Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Dauðar kýr í hrúgu á gólfinu
Fréttir 22. maí 2014

Dauðar kýr í hrúgu á gólfinu

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson
Um miðjan október á síðasta ári var Karl Eiríksson, bóndi í Miðdalskoti í Bláskógabyggð, að hræra uppi í haughúsi undir fjósinu hjá sér. Hann hóf að keyra mykju á tún en þegar hann leit inn um glugga á fjósinu eftir tvær eða þrjár ferðir lágu dauðar kýr eins og hráviði á gólfinu. Þær höfðu drepist vegna brennisteinsvetniseitrunar en þessi eitraða gastegund, sem líka er kölluð vetnissúlfíð, hafði losnað úr mykjunni þegar byrjað var að hræra, stigið upp og drepið kýrnar.
 
Fjósið í Miðdalskoti er lausagöngufjós, án rafmagnsvifta. Karl notaði, líkt og venjulega, brunndælu sem bæði getur dælt upp í haugtank og hrært í haughúsinu. „Ég opnaði allar dyr og glugga. Það var hins vegar blankalogn þennan dag. Haughúsið var nánast alveg fullt hjá mér og því ekki mikið pláss fyrir gasið neins staðar annars staðar en uppi í fjósinu sjálfu. Ég var grandalaus fyrir þessu vegna þess að ég var búinn að láta leka töluvert mikið vatn í haughúsið og ég hélt þess vegna að það væri minni hætta á að þessari gasmyndun. Svo var mér reyndar sagt eftir á að það væri alls ekkert minna hætta þrátt fyrir það. Svo byrja ég bara að hræra og gáði ekkert að mér. Það hefur sjálfsagt liðið hátt í klukkutími, og ég búinn að keyra tvo eða þrjá tanka úr húsinu, þar til ég kíki inn um gluggann. Þá sá ég hreinlega hrúgu af dauðum kúm á gólfinu.“
 
Varð mjög brugðið
 
Karl segir að honum hafi brugðið mjög mikið við þessa sjón. „Ég hljóp beint inn og reyndi að ýta við kúnum, ég slökkti ekki einu sinni á dælunni í óðagotinu sem greip mig.“ Karl segist einnig hafa fundið fyrir óþægindum meðan hann var inni í fjósinu. „Ég veit ekki hvort það var áfallið sem ég varð fyrir eða hvort það voru áhrif frá gasinu. Ég var alla vega hálfpartinn vankaður. Ég held nú samt ekki að ég hafi verið í mikilli hættu því að það var þetta langur tími liðinn og gasið að mestu horfið úr loftinu. Svo hafði ég rænu á að hlaupa út og slökkva á dælunni og eftir það hljóp ég aftur inn og rak allar skepnur sem gengið gátu út úr fjósinu.“ 
 
Kýr urðu fyrir heilaskemmdum
 
Kallað var á dýralækni, bæði til að sinna skepnum sem orðið höfðu fyrir eitrun en einnig til að skrásetja tjónið. „Það voru þó nokkuð margar kýr sem voru ansi valtar þarna. Ég neyddist til að aflífa tvær um kvöldið og eina daginn eftir. Ein þeirra var sérstaklega illa farin, það var eins og hún hefði orðið fyrir miklu tjóni á heila. Hún labbaði bara á veggi og ekkert annað við hana að gera en að fella hana.“
 
Mikið tjón
 
Allt í allt missti Karl níu gripi af völdum gaseitrunarinnar. Þar af voru sjö kýr og tvær fyrstakálfs kvígur sem voru komnar að burði. „Við höldum, eða erum alveg viss um, að það voru þó nokkuð margar kýr aðrar sem misstu fóstur eftir þetta. Nytin hrundi líka í kúnum, þetta virtist hafa áhrif á þær margar. Þetta var því gríðarlega mikið tjón.“
 
Karl segir að andlega hliðin hafi líka beðið hnekki. „Maður varð ansi fúll yfir þessu, að láta þetta gerast. Ég átti að vita betur finnst mér. Óhöpp verða svo sem en það er mikilvægt að vekja athygli á þessu til að koma í veg fyrir að þau verði hjá fleirum.“ 
 
Karl hyggst setja stromp með viftu á fjósið hjá sér til að draga úr hættunni. Hann hefur þurft að keyra út úr haughúsinu hjá sér síðan þetta gerðist og hann segir að nú fylgist hann gríðarlega mikið með. „Skilaboðin til manna eru bara þau að fylgjast með þessu, opna allt upp á gátt og helst að það goli nú eitthvað.“
 
Betur fór en á horfðist í Skagafirði
 
Í síðustu viku lenti bændur á Syðri-Hofdölum í Skagafirði einnig í gasmengun þegar verið var að hræra upp í geldneytahúsi þar á bæ. Sem betur fer urðu afleiðingarnar þó ekki alvarlegar í það skipti. Þeir feðgar Atli Már Traustason og Trausti Kristjánsson voru að hræra upp í húsunum og skyndilega fór að bera á sljóleika hjá gripunum. „Við vorum ekki búnir að opna nógu mikið og það trekkti ekki nóg í gegn hjá okkur. Þetta slapp þó til hjá okkur, við drógum út eina kvígu sem að datt niður hjá okkur en hún jafnaði sig,“ segir Atli.
 
Þeir feðgar slökktu á hrærunni í snatri og fóru svo í að halda hausum á skepnunum uppi til að þeir lægju ekki alveg ofan í bitunum í fjósinu og þar með alveg ofan í gasuppstreyminu. Allir gripirnir jöfnuðu sig. „Þetta var kannski bara hálfgert kæruleysi, að vera ekki búnir að opna alla glugga áður en við byrjuðum. Pabbi var að labba og opna á meðan að ég breytti aðeins stefnunni á stútnum og þá hefur gosið upp þetta gasský. Það skiptir miklu máli að lofta nógu mikið út og fylgjast svo vel með því hættan er mest í upphafi, þegar byrjað er að hræra.“
 
Brennisteinsvetni baneitrað
 
Friðrik Daníelsson efna­verkfræðingur hjá Vinnueftirlitinu útskýrir að þegar farið er að hræra í haughúsum losni um gastegundir, einkum metan og svo brennisteinsvetni sem myndast við rotnun lífrænna efna með svokallaðri loftlausri rotnun. „Brennisteinsvetni er það sem framkallar skítalyktin, svo töluð sé góð íslenska. Það er eitt versta eitur sem til er en sem betur fer lyktar það illa og menn finna því fyrir því. Hins vegar, ef það er komið yfir ákveðið magn eða styrk þá hætta menn að finna lyktina. Það sem gerist er að menn fara að hræra upp, eru vanir lyktinni og svo hætta þeir að finna hana. Skepnur eru alveg eins. Kýr geta því fengið eitrun og það þarf ekki mikið til. Ef styrkur brennisteinsvetnis í loftinu nær 0,05 prósentum þá steinliggja bæði skepnur og menn. Ef ekki er loftræst duglega þá tekur ekki langan tíma þar til þetta magn leiðir til dauða.“
 
Loftræsting, loftræsting og aftur loftræsting
 
Friðrik segir eitrunina sem skepnur og menn verði fyrir verður með þeim hætti að brennisteinsvetni fer ofan í lungu, þaðan út í blóðið og berst upp í heila á nokkrum sekúndum. Þar hefur það áhrif á stöðvarnar í heilanum sem stjórna öndunarkerfinu og þar með getur fólk eða skepnur dáið af súrefnisskorti. „Það þarf í raun ekki nema einn andardrátt til að slá menn niður þegar loftið er orðið mettað af brennisteinsvetni. Það sem skiptir meginmáli er loftræsting, loftræsting og aftur loftræsting. Ef hún er í lagi er þetta yfirleitt ekki vandamál.“
 
Bændur ættu að kaupa gasgrímur
 
Friðrik varar við því að bændur séu einir við að hræra upp í haughúsum sínum. „Ég myndi tvímælalaust segja mönnum að vera ekki einir við þessa vinnu, séu þeir inni í húsum við upphræru. Það er svo mikið meira öryggi í því að vera fleiri en einn. Hins vegar verða þeir sem úti eru að hafa varann á sér ætli þeir að hlaupa inn í húsið ef eitthvað kemur fyrir. Hugsanlega er ráð að menn kaupi sér gasgrímur sem sía brennisteinsvetnið úr. Það verður þó að umgangast slíkar grímur af vandvirkni því séu þær ekki geymdar í innsigluðum plastpokum því síurnar í grímunum skemmast. Mín skoðun er þó sú að bændur ættu að eiga slíkar grímur, kunna á þær og endurnýja síur í þeim.“
 
Bændablaðið hafði samband við nokkrar verslanir sem selja grímur af því tagi sem Friðrik nefnir. Verð á þeim er misjafnt en hleypur á einhverjum tugum þúsunda. Þá var á það bent að ekki væri úr vegi að bændur keyptu sér gasmæla til að mæla styrk brennisteinsvetnis í húsum þegar verið væri að hræra upp í þeim. Hugsanlega gætu bændur átt slíka mæla í sameign og nýtt fjárfestinguna, sem er nokkur, þannig betur. 
Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk
Fréttir 13. desember 2024

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk

Matvælasvindl er vaxandi vandamál í heiminum. Engin mál tengd meintum matarsviku...

Kortleggja ræktarlönd
Fréttir 13. desember 2024

Kortleggja ræktarlönd

Matvælaráðuneytið ætlar að ráðast í kortlagningu á gæðum ræktarlands á Íslandi.

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði
Fréttir 12. desember 2024

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði

Um áramót taka gildi umtalsverðar hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda. Ge...

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga
Fréttir 12. desember 2024

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga

Loftslagsráð segir að nú þurfi að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða o...

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands
Fréttir 12. desember 2024

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands

Landsmenn vilja að landbúnaðarvörur séu framleiddar innanlands ef marka má niður...

Metinnflutningur á koltvísýringi
Fréttir 11. desember 2024

Metinnflutningur á koltvísýringi

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa verið flutt inn til landsins um 2.600 tonn af k...

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára
Fréttir 11. desember 2024

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2024 var, skv. bráðabirgðatölum Hafrannsókn...

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki
Fréttir 11. desember 2024

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki

Afleiðingar rafmagnsleysis í Lundarreykjadal í febrúar urðu bændum dýrkeyptar.