal­dags nálgun. Þetta er nálgun sem við lögðum niður upp úr 1995. Þá hættum við tilviljanakenndum niðurskurði. 

Ég fagna því hins vegar ef það á að fara í úttekt á birgðastöðu, það hefði hún reyndar átt að gera strax í vor,  og ráðherra útilokar greinilega e-kki að vinna síðar að aðgerðum til að takast á við það miklar birgðir.  Ég undrast orð ráðherrans sem hún lét falla í fréttum Ríkisútvarpsins, að það sé ekkert kjötfjall.

Veruleikinn er sá að við lögðum verulega fjármuni af fjáraukalögum á síðasta ári til að flytja út birgðir. Það er þess vegna sem birgðirnar eru ekki meiri en þetta. Nú fer aftur að safnast upp og því til viðbótar á að kaupa tugþúsundir fjár og slátra sem bætist líka við birgðirnar.“

Tímamót að ráðherra nái ekki samstöðu með bændum

„Það eru nokkur tímamót þegar ráðherra landbúnaðarmála nær ekki samstöðu við landbúnaðinn varðandi nauðsynlegar aðgerðir. Bændur hafa í gegnum árin verið lausnamiðaðir, oft í mjög erfiðri stöðu.  En hér spilar ráðherra út mjög einhliða aðgerðum.“

Hver er framtíð tollasamningsins?

„Við, þar á meðal ég, samþykktum hér tollasamning við ESB þar sem við fórnuðum hagsmunum annarra búgreina fyrir útflutningshagsmuni sauðfjárræktarinnar. Ári eftir að við gerum það, þá ætla stjórnvöld að beita sér fyrir fækkun sauðfjár. Það er alveg ljóst að það verk getur skaðað íslenskan landbúnað verulega ef ekki er þegar spyrnt við fótum. Þeir sem gerðu þann tollasamning og héldu þar á penna verða að kannast við ábyrgð sína.

Mér finnast það fordómar að vilja ekki ræða um úrræði sem gera greininni kleift að takast sjálfa á við sveiflur sem alltaf munu verða.  Það eru líka fordómar að skapa ekki afurðastöðvum styrkleika og tækifæri á að takast á við aukna samkeppni á heimsmarkaði. Þannig að stjórnvöld heimili fyrirtækjum að starfa saman á erlendum mörkuðum, því þrátt fyrir allt trúi ég enn að hægt sé að stækka og efla íslenskan landbúnað. En til þess þarf kraft og þekkingu,“ segir Haraldur Benediktsson.

Nauðsynlegt að hafa forsöguna í huga

Að sögn Oddnýjar Steinu Valsdóttur,  bónda á Butru í Fljótshlíð og formanns Landssamtaka sauðfjárbænda, er nauðsynlegt að hafa forsögu sölu á sauðfjárafurðum þegar staðan í dag er skoðuð.

„Undanfarin ár hafa framleiðendur sauðfjárafurða hér nýtt sér tækifæri á erlendum mörkuðum til að selja sína framleiðslu. Framleiðslan hefur verið frjáls og mikil hagræðing orðið í greininni. Á sama tíma hefur verð til íslenskra neytenda frá 2008 lækkað um rúm 20% að raungildi.

Sauðfjárbændur hafa ekki farið fram á neitt sem kæmi til með að hækka verð til neytenda og merkilegt að ráðherra hafi stillt tillögum okkar þannig upp.“

Tapinu ýtt yfir á bændur

„Þróun undanfarinna ára hefur átt sér stað í mjög frjálsu viðskiptaumhverfi og framleiðendur nýtt sér það hvað útflutning varðar. Við það að markaðir erlendis lokast kemur fram gríðarlegur þrýstingur á að lækka verð. Í staðinn fyrir að bregðast við með því að setja lagaskyldu á afurðastöðvarnar og láta þær bera ábyrgð á ástandinu er allri ábyrgðinni og tapinu ýtt yfir á bændur,“ segir Oddný.

Óeðlilega seint brugðist við vandanum

Oddný segir óeðlilegt að ráðherra hafi ekki brugðist við málinu síðastliðið vor þar sem staðan eins og hún er í dag hafi blasað við og að ráðherra hafi margoft verið bent á það.

„Seinagangurinn varð til þess að ekki var tekið á ástandinu í tíma og ekki hægt að tengja stöðuna í dag við einhverjar aðgerðir sem stundaðar voru í fortíðinni þegar útflutningsskylda var árleg og árviss.
Aðgerðirnar sem við vorum að fara fram á voru tímabundnar og vegna óeðlilegra aðstæðna á markaði og óeðlilegrar verðmyndunar.

Það er því mjög harkalegt og óeðlilegt að láta sauðfjárbændur bera allan skaðann í ljósi þess að öll miðstýring hennar hefur verið afnumin.“

Aukinn birgðavandi

„Annað sem við verðum að skoða er að vegna þess að stjórnvöld eru ekki til í að hafa nein inngrip í markaðinn þá bætist aukinn fjöldasláturfjár við núverandi birgðavanda. Sauðfjárbændur sem ætla því að þrauka þessa niðursveiflu þurfa þess vegna að burðast með þann vanda og ekki einsýnt hvað tekur langan tíma að vinna sig út úr ástandinu,“ segir Odddný Steina Valsdóttir. 

Illgresinu sagt stríð á hendur með umhverfisvænum leiðum
Fréttir 3. október 2023

Illgresinu sagt stríð á hendur með umhverfisvænum leiðum

Öflun nýrrar þekkingar á baráttunni við illgresi í ræktun er meginmarkmið nýs sa...

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...