Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Draumalambið
Lesendarýni 31. október 2016

Draumalambið

Höfundur: Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs
Það vantaði ekki fjaðrafokið við löggildingu búvörusamninga nýverið og ljóst að landsmenn eru ekki algerlega einhuga þegar kemur að stuðningi við landbúnað.  Sjálfur er ég aðdáandi íslensku sauðkindarinnar en hana tel ég ekki bara vera afbragðs matvöru heldur stóran hluta af menningu og sögu þjóðarinnar.  
 
Sigurður Ingi Friðleifsson.
Sumir setja fram hrokafullar tillögur um að leggja algerlega af stuðning við sauðfjárrækt og flytja frekar inn ódýrara kjöt, en ég tilheyri ekki  þeim hópi.  Ég hef samt sem áður ýmsar hugmyndir og skoðanir á sauðfjárrækt og hef fullan rétt á því þó að ég sé fæddur og uppalinn í Breiðholtinu.  
 
Við neytendur erum nefnilega að borga milljarða í styrki til sauðfjárræktar árlega og erum því í raun meðeigendur að búfjárstofni bænda. Bændur geta þess vegna ekki heldur leyft sér að vera með einhvern hroka gagnvart skoðunum neytenda.  Sem meðeigandi geri ég því eftirfarandi framtíðarkröfur til sauðfjárræktar og kjötvinnslu.  
 
Draumalambinu mínu má ekki vera beitt á land sem þolir illa beit.  Það er nóg til af afrétti sem þolir beit og því óþarfi að ganga nærri landi sem þolir það illa.  Sauðfjárbeit sem veldur gróðureyðingu er ósjálfbær og óásættanleg. Ég skil ekki af hverju sauðfjárbændur vilja grafa undan sjálfum sér með því að leyfa örfáum aðilum að beita viðkvæm svæði. Hættum þessu strax. Ég vil að styrkir skattgreiðenda fari í að styrkja bændur til að sporna við gróðureyðingu frekar en að stuðla að henni með beingreiðslum í skrokka á röngum stöðum.
 
Draumalambið mitt hefur líka lítið sem ekkert kolefnisspor frá vöggu til grafar. Ég vil lítinn sem engan tilbúinn áburð í sauðfjárrækt af þeirri einföldu ástæðu að hann er innfluttur og framleiðsla hans krefst venjulega mikils jarðefnaeldsneytis með tilheyrandi útblæstri. Þegar draumalambið er komið af fjalli hefst svo kjötvinnslan. 
 
Sem betur fer er kjötvinnsla hér á landi keyrð á umhverfisvænni orku en það sem ekki endar á borði okkar sem dýrindis máltíð má alls ekki fara í urðun.  Urðun á lífrænu efni er tímaskekkja og metnaðarleysi.
Lífrænt efni sem fer í urðun gefur af sér gríðarlegt magn gróðurhúsaloftegunda. Þetta vandamál er löngu búið að leysa t.d. með jarðgerð líkt og á sér stað í Moltu í Eyjafirði.  Sem dæmi þá tekur Molta við um 2000 tonnum af sláturúrgangi og breytir honum í verðmætan áburð.  Ef þetta magn færi í urðun, eins og allt of mikið af sláturúrgangi gerir,  þá hefði útblásturinn orðið 2500 tonnum meiri en ella. Moltugerðin skilar því meiri loftslagsávinningi en þúsund rafbílar. 
 
Ef kjötvinnslur vilja spara örfáar kr. á kg og urða sláturúrgang frekar en að senda í jarðgerð þá eru menn á rangri braut og alls ekki í takt við neytendur. Ég fullyrði að flestir neytendur myndu glaðir borga 10 krónum meira fyrir skrokkinn vitandi að með því fengist langtum minna kolefnisspor. 
 
Þetta er heldur ekki allt, því nú eru Vistorka á Akureyri og Lífdísill ehf. að vinna að verkefnum þar sem allri fitu úr kjötvinnslu verður breytt í dýrmætan og umhverfisvænan lífdísil sem sýnir að það eru enn meiri verðmæti fólgin í því að urða ekki. 
 
Olíunotkun sem enn er til staðar í greininni, t.d. í dráttarvélum bænda og vegna afurðaflutninga, eiga bændur svo að kolefnisjafna með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Það er varla til sá sauðfjárbóndi sem ekki getur ræktað tré, grætt upp land eða fyllt í skurði. Ég tel að það sé allra hagur að uppfylla þessi skilyrði enda verður afurðin þar með einstakari og umhverfisvænni í samanburði við innflutt kjöt.  Slík staða gæti bæði hækkað afurðaverð og gert stuðning í formi beingreiðslna og tolla eðlilegri.
 
Draumalambið mitt, sem ég hef þegar greitt fyrir að hluta, hvort sem ég borða það eða ekki, á því í fyrsta lagi að sækja sólarorku í gegnum fjallagrös á landi sem þolir beit. Síðan á það ekki bara að gefa af sér hágæða matvæli, heldur á það  líka að enda sem lífeldsneyti og áburður. 
 
Að lokum vil ég fá upprunamerkingar og staðfestingu á kolefnishlutleysi með mótvægisaðgerðum bænda.  Ég vil styðja við landbúnað og borða lambakjöt sem kitlar bragðlaukana með góðri umhverfissamvisku. Áfram íslenskur landbúnaður!
 
Sigurður Ingi Friðleifsson
framkvæmdastjóri
Orkuseturs
Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...