Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Katrín Bessadóttir verslunarstjóri og Fjóla Halldórsdóttir í nýju versluninni Kind á Hverfisgötu.
Katrín Bessadóttir verslunarstjóri og Fjóla Halldórsdóttir í nýju versluninni Kind á Hverfisgötu.
Mynd / HKr.
Fréttir 6. október 2015

Eina sérverslunin í heiminum með ullarvörur af forystufé

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Um fyrri helgi var opnuð lítil verslun að Hverfisgötu 35. Má segja að hún sé afleiða af Verzluninni RAM, eða Hrútur eins og nafnið útleggst á íslensku, sem sömu eigendur opnuðu við Laugaveg í fyrravetur. 
 
Eigendur beggja verslananna eru viðskiptafélagarnir Fjóla Halldórsdóttir og Svavar Halldórsson, fyrrverandi sjónvarpsfréttamaður með meiru og núverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda. Fyrir þá sem ekki þekkja til er kannski rétt að taka fram að þrátt fyrir sama föðurnafn eru þau ekki systkini. Blaðamaður hitti Fjólu að máli í nýju versluninni við Hverfisgötu þar sem Katrín Bessadóttir er verslunarstjóri. 
 
Sérstaða á heimsvísu
 
Fjóla segir þeirra helstu sérstöðu vera í því að bjóða upp á vörur sem unnar eru úr ull og öðru hráefni af íslensku forystufé. Þær vörur koma frá Fræðasetrinu um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði. Hún segir að ullin af þessu fé sé mikið fínni en af öðru íslensku sauðfé. Þetta sé mjög sérstakt, því einungis séu til um 1.500 kindur í allri veröldinni af þessum sérstaka stofni og þær eru allar á Íslandi. 
 
-Eruð þið þá eina verslunin í Reykjavík sem býður upp á lopapeysur úr ull af forystufé og aðrar vörur sem því tengist? 
„Við erum ekki bara eina verslunin á Íslandi, heldur eina verslunin í öllum heiminum sem býður upp á slíkar vörur. Hluti af öllu sem við seljum hérna rennur til Fræðasetursins í Þistilfirði og verðum við því með þeim í þessu verkefni um forystuféð,“ segir Fjóla.
 
Einungis handprjónaðar og alíslenskar lopapeysur
 
Katrín verslunarstjóri segir að fleiri afurðir af forystufé verði á boðstólum, eins og uppstoppaðir kindahausar. Þá séu þau líka með lopapeysur úr hefðbundnum lopa.
 
„Við fáum prjónakonur víða um land til að prjóna fyrir okkur. Þetta er því alíslenskt handverk og þeirra  hönnun,“ segir Katrín. 
 
„Það er engin peysa hjá okkur prjónuð í Kína og það hefur gengið mjög vel að fá fólk til að vinna þetta fyrir okkur. Svo erum við líka með úrval af matarhandverki sem við leggjum einnig áherslu á. Þar má m.a. nefna vinsæla flögusaltið frá Norðursalti. Einnig margvíslegar sultur og aðrar niðursoðnar vörur frá Hallormsstað og margt fleira. Við leitum eftir vörum frá litlu framleiðendunum og frumkvöðlunum í þessum geira.“
 
Þær stöllur segja að versluninni Kind hafi strax verið vel tekið, ekki síst af útlendingum, rétt eins og þegar verslunin Ram var opnuð á Laugaveginum. Segjast þær vonast til að flæði fólks um Hverfisgötuna verði betra þegar framkvæmdum við hótelið lýkur sem verið er að byggja handan götunnar.    
 
Meiri áhersla á matarhandverkið á Laugaveginum
 
Í gömlu húsi við Laugaveg 72 í Reykjavík er lítil og vinaleg verslun sem er eins og vin fyrir alla þá sem hrifnir eru af íslenskri hönnun og handverki. Þetta er Verzlunin RAM. Þar var í eina tíð höndlað með skartgripi, föt og skó, en nú eru það matgæðingarnir og áhugakokkarnir sem hafa fengið þarna búð fyrir sig. Verslunin hóf eins og fyrr segir starfsemi síðasta vetur en það er augljóst að sótt er í gamlar hefðir. Helst má líkja versluninni við nútímalega útgáfu af búsáhaldadeild í gömlu kaupfélagi. Hvert sem litið er blasa við tæki og tól til matseldar, hnífar, pönnur, pottar og fleiri álíka verkfæri. Þarna er íslensku matarhandverki gert sérstaklega hátt undir höfði. Sultur, súkkulaði, sölt, repjuolía, rabarbarasælgæti, poppkorn og mysudrykkur eru meðal þess sem er á boðstólum. Allt sem er ætt í búðinni eru íslenskar vörur. 
 
Búð fyrir íslenska matgæðinga
 
„Við erum þar einnig með vönduð eldhúsáhöld á góðu verði og alls kyns tæki og tól til matargerðar,“ segir Fjóla. „Svo erum við líka með svolítið súvíd- og vakúmhorn.“ En það sem gefur búðinni sterkan svip er íslenska matarhandverkið.“ Hún segir það vera sérstöðu þeirrar verslunar í samanburði við Kind á Hverfisgötu. 
 
„Við kaupum vörur af íslenskum framleiðendum, stórum sem smáum, en samt aðallega smáum. Við reynum að reka verslunina í anda sanngjarnra viðskipta og hjálpa þeim sem eru að byrja í framleiðslu á matarhandverki að koma vörunum sínum á markað.“ Hún segir að þrátt fyrir þetta takist þeim með aðhaldi og góðum rekstri að halda útsöluverðinu innan sanngjarnra marka.
„Þetta er kerfi sem virkar fyrir alla, bæði birgja og viðskiptavini.“
 
Íslendingabúð – sem ferðamenn elska
 
Sumarið hefur verið gott segir Fjóla og nóg að gera. „Afgreiðslutíminn er langur og ferðamenn eru í meirihluta viðskiptavina, en við lítum samt fyrst og fremst á okkur sem Íslendingabúð. Vissulega er samt gott að fá ferðamennina og þeir eru hrifnir þegar þeir ganga í bæinn. Við höfum fengið um okkur umsagnir á netinu, allar góðar, þar sem fólk talar um að hafa fundið okkur, hafi fundið lítinn demant í Reykjavík og fleira í þeim dúr.“ Fjóla segir að sín uppáhaldsummæli hafi verið eitthvað á þessa leið í lauslegri þýðingu: „Íslendingabúð – sem ferðamenn elska.“ 
 
Sauðkindinni er gert hátt undir höfði 
 
Búðin hefur yfir sér sterkan íslenskan blæ þótt þar sé hvergi að finna tuskulunda eða segulstál með fána á. Sauðkindinni er gert hátt undir höfði, bæði í þeim söluvarningi sem finna má í hillunum og eins í myndum á veggjum. Fjóla segir að allir starfsmenn séu mjög vel meðvitaðir um íslenskan uppruna varanna og að eigendurnir séu sérstakir áhugamenn um íslenskan landbúnað.
„Þegar við fórum að leita fyrir okkur kom í ljós að það er mikil gróska í íslensku matarhandverki og alls kyns öðru handverki sem tengist mat,“ segir Fjóla. „Áhuginn er líka mikill og það var mikið að gera hjá okkur strax frá fyrsta degi,“ segir hún og bætir svo við kankvís á svip, „eða kannski er það standurinn með Bændablaðinu sem trekkir svona að?“
 
Matvæli í lofttæmdar umbúðir í sláturtíðinni
 
Nú þegar sauðfjárslátrun stendur sem hæst fer fólk gjarnan að huga að kaupum á ýmsum sauðfjárafurðum til vetrarins og jafnvel að taka slátur. Margir sjá sér leik á borði og útbúa kjarngóða rétti úr ódýru hráefni eins og innmat og frysta hann í þægilegum skömmtum til að nota síðar. Sniðug leið til að auka geymsluþol er að pakka slíkum mat í lofttæmdar umbúðir. Þá er líka nauðsynlegt að vera með „vakúmvél“ við höndina, en Verzlunin RAM býður einmitt upp á úrval að slíkum tækjum.
 
Vakúmvélar hafa lengi þótt þarfaþing á íslenskum sveitaheimilum þar sem björg er einkum dregin í bú á haustin. Með tilkomu frystikistunnar varð auðvitað mikil breyting til batnaðar við geymslu á mat en síðan er hægt að margfalda geymsluþolið með vakúmpökkun. Veiðimenn, bændur og margir fleiri þekkja þetta af góðri reynslu. Grænmeti, fiskur og kjöt geymast miklu betur og lengur í lofttæmi, hvort sem er við stofuhita, í kæli eða í frysti, eins og meðfylgjandi tafla ber með sér. Munurinn getur verið töluverður, sérstaklega í frysti. Fiskur sem endist í tvo til þrjá mánuði í venjulegri frystikistu getur enst í ár ef honum er vakúmpakkað. Sama gildir um kjöt og alla aðra matvöru. 
 
Margar af þessum vélum eru framleiddar í Kína eða annars staðar í Asíu og þykja þær almennt slakari en hinar. Eins og í fleiru eru vörumerkin fjölmörg, en tvö eru þekktust. Food Saver er bandarískt merki og stærsta vörumerkið vestan hafs, en þær vélar eru reyndar framleiddar í Kína. Ítölsku Magic Vac-vélarnar eru aftur á móti vinsælastar í Evrópu. Flaggskip Magic Vac er vélin Maxima 2, sem var valin vakúmvél ársins í Þýskalandi í fyrra af virtu þarlendu neytendatímariti.

10 myndir:

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...