Dýraverndarsambandið kærir meint brot til lögreglu
Dýraverndarsamband Íslands hefur kært meint brot á lögum um dýravelferð við blóðmerahald til lögreglu.
Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) ásamt þýsk-svissnesku dýraverndarsamtökunum Animal Welfare Foundation (AWF) og Tierschutzbund Zürich (TSB) hafa kært til lögreglu þau brot á lögum um velferð dýra sem samtökin segja sjást á upptökum sem náðust af blóðmerahaldi í september 2024. Samtökin telja upptökurnar sýna alvarleg og kerfisbundin brot gegn velferð hryssa, sem mikilvægt sé að bregðast við í tæka tíð áður en næsta blóðtökutímabil hefst.
Matvælastofnun (MAST) hafði málið til rannsóknar en tilkynnti síðasta haust að því yrði ekki vísað til lögreglu. Telja DÍS þessa afgreiðslu vera óásættanlega og minna á að umboðsmaður Alþingis hafi hafið frumkvæðisrannsókn á afgreiðslu MAST á málinu. MAST mat það svo að fundist hefðu alvarleg frávik en að í flestum tilfellum verið um einn og sama einstaklinginn að ræða. Búið væri að koma í veg fyrir að þessi aðili kæmi að meðferð hrossa aftur. Ekki væri því ástæða til að aðhafast frekar.
„Ef annað blóðtökutímabil fær að hefjast eru yfirvofandi frekari brot gegn lögum um velferð dýra. Telja samtökin því þann eina kost færan að kæra málið beint og krefjast þess að lögreglan rannsaki málið með sjálfstæðum hætti. Mikilvægt er að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst í ljósi þess að næsta blóðtökutímabil hefst að óbreyttu síðla sumars,“ segir í tilkynningu frá DÍS.