Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Pronsfeld er lítið 1.000 manna þéttbýli í vesturhluta Þýskalands og er Pronsfeld í lýðveldinu Rhineland-Palatinate, sem er eitt af 16 lýðveldum sem standa að sambandslýðveldinu Þýskalandi. Pronsfeld lætur lítið yfir sér en upp á hæðinni ofan við bæinn má
Pronsfeld er lítið 1.000 manna þéttbýli í vesturhluta Þýskalands og er Pronsfeld í lýðveldinu Rhineland-Palatinate, sem er eitt af 16 lýðveldum sem standa að sambandslýðveldinu Þýskalandi. Pronsfeld lætur lítið yfir sér en upp á hæðinni ofan við bæinn má
Fréttir 6. september 2017

Ein stærsta afurðastöð Evrópu

Höfundur: Snorri Sigurðsson, sns@seges.dk
Í sumar fóru 24 útskriftarnemendur frá búfræðibraut Landbúnaðar­háskólans í útskriftarferð til Þýskalands, Lúxemborgar, Belgíu og Hollands. Ferðin lá um höfuðborgirnar í síðasttöldu þremur löndunum, en hófst í ármótaborginni Koblenz í Þýskalandi – þar sem árnar Rín og Mósel falla saman. 
 
Þema ferðarinnar var, auk þess að heimsækja höfuðborgirnar þrjár, að kynna sér landbúnað á hinum heimsóttu svæðum og var m.a. farið á Libramont landbúnaðarsýninguna, en frá henni var einmitt greint lauslega í síðasta blaði. Í ferðinni var farið í fjölbreyttar faglegar heimsóknir bæði til bænda og fyrirtækja í landbúnaði og verður hér gerð stuttlega grein fyrir einni þeirra, til mjólkurvinnslustöðvar Arla í Pronsfeld í Þýskalandi.
 
Mikilvæg staðsetning Pronsfeld
 
Pronsfeld er lítið 1.000 manna þéttbýli í vesturhluta Þýskalands og er Pronsfeld í lýðveldinu Rhineland-Palatinate, sem er eitt af 16 lýðveldum sem standa að sambandslýðveldinu Þýskalandi. Pronsfeld, sem stendur í rúmlega 300 metra hæð yfir sjávarmáli, er nánast á landamærum Þýskalands, Lúxemborgar og Belgíu og þaðan er einnig afar stutt yfir til Frakklands. Vegna þessarar afar góðu legu Pronsfeld ákvað framleiðenda samvinnufélagið MUH að byggja upp vinnslustöð þarna og var það gert árið 1967.
 
MUH, sem var samvinnufélag kúabænda í Þýskalandi, Lúxemborg og Belgíu, var afar framsýnt félag og var strax horft til vinnslu á geymsluþolinni mjólk og mjólkurvörum og varð MUH fljótt stærsta félagið á sínu sviði í Evrópu. Árið 2011 voru félagsmenn MUH 2.400 og nam innvigtunin í Pronsfeld á þeim tíma 1,3 milljörðum kílóa. Þrátt fyrir sterka stöðu á sviði G-vöru framleiðslu var rekstur MUH erfiður árin eftir hrun og því ákvað stjórn félagsins að leita til annarra og stærri afurðafélaga með samruna í huga. Úr varð að félagið rann inn í Arla árið 2012, sem þá var samvinnufélag kúabænda í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Hollandi og Englandi.
 
Eftir sameininguna voru kúabændurnir sem stóðu að Arla orðnir nærri 14 þúsund og innvigtun mjólkur á þessum tíma var þá um 14 milljarðar kílóa hjá félaginu. Síðan hefur félagið haft hægt um sig á markaðnum og hefur eigendum fækkað jafnt og þétt eftir því sem bú hætta eða bændur draga sig út úr rekstri t.d. vegna aldurs.
 
Í dag eru eigendur félagsins um 12.500, starfsmenn þess um 19 þúsund og eru mjólkurvörur Arla seldar til fleiri en 100 landa.
 
Næststærsta afurðastöð Evrópu
 
Stjórn Arla ákvað fljótt að nýta heppilega staðsetningu afurðastöðvarinnar í Pronsfeld og var bæði ákveðið að byggja upp enn frekari afurðavinnslu í stöðinni auk þess að nýta hana sem dreifingarmiðstöð fyrir hluta af vörum félagsins. 
 
Hjá félaginu í Pronsfeld starfa um 1 þúsund manns og er vinnslan keyrð allan sólarhringinn. Innvigtun mjólkur er í dag sú næst mesta á einum stað í Evrópu eða um 1,6-1,7 milljarðar kílóa á ári. Mjólkin er sótt til rúmlega 2 þúsund kúabúa í um 250 kílómetra radíus frá Pronsfeld og kemur mjólkin frá löndunum fjórum sem áður hafa verið nefnd. Þess má reyndar geta að frönsku kúabændurnir sem leggja inn mjólk í Pronsfeld eru ekki aðilar að framleiðenda samvinnufélaginu og selja því mjólk sína til félagsins í verktöku. Þeirra mjólk er svo pakkað sérstaklega í franskar umbúðir og réttilega merkt sem frönsk mjólk og fer því til sölu í Frakklandi.
 
Þó svo að innvigtunin hafi aukist verulega á einungis fimm árum stefnir félagið á enn frekari vöxt í Pronsfeld og gerir áætlun þess ráð fyrir að árið 2020 verði innvigtunin komin í 2 milljarða kílóa.
 
Krefst góðrar skipulagningar
 
Með svona mikla vinnslugetu, upp á um 5 milljónir lítra á degi hverjum, þarf eðlilega mikla flutninga til og frá staðnum. Í afurðastöðinni í Pronsfeld er því sérstök flutningamiðstöð Arla þar sem 3-400 flutningabílar fara um á hverjum sólarhring. Þeim til viðbótar koma svo mjólkurbílarnir en þeir sækja mjólk frá 1.200 búum á degi hverjum. 
 
Mjólkurbílarnir sækja mjólk á hvert bú annan hvern dag og geta mjólkurbílarnir komið hvenær sem er til bændanna, jafnt að degi sem nóttu. Þegar mjólkin er sótt á búin er mjólkursýni tekið sjálfvirkt í mjólkurbílnum og fer það svo til rannsóknar hjá sjálfstæðri rannsóknastofu sem ekki er á vegum félagsins. Að sögn Marc er þetta gert til þess að ekki skapist hætta á hagsmunaárekstrum á milli Arla og bændanna, enda ákvarðast afurðastöðvaverðið til bændanna af efnainnihaldi prufanna.
 
30 mjólkurbílar
 
Alls eru 30 mjólkurbílar í því að safna mjólk á degi hverjum og það þarf því eðlilega mikla afkastagetu til þess að geta tekið við allri þessari mjólk. Í móttökustöð mjólkurinnar geta 3 bílar losað mjólk samtímis fyrir aðalvinnslu afurðastöðvarinnar og 2 bílar geta losað mjólk þar sem duftframleiðslan fer fram. 
 
Áður en bílarnir eru tæmdir er mjólkin þó rannsökuð til þess að tryggja að mjólkin sé í lagi s.s. innihaldi ekki lyfjaleifar eða sé skemmd. Eftir gæðapróf er mjólkinni svo dælt yfir í einn af 11 sílótönkum móttökustöðvarinnar, en hver þeirra tekur 600 þúsund lítra hrámjólkur.
 
Fimm ólíkar gerðir hrámjólkur
 
Þegar mjólkin hefur verið veginn inn í afurðastöðina getur mjólkin farið í fimm mismunandi vinnslulínur en það fer allt eftir uppruna mjólkurinnar. Þannig er ein lína notuð fyrir hefðbundna mjólk, önnur fyrir mjólk frá kúm sem fara á beit, sú þriðja frá kúm sem fá einungis fóður sem ekki inniheldur erfðabætt hráefni (NonGM), sú fjórða er einnig fyrir NonGM mjólk en frá kúm sem fara á beit og fimmta og síðasta línan er fyrir lífrænt vottaða mjólk. Öllum þessum  hrámjólkurtegundum er haldið algjörlega aðskildum í gegnum alla vinnsluna hvort sem mjólkin fer í duft, G-mjólk eða aðrar afurðir.
 
600 mismunandi umbúðir fyrir G-mjólkurvörur
 
Eins og fyrr segir er afurðastöðin í Pronsfeld upphafðlega byggð fyrir G-vöru framleiðslu og þó svo að margar gerðir G-mjólkur séu fáanlegar eru í raun þrjár megin gerðir ráðandi, en það mjólk með 3,5% fituinnihaldi, með 1,5% fituinnihaldi og 0,3% fituinnihaldi.
 
Vegna hinnar miklu sérstöðu vinnslunnar í Pronsfeld er samkeppnisstaða vinnslunnar svo sterk að segja má að Arla sé ráðandi á þessum markaði í Evrópu. Nú er t.d. svo komið að félagið pakkar G-mjólk fyrir marga aðra aðila einnig og pakkar það nú G-mjólk í um 600 mismunandi pakningar sem eru sérmerktar ýmsum öðrum. Þegar íslensku gestina bar að garði var auðvitað verið að pakka G-mjólk í margar mismunandi pakningar og á mörgum þeirra var nafn Arla hvergi að sjá.
 
30 þúsund tonn af mjólkurdufti
 
Þó svo að stór hluti allar innveginnar mjólkur hjá Arla í Pronsfeld fari í vinnslu á geymsluþolnum drykkjarvörum þá hefur félagið einnig byggt upp tvær afar stórar sérhæfðar vinnslustöðvar til viðbótar á svæðinu. 
 
Önnur er sérhæfð í framleiðslu á Kærgaarden, sem er vara sem líkja má við okkar Smjörva, en hin er sérhæfð í framleiðslu á mjólkurdufti sem notað er sem grunnhráefni í mjólk fyrir ungabörn. Sú vinnsla er afar sérhæfð og vegna strangra krafa um öryggi er duftvinnslan með sér innvigtun á mjólk og eru framleiðslubyggingarnar aðskildar frá öðrum byggingum á svæðinu. Í þessari aðstöðu eru svo unnin um 30.000 tonn af dufti árlega eða úr 250-300 milljónum lítra mjólkur.
 
Umhverfisvæn vinnsla
 
Til afurðastöðvarinnar heyra 75 hektarar lands og í dag eru 35 þeirra þegar teknir í notkun undir margskonar húsakost og vegi en að sögn Marc Nidercorn, starfsmanns Arla sem sá um kynninguna í Pronsfeld, þá er stefnt á enn frekari uppbyggingu  á svæðinu og því muni koma sér vel að hafa til umráða alla þessa hektara. Þá rekur félagið sína eigin hreinsistöð fyrir vatn, enda nota afurðastöðvar afar mikið af vatni bæði við framleiðslu og þrif.
 
Allt frárennsli fer um þar til gerðan hreinsibúnað og í sérstakar settjarnir og er vatnið endurunnið eins mikið og hægt er. Að sögn Marc fara nú 0,6 kg vatns til vinnslu á hverju kílói mjólkur, sem ku víst vera afar lítil vatnsnotkun við mjólkurvinnslu.
 
Þá er félagið með vindmyllu á staðnum sem framleiðir rafmagn til vinnslunnar og sér hún vinnslunni fyrir þriðjungi þeirrar raforku sem notuð er á staðnum.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk

7 myndir:

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...