Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Deilt um deilistofna
Fréttir 18. apríl 2019

Deilt um deilistofna

Höfundur: Guðjón Einarsson
Ósamkomulag ríkir um kvóta­skiptingu úr öllum deili­stofnum uppsjávarfisks sem Íslendingar eiga hlutdeild í að undanskildum loðnu­stofninum. Þetta hefur leitt til ófremdarástands sem lýsir sér í því að árum saman hefur verið veitt langt umfram veiðiráðgjöf vísindamanna. 
 
Með deilistofnum er átt við þá fiskistofna sem Ísland nýtir sameiginlega með öðrum löndum vegna þess að stofnarnir ganga milli lögsagna ríkjanna og sömuleiðis út á alþjóðlegt hafsvæði. Í þessu tilfelli er um að ræða makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna. 
 
Ísland á jaðri útbreiðslunnar
 
Höfundur þessarar samantektar gekk á fund Kristjáns Freys Helgasonar, aðalsamningamanns í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, til þess að fræðast um þróun þessara mála á síðustu árum og stöðu þeirra í dag. Kristján Freyr segir að samningamenn Íslendinga hafi ávallt lagt til að farið væri að ráðleggingum vísindamanna Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) við ákvörðun heildarafla úr þessum stofnum. Þegar komi að mótun nýtingarstefnu fyrir þessa stofna aðhyllist Ísland ætíð varfærna nálgun en þurfi að semja um slíkt við aðrar þjóðir. Almennt séð séu sjálfbærar veiðar forsendan fyrir skynsamlegri nýtingu stofnanna. Auk þess sé Ísland á jaðri útbreiðslusvæðis þessara stofna og því hagsmunamál okkar að halda stofnunum sterkum svo þeir haldi áfram að ganga í átt til Íslands. Á því byggðist hlutdeild okkar í þessum fiskistofnum upphaflega og gerir enn. 
 
Vandinn er ekki eingöngu sá að samningsaðilar virði ekki vísindaráðgjöf heldur ekki síður sá að ekki næst samkomulag um það hver eigi að vera hlutur hvers og eins í heildaraflanum. 
 
Makríllinn gengur til Íslands
 
Tökum makrílinn fyrst. Íslendingar fóru ekki að veiða makríl svo orð sé á gerandi fyrr en árið 2006. Árið eftir var aflinn orðinn 37.000 tonn og ári seinna fór hann yfir 112.000 tonn. Síðustu árin hefur aflinn verið um og yfir 170.000 tonn en minnkaði í fyrra niður í 136.000 tonn. Framan af viðurkenndu aðrar makrílveiðiþjóðir ekki Ísland sem strandríki í makrílveiðum. Þær vonuðust til að makríllinn myndi hörfa frá Íslandi eins fljótt og hann hefði komið þangað og málið leystist af sjálfu sér.  Þess vegna var Íslandi ekki hleypt að samningaborðinu fyrst í stað en að því kom árið 2010 að eldri veiðiríkin samþykktu Ísland sem samningsaðila. 
 
Veiðihlutfall Íslendinga var að jafnaði yfir 16% á tímabilinu 2008–2013. Ísland gerði upphaflega kröfu um 16,5% hlutfall af heildarveiðinni og hefur miðað kvótasetningu sína síðustu árin við þá tölu. Mótaðilarnir buðu fram sáralágt hlutfall Íslandi til handa. Norðmenn lögðu til dæmis fyrst til 0,3%, síðan 3% og þar á eftir 6–7%. Hvorki gekk né rak í viðræðunum. 
 
Samkomulag ESB, Noregs og Færeyja
 
Árið 2014 náðist samkomulag um makrílsamning milli ESB, Noregs og Færeyja sem fólst í því að ESB fengi 49,3% af settum heildarkvóta, Færeyjar 12,6% og Noregur 22,5%. Skilin voru eftir 15,6% fyrir Ísland, Rússland og Grænland að skipta milli sín. Þannig stendur málið enn í dag þrátt fyrir reglubundna samningafundi sem engu hafa skilað. Þannig endurnýjuðu samningsaðilarnir frá 2014 samkomulag sitt óbreytt síðasta haust til tveggja ára en Íslandi, Rússlandi og Grænlandi er áfram ætlað að gera sér að góðu 15,6% sameiginlega enda þótt veiðar Íslendinga einna nemi 16%, veiðar Rússa 11–12% og Grænlendingar séu vaxandi veiðiþjóð. 
 
Á síðstu árum hafa íslensk stjórnvöld brugðist við með því að setja sér kvóta sem nemur 16,5% af heildaraflamarki en kvótar ársins í ár hafa ekki verið gefnir út. Fastlega er búist við að Rússland og Grænland haldi sínu striki. 
 
Þegar þetta er skrifað hefur Evrópusambandið, sem hefur umsjón strandríkjanna fyrir makrílviðræður ársins 2019, boðað til strandríkjafundar í London dagana 20.–21. maí.
 
Veiðar umfram vísindaráðgjöf
 
Þetta ástand gerir það að verkum að veitt er verulega umfram settan heildarkvóta, en fleira kemur til. Enda þótt veiðiþjóðirnar hafi fallist á að miða heildaraflamark við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem hefur farið hratt lækkandi á undanförnum árum, hefur þríeykið ESB/Noregur/Færeyjar ákveðið einhliða að aflasamdrátturinn megi ekki vera meiri en 20% milli ára. Það er mun minni samdráttur en vísindamennirnir ráðleggja. Þetta hvort tveggja leiddi til þess að veidd var rúm ein milljón tonna af makríl á síðasta ári þegar vísindamenn ráðlögðu rúmlega 550.000 tonna veiði. Aflinn varð því  82% umfram ráðgjöf. Á þessu ári er áætlað að aflinn verði 823.000 tonn meðan ráðgjöfin er 318.000 tonn. Afli umfram ráðgjöf yrði þá 160% (sjá meðfylgjandi töflu úr norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren). 
 
Færeyingar rjúfa samkomulag um síldina
 
Um norsk-íslenska síld var síðast í gildi samningur frá 2007. Færeyingar sögðu sig frá samningnum í byrjun árs 2013 og juku hlutdeild sína einhliða úr 5% í 13%. Hinar þjóðirnar héldu sig við óbreytta skiptingu í eitt ár en síðan hefur enginn heildarsamningur verið í gildi. Á samningafundi síðastliðið haust var á grunni nýsamþykktrar nýtingarstefnu samþykkt að fara að ráðgjöf ICES en síðan fór hver til síns heima og ákvað sér einhliða hlutdeild í því heildaraflamarki. Hlutur Íslendinga í síldinni hafði verið 14,51% og Norðmanna 61%. Á því tímabili sem síðan er liðið er Noregur búinn að hækka sig í nokkrum þrepum úr 61% í 67%, síðan í 70% og svo í 73% á þeirri forsendu að þetta sé þeirra stofn, hann hrygni við Noreg og hafi vetursetu þar. Að saman skapi hafa Færeyingar aukið sinn hlut í 20%. Íslendingar hafa brugðist við með því að taka hlutfallslegu hækkun Norðmanna og bæta henni ofan á sína hlutdeild. ESB og Rússar hafa hins vegar ekki aukið sinn hlut. Þá eru Grænlendingar ný veiðiþjóð og á síðasta ári settu þeir sér einhliða kvóta upp á 25 þúsund tonn og verða ábyggilega á svipuðum stað á þessu ári.
Áætlaður afli í norsk-íslenskri síld á þessu ári verður því nærri 800 þúsund tonn en ráðgjöf vísindamanna hljóðaði upp á 588 þúsund tonn. Afli umfram ráðgjöf yrði því 36%. Kvóti Íslands verður 102 þúsund tonn, eða um 17,3%% af heild. 
 
ESB og Færeyjar segja sig frá kolmunnasamningi
 
Kolmunnasamningur náðist í árslok 2005 eftir áralangt veiðikapphlaup sem leiddi til þess að stofninn skrapp mikið saman en hefur verið að byggjast upp á ný á síðustu árum. Árið 2014 sögðu bæði ESB og Færeyingar sig frá samningnum og juku veiðar sínar verulega ásamt Norðmönnum. Íslendingar tóku mið af því til að halda sínum hlut í heildarveiðinni. 
 
Nú er staðan sú að heildarveiði kolmunna er áætluð 1,5 milljónir tonna á þessu ári en ráðgjöf ICES hljóðaði upp á ríflega 1,1 milljón tonna. Veiði umfram ráðgjöf yrði því 36%.  Kvóti Íslands í kolmunna verður 241 þúsund tonn í ár, eða 21,1%% af heild. 
 
Þriggja stofna nálgun
 
Eins og að framan greinir eru engir samningar í gildi um nýtingu norsk-íslenskrar síldar og kolmunna og einungis þrír aðilar, ESB, Noregur og Færeyjar, standa að makrílsamningi. Vinnulagið hefur verið þannig að fundað er sérstaklega um hvern stofn og ekki endilega sömu samningamenn, sem fara með alla stofnana fyrir hvert ríki.
 
Að sögn Kristjáns Freys Helga­sonar var að frumkvæði Íslands gerð tilraun til þess að breyta þessu sumarið 2015. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands tók málið þá upp á fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafs. Hugsunin var sú að með því að fjalla um alla stofnana samtímis, aðgang til veiða í lögsögum hver annars og jafnvel markaðsaðgang væri frekar möguleiki að finna lausn sem allir fengju eitthvað jákvætt út úr. 
 
„Með þessu móti gætu menn aðlagað sig betur að  því að gefa og þiggja. Það er óhugsandi fyrir nokkurn ráðherra að senda samningamenn sína á fund sem koma síðan heim með drög að þremur samningum þar sem menn þurfa að gefa eftir á öllum vígstöðvum. Hins vegar geta menn hugsanlega betur sætt sig við að standa í stað í einu tilviki, fengið smávegis meira í öðru og gefið eftir í því þriðja. Þetta teljum við að gæti verið árangursríkara en að fjalla bara um einn stofn í einu,“ segir Kristján Freyr. 
 
Samhliða hefðbundnum strand­ríkja­viðræðum hafa fram að þessu verið haldnir fjölmargir fundir þar sem þessari nálgun hefur verið beitt en áfram er ósamið um nýtingu stofnanna þriggja og engar vísbendingar um að það breytist í bráð. Hvaða langtímaáhrif það mun hafa á stærð og viðgang þessara fiskistofna á eftir að koma í ljós. 
Fresta banni við endurnýtingu
Fréttir 21. maí 2024

Fresta banni við endurnýtingu

Bændum verður heimilt að endurnýta örmerki í sláturtíð 2024 og nota þau til 1. n...

Stjórnvaldssekt staðfest
Fréttir 20. maí 2024

Stjórnvaldssekt staðfest

Bændur á Vesturlandi telja jafnræðis ekki hafa verið gætt þegar Matvælastofnun (...

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...