Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ágúst Andrésson, framkvæmdastjóri Kjötafurðastöðvar KS á Sauðárkróki.
Ágúst Andrésson, framkvæmdastjóri Kjötafurðastöðvar KS á Sauðárkróki.
Mynd / BBL
Fréttir 11. maí 2017

Einungis verði greitt fyrir dilka til innanlandssölu

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Við vonum að málin skýrist á næstu dögum og í framhaldinu verður þá vonandi hægt að gefa út hvernig fyrirkomulagi verði háttað í næstu sláturtíð,“ segir Ágúst Andrésson, framkvæmdastjóri Kjötafurðastöðvar KS á Sauðárkróki. 
 
Hann vísar í viðræður bænda og fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins um hvernig best verði brugðist við þeirri stöðu sem uppi er varðandi sauðfjárframleiðsluna, en að a.m.k. 20% offramleiðsla sé nú á sauðfjárafurðum, einkum vegna erfiðleika í útflutningi, sem er um 35% af heildarframleiðslunni. 
 
Þarf að grípa til aðgerða strax
 
„Verði mat manna á þann veg að þetta sé viðvarandi staða, þarf að grípa til aðgerða strax í þá átt að draga úr framleiðslunni. Við teljum nauðsynlegt að bregðast strax við og stemma eins og hægt er stigu við framleiðsluaukningu, en þó þannig að það hafi ekki varanlegar afleiðingar,“ segir Ágúst.
 
Þung og erfið rekstrarskilyrði kjötafurðastöðva undanfarin tvö ár hafa verið áberandi í umræðunni, en að mestu snúist um stöðu gagnvart framleiðslu sauðfjárafurða. Helsti áhrifavaldur í þeim efnum eru erfiðleikar í útflutningi þar sem ýmsir þættir spila inni í; gengisþróun, fall á gærumörkuðum sem og mörkuðum með hliðarafurðir og að auki hafa Rússlands- og Kínamarkaðir ekki virkað sem skyldi.
 
Farið var yfir þessa stöðu á fjölsóttum bændafundum í Skagafirði í mars síðastliðnum og þá viðraðar hugmyndir um hvernig hugsanlega verður staðið að slátrun á komandi hausti sem og hvernig bændur geti tryggt aðgang sinn að slátrun. 
 
Bara greitt fyrir sláturfé  til innanlandssölu?
 
„Við höfum viðrað þær hugmyndir að staðgreiða einungis þann hluta sem ætlaður er til innanlandssölu, eða um tvo þriðju framleiðslunnar og greiða lágmarksverð fyrir 35% hennar og meta síðan stöðuna í framhaldinu, þ.e. þegar útflutningur hefur átt sér stað og skoða þá hvort hægt er að bæta einhverju við,“ segir Ágúst en ítrekar að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort þessi leið verði farin.  Margir óvissuþættir séu enn uppi og því enn beðið með endanlega ákvörðun um fyrirkomulagið.  „Það hefur líka verið rætt að taka upp verðmismunun á þyngdarflokkun, en það sama er upp á teningnum hvað það varðar, ákvörðun hefur ekki verið tekin um slíkt og við bíðum enn eftir að málin skýrist betur varðandi heildarfyrirkomulag.“ 
 
Alls ekki er loku fyrir það skotið að aðstæður gætu breyst til batnaðar á komandi árum og nefnir Ágúst að metnaðarfull markmið sé að finna í nýjum búvörusamningi varðandi markaðssókn með sauðfjárafurðir á erlenda markaði sem unnið verði að á næstu þremur árum.