Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Dýrbítar í Deildardal
Fréttir 7. nóvember 2014

Dýrbítar í Deildardal

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Garðar Páll Jónsson rafvirki býr á Melstað í Óslandshlíð í Skagafirði, þar sem tengdafaðir hans er með sauðfjárbú. Hann segir engar vísbendingar um að farið sé að fækka í refastofninum eins og Náttúrufræðistofnun haldi nú fram.

Garðar var ásamt fleirum í göngum í Deildardal nú í haust þegar gengið var fram á hræ af tveimur lömbum og einni fullorðinni rollu. Þá fannst ein gimbur sem var lifandi en illa særð og eitt hræ í viðbót sást en náðist ekki á mynd.

Greint var frá þessu í Feyki fyrir skömmu og sendi Garðar Bændablaðinu einnig myndir af illa útleiknum hræjum. 

Garðar sagði í samtali við Bændablaðið að gengið hafi verið fram á hræin í Seljadal innst í  Deildardal, hræin voru innan við svonefndan Tryppafoss neðan við á sem er kölluð Litla-á. Ein gimbur var illa særð en lifandi þar skammt frá, eða í hlíðinni vestan við Tryppafossinn. Gimbrinni var lógað eftir að hún kom til réttar, enda ekki hægt að græða svona sár. Garðar segir að einnig geti komist fluga í sárið og þá sé best að lina þjáningar eins fljótt og kostur er.

„Sem betur fer er það ekki árlegt að við fáum svona dýrbít þó að í þessum dölum sem féð gengur í, Unadal, Deildardal og Kolbeinsdal, vanti alltaf eitthvað af fé sem hvergi kemur fram. Núna var bitið fé í Deildardalnum og það komu fram særð lömb í Kolbeinsdalnum líka sem er næsti dalur vestan við.

Ég er búinn að vera í grenjavinnslu síðan 1996 og hef lent í svona haustbítum. Fyrir nokkrum árum skaut ég eina læðu í Viðvíkursveitinni og hún var búin að drepa fimm lömb á fimm dögum hjá Haraldi í Enni og líklega sjö lömb á tæpri viku.“

Segir Garðar að þessi lömb hafi verið í kálstykki við gamla bæinn á Læk sem er um þrjú hundruð metra frá veginum.

„Þar unnu að tvær læður og ég náði annarri en Steinþór í Kýrholti hinni degi seinna, þá var hún komin í fé sem þar var. Þarna var um haustlömb að ræða enda komið fram í október.“

− Varla komast slíkir dýrbítar yfir að éta allt sem þeir drepa?
„Nei, þeir drepa lömbin og éta af þeim snoppuna. Í þessu tilviki drap tófan lömbin og það kom engin hvolpahjörð á eftir í hræin. Fyrir nokkrum árum lentu menn í slíku í Borgarfirði. Þá voru menn að berjast við að ná dýrbít allt haustið og langt fram á vor. Þá var það refur sem drap féð og honum fylgdu að talið var 17 dýr. Menn skildu ekkert í því að hræin sem refurinn drap voru horfin eftir svo sem þrjá daga, allt nema beinin. Þegar þeir fóru að liggja yfir hræjunum, Snorri H. Jónsson frá Augastöðum og Snorri Jóhannsson frá  Gilsbakka í Hvítársíðunni, held ég að þeir hafi náð á milli 12 og 17 dýrum. Dýrbítnum sjálfum náðu þeir ekki fyrr en um vorið þegar fór að birta.“

Dýrbítur landlægur í Vesturfjöllunum

Garðar segir að Theódór Gunn­laugsson frá Bjarmalandi hafi einmitt talað um það í bók sinni „Á refaslóðum“ að flokka mætti tófur í tvo flokka, hrædýr og bitdýr. Sem betur fer væru bitdýrin ekki mjög algeng.

„Síðan ég byrjaði 1996 hef ég aðeins þrisvar lent í dýrbít. Hér í Vesturfjöllunum í Skagafirði er hann hins vegar landlægur. Þar fundu bændur fjögur eða fimm dauð lömb sömu helgina og ég var á ferðinni í Deildardal í haust. Dýrbítar eru ekki ekki eins algengir hér austan megin í Skagafirðinum, kannski vegna þess að fjöllin eru erfiðari og féð kemur meira niður í byggð.“

− Hvað finnst þér um fullyrðingar Náttúrufræðistofnunar um að refnum fari fækkandi?
„Ég hef ekki séð það á mínu svæði. Nú þekki ég ekki alveg forsendur þeirra, en ef rökin eru að það séu færri veidd dýr, þá stenst það engan veginn.

Það er vanalega veitt eftir þekktum grenjum. Síðastliðinn vetur háttaði því þannig að það snjóaði í október og það var allt hér í klaka og ís alveg fram í maí. Gamlir Fljótamenn segja að þetta sé fyrsti veturinn sem svo háttar til í þeirra minni, að aldrei hafi hlánað allan veturinn. Tófan lá því niðri á láglendi og í byggð. Í Eyjafirði  var hún alveg niður í fjöru og ekkert ofan við 200 metra hæð. Það var eins hjá mér, en ég er með Hjaltadalinn og Kolbeinsdalinn.

Í svona tíðarfari gýtur tófan niður á láglendi og alls ekki víst að menn verði varir við það. Þegar kemur fram á haustið fer að sjást hellingur af hvolpum, en það veiðast samt helmingi færri dýr.

Grenjaskyttur á næsta svæði fyrir utan mig tóku 50 dýr í vor og þar af 18 eða 19 í Þórðarhöfðanum þar sem er gott greni. Þeir náðu fyrsta dýrinu í þessu greni um miðjan júní. Næstu refafjölskyldu sem settist að í greninu náðu þeir um Jónsmessu og þriðju fjölskyldunni um mánaðamótin júní – júlí. Þá hafa læðurnar gotið í einhverju þokkalega þurru skjóli niðri á láglendinu og síðan hafa þær færst sig nær ætinu út í Þórðarhöfða þegar hvolparnir fóru að stækka. Í Tindastólnum voru líka þrjú greni á mjög þröngu svæði.“

Ekki minna um tófu en áður

„Ef Náttúrufræðistofnun miðar bara við veidd dýr stenst mat þeirra engan veginn. Meðalveiðin hjá mér er um 30 til 40 dýr á ári. Við förum bara í greni sem vitað er um, því við fáum ekki borgað fyrir leit að nýjum grenjum,“ segir Garðar. Þar sem tófan var ekkert í sínum hefðbundnu grenjum vegna klaka, og ekki leitað sérstaklega utan þess, þá var hún eðlilega ekki að veiðast.

„Ég var undir ársmeðaltali í veiði núna, en það er samt engan veginn hægt að halda því fram að það séu færri tófur á svæðinu.“

Garðar segir að skottunum sé skilað inn til sveitarfélaganna, sem greiði ráðnum veiðimönnum. Sveitarfélögin skila síðan skýrslum til Náttúrufræðistofnunar. Mikil óvissa er með hvort skott af refum sem rjúpnaskyttur og aðrir veiðikorthafar drepa, skili sér, þar sem þeir sjá sér engan hag í að standa í því.

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku
Fréttir 23. febrúar 2024

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku

Íslenskar blóðmerar áttu auðvelt með að halda uppi eðlilegum blóðhag þrátt fyrir...

Áhersla á greiðslumarkið
Fréttir 22. febrúar 2024

Áhersla á greiðslumarkið

Á deildarfundi sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands var samþykkt nær samhljóð...

Nú þarf að láta verkin tala
Fréttir 22. febrúar 2024

Nú þarf að láta verkin tala

Halldóra Hauksdóttir verður áfram formaður búgreinadeildar eggjabænda. Meðstjórn...

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar
Fréttir 22. febrúar 2024

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar

Tveir mjólkurframleiðendur uppfylltu ekki yfir 200.000 lítra af greiðslumarki í ...

Formannsslagur í vændum
Fréttir 22. febrúar 2024

Formannsslagur í vændum

Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson hafa gefið kost á sér í embætti forman...

Betri afkoma í garðyrkju
Fréttir 22. febrúar 2024

Betri afkoma í garðyrkju

Afkoma ylræktenda fer batnandi en útiræktenda versnandi.

Seljavellir fyrirmyndarbú ársins 2024
Fréttir 22. febrúar 2024

Seljavellir fyrirmyndarbú ársins 2024

Seljavellir í Nesjum í Hornafirði var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda Bænda...

Opið fyrir umsóknir
Fréttir 21. febrúar 2024

Opið fyrir umsóknir

Opnað var fyrir umsóknir í Matvælasjóð þann 1. febrúar síðastliðinn.