Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Danskt FRP-plasttrefjaefni sem er afar sterkt, létt og viðhaldsfrítt
Fréttir 6. október 2014

Danskt FRP-plasttrefjaefni sem er afar sterkt, létt og viðhaldsfrítt

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Danska fyrirtækið Fiberline Composites A/S hefur um þrjátíu ára skeið verið í frumkvöðlahlutverki hvað varðar framleiðslu á burðarbitum, gluggaefni og öðru úr viðhaldsfríu, trefjastyrktu FRP-fjölliðuplastefni í marg­víslega mannvirkjagerð. Helsti kostur þessara efna er lítið viðhald, gríðarlegur styrkur auk mikils léttleika.

Ragnar Kærnested hjá Gný í Reykjavík er umboðsaðili  Fiberline Composites A/S á Íslandi. Segir hann að notkun á FRP (Fibre Reinforced Polymers) efnum fyrirtækisins byggist á mikilli sérhæfingu varðandi smíðatækni og aðferðir. Því sé ánægjulegt að komist hafi á samstarf við landsbyggðarfyrirtæki um að taka það hlutverk. Þar er um að ræða fyrirtækið Stykki hf. í Stykkishólmi.

Þórarinn Sighvatsson hjá Stykki segir að hægt sé að nota þessi efni í nánast hvað sem er. Þótt efnið sé dýrara á hverja lengdareiningu en stál, þá sé efnið ekki dýrt ef tekið sé mið af því að burðurinn er mun meiri miðað við þyngd en næst með stáli. Því þurfi mun meira af stáli en fíberefninu til að ná sama markmiði hvað burðareiginleika varðar. Til viðbótar komi mun meiri ending og að efnið sé viðhaldsfrítt, mengi ekki, þoli vel bleytu og uppfylli EN13706-staðalinn.

Fyrirtækin kynntu Fiberline-efnin á 60 manna brúarráðstefnu Norræna vegasambandsins (NVF) sem haldin var á Hótel Sögu í Reykjavík 3.–4. september síðastliðinn. Þar var til sýnis 12 metra löng göngubrú úr Fiberline-efni sem Stykki hf. smíðaði sérstaklega af þessu tilefni.

Bráðsniðugt efni til margra hluta

„Ég sé fyrir mér að svona efni geti verið mjög sniðugt í grindur í fjárhús og í bita undir slíkar grindur. Þetta ryðgar hvorki né fúnar og auðvelt er að þrífa það,“ segir Þórarinn sem þekkir ágætlega til sauðfjárræktar.

„Þó sé hægt að nýta þessi efni í nánast hvað sem er þá er ég ekki viss um að það sé hagkvæmt að nota þau í burðarvirki á byggingum þar sem annars er notuð stálgrind. Menn hafa samt notað þessi efni í þeim tilgangi, m.a. í kjarnorkuverum. Kosturinn er líka að þetta er laust við alla rafleiðni og segulmyndun. Þannig mætti hugsa sér að þessi efni hentuðu vel í gagnaver og á öðrum stöðum þar sem leiðni getur verið vandamál.“ Auk þess megi nefna útsýnispalla, gangstíga, flotbryggjur, handrið og tröppur.

Dönsk hugmynd

Fiberline Composites A/S var stofnað í danska bænum Kolding 1. maí 1979 af Dorthe og Henrik Thorning. Fyrirtækið þróast smám saman úr því að vera tveggja manna fyrirtæki í stóra verksmiðju sem fyrirtækið rekur í bænum Middelfart á Fjóni í Danmörku sem er skammt frá Litlabeltisbrúnni. Framleiðsla fyrirtækisins úr FRP-efnum hefur unnið til fjölda verðlauna en á boðstólum eru margvíslegir prófílar og plötuefni. Efnið hefur m.a. verið notað í spaða á stórar raforkuvindmyllur og ýmsa hluti í vindmylluturna eins og sjá má víða úti fyrir ströndum Danmerkur. Einnig eru framleiddir burðarbitar af margvíslegum gerðum í ýmiss konar mannvirki eins og brýr og efni í plastglugga og fleira. 

Burðarbitar eins og svokallaðir I bitar frá fyrirtækinu hafa gríðarlegan styrk sem byggist á því að þeir eru í raun forspenntir með trefjum líkt og steinsteypubitar sem forspenntir eru með stálstrengjum. Þannig næst fram gríðarlegt burðarþol í hlutfalli við þyngd efnisins. Getur slíkt efni því hentað mjög vel til brúargerðar auk þess sem fyrirtækið framleiðir sérstakar burðarplötur í dekk á slíkar brýr. Þá er einnig mikill kostur að þessi plasttrefjaefni standast vel tæringaráhrif af völdum t.d. sjávar og kemískra efna.

Hentar vel í göngubrýr

Þórarinn nefnir að með slíkum efnum sé hægðarleikur að byggja göngubrýr sem hengdar eru utan á eldri steinsteyptar brýr, án þess að raska burðareiginleikum brúnna. Þá hefur hann kynnt þetta fyrir ferðaþjónustuaðilum vegna hugmynda um að setja göngubrýr yfir ár í óbyggðum, eins og í Þórsmörk, þar sem erfitt getur reynst að koma að þungum stálbrúm.

Þá hafa menn verið með hugmyndir um að smíða hjólastólarampa úr svona efni, segir Þórarinn. Einnig er Vegagerðin að láta skoða nýtingu á Fiberline-efni m.a. í brúargerð.

„Möguleikarnir eru óendanlegir, en við erum fyrst og fremst að selja þetta út á styrk og léttleika,“ segir Þórarinn.

4 myndir:

Sólarsellustyrkir
Fréttir 22. júlí 2024

Sólarsellustyrkir

Orkusetur Orkustofnunar hefur auglýst eftir umsóknum um sólarsellustyrki.

Gæðingafeður og mæður
Fréttir 19. júlí 2024

Gæðingafeður og mæður

Skýr frá Skálakoti átti flest afkvæmi á Landsmóti hestamanna í ár, 31 talsins.

Kúakaup fyrir dómi
Fréttir 19. júlí 2024

Kúakaup fyrir dómi

Kúakaup milli tveggja bænda rötuðu til héraðsdóms á dögunum.

Úthlutun aflamarks
Fréttir 18. júlí 2024

Úthlutun aflamarks

Nýverið fundaði stjórn Byggðastofnunar vegna fyrirhugaðrar úthlutunar sértæks by...

Lóga þarf hrúti
Fréttir 18. júlí 2024

Lóga þarf hrúti

Bóndi þarf að afhenda Matvælastofnun ákveðinn hrút til að kanna útbreiðslu á rið...

Árangurinn kom á óvart
Fréttir 18. júlí 2024

Árangurinn kom á óvart

Fjölskyldan í Strandarhjáleigu í Rangárþingi eystra átti góðu gengi að fagna á n...

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.