Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Slátrun og kjötvinnsla var lengi vel ein helsta stoð atvinnulífsins í Borgarnesi og um miðja síðustu öld voru þrjú sláturhús starfandi í bænum. Stórtækast í slátrun var Kaupfélag Borgfirðinga sem tók í notkun nýtt sláturhús í Brákarey árið 1966.
Slátrun og kjötvinnsla var lengi vel ein helsta stoð atvinnulífsins í Borgarnesi og um miðja síðustu öld voru þrjú sláturhús starfandi í bænum. Stórtækast í slátrun var Kaupfélag Borgfirðinga sem tók í notkun nýtt sláturhús í Brákarey árið 1966.
Mynd / Einar Ingimundarson/Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
Fréttir 21. júlí 2017

Eigendur óska eftir samstarfsaðilum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sláturhús Vesturlands  hóf starfsemi í Stóru-Brákey í Borgarnesi í október á síðasta ári eftir gagngerar endurbætur á húsnæðinu. Þar hafði þá ekki verið rekstur síðan slátrun var hætt og húsið úrelt eftir haustslátrun 2002. Þó langt væri liðið á sláturtíð í haust fékkst góð reynsla á búnað og tæki og þar er nú allt til staðar með tilskildum leyfum til að halda starfseminni áfram. 
 
Það er fyrirtækið Brákarbraut 19 ehf., sem er í eigu Guðjóns Kristjánssonar og bræðranna Jóns, Kristins og Snorra Þorbergssona, sem keypti eignirnar í Stóru-Brákey. Síðan er það fyrirtæki þeirra, Sláturhús Vesturlands ehf., sem á allan búnað og rekstur slátur­hússins og stóð fyrir opnun þess á síðastliðnu hausti. Þar á að vera hægt að slátra 350 lömbum, 125 svínum eða 35 stórgripum á dag. 
 
Jón Sævar Þorbergsson, sem á og rekur JSÞ Viðskiptastofu ehf. í Kópavogi, segir að þótt eigendurnir hafi viljað koma sláturhúsinu í rekstur þá hafi það ekki verið meining þeirra að standa sjálfir í að reka sláturhús. Allir hafi þeir yfirdrifið nóg að gera, hann sem viðskiptafræðingur og í hópnum eru svo tveir smiðir og einn læknir. 
 
Eftir að félag þeirra Guðjóns, Jóns, Kristins og Snorra keypti byggingarnar þótti þeim blóðugt að horfa þar á nær fullbúið sláturhús og ákváðu að reyna að koma því í rekstur á nýjan leik. Eftir margra ára vinnu og eltingaleik við skipulagsyfirvöld, tókst loks að klára dæmið og var þá hafinn rekstur í október í fyrra. Fyrstu gripunum var slátrað í tilraunaslátrun föstudaginn 30. september undir eftirliti fulltrúa Matvælastofnunar og var húsið tekið út í kjölfarið af eftirlitsmönnum frá Matís. 
 
Líka með grófskurðarleyfi
 
„Það tókst að koma sláturhúsinu í gang og fá öll tilskilin leyfi. Þá er búið að prófa að slátra. Við erum komnir með leyfi til að slátra stórgripum, sauðfé og svínum líka. Þá erum við komnir með svokallað grófskurðarleyfi, þannig að það er hægt að pakka í húsinu í neytendapakkningar. Nú þurfum við bara að finna einhvern til að reka þetta.“
 
Jón segir að bændur hafi sýnt þessu framtaki þeirra áhuga og séu mjög jákvæðir, en nú vanti bara einhvern sem kann inn á markaðinn til að klára dæmið. Hann segir að samskiptin við MAST varðandi úttektir og leyfisveitingar hafi gengið vel. Húsið hafi verið standsett eins og þeir hafi óskað eftir. Sjálfur hafi hann farið í gegnum allar reglugerðir varðandi svona rekstur og allar handbækur. 
 
Komnir með sláturhúsleyfi til 12 ára
 
Segir Jón að það hafi vissulega verið tímafrek vinna að fara í gegnum reglugerðirnar sem útheimti nokkur hundruð klukkutíma. Síðan var farið í að standsetja húsið í samræmi við lög, reglur og kröfur MAST. Í haust fengu þeir svo þriggja mánaða bráðabirgðaleyfi sem gilti til síðustu áramóta. Síðan fékkst fullnaðarleyfi milli jóla og nýárs sem gildir til 12 ára.  
 
„Þá gerði ég það fyrsta daginn þegar við slátruðum í haust að ég rétti dýralækninum lykil að húsinu og bauð honum að koma hvenær sem hann vildi. Nú er allt tilbúið fyrir áhugasaman rekstraraðila. Það er búið að sótthreinsa húsið og þess vegna hægt að byrja að slátra á morgun. Allur búnaður er til staðar, alveg frá stígvélum og upp úr.“
 
Jón segir að þeir séu mjög sveigjanlegir ef einhver vilji koma inn í þetta með þeim eða leigja af þeim reksturinn. Á bak við þetta sé mjög þolinmótt fjármagn og þeirra hugsun sé fyrst og fremst að fá einhvern rekstur í húsið. 
 
Nýtísku sláturhús tekið í notkun árið 1966 
 
Saga þessa húss í Borgarnesi er ansi merkileg. Þegar húsið var tekið nýtt í notkun 1966 var það rekið af Kaupfélagi Borgfirðinga og var þar hægt að slátra 2.700 kindum á dag. Húsið þótti mjög nýtískulegt og þar var tekið til við að slátra að hætti Nýsjálendinga. Það var síðan rekið með ýmsum formerkjum á síðari hluta tuttugustu aldar. 
 
Reksturinn þyngdist
 
Upp úr 1990 fór rekstur félagsins að þyngjast og í framhaldinu urðu miklar breytingar á rekstri þess. Sláturhúsi og kjötvinnslu var breytt í sjálfstætt hlutafélag 1993, Afurðasalan í Borgarnesi hf., sem síðar varð að tveimur félögum, Sláturfélagi Vesturlands og Borgarnes kjötvörum. 
 
Árið 1998 tók t.d. félag í meirihlutaeigu Kaupfélags Eyfirðinga (KEA) og Norðvestur­bandalagsins hf. (NVB) á Hvammstanga húsið á leigu, en þá var það í eigu Afurðasölunnar Borgarnesi hf. Var þá stofnað  um reksturinn Sláturfélag Vesturlands hf. Auk KEA og NVB, sem samanlagt áttu 87,5% hlut, átti Kaupfélag Borgfirðinga 12,5% í félaginu.  
 
Sláturfélag Vesturlands hf. og Borgarnes kjötvörur enduðu síðan sem hluti af Goða hf. árið 2000, en það félag var stofnað í ágúst sama ár við sameiningu Kjötumboðsins hf. í Reykjavík, Borgarnes kjötvara ehf. í Borgarnesi, sláturhúss og kjötvinnslu Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum, Norðvesturbandalagsins hf. á Hvammstanga og Sláturhússins Þríhyrnings hf. á Höfn. 
 
Þessi sameining var ekki burðug og komst Goði fljótlega í fjárhagsvandræði og í mars árið 2001 var það nánast komið í þrot og sótt var um greiðslustöðvun í júlí sama ár og hafist var handa við að selja rekstrareiningar út úr félaginu. Þá var búið að loka sláturhúsi Goða á Egilsstöðum. Slátrun í Borgarnesi var svo hætt ári seinna. 
 
Norðlenska varð til þann 1. júlí árið 2000 er Kjötiðnaðarstöð KEA og Kjötiðjan Húsavík sameinuðust. Í júlímánuði 2001 festi Norðlenska matborðið kaup á þrem kjötvinnslum Goða hf. Eigandi Norðlenska er Búsæld, félag kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi. Ársvelta Norðlenska árið 2016 var um 5.000 milljónir króna. Norðlenska er nú eitt öflugasta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kjötvöru.
 
Mest var slátrað 70 þúsund dilkum í Borgarnesi
 
Þegar sláturhúsið í Borgarnesi var upp á sitt besta var slátrað þar um sjötíu þúsund dilkum. Sauðfjárbændum fór ört fækkandi á síðari hluta síðustu aldar og í byrjun þessarar og auk sameininga fyrirtækja og hagræðingar þótti ekki stætt á að reka sláturhúsið áfram. 
 
Úr 31 sláturleyfishafa í 17 á 17 árum 
 
Þegar sláturhúsið í Stóru-Brákey var síðast í rekstri árið 2002 var slátrað þar 32 þúsund dilkum á 20 dögum og störfuðu við það um 70 manns. Þá hafði orðið mikil breyting á umhverfi sláturhúsa í landinu. Sem dæmi þá var 31 sláturleyfishafi í kinda- og stórgripakjöti og 6 í alifuglakjöti á árinu 1990. Árið 2001 hafði þeim fækkað í 14 og þar af 2 eingöngu í alifuglaslátrun. 
 
Í dag eru sláturleyfishafarnir 16 og 17 ef Sláturhús Vesturlands ehf. er talið með. Þar af eru fjögur eingöngu í sauðfjárslátrun, þrjú  eingöngu í stórgripaslátrun, þrjú eingöngu í alifuglaslátrun og eitt eingöngu í svínaslátrun. 
Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...