Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Í dag eru chia-fræ algeng íblöndunarefni í smúthídrykki, morgunkorn, orkustangir og tortillur.
Í dag eru chia-fræ algeng íblöndunarefni í smúthídrykki, morgunkorn, orkustangir og tortillur.
Á faglegum nótum 12. júlí 2019

Chia-plantan sem grafin var úr gleymsku

Höfundur: Vilmundur Hansen

Chia var ein af megin nytjaplöntum Azteka í Mið-Ameríku fyrir komu Evrópumanna. Spánverjar bönnuðu ræktun plöntunnar af trúarlegum ástæðum en fækkun innfæddra vegna sjúkdóma varð til þess að plantan hvarf nánast úr ræktun. Núna, fimm hundruð árum seinna, eru vinsældir chia-fræja slík að framleiðsla þeirra annar vart eftirspurn.

Áætluð heimsframleiðsla á chia-fræjum er á bilinu 15 til 20 þúsund tonn en talið er að það magn verði komið í 50 þúsund tonn árið 2030. Um 80% heimsframleiðslunnar í dag kemur frá latnesku Ameríku, Paragvæ, Bólivíu, Perú, Argentínu og Mexíkó. Auk þess sem framleiðsla á þeim hefur farið vaxandi í Ástralíu og löndum í austanverðri Asíu.

Áætluð heimsframleiðsla á chia-fræjum er á bilinu 15 til 20 þúsund tonn en talið er að sú tala verði komin í 50 þúsund tonn árið 2030.

Bandaríki Norður-Ameríku og lönd Evrópusambandsins sem heild eru stærstu innflytjendur chia-fræja og annarra chia-afurða í heiminum. Af þjóðunum í Evrópu flytja Þjóðverjar inn mest af chia en næst á eftir þeim koma Holland og Spánn.

Ekki fundust tölur um innflutning á chia-fræjum né öðrum chia-afurðum til Íslands á vef Hagstofu Íslands.

Ættkvíslin salvia og tegundin hispanica

Salvia er stærsta ættkvíslin innan ættar varablóma og telur hátt í eitt þúsund tegundir, runna, fjöl- og einæringa, sem finnast villtar í Mið- og Suður-Afríku, löndum við Miðjarðarhafið auk Mið- og Austur-Asíu. Dæmi um vel þekktar tegundir innan ættkvíslarinnar eru kryddjurtin Salvia officinalis og Salvia divinorum sem þekkt er fyrir að valda sterkum hughrifum og verið kölluð munnvatn Guðs.

Salvia hispanica sem gefur af sér chia-fræ er einær, með trefjarót og getur náð rúmlega metra að hæð.

Tegundin Salvia hispanica sem gefur af sér chia-fræ er einær, með trefjarót og getur náð rúmlega metra að hæð. Blöðin gagnstæð og á stuttum stilk, ljósgræn, egglaga og breiðust við stilkinn en mjókka í framendann, hrukkótt, 4 til 8 sentímetrar að lengd og 3 til 5 að breidd. Blómin sjálffrjóvgandi, ljósfjólublá eða hvít og sitja mörg saman á enda blómstöngulsins. Fræin sem eru með þunna gljáandi skel, eru í laginu eins og lítil egg, einn til tveir millimetrar að þvermáli og mjög olíurík. Brún, grá, hvít eða svört og stundum marglit.

Uppruni og saga

Salvia hispanica er upprunnin í mið- og suðurhluta Mexíkó og í Gvatemala og breiddist út þaðan. Í suðvesturríkjum Bandaríkja Norður- Ameríku og Mið- og Suður-Ameríku hafa fræ plöntunnar verið þurrkuð og mulin og notuð eins og korn. Fræin voru hluti af daglegri fæðu fólks þar í margar aldir fyrir komu Evrópumanna til nýja heimsins.

Fornleifarannsóknir sýna að chia-fræ voru nýtt af Aztekum til matar að minnsta kosti 3.500 árum fyrir Krists burð.

Chia-fræ voru þekkt sem orkugjafi meðal Azteka, Mæja og Tarahumara Indíána, sem bjuggu í norðvesturhluta Mexíkó, og sagt að þau gæfu fólki aukinn styrk og þol, ekki síst ef það hljóp langar vegalengdir. Talið er að stríðsmenn Azteka hafi jafnvel eingöngu neytt chia-fræja fyrir orrustur.

Tarahumara Indíánar blönduðu chia-mjöli saman við drykk sem kallaðist iskiate og var gerður úr korni og vatni. Chia-mjölið var ásamt limesafa og sykurreyr notað til að bragðbæta drykkinn. Í dag kallast drykkurinn Agua fresca de limon con chia.

Í Floritinehandritinu frá 1585 segir að ófrískar konur drekki vökva með chia-fræjum til að létta þeim fæðinguna. 

Að sögn Jesúíta-trúboða sem flykktust til Nýja heimsins, til að bjarga sálum villimannanna, í Suður-Ameríku eftir landafundina, var chia mikilvægasta nytjaplanta álfunnar ásamt maís og baunum.

Chia-plöntu er lýst í tveimur ritum frá 1540 og 1585, Mendoza Cordex og Floritine Cortex. Hið fyrra segir sögu Azteka, hernaðarsigrum og daglegu lífi. Seinna ritið fjallar um trúarlíf og helgisiði Azteka og sagt vera besta sextándu aldar heimild um líf fólks fjarri Evrópu sem til er. Í ritinu er einnig að finna upplýsingar um lækningaplöntur Azteka og þar á meðal chia og sagt að ófrískar konur drekki vökva með chia-fræjum til að létta þeim fæðinguna.

Samkvæmt því sem segir í Codex Mendoza greiddu nágranar borgarinnar Tenoktílan rúm 3,6 tonn af maís, 4,4 tonn af baunum, 4,1 tonn af chia og 3,7 tonn af Inkakorni í skatt á þeim tíma sem ritið varð til. Auk þess sem íbúar borgarinnar ræktuðu rúm 3,3 tonn af sömu plöntu á fjölda hektara af fljótandi eyjum á stöðuvatni skammt frá borginni.

Landbúnaður Azteka var mjög þróaður og ræktuðu þeir nytjajurtir á litlum manngerðum eyjum sem eins og flutu á vötnum og lygnum ám. Eyjarnar kölluðust Chiampas og voru þannig gerðar að milli staura sem reknir voru í botninn voru lagðar og ofnar saman greinar. Á greinarnar var síðan settur jarðvegur og náttáburður sem nytjaplöntur og ekki síst chia voru ræktaðar í. Smám saman safnaðist framburður við undirstöðurnar og undir greinarnar með þeim afleiðingum að til urðu manngerðar ræktunareyjar.

Siglt milli ræktunareyja í Suður-Ameríku. Myndin er frá 1912.

Aztekar notuðu chia-olíu sem bindiefni í liti fyrir myndlist og á nytjahluti. Liturinn var einnig notaður sem líkamsmálning á hátíðum og við trúarathafnir.

Spánverjar litu plöntuna hornauga þar sem fræ hennar voru notuð við fórnarathafnir Azteka og bönnuðu ræktun hennar af trúarlegum ástæðum þegar þeir komust til valda. Í staðinn fyrir chia kröfðust Spánverjarnir að Aztekar ræktuðu korn og bygg.

Þegar á leið léttu Spánverjar ræktunarbanninu af þeim hópum sem þeir töldu taka vel undir kristniboð sitt og notuðu ræktunarheimildina sem beitu á að láta skírast til kristinnar trúar.

Neysla á chia í Mið-Ameríku dróst þó aðallega saman eftir komu Evrópumanna vegna mikilla sjúkdómadauða heimamanna en innfæddum í Mexíkó fækkaði úr 22 milljónum árið 1520 í tæplega milljón árið 1620. Ræktarlönd plöntunnar voru einnig nýtt til beitar fyrir nytjadýr Evrópumanna, nautgripi, sauðfé og hross. Rannsóknir sýna að árið 1550 var chia ræktað á um 30 þúsund hekturum í Mexíkó en árið 1810 var plantan einungis ræktuð á fáeinum hekturum í landinu.

Samkvæmt skýrslum land­búnaðar­­ráðuneytis Mexíkó var chia ræktað á 38 hekturum árið 1932 en sú ræktun var komin í 500 hektara árið 1994. Í dag er chia ræktað í að minnsta kosti 400 hundruð þúsund hekturum lands í 29 löndum og talið að sú ræktun eigi eftir að margfaldast á næstu árum. 

Í skýrslu ráðgjafarnefndar Evrópusambandsins um ný matvæli á markaði frá 1997 segir að chia hafi litla sem enga sögu sem matvæli í Evrópu. Tveimur árum seinna var veitt leyfi til að nota lítils háttar af chia-fræjum í deig til brauðbaksturs og ráðlagður dagskammtur af fræjunum sagður vera 15 grömm.

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið Salvia er upprunnið í latínu salvere og þýðir vellíðan og hreysti og tengist trú á lækningamætti plantna innan ættkvíslarinnar. Tegundarheitið hispanica tengir tegundina við Spán og því að það voru Spánverjar sem fyrstir Evrópumanna kynntust henni en það var Svíinn Carl von Linne sem gaf henni latínuheiti sitt.

Heitið chia kemur úr nahuatl, sem er fornt tungumál Azteka og þýðir olía eða fita. 

Rómverjinn Pliny eldri var fyrstur manna til að lýsa salvíu og skrá heitið salvia og mun þar hafa verið um að ræða Salvia officinalis, sem við þekkjum sem lyfjasalvíu eða salvíukrydd.

Heitið chia kemur úr nahuatl sem er fornt tungumál Azteka og þýðir olía eða fita.

Tegundin Salvia columbariae er einnig kölluð chia eða gullið chia og fræ hennar seld sem slík.

Ræktun

Vegna aukinna vinsælda hafa stóru líftæknifyrirtækin í heiminum sýnt plöntunni talsverðan áhuga og nú þegar eru á markaði erfðabreytt chia-fræ sem eru þolin fyrir illgresiseitrinu glyfosat.

Markaður fyrir óerfðabreytt chia-fræ er stór og reglur Evrópusambandsins um erfðabreytt matvæli gera það að verkum að erfðabreytt chia-fræ eru ekki á markaði í Evrópu enn sem komið er.

Til er fjöldi ólíkra yrkja, afbrigða og landsorta af chia sem þróast hafa í gegnum aldirnar og aðlagast ólíkum umhverfisaðstæðum. Vaxtartími ólíkra afbrigða hefur aðlagast hverjum vaxtarstað fyrir sig og er frá 100 til 150 daga til að ná fullum fræþroska. Í löndum í kringum miðbaug vaxa plönturnar best í 800 til 2200 metra hæð.

Vegna aukinna vinsælda hafa stóru líftæknifyrirtækin í heiminum sýnt plöntunni talsverðan áhuga og nú þegar eru á markaði erfðabreytt chia-fræ sem eru þolin fyrir illgresiseitrinu glyfosat. 

Þar sem S. hispanica blómstra við stutta daglengd, 12 til 13 klukkustundir, hefur reynst erfitt að rækta plöntuna til frænytja nema við svæði sem hafa svipaða daglengd og á upprunasvæði hennar. Með erfðabreytingum tekist að fá yrki plöntunnar til að blómstra við lengri daglengd en henni er náttúrulegt. Plantan þolir ekki frost á vaxtartíma sínum.

Uppskera á hektara er ólík eftir afbrigðum og ræktunarstað og getur verið frá 450 til 2.300 kíló. Auk þess sem innihald fræja af olíu og öðrum efnum er breytilegt eftir umhverfisaðstæðum og minnkar olíuinnihaldið eftir því sem hiti fer upp eða niður fyrir kjörhita hvers afbrigðis sem getur verið á bilinu 16 til 26° á Celsíus.

Plantan kýs vel framræstan, þokkalega nærefnaríkan og eilítið súran leir- eða sandríkan jarðveg og þolir ágætlega að þorna á milli. Hæfilegt fræmagn er um sex kíló á hektara.

Fáir sjúkdómar og sníkjudýr herja á chia í ræktun. Lauf plöntunnar eru olíurík og fælir það skordýr frá henni. Vöxtur samkeppnisgróðurs getur verið vandamál fyrir ungar plöntur en minnkar þegar plönturnar stækka. Salvia hispanica er viðkvæm fyrir illgresiseitri og því mælt með að nota gömlu aðferðina og reyta og skafa það burt.

Nytjar

Ein fyrstu kynni Vesturlandabúa af chia voru í gegnum ræktun þess sem grashausa eða sem grasgæludýr sem voru vinsæl á áttunda áratug síðustu aldar. Ræktunin fór þannig fram að líkan af höfði eða fígúra af gæludýri úr brenndum leir voru vökvuð og upp af fræjum sem komið hafði verið fyrir í líkaninu spruttu chia-plöntur.

Eins og oft vill verða með nýjungar á markaði þegar vel tekst til með markaðssetningu þeirra urðu chia-fræ gríðarlega vinsæl sem eins konar ofurfæða og ómissandi í bústið á Vesturlöndum.

Vinsældir chia-fræja og annarra chia-afurða hafa einnig aukist samhliða aukinni neyslu á plöntuafurðum og auknum fjölda veganista. Chia-afurðir eru mikið notaðar í snyrtivörur, heilsu- og í lyfjaiðnaði.

Uppskera á chia-fræjum er víða unnin með handafli. 

Chia-fræ eru sögð innihalda mikið af Omega 3 og Omega 6 fitusýrum, trefjum og próteini. Fræin hafa þann eiginleika að innbyrða tólf sinnum þyngd sína af vökva og gefa um leið frá sér hvítt og eilítið seigt og slímkennt efni. Fræin eru rík af kalsíum, járni og magnesíum en kaloríusnauð.

Í dag eru chia-fræ algeng íblöndunarefni í smúthídrykki, morgunkorn, orkustangir og tortillur. Árið 2009 hækkuðu þar til gerð yfirvöld hjá Evrópusambandinu magn af chia-fræjum í brauði í 5%.

Slím- eða kvoðukennt efni sem fæst með því að leggja mulin chia-fræ í bleyti má nota í bakstur að hluta til í staðinn fyrir egg.

Þrátt fyrir hástemmdar yfir­lýsing­ar um heilsufarslega kosti og yfirburði chia-afurða eru fáar rannsóknir sem styðja slíkar yfirlýsingar og ekkert sem bendir til að neysla fræjanna dragi úr líkum á kransæðastíflu og hjartasjúkdómum.

Chia á Íslandi

Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem farið er að minnast á chia-fræ í íslenskum fjölmiðlum. Í grein í Morgunblaðinu frá í janúar 2008 segir Sólveig Eiríksdóttir, sem lengi var þekkt sem Solla í Grænum kosti, í viðtali, sem ber fyrirsögnina Ofurfæða er hvorki dularfull ná skrýtin, að fáir þekki „ofurfæðutegundir eins og durianávöxtinn, hampolíu, gojiber, kakónibs, maca, mesqui-duft, lucumaduft,camu camu, chia-fræ og fjólublátt maísduft. Solla segir að þeir sem þetta þekki séu flestir einhvers konar heilsunördar.“ Enn fremur segir hún að þetta hráefni hafi allt verið vel þekkt í sínum heimalöndum og stóran hluta af þessum fæðutegundum noti innfæddir daglega í sínu mataræði.

Fljótlega eftir þetta er farið að auglýsa chia-drykki og chia-fræ til sölu í heilsuvöru- og matvöruverslunum. Chia-fræ ásamt Aloe vera-safa fara einnig að njóta mikilla vinsælda og þykja jafnvel ómisandi í matargerð og sem millimál hins síupptekna Íslendings sem vill ná árangri í starfi án þess að líta út fyrir að vera of þreyttur í ræktinni. 

Ein fyrstu kynni Vesturlandabúa af chia voru í gegnum ræktun þess sem grashausa eða sem grasgæludýr sem voru vinsæl á áttunda áratug síðustu aldar.

Nýr formaður kjörinn
Fréttir 23. febrúar 2024

Nýr formaður kjörinn

Hjörtur Bergmann Jónsson var kjörinn formaður deildar skógarbænda á fundi deilda...

Sex minkabú eftir á landinu
Fréttir 23. febrúar 2024

Sex minkabú eftir á landinu

Björn Harðarson, bóndi í Holti í Flóa, hefur tekið við sem formaður deildar loðd...

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku
Fréttir 23. febrúar 2024

Eðlilegur blóðhagur þrátt fyrir blóðtöku

Íslenskar blóðmerar áttu auðvelt með að halda uppi eðlilegum blóðhag þrátt fyrir...

Áhersla á greiðslumarkið
Fréttir 22. febrúar 2024

Áhersla á greiðslumarkið

Á deildarfundi sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands var samþykkt nær samhljóð...

Nú þarf að láta verkin tala
Fréttir 22. febrúar 2024

Nú þarf að láta verkin tala

Halldóra Hauksdóttir verður áfram formaður búgreinadeildar eggjabænda. Meðstjórn...

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar
Fréttir 22. febrúar 2024

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar

Tveir mjólkurframleiðendur uppfylltu ekki yfir 200.000 lítra af greiðslumarki í ...

Formannsslagur í vændum
Fréttir 22. febrúar 2024

Formannsslagur í vændum

Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson hafa gefið kost á sér í embætti forman...

Betri afkoma í garðyrkju
Fréttir 22. febrúar 2024

Betri afkoma í garðyrkju

Afkoma ylræktenda fer batnandi en útiræktenda versnandi.